25.04.1979
Neðri deild: 77. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að biðja um orðið utan dagskrár út af afgreiðslu mála hér í hv. þd. og Alþ. og það er þá fyrst og fremst út af stjfrv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979. Það frv. var óvenjulega síðbúið á þessu þingi, var ekki lagt fram fyrr en 21. febr.,1. umr. um frv. stóð alllengi, en því var vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. 19. mars og frá n. er það ekki komið þó liðið sé á annan mánuð.

Það er ekki oft sem stjórnarandstöðuþm. standa upp í Alþ. til að óska eftir að stjfrv. séu afgreidd. Það má því segja að þetta teljist til undantekninga. Ríkisstj. á hverjum tíma hlýtur að eiga að fylgja eftir afgreiðslu mála sinna, en það virðist ekki eiga sér stað hvað þetta mál snertir eða þá að erfitt e:r að fá stjórnarliða til þess að afgreiða þetta mikilvæga mál úr nefnd.

Til samanburðar við s. l. ár vil ég nefna, að 14. des. 1977 var sams konar frv. um ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978 lagt fram á Alþ. og 21. des. hafði það frv. verið samþ. sem lög frá Alþ. Það tók m. ö. o. eina viku fyrir rúmu ári að afgreiða frv. sem átti að fylgja lánsfjáráætluninni, en nú er sem liðinn þriðjungur af því ári sem lánsfjáráætlun nær til, án þess að frv. sé afgreitt frá hv. fjh.- og viðskn.

Eins og fram kom við 1. umr. málsins lýstu nokkrir þm. stjórnarflokkanna yfir mikilli óánægju sinni með tiltekin atriði í þessu frv. og voru jafnvel á móti ákveðnum atriðum. Yfirleitt er sá háttur hafður á, að þegar ríkisstj. leggur mál sín fyrir Alþ. sé búíð að ræða þau mál í stjórnarflokkum og nokkurn veginn að ákveða framgang slíkra mála. En teknir hafa verið upp nýir siðir á yfirstandandi þingi og afgreiðsla þessa máls því verið með endemum.

Mér er sagt, og það er örugglega rétt, að um þetta mál sé ágreiningur í stjórnarflokkunum. En ég held að þegar á döfinni er mál eins og fjáröflun til að mæta fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verði að jafna eða skera úr slíkum ágreiningi. Það er ekki nokkur leið að láta líða 4 mánuði af árinu án þess að frv. verði að lögum, hvað þá lengri tíma. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort hann telji að enn þurfi að bíða eftir afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Ég veit mjög vel að hann gerir sér ljóst að fjárfestingarlánasjóðir hafa sumir hverjir verið lokaðir það sem liðið er af þessu ári og hafa ekki afgreitt eina einustu lánsbeiðni. Nú er komið fram á mesta framkvæmdatíma á árinu. Það er nauðsyn fyrir bæði einstaklinga og aðra, sem um lán sækja í þessum sjóðum, að fá eitthvað að vita um hvað þeir fá þegar komið er fram á sumar. Enn fremur langar mig að spyrja að því, þótt það heyri ekki beint undir fjmrh., heldur öllu frekar hæstv. forsrh. sem oddvita ríkisstj., hvað líði ákvörðun ríkisstj. um lánakjör til fjárfestingarlánasjóðanna. Auðvitað er ekki nóg að afgreiða frv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir þetta ár ef það á svo að bíða vikum eða mánuðum saman eftir ákvörðun ríkisstj. um lánakjörin. Ég vænti þess, að í forföllum hæstv. forsrh. geti hæstv. fjmrh. eða einhver annar ráðh. ríkisstj. skýrt Alþ. frá því, hvað. líði þessari ákvörðun. Hefur hún þegar verið tekin, eða megum við búast við því að hún verði tekin alveg á næstunni?

En það eru fleiri mál, sem mér finnast vera síðbúin á þessu þingi, en þetta mikilvæga mál. Það er orðin alllöng bið eftir því að sjá vegáætlun lagða fram á hv. Alþ. Mér finnst að það sé kominn tími til, ef ekki á að leggja niður allar vegaframkvæmdir í landinu, að vegáætlun fari að sjá dagsins ljós. Ég hygg að hæstv. samgrh. verði að fara að taka til höndunum og láta alþm. sjá vegáætlunina, því að hún hlýtur auðvitað að þurfa sinn tíma hér á Alþ., bæði í hv. fjvn. og svo á fundum þm. hinna einstöku kjördæma. Það er ekki hægt að búast við því, að afgreiðsla vegáætlunar verði hrist fram úr erminni á 2–3 dögum eins og frv. sem liggja mjög beint fyrir. Hér er um viðkvæma og erfiða skiptingu fjármagns að ræða, eins og allir hv. þm. þekkja.

Ég vil svo líka víkja að þriðja málinu, og þá kem ég enn að því, að fátítt er, eins og ég sagði áðan, að stjórnarandstæðingar hvetji ríkisstj. til að afgreiða eigin mál. Mér finnst vera orðin dapurleg niðurstaða á göngu eins frv. til viðbótar því sem ég hef nefnt, en það er frv. um ráðstöfun gengishagnaðar sem er staðfesting á brbl. sem ríkisstj. gaf út nokkrum dögum eftir að hún tók við völdum. Þetta frv. var búið að vera á dagskrá hér vikum saman. 2. umr. lauk með miklum erfiðleikum. Þá var gerð nokkur breyting á frv. Þá bjóst ég við að reynt yrði að hraða 7. máli þingsins og lögfesta þetta frv. sem var lagt fram í þingbyrjun, en það hefur verið að dragnast á dagskránni núna. Þetta er annar fundurinn eftir páska, og jafnvel þó menn séu ekki ánægðir með þá breytingu sem varð á frv. hygg ég að heill og velferð þingsins sé í veði verði þetta mál ekki afgreitt. Ég tel að ekki sé vansalaust fyrir Alþ. að láta framkvæma skiptingu á milljarðafjármagni samkv. brbl., sem ráðh. lagði fram til staðfestingar á Alþ. fljótlega eftir að þing kom saman, jafnvel þó að viðkomandi ráðh. sé óánægður með breytingu sem samþ. var á brbl eftir 2. umr. málsins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en þakka hæstv. forseta fyrir að veita mér góðfúslega leyfi til að tala utan dagskrár. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. gefi upplýsingar um það mál sem ég gerði aðallega að umræðuefni.