23.04.1979
Neðri deild: 76. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4104 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

153. mál, lögtak og fjárnám

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um lögtak og fjárnám, er hluti af þeim fyrirheitum ríkisstj. sem hún gaf launþegum í samningum í nóv. s. l. um ýmsar félagslegar endurbætur. Frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu á lögum um lögtak o. fl., að lögtaksréttur taki ekki aðeins til umsaminna greiðslna atvinnurekenda í sjúkra- og styrktarsjóði verkalýðsfélaga, heldur nái þessi réttur einnig til umsaminna greiðslna í orlofssjóði svo og til greiðslna iðgjalda í lífeyrissjóði. Eindregnar óskir komu fram um það frá fulltrúum launþega að þessi breyting yrði gerð. Þótti rétt að verða við því, enda má segja að hér sé í raun og veru um hluta af hinum eiginlegu launum starfsmanna að ræða. Nái frv. þetta fram að ganga þarf ekki að staðfesta fyrrnefndar greiðslur í dómstóli áður en aðfarar er beiðst í eignum atvinnurekenda, heldur er hægt að ganga beint að eignunum.

Herra forseti. Þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu í hv. Ed., og ég hygg að það skýri sig mjög vel og sú grg. sem með því fylgir, þannig að ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og allshn.