07.11.1978
Sameinað þing: 15. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði hér áður, að mér þykir miður að þetta skuli vera gert að umræðuefni að hæstv, forsrh. fjarstöddum. En ég vildi ekki skorast undan því að svara spurningum, vegna þess að fast var eftir því leitað.

Varðandi þessi mál öll vil ég taka það fram og er sammála því, að það eru vissar reglur sem gilda um ráðningar starfsmanna til ríkisins. En frá þessum almennu reglum eru vissar undantekningar, þ. á m. eru stöður eins og aðstoðarmenn ráðh., sem ráðh. hafa heimild til að ráða sér samkv. lögum. Ég álít að blaðafulltrúi ríkisstj. sé í sama flokki, ef svo mætti að orði komast, þar sem kveðið er á um það í reglugerð um Stjórnarráð Íslands að embætti blaðafulltrúa ríkisstj. heyri undir forsrn.

Þegar þrír ráðh, sendu beiðnir um það til fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar, að þeir óskuðu eftir því að ráða sér aðstoðarmenn, þá taldi ég það sjálfsagt og venju samkv., bæði stjórnskipulegri venju og einnig þingvenju, að verða við beiðni þeirra og heimila þeim að ráða sér aðstoðarmenn þegar í stað. Ég veit engin dæmi þess, að það hafi verið átalið af hálfu Alþ., að svo væri gert, og það eru mýmörg dæmi frá öllum ríkisstjórnum um að einstakir ráðh. hafi notfært sér þá heimild að ráða sér aðstoðarmann. Ég álít að blaðafulltrúi ríkisstj. sé í sama flokki, þannig að hér sé um að ræða undantekningar, en ég get e.t.v. fallist á að Alþ. hafi seinasta orðið í þessum efnum, ef menn vilja breyta viðtekinni hefð og þingvenju og ég vil segja stjórnskipulegri venju í þessum efnum. Ég hygg þó að hæstv, forsrh. hafi hér stuðst við gamla og gróna venju, sem menn hafa ekki séð ástæðu til að breyta út frá. Miðað við þau vinnubrögð og þá starfshætti, sem hafa verið viðhöfð í þessum efnum síðan a.m.k. var heimilað í lögum að ráða aðstoðarmenn ráðh., og þegar þess er einnig gætt, að í reglugerð um Stjórnarráð Íslands er kveðið á um þetta embætti — embætti blaðafulltrúa ríkisstj. — þá hygg ég að hæstv. forsrh. styðjist fullkomlega við þingvenjur og stjórnskipunarvenju í því efni að ganga frá þessu máli.