08.05.1979
Efri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4478 í B-deild Alþingistíðinda. (3566)

147. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Þrír nm. í fjh.- og viðskn. flytja brtt., þ. e. auk mín hv. þm. Ágúst Einarsson og Karl Steinar Guðnason, og sú brtt. er um heiti hins væntanlega gjaldmiðils. Við leggjum til að heiti gjaldmiðilsins verði mörk og eyrir, í fleirtölu að sjálfsögðu merkur og aurar.

Til þess hníga mörg rök að sjálfsagt sé að breyta heitinu úr því að út í þennan kostnað er lagt og til þessara ráða er hugmyndin að grípa. Það er með öllu óverjandi að mínu mati að ætla að fara að viðhalda danskri kóngahefð í nafni á mynt lýðveldisins Íslands. Úr því á annað borð er verið að breyta um mynt hljótum við að taka upp íslenskt heiti og þjóðlegt heiti. Þar kemur ýmislegt til álita. Það er hægt að hugsa sér mörkina og aurana að sjálfsögðu. Það má líka hugsa sér skilding eða þá hreinlega pening. Allt eru þetta rammíslensk og forn orð. Kórónan er að vísu íslenskt orð, en bendir til þess tíma er við illu heilli vorum konungsríki, og mér finnst að það væri langt fyrir neðan virðingu Alþingis að ákveða að viðhalda því gamla heiti.

Þó að Seðlabankinn leggi til að því heiti verði haldið er það ekkert guðsorð sem frá þeirri stofnun kemur. Alþ. á að ráða þessu, en ekki Seðlabanki Íslands. Sumt í skýrslum og grg. þeirrar ágætu stofnunar er nú raunar með þeim hætti að gjarnan mætti skoða það málfar, t. d. nýyrði eins og „peningalegur sparnaður“, sem nú er verið að tala um í staðinn fyrir „sparifé“, eða þá þetta síðasta með „jákvæða og neikvæða raunvexti“ og allt þetta orðskrúð. Mér finnst ekkert guðsorð vera sem kemur frá Seðlabankanum.

Í 1. gr. er talað um að það eigi að lögfesta að núverandi króna okkar sé gömul króna. Því ekki bara að segja að hún sé hrum eða að drepast? Það er verið að tala um gamalkrónu og nýkrónu. Mér finnst vera með fádæmum að lögfesta þetta. Og þó að okkur t. d. þyki vænt um Norðmenn ætlum við ekki að gefa þeim réttindi við Jan Mayen. Við ætlum að halda fram okkar íslensku kröfum og heimta okkar réttindi. Á sama hátt er að þó að okkur þyki vænt um Dani ætlum við ekki að fara að minnast konungsins í hvert einasta skipti sem við handleikum myntina. Mér finnst það aldeilis óþarfi. Auðvitað förum við eins að og Finnar, við höfum norrænt heiti á myntinni, og það þarf ekkert að vitna til neinnar — hvað skal segja? — óþjóðlegrar konungshefðar í því sambandi. Mér finnst það fráleitt.

Þegar næsta kynslóð tekur upp þjóðlegt og íslenskt heiti á myntinni, sem hún áreiðanlega gerir ef við gerum það ekki, verður þessarar umr. hér í Alþ. minnst og afstöðu manna til þess að við ætluðum núna að fara að viðhalda kóngafé. Það er alveg sambærilegt við það að við byggjum nýtt þinghús: Dytti nokkrum manni í hug að fara að setja kórónu ofan á það? Það er náttúrlega fáránlegt, tekur ekki tali.

Brtt. okkar er við 1. gr. og ef hún verður samþ., sem ég þykist raunar viss um, þarf náttúrlega að fresta aðeins afgreiðslu málsins og annarra greina, en það er ekkert í veginum með það, tjá mér stjórnarsinnar. Við stjórnarandstæðingar munum greiða fyrir öllum afbrigðum og slíku. En Seðlabankinn mundi þá sjálfsagt vilja hafa hönd í bagga með umorðun annarra greina og ekki nema sjálfsagt að svo verði.

Þess má geta, að það er auðvitað til verulegra óþæginda að þurfa að vera með gamalkrónu og nýkrónu og býður heim ruglingi og ýmiss konar erfiðleikum. Þess vegna er miklu, miklu betra að taka upp annað heiti sem allir skilja. Og þegar verið er að tala um sálfræði í sambandi við peningaskipti ætti það líka frekar að vera sálfræðilegt atriði að hreinlega er verið að gefa krónuræfilinn upp á bátinn úr því að verið er að segja að hún sé orðin gömul. Þá hverfur hún sem sagt.

Þá eru það þau rökin sem ég held að sé helst ástæða til þess að víkja að, að þetta sé óþjált í munni og erfitt í beygingu. Við þurfum aðeins að athuga það. Ég held að það sé þess vegna sem hver einasti maður í fjh.- og viðskn. hefur ekki samþ. þessa breytingu. En slíkt er algerlega ástæðulaus ótti. Það er ekki óþjált í munni eins einasta manns á Íslandi að segja: Barnið var 16 merkur.

Í gömlu mörkinni voru 8 aurar. Það er þess vegna rökrétt að hafa stærri eininguna með því heiti og svo aftur aurana minni eininguna. Þetta er það eina rétta í málinu. Hvaða Íslendingi finnst skrýtið að tala um 8 merkur silfurs? Þetta veit hver einasti maður sem læs er og hefur einhvern tíma lítið í Íslendingasögur. Þetta verður allt saman þjált á örfáum dögum, ekki er nokkur minnsti vafi á því. Ég held sem sagt að við hljótum að afgreiða málið jákvætt í hv. Ed. Ég efast ekkert um að hv. Ed. muni samþykkja þetta. Það er alltaf varlegar treystandi á þá þarna í hv. Nd., en þegar málið kæmi héðan svona afgreitt hygg ég að þeir mundu ekki reyna að hreyta íslensku heiti í danskt kóngaheiti. Ég á þess vegna von á að málið fái hér þessa afgreiðslu og verði helst einróma samþ. í þessari virðulegri deild þingsins.