06.04.1979
Neðri deild: 73. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3148)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það er orðinn langur aðdragandi þessa máls sem hér er til umr., og finnst sjálfsagt ýmsum að tími sé kominn til þess að á því fáist lyktir. Undir það get ég fyllilega tekið.

Það hefur verið ljóst nú um langt skeið, að nauðsyn væri á gleggri stefnumörkun i efnahagsmálum en fyrir hefur legið. Það hefur verið óumdeilt að stefnubreytingar væri þörf frá því sem fylgt var af síðustu ríkisstj., þar sem hæstv. forsrh. kom við sögu, eins og menn muna, og hefur væntanlega komið þaðan nokkru ríkari af reynslu, enda fékk flokkur hans nokkuð þungan dóm ekki síður en flokkur þáv. forsrh.

Upphafið að viðleitni til endurmats í sambandi við efnahagsmálin má rekja til kosningastefnuskráa flokkanna í síðustu alþingiskosningum og vissulega lengra til baka, et grannt er skoðað. Í stjórnarmyndunarviðræðunum s. l. sumar lögðu flokkarnir spilin á borðið og náðu 3 af 4 þingflokkum saman í núv. ríkisstj. Aðgerðirnar í sept. og des. í efnahagsmálum voru áfangar á leið, ekki bara bráðabirgðaráðstafanir, eins og sumir hafa viljað kalla þær, heldur liður í lausn vandamála sem stjórnin hafði markað stefnu um þegar við upphaf á störfum sínum.

Með því frv., sem hér er til umr. um stjórn efnahagsmála, er höfð í frammi viðleitni til að tjalda til lengri tíma en verið hefur. Það hafa verið veruleg átök um þessa stefnumörkun á öllum stigum hennar, má segja, og hefur ekki farið fram hjá neinum. Slíkt er ekki nema eðlilegt, þar sem að ríkisstj. standa flokkar sem eru ólíkir um margt, eru talsmenn ólíkra stétta og hagsmuna í þjóðfélaginu. Það hefur því gætt ýmissar ókyrrðar í tengslum við undirbúning og meðferð þessa frv. Það mætti kannske líkja því við kvikuhlaup sem þekkt eru og umtöluð i sambandi við ónafngreinda virkjun norður í landi.

Alþb. er sem fyrr aðalmálsvari launamanna í landinu og höfuðmálsvari félagslegra viðhorfa um uppbyggingu atvinnulífs og meiri samneyslu í þjóðfélaginu en aðrir flokkar vilja taka undir. Alþb. er jafnframt málsvari öflugrar þróunar innlendra atvinnuvega í stað erlendrar stóriðju, sem var hér mjög á dagskrá fyrir fáum árum og sumir hafa ekki gefið upp hugmyndir um.

Núv. ríkisstj. tók við miklum vanda í efnahags- og atvinnumálum. Hún tók við yfir 50% verðbólguþróun, efni í verulega gengislækkun, strandi helstu bjargræðisvega þjóðarinnar og stórfelldri erlendri skuldasöfnun, þar sem lán voru tekin m. a. til almennrar eyðslu. Hún tók við hallarekstri og skuldasöfnun opinberra stofnana og sjóða. Og fleira mætti þar nefna af stórum vandamálum sem við var tekið við stjórnarskiptin. Með samstarfssamningi sínum settu stjórnarflokkarnir sér m. a. það markmið að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna og fulla atvinnu í landinu, að treysta kaupmátt launa og að draga markvisst úr verðbólgunni. Að þessum markmiðum og mörgum fleiri ákvað ríkisstj. í upphafi að vinna í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, ekki síst samtök launafólks, og að ná þessum markmiðum með breyttri efnahagsstefnu og endurskipulagningu og áætlanagerð í sambandi við atvinnuvegi landsmanna.

