09.05.1979
Efri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4521 í B-deild Alþingistíðinda. (3635)

247. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. iðnn. er sammála um að mæla með samþykkt þessa frv. En ég ásamt 5. þm. Reykv. Ragnhildi Helgadóttur hef borið fram á þskj. 607 brtt. um að sú breyt. verði gerð á 1. tölul. 9. gr. frv., að í staðinn fyrir 11/2% komi 1%, þ. e. a. s. eigendur raforkuvera og rafveitna skuli árlega greiða til Rafmagnseftirlits ríkisins gjald allt að 1% af heildartekjum þeirra af raforkusölu. Brtt. felur í sér að þetta gjald verði ekki hækkað frá því sem er í gildandi lögum.

Ég kom inn á þetta atriði við 1. umr. málsins og vakti þá athygli á að ekkert lægi fyrir um að ástæða væri til að efna til meiri gjaldheimtu í þessu skyni en verið hefur og ef það væri ástæða til þess væri eðlilegt að til framkvæmda kæmi annar tekjustofn, sem er í gildandi lögum og er nú í 9. gr. frv., þ. e. í 3. tölul. 9. gr. Þar er gert ráð fyrir að þeir, sem flytja inn til landsins eftirlitsskyld rafföng og hluta þeirra eða framleiða þau innanlands, greiði til eftirlitsins gjald sem miðast við innkaupsverð þeirra eða söluverð þeirra frá innlendum framleiðanda. Má gjald þetta nema allt að 3/4% af verðinu. Ég vakti athygli við 1. umr. á því, að þetta ákvæði hefði ekki verið notað. Hæstv. iðnrh. lýsti þá að gefnu tilefni yfir, að þetta ákvæði mundi verða notað framvegis. Með tilliti til þessa er greinilegt að minni ástæða er til að vera að auka skattheimtuna samkvæmt 1. tölul. þessarar greinar.

Þær tekjur, sem 1% gjaldið gaf, námu árið 1977 80.3 millj. kr., árið 1978 110.5 millj. kr. og í áætlunum fyrir árið 1979 er gert ráð fyrir að þetta 1% gjald nemi 162 millj. kr.

Nú segir hv. síðasti ræðumaður, 3. landsk. þm., að iðnn. hafi borist nýjar upplýsingar um þetta efni í dag. Mér er ekki kunnugt um hvaða upplýsingar það eru. Ég hygg að ég fari þó nokkuð nærri um hvers eðlis þær eru. En hann hefur óskað eftir að ekki yrði gengið til atkv. um þessa till. við 2. umr. Það merkir að sjálfsögðu að málið verði athugað betur. Ég lýsi því yfir með mestu ánægju að till. verður dregin til baka til 3. umr.