06.11.1978
Neðri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Mig langar til þess að mæla nokkur orð til stuðnings þessu frv., sem ég tel ákaflega mikilvægt og þýðingarmikið að fái sem skjótasta afgreiðslu á hinu háa Alþingi.

Það er auðvitað öllum ljóst, að okkur dugir ekki að setja lög. Við þurfum jafnframt að tryggja að hægt sé að framfylgja lögunum og einstaklingar í þjóðfélaginu nái þeim rétti sem lög skipa þeim. Og það er hárrétt, eins og kom fram í máli 1. flm. og skýrt er frá í grg., að eins og málum háttar nú hér á landi fer því víðs fjarri, að einstaklingar, sem eiga skuldamál sín á milli, nái rétti sínum fyllilega. Þetta er mikil brotalöm í raun og veru, vegna þess að sú er afleiðing af þessu ástandi, að menn sjá sér iðulega hag í því að greiða ekki skuldir sínar, en láta mál vefjast og veltast lengi í dómstólakerfinu og stórgræða á því vegna verðbólgunnar. Þannig er það mikið réttlætismál, finnst mér, að koma þessu fram.

Ég ætla ekki að orðleng ja um röksemdir fyrir ágæti frv. Það hefur þegar verið gert. Ég vil þó gera eina aths. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að þeir vextir, sem þar er fjallað um, falli einungis á kröfuna á tímabilinu frá stefnubirtingu til dómsuppsögu. Nú er það svo, að það getur oft liðið langur tími frá því að dómur er upp kveðinn þar til krafan fæst greidd og á þeim tíma geta skuldarar og duglegir lögmenn þeirra iðulega komið við margvíslegum töfum, sem valda því, að málið getur dregist ekki síður á langinn eftir dómsuppsöguna heldur en fyrir. Ég kem ekki auga á neina skynsamlega ástæðu til þess að takmarka þessi vaxtaákvæði við dómsuppsöguna. Ég hefði talið miklu eðlilegra, að vextirnir féllu á frá stefnubirtingu til greiðsludags, þ.e.a.s. féllu á allan þann tíma sem það tekur að innheimta kröfuna.

Mér þætti mjög vænt um ef 1. flm. gæti upplýst okkur um hvaða ástæður liggja til þess, að ekki er gengið lengra í frv. Það kann að vera, að til þess séu einhverjar skynsamlegar ástæður. Mér dettur t.d. í hug, að mönnum þætti það e.t.v. of mikið lagt á vald kröfuhafans, hversu duglegur hann er að sækja kröfu sína eftir að dómur er upp kveðinn. Mér finnst sú röksemd þó ekki fyllilega frambærileg, vegna þess að ef skuldarinn þætti of illa meðfarinn af þeim sökum, þá á hann auðvitað alltaf kost á því að borga kröfuna þegar hann vill. Ég mundi leggja til, að þessu yrði breytt í frv. og yrði miðað við greiðsludag, ekki dómsuppsögudag.

Sú er önnur aths. sem ég vildi gera, að eftir ákvæðum frv, er í raun og veru ekki verið að tryggja mönnum neina vexti. Það er verið að leggja til að menn fái megnið af verðbólgunni bætt, en ekki neina raunverulega vexti. Ég tel að það þyrfti helst að ganga lengra í þessu máli. Ég tel að sá, sem á réttmæta kröfu, eigi að fá hana greidda að fullu og með hæfilegum vöxtum. Því vildi ég að gengið yrði nokkru lengra í þessu máli.

Ég ætla ekki að vera mjög langorður um þetta. Eins og hefur komið fram í máli mínu er ég mjög fylgjandi þessu frv. í öllum meginatriðum. Ég hef gert tvær aths., sem ég teldi vert að 1, flm. og síðar allshn., ef málið fer þangað, athuguðu betur.