10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4571 í B-deild Alþingistíðinda. (3703)

12. mál, efling þjónustu- og úrvinnsluiðnaðar í sveitum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil aðeins gera örlitla athugasemd við upphaf ræðu hv. síðasta ræðumanns, Friðriks Sophussonar. Mér fannst hann taka nokkuð djúpt í árinni um störf í atvmn. Ég þekki þau að sjálfsögðu ekki, því ég á ekki sæti í þeirri n., en mér fannst það vera nokkuð ómaklegt að gera þetta að umtalsefni að starfandi formanni fjarverandi.

Eins og menn vita hefur hv. þm. Björn Jónsson ekki getað sinnt þingstörfum sökum sjúkleika á þessum vetri, og þar af leiðandi hefur varaformaðurinn verið starfandi formaður og engan varamann haft. Ég hef hins vegar verið í atvmn., var formaður hennar á síðasta kjörtímabili, og mér eru nokkuð kunn þau vinnubrögð sem hentar að hafa þar. Ég vil ekki leggja dóm á hvort fundir hafa verið nógu margir. Ég sé að það eru að koma nál. frá þessari n. og þess vegna finnst mér óþörf óþolinmæði hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni. Ef eitthvað er óafgreitt hjá n. er enn tækifæri til þess að afgreiða það. Mér skilst að n. hafi sent mál til umsagnar og hafi væntanlega þau gögn sem hún þarf til þess að geta tekið afstöðu til mála.

Svo háttar með þessar n., allshn. Sþ. og atvmn., að eðlis starfanna vegna geta þær ekki afgreitt málin í stórum stíl og ástæðulaust að gera það fyrr en rétt fyrir þinglok. Það hefur að vísu verið mjög ójafnt skipt málum á milli þessara n. Það eru mjög mörg mál sem vísað er til allshn., en aftur fá til atvmn. Af því skapast nokkuð óhagræði og hentugra væri ef þetta væri jafnara. En ég sem sagt vil mótmæla þeim vinnubrögðum að fara hér hörðum orðum um vinnubrögð í n. og framgöngu formanns að honum fjarstöddum.