24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4126 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól fyrst og fremst til þess að taka undir þau orð sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson lét falla í lok ræðu sinnar, að atvinnulíf á Suðurnesjum verði að reisa á íslenskum forsendum miðað við íslenska atvinnustefnu. Í þessu sambandi vil ég minna á að fyrir hv. Alþ. hefur legið lengi till. til þál. um Suðurnesjaáætlun, uppbyggingu atvinnulífs á Suðurnesjum, frá hv. þm. Gils Guðmundssyni og Geir Gunnarssyni, ef ég man rétt. Ég vil koma því á framfæri hér úr þessum stól við þá hv. alþm. sem sæti eiga í atvmn. Sþ., að þeir líti til þess að sú till. fái þinglega meðferð á því þingi sem nú stendur yfir og lýkur áður en mjög langur tími líður. Ég geri ráð fyrir að um það séu engar deilur á Alþ., þrátt fyrir mjög mismunandi viðhorf til herstöðvarinnar, að atvinnulíf landsmanna sjálfra á Suðurnesjum þarf að byggja upp og efla frá því sem verið hefur. Þess vegna ætti að vera unnt að ná samstöðu um afgreiðslu á þessari mikilvægu tillögu.

Ég tel reyndar að afgreiðsla till. af þessu tagi væri um leið fyrsta sporið í þá átt að losa landsmenn við þá smán sem í því felst að bandaríski herinn og hernámsliðið situr hér. Ég held, að það sé höfuðnauðsyn að atvinnulíf landsmanna og efnahagslíf allt losni úr tengslum við hersetuna og hernámið, þarna þurfi að skilja algerlega á milli þannig að sú spilling og ósvinna af ýmsu tagi, sem tíðkast og á rætur í herstöðinni, hverfi og stigin verði skref til að uppræta slíkt með sérstökum aðgerðum í efnahags- og atvinnumálum.

Um leið og ég fagna þeirri umr., sem hér hefur farið fram af hálfu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar, minni ég á þá till. sem hér liggur fyrir um atvinnumálaáætlun á Suðurnesjum og mun vera í atvmn.

Ég vil að síðustu segja að gefnu tilefni, að fyrir nokkrum dögum barst ríkisstj. Íslands þakkarávarp frá varaforseta Bandaríkjanna fyrir hvað ríkisstj. væri greiðug að leyfa bandaríska hernum að vera hér í landinu. Svo er ekki okkur Alþb.-mönnum fyrir að þakka, að málum er þannig fyrir komið, heldur öðrum sem þessum málum stýra, m. a. innan núv. ríkisstj., og hafa meiri hl. á hv. Alþ. Hv. varaforseta Bandaríkjanna hefði ég gjarnan viljað segja það, hefði hann látið svo lítið að varpa orði á mig, að mér væri ekkert að þakka í þessum efnum og ég mundi nota hvert tækifæri, hvar sem er og hvenær sem er, til þess að reyna að stuðla að því, að herstöð Bandaríkjamanna á Íslandi hyrfi, því að hún er smánarblettur á þessari þjóð.