24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4125 í B-deild Alþingistíðinda. (3223)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. greinargóð svör. Fram komu í máli hans ýmsar merkar upplýsingar sem ekki hefur enn gefist tími til að leggja neitt mat á. Ég fagna einnig orðum hæstv. utanrrh. um að leggja áherslu á að byggja á atvinnustefnu fyrir Suðurnes sem dragi úr atvinnuþörfinni á Keflavíkurflugvelli fyrir verkafólk á Suðurnesjum. Það er eigi að síður staðreynd, að þessi mál hafa þróast þannig í vetur að stór hópur verkafólks og sérstaklega iðnaðarmanna hefur búið við mikið öryggisleysi í störfum sínum á Keflavíkurflugvelli. Þeir hafa margir hverjir verið að fá uppsagnarbréf f tíma og ótíma. Nánast var ekki útséð um hvort þeir héldu vinnunni fyrr en sama dag og uppsögnin átti að taka gildi. Einnig hafa borist fréttir um að nokkur hópur iðnverkafólks á Suðurnesjum, sem hafði áður unnið á Keflavíkurflugvelli, hafi misst atvinnu sína þar og þá hafi ekkert annað gefist en að hverfa frá heimabyggð og út á land í atvinnuleit. Um þetta eru til fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi.

Það kom fram á þingi fyrir jól, að bandarísk stjórnvöld vildu heita aðgerðum til að draga úr athafnaseminni á Keflavíkurflugvelli. Var þá rætt um að bandarísk stjórnvöld beittu fækkunaraðgerðum í ákveðnu hlutfalli og ættu þær ekki eingöngu að beinast að Íslendingum, heldur atvinnustarfsemi herstöðva annars staðar í heiminum. Eftir því sem fram hefur komið nú hafa bandarísk stjórnvöld fallið frá þessari stefnu sinni, og mér skilst að ekki séu í gildi núna neinar takmarkanir af hálfu bandarískra stjórnvalda á atvinnustarfsemi á Keflavíkurflugvelli eða fækka eigi starfsfólki þar á einn eða annan hátt. Það er sem sagt búið að nema úr gildi þær takmarkanir sem sérstaklega voru til umr. í þinginu fyrir jól.

Það verður að segja eins og er, að þrátt fyrir að við ætlum ekki að byggja atvinnulíf á Suðurnesjum á Keflavíkurflugvelli fer fram ákveðin starfsemi á meðan herinn er sem ekki verður komist hjá. Sú hefur löngum verið stefna ráðamanna að leggja áherslu á að halda fjölda erlendra borgaralegra starfsmanna í lágmarki, en að Íslendingar nytu að einhverju eða mestu leyti þeirra atvinnutækifæra sem í boði væru á Keflavíkurflugvelli. Hér er um mjög háa tölu útlends starfsfólks að ræða sem ekki eru hermenn, 400 talsins, er síðan skiptast niður í ýmiss konar störf. Það kom að vísu ekki fram í svari hæstv. utanrrh. hve margir hermenn ynnu daglega við ýmis venjuleg verkamannastörf eða þjónustustörf, en um það er gjarnan rætt á Suðurnesjum að það fari vaxandi að hermenn taki að sér ýmiss konar störf sem Íslendingar unnu áður eða borgaralegir starfsmenn á vegum hersins.

Að lokum vil ég leggja áherslu á þá staðreynd, sem kom fram bæði í máli mínu fyrr og máli hæstv. utanrrh., að stór hópur Íslendinga vinnur hjá tveimur deildum á vegum hersins, Navy Exchange og Public Wards, án þess að þessi tvö fyrirtæki borgi nokkur gjöld til íslenska ríkisins eins og gengur um önnur fyrirtæki sem jafnvel vinna sams konar störf í landinu. Það verður að segja eins og er, að sveitarfélög á Suðurnesjum bera hér skarðan hlut frá borði miðað við önnur sveitarfélög í landinu. T. d. má geta þess, að líklega vinna um 87 íslenskir starfsmenn hjá Navy Exchange og stærsti hluti þessa hóps býr á Suðurnesjum. Tekjutap sveitarsjóða og að ég segi ekki ríkissjóðs vegna þessa starfsfólks hlýtur að vera nokkurt. Teldi ég eðlilegra að um þessi fyrirtæki giltu sömu reglur og gilda um önnur fyrirtæki í landinu, þrátt fyrir að þau virðist skattfrjáls einhvers staðar annars staðar.

Að lokum þakka ég utanrrh. enn fróðleg svör og vona að þeirri stefnu verði haldið áfram að efla atvinnulíf á Suðurnesjum á traustum grunni og á íslenskri atvinnustefnu.