24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4128 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Mér varð hugsað þegar ég hlýddi á ræðu hæstv. viðskrh. áðan: Hvað hefði Magnús Kjartansson sagt um þá ræðu, ef hann hefði setið hér? Hæstv. ráðh. komst þannig að orði, að svo væri ekki Alþb. fyrir að þakka að hér væri herstöð á Keflavíkurflugvelli. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. sagði að svo væri ekki Alþb. fyrir að þakka. Ég vek athygli hv. þm. á því, að nýverið taldi Magnús Kjartansson, sem einu sinni var oddviti Alþb. í þessum sal, ástæðu til að vekja athygli á því í blaðagrein, að hinn gamli flokkur hans virtist fyrst og fremst vera farinn að leggja áherslu á að berjast fyrir auknum neysluþörfum uppmælingaaðalsins. En hvað hefði Magnús Kjartansson sagt nú þegar ráðh. í hæstv. ríkisstj. úr Alþb. kemst svo að orði, að svo sé ekki Alþb. fyrir að þakka að hér sé erlend herstöð?

Ég vildi láta þess getið í þessu sambandi, að á síðasta þingi var samþ. þáltill. um gerð atvinnuáætlunar fyrir Keflavíkurflugvallarsvæðið og nágrenni þess og að verið er að vinna að framkvæmd þeirrar áætlanagerðar hjá Framkvæmdastofnun ríkisins. Er gert ráð fyrir að drög að slíkri áætlun liggi fyrir á næsta hausti. Það hefur m. a. komið í ljós að vegna mjög mikils flutnings, sérstaklega ungs fólks, til Suðurnesja á undanförnum árum sé nú að koma á vinnumarkaðinn þar mikið af ungu fólki sem hefðbundið atvinnulíf á Suðurnesjum muni ekki geta séð fyrir vinnu. Það er því þegar orðið ljóst að á talsverðu átaki þarf að halda á Suðurnesjum til þess að taka við því fólki sem vitað er að kemur þar á vinnumarkaðinn á næstu árum.

Ég vil enn fremur geta þess í lokin mönnum til upplýsingar, að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur samþykkt að láta fara fram sérstaka athugun í sambandi við iðnaðarmál og aðstöðu iðnaðar, þar sem m. a. verði skorið úr hver sé aðstaða til iðnrekstrar 1) á höfuðborgarsvæðinu, 2) á landsbyggðinni — átt er við það sem við venjulega köllum landsbyggð hér á þingi og annars staðar — og 3) á Suðurnesjum sérstaklega. Þannig er verið að vinna að þeim málum sem hér hafa verið mjög til umr.