03.05.1979
Neðri deild: 81. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4333 í B-deild Alþingistíðinda. (3459)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. 2. umr. um frv. það, sem hér er á dagskrá, hófst í gærdag og gerðu þá tveir þm. Sjálfstfl., hv. þm. Ólafur G. Einarsson og Lárus Jónsson, ítarlega grein fyrir þeim margháttuðu vanköntum sem eru á frv., ásamt þeim vinnubrögðum sem hafa verið viðhöfð í sambandi við lánsfjáráætlunina og meðferð hennar í Alþ. til þessa og að ýmsu leyti eru forkastanleg. Lánsfjáráætlunin kom seint fram og miklu seinna en eðlilegt er, svo að það hlýtur að teljast stórvítavert. Eðlilegt er að lánsfjáráætlunin liggi frammi a. m. k. og helst að hún sé afgreidd um leið og fjárlagaafgreiðsla fer fram. Þá getur Alþ. gert sér grein fyrir því í heild hvernig staðið verði að framkvæmdum, bæði þeim, er kostaðar eru af beinum ríkisframlögum, og eins þeim sem afla á fjármagns til með lánsfé. Ef sá háttur er hafður á, sem hér er gert nú, að lánsfjáráætlun er lögð fram mörgum mánuðum eftir afgreiðslu fjárlaga og síðan ekki afgreidd fyrr en einhvern tíma á sumardögum, eins og nú lítur út fyrir, hlýtur að fara svo að mikil hætta sé á að þær veigamiklu ákvarðanir, sem teknar eru í fjárl. annars vegar og lánsfjáráætlun hins vegar, rekist á. Svo mun einnig fara hér, eins og skýrt var frá í umr. í gærdag. Það er allt mjög óheppilegt og — eins og ég þegar hef sagt raunar vítavert. Það hefur enda komið fram skilningur á því og viðurkenning af hálfu hæstv. fjmrh., að svona vinnubrögð eru síst til eftirbreytni. Vænti ég að ef hann verður áfram í því embætti hlutist hann til um að þetta endurtaki sig ekki.

Ég mun ekki ræða þetta frv. mikið efnislega. Ég vil hins vegar segja að það hefur valdið mér nokkurri undrun hversu litlar breytingar hafa verið gerðar á frv. í meðferð hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. með tilliti til þess, hversu langan tíma n. hefur tekið sér til að fjalla um málið. Miðað við það, sem fram hafði komið við 1. umr. um þetta mál, hefði ég búist við að gerðar yrðu nokkrar breytingar á frv., m. a. í þá átt að mæta að einhverju leyti ótvíræðum þörfum hitaveitna eða annarra orkuframkvæmda sem yrðu til þess að spara innflutta orku með tilliti til þeirra tíðinda sem í vetur hafa gerst varðandi hækkun olíuverðsins. Svo er að sjá sem ekki sé hugsað fyrir því að gera neinar ráðstafanir til að tryggja með afgreiðslu þessa frv. að bætt verði úr á þeim vettvangi og reynt að vinna að því að örva nýtingu innlendra orkugjafa í stað innfluttrar orku og mæta þannig áföllum, sem þjóðarbúið óneitanlega verður fyrir af olíuverðshækkunum, með því að nýta innlenda orkugjafa í vaxandi mæli í eigin þágu. Þetta er mjög svo athyglisvert, ekki síst miðað við það sem gefið var í skyn af ýmsum talsmönnum stjórnarflokkanna við 1. umr. Enn fremur sýnist mér að mjög óverulegar breytingar hafi verið gerðar á 3. gr. frv. að því er snertir skyldu lífeyrissjóða til að leggja fram fé samkv. þessu frv., og virðist ekki útséð um hvernig það mál allt fer.

Ég gerði við 1. umr. málsins grein fyrir að ég hefði, þegar frv. var lagt fram, orðið fyrir miklum vonbrigðum með að ekki skyldi verða staðið við þær yfirlýsingar sem hæstv. iðnrh. hafði gefið varðandi fyrirætlanir ríkisstj. um framlög til Rafmagnsveitna ríkisins til að mæta fjármagnskostnaði þess fyrirtækis og til að reyna með þeim hætti að draga úr þeim mikla mismun sem er á orkuverðinu í landinu. Fyrirheit hæstv. ráðh. um þetta efni, sem m. a. komu fram í umr. á Alþ. hinn 15. des. s. l., þegar rætt var um frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku, voru á þá lund að um það hefði verið rætt í ríkisstj. að bregðast við vanda Rafmagnsveitna ríkisins með tvennum hætti: í fyrsta lagi með beinu fjárframlagi ríkisins til Rafmagnsveitnanna, sem a. m. k. næmi 600 millj. kr. og iðnrn. hefði gert till. um í tengslum við lánsfjáráætlun, og hins vegar með þeirri framlengingu og hækkun verðjöfnunargjaldsins sem þá var um rætt. Þessar yfirlýsingar var á engan hátt hægt að túlka á annan veg en sem bein fyrirheit um að í frv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir o. s. frv. í sambandi við lánsfjáráætlun yrði gert ráð fyrir beinum fjárframlögum, 600 millj. kr., til Rafmagnsveitna ríkisins til að mæta þar fjármagnskostnaði og til að unnt yrði að draga úr þeim mikla mismun sem er á verði raforku frá RARIK annars vegar og ýmsum sveitarfélagarafveitum hins vegar. Þessa sögu þarf ekki að rekja, en frv. þetta ber með sér að á fyrirheiti hæstv. ráðh. eru alger brigð. Af þessu tilefni hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 571 við 2. gr. frv., sem er þess efnis að staðfest verði yfirlýsing hæstv. iðnrh. frá 15. des. og í ýmis önnur skipti frá síðasta ári. Þessi brtt. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 2. gr. frv. bætist:

