09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4506 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

289. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ekki verður deilt um menningargildi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er að sjálfsögðu mikil nauðsyn að starfsemi hennar aukist, ekki síst að landsbyggðin geti notið hennar í ríkari mæli en verið hefur undanfarið. En ástæðan til þess, að ég stend upp, er að mig langar til að leggja þá spurningu fyrir hæstv. ráðh., hvort hann hafi haft samráð við þær bæjarstjórnir sem eiga að greiða 25% af rekstrarkostnaði. Mér skilst að breytingin sé sú, að áður greiddi eingöngu Reykjavík 21.4% af kostnaði við sinfóníuhljómsveit, en nú eigi nágrannasveitarfélögin einnig að greiða hlut. Mig langar til að vita hvort haft hafi verið samráð við þau um framlag þeirra. Þetta kom sérstaklega upp í huga minn vegna þess að það er á fleiri sviðum verið að fara inn á sömu braut og mikil nauðsyn að samráð sé haft ef nýjum aðilum er falin greiðsluskylda, á hvaða sviði sem það er.