24.04.1979
Sameinað þing: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

341. mál, skýrsla um meðferð dómsmála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Sú skýrsla, sem hæstv. dómsrh. hefur hér flutt Sþ. og mun vera önnur sinnar tegundar, horfir auðvitað til framfara. Hún miðar að því, að aukin séu tengsl og upplýsingastreymi milli almenningsálits og yfirstjórnar dómsmála, og slíkrar upplýsingar almenningi í landinu til handa hygg ég að séu ævinlega til góðs. Í máli hæstv. ráðh. kom fram mjög veruleg gagnrýni á yfirstjórn dómsmála undanfarin ár og virkni og vinnubrögð í þessu kerfi. Undir þá gagnrýni tek ég heils hugar. Og í framhaldi af gagnrýni hæstv. ráðh. á virkni og vinnubrögð í þessu kerfi á undanförnum árum vil ég í örfáum orðum leitast við að gera grein fyrir því, hvað hefur verið að gerast að því er varðar aðfinnslur manna við gang mála í þessum tiltekna málaflokki.

Þegar horft er til dómsmálastjórnar undanfarinna ára verða menn að skilja að sá áratugur, sem nú er að líða, sker sig úr öðrum hliðstæðum tímabilum vegna hinnar miklu óðaverðbólgu sem hér hefur ríkt. Óðaverðbólga er auðvitað afleiðing stjórnleysis, en hún er einnig aðferð til þess að færa til fjármuni, og þess vegna eignir, stöðugt frá þeim, sem spara með einum eða öðrum hætti, og til hinna sem aðstöðu hafa til að fá lán. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar þetta kerfi hefur haldist ár eftir ár hnigni öllu fjármálasiðferði í landinu mjög. Það verða óljósari hugmyndir um hvenær menn eru að eyða eigin aflafé og hvenær menn eru að eyða aflafé annarra. Af sjálfu sér leiðir að allar slíkar hugmyndir manna brenglast mjög og þegar þetta gerist fer það fljótlega að þróast að menn, sem að öðru leyti hafa hvorki til þess upplag né vilja, fara að dansa línudans á mörkum þess leyfilega að því er tekur til landslaga og eru fyrr en varir komnir upp á kant við lagakerfið í landinu. M. ö. o. er ég þeirrar skoðunar, að sú gífurlega aukning efnahagslegra brota, sem augljóslega hefur átt sér stað í landinu á þessum áratug, eigi rætur sínar að rekja til óðaverðbólgu og þeirrar brenglunar sem ævinlega og alls staðar hefur fylgt óðri verðbólgu.

Svo fór, að þegar þetta fór að verða áberandi þáttur, fyrst í efnahagskerfinu og síðan í einum meginþætti stjórnkerfisins, þ. e. í dómsmálakerfinu, þá reyndist dómsmálakerfið engan veginn vera í stakk búið til þess að mæta hinum nýju aðstæðum. Lagasetningar voru ekki til sem tóku tillit til hinna nýju aðstæðna og af leiddi að við vorum með kerfi sem varð mjög áberandi um miðjan þennan áratug — kerfi sem engan veginn og með engu móti gekk upp. Miklar umr. urðu um þetta og tiltekin mál sem tekin voru ýmist sem dæmi eða vegna þess að þau gengu sérstaklega fram af mönnum. Þetta þekkja menn mætavel. En kjarni málsins hygg ég samt vera þann, að menn verða — og þingið þá auðvitað einnig — að gera sér grein fyrir því samhengi sem í þessum hlutum er. M. ö. o. hygg ég að í grófum dráttum megi skipa afbrotum í tvo meginflokka. Annars vegar eru afbrot af þessu venjulega tagi, og ég hygg að þar hafi hvorki orðið breyting til hins betra né til hins verra ef lítið er yfir lengra tímabil og fleiri áratugi en þessa. Hins vegar eru svokölluð efnahagsleg afbrot. Þar hefur hin skelfilega þróun átt sér stað og fyrst og síðast af verðbólguástæðum og sérstöku verðbólguástandi og þeirri brenglun hugarfarsins sem slíku ástandi hefur ævinlega fylgt.