Þó skal ríkissjóður standa að fullu undir afborgunum, vöxtum og öðrum kostnaði við 600 millj. kr. lántöku vegna skuldagreiðslna RARIK.“

Í 2. gr., eins og hún hljóðar í frv., er gert ráð fyrir að lánsfé samkv. 1. gr. sé ráðstafað í samræmi við ákvæði fjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1979. Í þeirri lánsfjáráætlun kemur fram að þær 600 millj. kr., sem hér eru gerðar að umtalsefni, eiga að verða nýtt lán til Rafmagnsveitna ríkisins, en greiðast úr ríkissjóði á næstu 5 árum, í stað þess sem fyrirheit voru um að um óafturkræft framlag yrði að ræða.

Ég lít svo til, að á því hafi komið fram mikill skilningur hjá fjölmörgum hv. alþm. að ráða þyrfti bót á því misrétti sem ríkir í orkumálum í landinu á þann hátt að draga úr verðmismun á raforku til notenda. Ég tel að það hafi komið mikill skilningur á þessu efni fram í máli mjög margra hv. þm., bæði þm. úr strjálbýli og þéttbýli, og aldrei hefur sá skilningur komið greinilegar fram en þegar umr. fóru fram um frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku í þessari hv. d. Þær umr. skal ég ekki rifja upp að svo komnu máli. En með tilliti til þessa hlýt ég að vænta þess, að sú brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 571, verði samþ. Ef það er gert lít ég svo til að það, sem ég hef kallað að hér hafi komið fram skilningur margra alþm., úr röðum stjórnarþm., hæstv. ráðh. og úr röðum þm. stjórnarandstöðunnar, hafi verið meira en orðin tóm. Verði brtt. ekki samþ. verður að líta svo á, að tal hv. þm. í þessa átt hafi verið hjóm eitt. Ég vil ekki ætla það að óreyndu. Ég vil sérstaklega beina því til hæstv. ríkisstj. og hæstv. iðnrh., að brtt. mín er flutt m. a. til stuðnings þeim ótvíræðu yfirlýsingum sem hann hefur gefið á hv. Alþ. og e. t. v. má segja að hún sé flutt til að fá úr því skorið hvort meiningin sé að standa við þær yfirlýsingar eða ekki.

Ég vænti að við þessa umr. komi fram hvort hv. stjórnarliðar, hæstv. ráðh. eða talsmenn stjórnarliðsins í þessu máli, gætu hugsað sér að taka málið til endurskoðunar á milli umr. Ef einhverjar yfirlýsingar koma fram um það efni, sem ég vonast til að verði, er auðvitað sjálfsagt að draga till. til baka til 3. umr. og láta hana ekki koma til atkv. við 2. umr. Þess vegna vil ég mjög leita eftir hvort hæstv. ráðh. eða hv. talsmenn stjórnarliðsins í fjh.- og viðskn. vilja ekki láta koma fram að þeir séu tilbúnir að taka þetta sérstaka mál til athugunar á milli umr., en gerist það ekki sé ég ekki tilgang með því að draga að till. komi til atkv.

Það er svo aftur annað mál, að ef þessi till. verður ekki samþ. hlýtur hv. alþm. að vera ljóst að það, sem hér hefur verið nefnt ranglæti í verðlagningu á raforku og aðstöðu fólks í landinu til að nota raforku, mun ekki minnka. Það mun fremur vaxa frá því sem nú er, vegna þess að rekstraráætlanir Rafmagnsveitna ríkisins hafa verið byggðar á því að fyrirheit hæstv. iðnrh. væri meira en orðin tóm. Það hlýtur að hafa áhrif á verðlagningu orku frá RARIK í þá átt að óhjákvæmilegt mun verða að verðhækkanir verði meiri á orkunni, ef svo kynni að reynast, sem ég vona að verði ekki, að fyrirheit ráðh. verði ekki efnd.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um brtt. mína fleiri orð. Hún skýrir sig raunar sjálf og þarf ekki að útlista hana mörgum orðum. Ég vonast mjög eindregið eftir því, að hæstv. ráðh. og hv. þm. stjórnarliðsins gangi til liðs við þá hugsun, sem hér er fram sett, og samþykki þetta mál. Ég skal ekki fara um það fleiri orðum.

Ég skal ekki heldur tefja tímann á að ræða meira um frv. í heild. Það var gert ítarlega í gærdag af flokksbræðrum mínum. Það eru þó ærin tilefni til að ræða ýmsa þætti þess. Má segja að það sé þess háttar, að enn virðist vera verulegur ágreiningur um efni þess meðal stuðningsmanna ríkisstj., og má búast við að það verði að einhverju leyti tekið til frekari vinnslu á milli umr. en þegar er orðið. Hefur þó sú vinna, sem þegar hefur verið lögð í frv., a. m. k. tekið mikinn tíma enda þótt árangurinn sé ekki í samræmi við það.