Ágreiningur um leiðir til að ná þessum markmiðum hefur ekki farið leynt og mismunandi áherslur ríkisstjórnarflokkanna á einstökum þáttum. Alþb. hefur einkum lagt mjög ríka áherslu á að vernda kaupmátt launa, að tryggja atvinnuöryggi og stuðla að framleiðniaukningu og nýsköpun atvinnuveganna. Fyrir þessu höfum við barist jafnhliða því sem við teljum brýnt að halda uppi sókn gegn verðbólgunni. Við viljum ekki fá hér upp svipaða stöðu og nú ríkir í mörgum iðnvæddum löndum Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem menn búa 'við umtalsvert atvinnuleysi og víða vaxandi, minnkandi kaupmátt launafólks og stöðnun og samdrátt til viðbótar við allverulega og vaxandi verðbólgu, þar hafa menn fengið það sem á enskunni er kallað „stagnation“ til viðbótar við „inflation“, sem fyrir var. Áherslur samstarfsflokka Alþb. hafa hins vegar verið nokkuð aðrar, einkum Alþfl., eins og þarflaust er að fara ítarlega út i, svo oft sem það hefur verið nefnt. Mat Alþfl. hefur verið það, allt frá því í stjórnarmyndunarviðræðunum s. l. sumar, að efnahagsvandinn yrði ekki leystur til framhúðar og árangri ekki náð gegn verðbólgu nema með umtalsverðri kauplækkun. Slagorðið: „Allir verða að fórna“ — hefur hljómað hér í þingsölum. Til viðbótar því hefur verið uppi krafa um samdráttaraðgerðir og prósentubindingar í sambandi við fjárfestingu, sem öllum má vera ljóst að stefndu atvinnuöryggi í stórfellda hættu. Gegn þessu hefur Alþb. barist innan ríkisstj. og hér á Alþ. og notið stuðnings launþegasamtaka sem ríkisstj. hefur heitið samráðum við.

Þessi barátta hefur skilað verulegum árangri, þótt Alþb. og samtök launafólks hafi á vissum sviðum verið í vörn og orðið að standa að málamiðlunum í ýmsum efnum allt frá því að stjórnin var mynduð. Harðasta hríðin hefur staðið að undanförnu — allt frá áramótum — við undirbúning og gerð þessa frv. um stjórn efnahagsmála. Alþb. hefur tekist að knýja fram miklar breytingar á frv. frá fyrstu gerð þess, eins og það var kynnt 12. febr. s. l. Gerði hæstv. viðskrh. glögga grein fyrir því í ræðu sinni hér í þd. fyrir nokkrum dögum. Þar ber fremst að nefna að samdráttarákvæði með rígskorðuðum prósentubindingum hafa í reynd verið afnumin og settir hafa verið skýrir fyrirvarar með tilliti til atvinnuöryggis. Stórlega hefur verið dregið úr kaupskerðingarhugmyndum sem fólust í fyrstu gerð frv., og kaupmáttur lægri launa, þ. e. þeirra sem njóta láglaunabóta samkv. núverandi efni frv., skerðist mjög óverulega, ef nokkuð, frá því sem hann hefur orðið bestur á síðustu árum, þ. e. á 4. ársfjórðungi 1978, miðað við það sem menn gera ráð fyrir að verði á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Ákvæði laganna breyta jafnframt í engu rétti launþegasamtaka til að gerðir séu nýir kjarasamningar jafnt um grunnlaun sem verðlagsbætur á laun. Vissulega eru spár um þessi atriði ýmissi óvissu háð, einkum um þróun verðlags og viðskiptakjara, en ekki er sérstök ástæða til að ætla að sú sýn, sem menn hafa til þeirra mála, sé fjarri sanni. Verkalýðshreyfingin hverfur hins vegar nú sem fyrr að treysta á eigin styrk og mat á stöðu sinni, þótt eðlilegt sé að menn vænti nokkurs af ríkisvaldi sem heitið hefur því að standa vörð um kaupmátt og atvinnuöryggi.

Ég tel rétt að minna á það hér, að við Alþb.-menn höfum talið rétt að áfram héldist vísitöluþak á hærri laun, og vert er að rifja það upp hér, m. a. í ljósi nýgerðra samninga við flugmenn, þó að ástæða sé út af fyrir sig til að fagna lausn þeirrar deilu. Alþb. var því andvígt að vísitöluþaki yrði lyft, svo sem gert var með dómi fyrir nokkru þannig að ekki varð vörnum við komið. Eðlilegt er að hugað verði að því að setja slíkt þak á að nýju, þó það geti orðið í eitthvað breyttri mynd frá því sem var er dómur féll, og auðvitað þyrfti það að ná jafnt til allra.