Í sjálfu sér mætti fjalla í löngu máli um hver hefðu átt að vera hin æskilegu viðbrögð kerfisins og einnig hver hafa verið viðbrögð kerfisins. Bæði hefur um það verið fjallað að mannafli sé ónógur og ekki nógsamlega menntaður, ekki nógsamlega sérhæfður, og eins hefur verið fjallað um uppbyggingu sjálfs kerfisins. Ég er ekki viss nú að þær umr. eigi við í beinu framhaldi af skýrslu hæstv. ráðh. En þriðja þættinum hefur kannske ekki nógsamlega verið gaumur gefinn, sem snýr að löggjafanum sjálfum, vegna þess að málið mun einnig vera það, að að því er tekur til efnahagslegra afbrota eru iðulega ekki lög til, vegna þess að í almennum lögum er varta eða ekki gert ráð fyrir verðbólgu. Þarna á ég raunar við mörg mál, en vil sérstaklega tiltaka eitt.

Nýlega hefur fallið dómur í máli sem kallað var Alþýðubankamál. Nú dreg ég ekki í efa eitt augnablik að þar hafi fallið réttur dómur miðað við þann lagabókstaf sem fyrir hendi er. En engu að síður er ég þeirrar skoðunar, að niðurstaða í því máli sé „móralskt“ áfall fyrir samfélagið. Ég held að niðurstaðan sé „móralskt“ áfall fyrir samfélagið vegna þess að hér eru ekki til lög sem taka sérstaklega til varðveislu fjármuna og með hverjum hætti þá eigi að draga til ábyrgðar sem treyst er fyrir fé annarra, en misfara með það. Ég endurtek að ég dreg ekki eitt augnablik í efa að þessi dómsniðurstaða er í hinu fyllsta samræmi við þann lagabókstaf sem fyrir er í landinu. Ef við einhvern er að sakast í þessum efnum, þ. e. a. s. að því er tekur til niðurstöðu þessa máls, er það við löggjafann, sem ég hygg að að þessu leyti hafi brugðist hlutverki sínu.

Annað, sem hefur verið gagnrýnt og ég held að af sjálfu leiði þegar við skoðum þessi mál í samhengi við verðbólguþróun, er að þá beinist umr. að pólitískum afskiptum af þessum efnahagsmálum. Að mínu mati var þar um óheppileg afskipti að ræða. En eitt skiptir miklu máli, og það er embætti ríkissaksóknara. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar embætti ríkissaksóknara var sett á laggirnar í upphafi síðasta áratugs hafi verið um rétt spor að ræða. Þá var verið að flytja ákæruvaldið frá pólitískum handhafa til óháðs embættismanns. En engu að síður hygg ég að af mörgum ástæðum hafi þessu embætti mistekist að því er tekur til upphaflegs ætlunarhlutverks. Ég held að því hafi mistekist einkum á þessum áratug, þegar gersamlega nýjar forsendur hafa skapast af þeim efnahagslegu ástæðum sem hér hafa verið raktar, að embætti ríkissaksóknara hafi ekki viðurkennt þessi svokölluðu efnahagslegu afbrot sem snaran þátt í fjármálakerfinu hér á landi. Það hefur að minni hyggju ekki sýnt frumkvæði. Það hefur þess vegna verið of kerfishlýðið, og að því er tekur til þessara tilteknu mála sem ég flokka sérstaklega, þ. e. a. s. hinna efnahagslegu afbrota, hefur embættið ekki sýnt það nauðsynlega frumkvæði sem til var ætlast þegar það var stofnað. Það hefur ekki verið sú vörn fyrir þann þorra þegnanna, þann mikla meiri hluta sem ekki hegðar sér á skjön við almennar leikreglur samfélagsins. Að því leyti hefur þetta embætti að minni hyggju brugðist.

Þegar öll þessi mál eru skoðuð verður ekki hjá því komist að nefna þá hættu sem er fyrir hendi þegar vaxandi og hærra hlutfall afbrota er af því efnahagslega tagi sem hér hefur verið gert að umræðuefni. Liggur þá nærri að rétt sé að orða það svo, að um eins konar stéttaskiptingu afbrotanna sé að ræða. Efnahagslegu afbrotin eru stundum kölluð hvítflibbaafbrot líka, og hvert barn veit hvað átt er við með því orðfæri, nefnilega að þeir, sem ganga á skjön við almennar leikreglur í samfélaginu, eru gjarnan úr hópum sem áður höfðu haft hærri tekjur. Sú hætta er fyrir hendi þegar þessi þróun fer að gerast, að kerfið fari að haga sér öðruvísi, vægilegar en það áður gerði. Þetta er auðvitað pyttur sem ósæmilegt er að stjórnkerfið skuli geta dottið ofan í. Ég óttast að á undanförnum árum hafi þetta einmitt verið að gerast. Út úr þessu ástandi þurfum við að brjótast af öllum mætti til að sú almenna leikregla sé í heiðri höfð að allir — í bókstaflegum skilningi allir — séu jafnir fyrir lögunum.

