08.05.1979
Neðri deild: 82. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4484 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra sem skrifa undir þetta nál. og geri það án fyrirvara. En frá því að sá atburður átti sér stað hef ég fengið nýjar upplýsingar í málinu sem mér hefur ekki gefist enn tækifæri til að ræða við hæstv. utanrrh. Ég vil þó á þessu stigi málsins lýsa þeim till. sem ég hyggst gera, ekki síst ef víðtækt samkomulag næst, og þá mundi ég fá leyfi til að leitað yrði afbrigða um að ég gæti flutt þær skriflega við 3. umr. málsins.

Fyrri breytingin, sem um væri að ræða, er við 2. gr., sem fjallar um fullveldisrétt Íslands. Seinni mgr. er nú svo, með leyfi forseta:

„Framkvæmd fullveldisréttarins fer eftir íslenskum lögum og ákvæðum alþjóðalaga.“

Ég vil á þessu stigi málsins áskilja mér fyrirvara um síðari liðinn. Ég tel, að það séu áhöld um hvort jákvætt sé fyrir okkur að hafa í greininni að við ætlum okkur að fara eftir ákvæðum alþjóðalaga, þegar til þess er tekið að alþjóðalög eru ekki ætíð skýr og stundum þegar þau voru skýr í þessum atriðum, neituðum við Íslendingar jafnvel að fylgja þeim, svo að ekki sé annað gert en að rifja það upp þegar íslenska ríkisstj. neitaði á sínum tíma að fara eftir samningi við Breta og Vestur-Þjóðverja um að leggja landhelgismálið fyrir Haag-dómstólinn. Mér hefur ekki unnist tími eða gefist tækifæri til að ræða þetta mál við hæstv. utanrrh. og þess vegna flyt ég ekki till. eins og er, en áskil mér rétt til að gera það við 3. umr.

Hin brtt., sem til greina kemur að flytja, er við 7. gr. sem fjallar um afmörkun svæða milli landa.

Í 2. mgr. segir:

„Þar til annað verður ákveðið skulu efnahagslögsaga og landgrunn Íslands miðuð við 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar, að því undanskildu þó, að þar sem skemmra er en 400 sjómílur milli grunnlína Færeyja og Grænlands annars vegar og Íslands hins vegar skulu efnahagslögsaga og landgrunn Íslands afmarkast af miðlínu.“

Í þessu sambandi er áhorfsmál hvort ekki sé rétt að stytta mgr. þannig að aðeins standi þar: „Milli grunnlína Færeyja og Grænlands annars vegar og Íslands hins vegar skulu efnahagslögsaga og landgrunn Íslands afmarkast af miðlínu.“

Hugmyndin að baki till., ef úr verður að flytja hana, er sú, að með þeim hætti séum við ekki að binda okkur um of þegar fram undan eru samningar við aðrar þjóðir sem gætu leitt til annarrar niðurstöðu af sanngirnisástæðum, en ráð er fyrir því gert að slíka samninga sé hægt að gera. Er þá óþarfi að rifja upp annað dæmi en það er varðar Jan Mayen og samninga okkar við Norðmenn þar að lútandi.

Ég vil taka skýrt fram, að þetta er ekki tillögugerð á þessu stigi, en ég taldi rétt að lýsa hugmyndum mínum nú og áskil mér rétt, ef þannig vill verkast og eftir að hafa haft samráð við mína flokksmenn og hæstv. ráðh. til að flytja brtt. við 3. umr. málsins.