09.05.1979
Neðri deild: 83. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4533 í B-deild Alþingistíðinda. (3650)

Umræður utan dagskrár

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Núv. hæstv. ríkisstj. byggði fyrst og fremst á samráði við launþegasamtökin í landinu. Þetta er tekið fram á bls. 1 í stjórnarsáttmála og átti að vera undirstaða að efnahagslegum velfarnaði á næstu missirum þar á eftir. Fyrir tveimur dögum var hins vegar upplýst að fyrir úrslit kosningarþátttakenda í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja þar sem þessi næststærstu heildarsamtök launþega í landinu felldu með 70 hundraðshlutum það samkomulag sem ríkisstj. í landinu þó hafði mælt með að samþykkt yrði. Það þarf auðvitað ekki að fara í neinar grafgötur um að þetta er verulegt áfall fyrir núv. ríkisstj. og það sem meira er: þetta er gjaldþrot þeirrar stefnu í launamálum sem fylgt hefur verið.

Það segir sig alveg sjálft og ég segi fyrir mig, að ég hef samúð með þeim sem greiddu atkv. gegn þessum samningum, af þeirri einföldu ástæðu að frá því að till. voru fram settar og þangað til atkvgr. í samtökunum fór fram breyttust grundvallarforsendur. Þær forsendur, sem breyttust, voru að sérhópar, sumir hverjir hinir óbilgjörnustu í landinu, eins og flugmenn, höfðu fengið verulega launahækkun. Við það voru brostnar þær forsendur sem upphaflega var gengið út frá. En auðvitað hafa fleiri forsendur brostið. Forsendurnar fyrir hinni almennu launastefnu, sem núv. ríkisstj. hefur rekið, eru með þessu brostnar og augljóst er að ekki er hægt að spila af fingrum fram með sama hætti og reynt hefur verið síðan í byrjun sept. þegar hæstv. núv. ríkisstj. var mynduð.

Nú er því auðvitað ekki að leyna, að teikn um hið pólitíska gjaldþrot mátti sjá þegar í upphafi núv. ríkisstj. Þegar einasta voru gerðir samningar í launamálum án þess að snert væri við öðrum veigamiklum þáttum efnahagsmála — þá er fyrst og fremst átt við ríkisfjármálin — mátti sjá að ekki gat farið nema á þann veg sem nú blasir við okkur, að farið hefur. Og minna má á það, sem eru einfaldar sögulegar staðreyndir, að það „módel“ af ríkisstj., sem við búum nú við, hefur verið reynt tvisvar áður í Íslandssögunni. Það var reynt 1956–1958 og endaði með efnahagslegu gjaldþroti og stórsigri Sjálfstfl. í kosningum. Það var reynt aftur 1971–1974. Þá var guðfaðir núv. ríkisstj. innan stjórnarinnar. Það endaði með efnahagslegu skipbroti, óðri verðbólgu, uppreisn á vinnumarkaði og stórsigri Sjálfstfl. í almennum kosningum. Þróunin núna hefur verið hraðari, gerjunin hefur verið fljótari, áverkarnir eru að koma fyrr í ljós en 1956–1958 og 1971–1974. Við stöndum uppi eftir 7–8 mánuði frá því að stjórnin var mynduð og efnahagsstefnan er gjaldþrota. Atkvgr. í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja Er ekki eingöngu um 3%, hún er um traust eða vantraust á ríkisstj. sem situr í landinu, og efnahagsstefnu sem hún er að reka. 70% segja nei við þessu.

Ég hef sagt það áður úr þessum stól, að ég lít ekki svo á að það eigi að vera höfuðmark og mið svokallaðra vinstri stjórna í landinu, sem reknar eru fyrir orð og með vilja hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, hvort sem hann situr utan eða innan stjórnar, að efla Sjálfstfl. Reynslan tvívegis sýnir að Sjálfstfl. hefur fitnað eins og púkinn á fjósbitanum við slíkar stjórnir. Ég hygg að menn þurfi ekki að hafa mikil tengsl út í samfélagið og ekki að snerta oft á púlsi almenningsálits til að finna að sömu hlutir og tvisvar áður gerast ef áfram verður spilað af fingrum fram eins og hingað til hefur verið gert. Þessi stefna er gjaldþrota. Fólkið er að hafna henni í einum samtökum af öðrum. Svona getur ekki gengið tengur.