Hæstv. dómsmrh. flutti ekki alls fyrir löngu svör við fsp. um 11 tiltekin afbrotamál sem öll áttu það sammerkt, eins og hann raunar gat um áðan, að hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, en í annan stað að vera úr flokki efnahagslegra afbrota. Um mörg þessara mála mætti fara nokkrum orðum vegna þess, hversu skýrandi þau eru. En á því aðalatriði vil ég vekja athygli, að þegar maður er að bíða eftir því að dómur falli fær hann auðvitað eftir sem áður tiltekinn dóm, og því lengur sem það dregst að maðurinn fái dóminn, því lengur þarf hann að bíða og því lengri tími líður frá því að málið hófst og þangað til sakirnar við samfélagið eru gerðar upp. Það er þess vegna ekki síst í þágu þeirra sem brotið hafa leikreglur samfélagsins með þessum hætti að málum sé hraðað eftir fremsta megni, svo fremi vitaskuld að ekki komi niður á réttarörygginu í landinu, en um þá almennu reglu eru menn sammála. Slík mál sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir fyrir nokkrum vikum og drap á aftur áðan eru mýmörg og hanga ekki aðeins yfir hausamótum samfélagsins alls, heldur einkum og sér í lagi yfir hausamótum þeirra sem leikreglurnar hafa brotið. Það er auðvitað óskemmtilegt í alla staði að langur tími skuli liða-og sá tími samanlagður skuli lengjast svo mjög fyrir vikið uns þessi mál hafa verið upp gerð.

Í þeirri tilteknu skýrslu, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, kemur fram að enn hefur fjölgað málum sem ekki eru fullkláruð. Að því er tekur til opinberra mála má vekja athygli á því, að þrátt fyrir það alræmda frumkvæðisleysi sem ég tel vera hjá opinberum saksóknara er eftirtektarvert hvað slík mál vega þungt. Fjársvik eru 46, skjalafals 16, fjárdráttur 8, tolllagabrot 5. Þetta hygg ég að sé enn undirstrikun þess, að við verðum með sértækum aðgerðum að ganga gegn þessari þróun, að reyna að snúa við blaðinu, en jafnframt verðum við að átta okkur á því til hlítar, hvað sú þróun er náskyld verðbólguþróuninni í landinu, vegna þess að verðbólgan hagar sér nákvæmlega eins á Íslandi og alls staðar annars staðar: hún færir eignir og fjármuni stjórnlaust og miskunnarlaust til.

Að lokum, vegna þess að það er þessu máli náskylt, vil ég vekja athygli á því, að fyrir Nd. Alþ. liggur frv. þar sem gert er ráð fyrir að taka einn þátt þessara mála sérstaklega út úr, þ. e. að setja upp sérstakan dómstól sem sé undir dómsmrn. og hafi með skattalagabrot að gera. Þar er um að ræða beinar till., sem lúta að málum náskyldum þessum. Ég hygg að af reynslu slíkra dómstóla, m. a. í fíkniefnamálum, megi að því rök leiða, að vegna þess hversu sérstakt vandamál þetta er beri samfélaginu að snúast gegn því með sérstökum aðgerðum. Það er aðeins ein till. af mörgum sem að þessu lúta. En það gildir um þessi mál eins og mörg önnur, að fyrst er að átta sig á orsökunum og baksviðinu — og ég endurtek enn að orsakir og baksvið þessa liggja í verðbólguástandi þessa áratugs. Þess vegna hefur þessi aukning átt sér stað. Það var ekki tilbúningur vondra manna að þetta væri orðið alvarlegt ástand. Þetta voru staðreyndir. Orsakirnar liggja þarna. Best af öllu væri auðvitað að uppræta sjálfar orsakirnar, en það er einnig sannfæring mín að úr þessum ósköpum mundi þá draga. Hvort tveggja yrði til mikilla bóta: að lækka verðbólgu og að samfélagið sneri sér af alvöru að þeim verkefnum sem hér hafa verið gerð að umræðuefni.