26.04.1979
Sameinað þing: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

227. mál, tolltekjur af sjónvarpstækjum og sjónvarp á sveitabæi

Friðrik Sophusson:

Ég skal, herra forseti, ekki hafa þetta langt mál, en ég vil þó að eitt atriði komi mjög skýrt fram. Það er vegna ummæla hv. þm. Ellert B. Schram og hvernig þau ummæli voru síðar túlkuð. — Ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, hvort eitthvað sé blátt í augum hans. Ég hef ekki séð það. Hann er brúneygur, held ég. En það kemur ekki þessu máli við.

Það, sem skiptir máli, er þetta: Þingið hefur smám saman verið að færa sig frá þeirri leið að marka tekjustofna. Þetta gerðist varðandi það mál sem hér er til umr. Enginn tók eftir því, vegna þess hve tekjurnar voru á þeim tíma litlar. Síðan var ákveðið að fara út í liðvæðingu. Það var ætlast til þess að hægt væri að ná í tekjur til þess með þeim hætti að láta tolltekjur af sjónvarpsinnflutningi standa undir kostnaði. Til þess þarf engan markaðan tekjustofn, heldur að standa við orð sín. 340 millj. voru á fjárl. síðasta árs, vegna þess að sú tala var nokkuð nærri lagi þegar miðað var við innflutning sjónvarpstækja þá. Í lok síðasta árs varð ljóst að innflutningur yrði miklu, miklu meiri á því ári. Hæstv. ríkisstj. vissi þetta þegar fjárl. voru gerð. Á það var bent af hv. þm. Ellert B. Schram að inn kemur miklu hærri upphæð. Samt sem áður stendur upphæðin óbreytt í fjárl. Um þetta snýst málið. Það snýst ekkert um hvort þarna eigi að taka upp markaðan tekjustofn eða ekki. Vitandi vits eru seglin dregin saman.

Við erum sammála um það, þm. í hv. d., að úr þessu þurfi að bæta. Það er hægt að gera. Það er hægt að gera í lánsfjáráætlun. Og það er hægt að gera með yfirlýsingu um að við ætlum okkur á næsta ári að láta endana ná saman. Það er enginn sem biður um allar þessar tekjur. Það er beðið um 700–800 millj. af 1150 millj. Auðvitað þarf að standa undir miklu meiri kostnaði en sjálfri dreifingunni. Líka þarf að sýna sæmilega þjónustu. Þetta eru tekjur sem ekki vara langan tíma. Þær vara kannske tvö ár. Það er allt í lagi að færa þennan kostnað yfir á fleiri ár ef við fáum skýra yfirlýsingu um að svo verði gert.

Við höfum leitað eftir þessari stefnu. Það kemur í ljós á þessum fundi að stefnan er ekki fyrir hendi. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðh. að sakast við aðra um það en þá sjálfa og ríkisstj. Þeir standa og sitja uppi með vandann. Hins vegar höfum við lýst því yfir hér, að við skulum styðja þá til góðra verka í þessu sambandi.

Þetta vildi ég að kæmi fram, herra forseti.