Og í dag eru birtar fréttir sem hv. 1. þm. Austurl. vill gera lítið úr. Það er spá hagstofu Vinnuveitendasambands Íslands. Ég hef ekki neina ástæðu til að ætla annað en sú spá sé unnin af hinni fyllstu samviskusemi. Þessi spá er að því leyti söguleg að þar er í fyrsta skipti í íslenskri hagsögu á lýðveldistímanum, a. m. k. í alvarlegri hagspá, talað um möguleikana á verðbólgu sem fari yfir 100% á ári. Og menn skulu velta fyrir sér hvað þetta þýðir í ringulreið, í raunverulegri kjararýrnun og í þeirri siðferðislegu upplausn sem alls staðar og ævinlega hefur fylgt ástandi sem þessu. Sérhóparnir í þjóðfélaginu, hvað sem líður hinum stóru heildarsamtökum almennra launþega, eru komnir á fulla ferð: flugvirkjar, mjólkurfræðingar og aðrir, og við slíkt verður ekki ráðið með því spili af fingrum fram sem. núv. ríkisstj. hefur leikið.

Ég sagði að teikn um þetta hefði mátt sjá þegar í septembermánuði s. l. og hið fyrsta m. a. s. daginn sem hæstv. núv. ríkisstj. var mynduð. Lúðvík Jósepsson, hv. 1. þm. Austurl., gerði því skóna í Þjóðviljanum í dag að allt sé farið fjandans til, rétt sé það, en þar sé um að kenna krötum og Framsókn. Auðvitað er það sannleikur málsins, að við tókunn við milli 40 og 50% verðbólgu, en gerðum samt ekki hina minnstu tilraun til kerfisbreytingar. Það var siglt áfram í óbreyttu ástandi hinna almennu efnahagsmála, ríkisfjármála, peningamála, fjárfestingarmála, vaxtamála. Alþb., og þá fyrst og fremst helsti talsmaður þess, hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hefur ekki verið til umr. um hinar minnstu breytingar í þeim efnum. Það þarf ekki að rekja. En fyrir þá hv. þm., sem ekki lásu grein hv. þm. í Þjóðviljanum á sunnudaginn var, má geta þess að hann er ekki aðeins að lýsa skoðunum sjálfs sín, heldur raunverulega að lýsa setningu fyrir setningu hvað mistekist hefur hjá hæstv. núv. ríkisstj. Launþegar geta því aðeins haft trú á samræmdri launastefnu, svo sem hún er rekin af stjórnvöldum, að þeir geti einnig haft trú á að verið sé að vinna á öðrum sviðum að því að kveða verðbólguna niður. Á það hefur gersamlega skort hjá núv. hæstv. ríkisstj. Við vitum að svo hefur verið. Þeim, sem ekki eru alveg glöggir á þeirri ástæðu, ráðlegg ég enn og aftur að lesa grein hv. 1. þm. Austurl. í Þjóðviljanum frá því á sunnudaginn var.

Þetta er önnur hliðin: Alþb. hefur ekki verið til umr. um breytingar. Það vil fjárfesta sem mest, hafa sem lægsta vexti, prenta sem mest af peningum, safna sem mestum skuldum erlendis. Það er sú stefna sem er orðin gjaldþrota — er það raunar fyrir löngu — og það er við þessa stefnu sem launþegar eru smátt og smátt að hafna allri samvinnu og gerðu síðast með niðurstöðu atkvgr. í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Önnur hlið málsins er auðvitað sú, að þegar þessi ríkisstj. fór af stað varð hún einhvern veginn að reyna að krafsa sig fyrir Alþb. út úr slagorðaglamrinu um samningana í gildi. Það var óraunhæft slagorð frá upphafi, enda stóð aldrei til að standa við það af hálfu þessara manna. Þegar nú er sagt að „samningarnir í gildi“ hafi aðeins þýtt samningana í gildi fyrir þá lægst launuðu, það hafi aldrei staðið til að mæla fulla vísitölu upp úr, er það rangt túlkað. Þetta var aldrei sagt fyrir kosningar. „Samningarnir í gildi“ þýðir bókstaflega að hafi verið samið um fulla vísitölu skuli hún gilda. Annað er útúrsnúningur. Annað er ný skoðun. Það er ekki von að slíkt sé tekið trúverðuglega, enda gerist það nú að hæstv. viðskrh. Svavar Gestsson lýsir í Þjóðviljanum í dag nýrri hugmynd sinni um hvernig að eigi að standa: U. þ. b. 3% grunnlaun skuli greidd á öll laun, vísitalan skuli greidd upp að einhverju marki og síðan skuli klippt. Ég sé ekki betur en hæstv. viðskrh. sé að leggja til þær hugmyndir sem hv. þm. Geir Hallgrímsson, fyrrum forsrh., lagði til í febrúar- og maí-ráðstöfunum 1978. Þykir mér hv. þm. Geir Hallgrímsson hafa eignast óvæntan bandamann með þessu.

Þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson setti lög um efnahagsmál í febr. og maí 1978 sat hæstv. viðskrh. á ritstjórnarskrifstofu Þjóðviljans og skoraði á menn að leggja niður vinnu og brjóta lög. Ég var einn af þeim sem neituðu að leggja niður vinnu og brjóta lög. En ef hæstv. viðskrh. ætlar nú að fara að taka upp því sem næst óbreytta efnahagsstefnu hv. þm. Geirs Hallgrímssonar frá því í febr. og maí 1978 sýnist mér að komið sé að öðrum að skora á aðra að leggja niður vinnu í þessu landi.

Það er alveg augljóst að vísitöluþak eins og það, sem hæstv. viðskrh. nú er að tala um, er einnig gjaldþrota aðferð. Það er gjaldþrota aðferð vegna þess að hálaunahópar í einkageiranum fyrst og fremst hlýða slíku ekki. Greidd er full vísitala á laun í öllum þorra einkafyrirtækja a. m. k., hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Slíkum lögum yrði ekki hlýtt í reynd. Það skapar tortryggni, og sú aðferð, sem hæstv. viðskrh. nú er í grófum dráttum að leggja til og Geir Hallgrímsson hafði lagt til og raunar gert að lögum á undan honum, er gjaldþrota aðferð. Það er sú aðferð að krukka hér og þar í launakerfið. Hún hefur ekki gefið góða raun og mun enn ekki gefa góða raun. Ég er almennt þeirrar skoðunar, að nú eigi að grípa til þess sem segir í síðustu setningu í málefnasamningi núv. hæstv. ríkisstj. Þar segir að málefnasamning þennan skuli endurskoða á árinu 1979. Það er komið árið 1979. Það er jafnframt ljóst að þar sem forsendur inngangsins eru ekki lengur fyrir hendi, samráðið við launþegahreyfinguna er ekki mögulegt með þeim hætti sem þar var lagt til, verður núv. ríkisstj. að gera annað af tvennu: Hún verður að endurskoða frá grunni þær aðferðir og þau vinnubrögð sem hún hyggst fara eftir, en ef það er ekki mögulegt eru forsendur hennar sem starfhæfrar ríkisstj. brostnar og hún verður að segja af sér. Farmenn eru í verkfalli í landinu. Við þekkjum launakröfur þeirra. Engin ástæða er til að draga í efa þá spádóma Vinnuveitendasambands Íslands að fái þeir 30% í launahækkun og hafi það áhrif á önnur þrep launakerfisins stöndum við frammi fyrir yfir 100% verðbólgu á ársgrundvelli. Það að spila af fingrum fram er liðin tíð. Það dugir ekki. En þetta ákvæði eigum við eftir að endurskoða, allan grundvöllinn sem hefur brugðist.

Í kosningunum sumarið 1978 hélt fólkið í landinu að það væri að kjósa sig frá því kerfi sem verið hafði í stjórnkerfi og annars staðar. Fólkið gerði meiri breytingar á stjórnkerfi, á löggjafa, en nokkru sinni fyrr. En svo spilaðist úr að þegar farið var að semja um ríkisstj. höfðu þar forustu tveir fulltrúar gamla kerfisins og kannske þeir táknrænustu. Annar þeirra er Ólafur Jóhannesson, hæstv. núv. forsrh., og hinn er hv. þm. Lúðvík Jósepsson. Því miður liðum við fyrir að samningamenn okkar stóðust þessum tveimur mönnum ekki snúning, og fyrir það er samfélagið allt að líða. Þessum skoðunum hef ég lýst áður og er ekki að segja neitt sem ég hef ekki lýst. En vegna þess að svo fór varð hæstv. núv. ríkisstj. ekki upphaf að nýjum umbótatíma, heldur er hún sennilega síðasta stjórn gömlu haftakarlanna sem situr áður en nýir tímar taka við. Launastefnan er sprungin. 70% opinberra starfsmanna lýsa yfir vanþóknun. Þegar svo er komið held ég að ástæðulaust sé að vera að kenna hv. þm. Geir Hallgrímssyni, Sjálfstfl. eða einhverjum öðrum um. Okkur hefur sjálfum mistekist og af slíku eigum við að draga lærdóma.