24.04.1979
Sameinað þing: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4145 í B-deild Alþingistíðinda. (3246)

224. mál, jarðhitaleit og fjarvarmaveitur á Snæfellsnesi og í Dalasýslu

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, hversu þörfu máli hér er hreyft, og ekki ástæða til að fjölyrða um það. En það var ein hugsun sem mig langaði til að koma inn í þessa umr. Hún er sú, að ég hygg að í ljósi þeirrar þróunar, sem orðið hefur í orkumálum í veröldinni, og þeirrar þróunar, sem fyrirsjáanlega verður, að svo miklu leyti sem unnt er að sjá hana fyrir, þá held ég að ástæða sé til þess að við stöldrum svolítið við og endurmetum afstöðu okkar til þessara mála. Ég held að við eigum að leggja langtum meiri áherslu á leit að jarðvarma og nýtingu hans en við höfum gert fram til þessa. Ég held að þetta sé mjög brýnt. Þetta er í rauninni okkar olíuleit, okkar svar við þeim gífurlegu hækkunum sem orðið hafa og verða munu á olíu. Þar að auki er þetta skref í þá átt að leiðrétta það óréttlæti sem viðgengst núna í mismunandi hitunarkostnaði eftir búsetusvæðum, — óréttlæti sem ekki getur haldist eða viðgengist til lengdar.

Ég held sem sé að við þurfum að endurmeta áhersluna sem við leggjum á þessi mál og leggja verulega aukna áherslu í þessa átt. Það kostar auðvitað fjármagn. En það er vel réttlætanlegt að verja verulega auknu fjármagni til þessara hluta, því eins og á hefur verið bent og allir auðvitað vita, þá skilar það sér margfalt til baka.