24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4132 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

205. mál, atvinnumál á Keflavíkurflugvelli

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég gleðst yfir því, að allir hv. alþm. virðast vera sammála um að bæta þurfi atvinnuástand á Suðurnesjum. Ég gleðst yfir þeim mikla áhuga sem kemur fram hjá hv. þm. nú á að bæta ástandið á því landssvæði. Hins vegar er það svo, að ekki er langt síðan við vorum að ræða atvinnumál Suðurnesja, þ. e. a. s. atvinnu Suðurnesjamanna, ekki á Keflavíkurflugvelli, heldur í sambandi við sjávarútveg, og þá virtist áhugi margra hv. þm. Stefáns Jónssonar og hv. þm. Kjartans Ólafssonar að stöðva fiskveiðar Suðurnesjamanna á þeim grundvelli að þær væru að eyðileggja hrygningarstofn íslenska þorsksins. Þetta fór ekkert leynt. Þeir ruku m. a. s. til og fóru að láta norðanskipin millifæra fisk suður frá svo að þau gætu selt í Englandi. Þetta kemur ekki heim og saman. Nú virðist manni á þessum sömu mönnum að það sé þjóðhættulegt starf að vinna á Keflavíkurflugvelli, en sjávarútveg, sem er stærsta atvinnugrein Suðurnesjamanna, eigi að draga saman. Keflavíkurflugvöllur er stórt vinnusvæði. Hverfi sú atvinna tekur mörg ár að byggja upp iðnað á Suðurnesjum. Fyrir 14 þúsund manns er það örugglega margra ára verk miðað við gang mála hér á landi í þeim efnum yfirleitt. Ég held því að við verðum að staldra við og reyna að kryfja málið til mergjar. Það fer ekki saman að skipuleggja samdrátt í fiskveiðum Suðurnesjamanna og ætlast svo til að þeir hætti jafnvel að vinna á vellínum vegna þess að það séu þjóðhættuleg störf.