Þá er þess að geta, að mörg ný eða verulega breytt ákvæði hafa fengist inn í frv. við meðferð þess, bæði áður en það kom fram og eftir að það var lagt fram hér á Alþ., og þar vil ég sérstaklega nefna gerbreytta stefnu í verðlagsmálum, sem mun tryggja hag og styrkja áhrif neytenda á verðlagsþróun í landinu. Ekki vil ég síður nefna kaflann um framfarir í atvinnuvegunum, hagræðingu í atvinnurekstri og fjármagn í því skyni. Fátt er nauðsynlegra en huga að eflingu íslenskra atvinnuvega og þá ekki síst innlends iðnaðar til þess að koma í veg fyrir, að hér skapist atvinnuleysi á næstu árum, og til þess að tryggja eðlilega þróun þjóðarbúskapar okkar. Það liggur fyrir, að á síðustu árum hefur orðið mun hægari þróun á sviði iðnaðaruppbyggingar í landinu en æskilegt hefði verið, og þessi atvinnugrein hefur búið við miklu þrengri hag og skertari aðgang að fjármagni en æskilegt hefði verið og nauðsynlegt til þess að hér yrði um umtalsverða iðnþróun að ræða.

Ég tel að ákvæði þessa frv. geti orðið til þess, eftir að í lög verða leidd, að unnt verði að hefja hér verulega nýsköpun í sambandi við atvinnuvegi landsmanna og þá ekki síst iðnaðinn. Það ætti að gefa verulega viðspyrnu í þessa átt með áætlunum sem m. a. eiga að stuðla að skipulegri byggðastefnu og eflingu atvinnustarfsemi á félagslegum grundvelli, eins og fram er tekið í frv. Þarna er einnig kveðið á um eflda rannsóknastarfsemi, sem mikil þörf er á í tengslum við atvinnuvegi landsmanna og vanrækt hefur verið á undanförnum árum, enda viðurkennt að við verjum mun lægra hlutfalli til rannsóknastarfsemi en grannþjóðir okkar. Það hefur komið okkur í koll á undanförnum árum og á eftir að gera það nema snúið verði við blaði.

Í frv. er einnig kveðið á um skynsamlega og hagkvæma ráðstöfun auðlinda landsmanna. Það er full ástæða til þess, að á því máli verði tekið og breytt verði frá þeirri stefnu sem rakt hefur í sambandi við bæði landbúnað og sjávarútveg, svo að dæmi séu tekin, og að hefja hér til vegs skipulega landnýtingu og bætt tök í skipulagsmálum almennt. Öll þessi og fleiri ótalin atriði á að hafa í huga við mótun atvinnuvegaáætlana sem unnið skal að og þegar eru raunar komnar á rekspöl á vegum einstakra ráðuneyta.

Á heildina litið getur Alþb. að mínu mati sæmilega unað við þá stefnumörkun, sem felst í þessu frv. til l. um stjórn efnahagsmála, og breytta stefnu á ýmsum sviðum, sem það kveður á um. Í samstjórn margra flokka fær enginn einn allt sitt fram. Þar reynir á málamiðlun og nokkurn sveigjanleika. Úrslitum ræður hvort um er að ræða pólitískan vilja til samstöðu og skilning og rétt mat á þeim forsendum sem samstarf þessara þriggja flokka hvílir á.

Núv. ríkisstj. á mikið verk að vinna í vörn og sókn fyrir hagsmunum alþýðu þessa lands. Við ýmsa og sumpart óvænta erfiðleika er nú að fást í íslensku efnahags- og atvinnulífi til viðbótar því þrotabúi sem við var tekið s. l. haust. Má nefna hinar miklu verðhækkanir á innfluttri orku, innfluttu eldsneyti, þær nauðsynlegu og óhjákvæmilegu takmarkanir sem grípa verður til á veiðum á ofnýttum fiskstofnum og nú síðast hafís sem lokar höfnum í tveimur landsfjórðungum. Við erfiðleikana reynir á stjórnmálaflokka og bakland þeirra.

Þessi stjórn á þrátt fyrir allt að mínu mati mikinn hljómgrunn og talsverða tiltrú meðal þjóðarinnar og af stuðningsmönnum hennar eru enn miklar vonir bundnar við störf hennar. Annar pólitískur kostur hefur ekki birst, frá því að hún var mynduð, sem líklegri væri til að fást við erfiðleikana, síst af öllu með hagsmuni hins breiða fjölda í huga. Því skulum við samþykkja þetta frv. og ganga ótrauð til þeirra mörgu verka, sem það vísar til og að öðru leyti eru mörkuð í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna, og hrinda þeim í framkvæmd í samræmi við það sem þessi ríkisstj. var mynduð til að koma í höfn. Þar er vissulega sitthvað komið á rekspöl, sem ekki hefur borið mikið á í umr. liðinna mánaða, og annað, sem orðið hefur að þoka vegna vinnu og glímu um efni frv. þessa, sem nú hefur tekist samkomulag um milli stjórnarflokkanna.