10.05.1979
Sameinað þing: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4590 í B-deild Alþingistíðinda. (3718)

253. mál, rannsókna- og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Mig langar rétt fyrir hönd flm. að þakka þær undirtektir, sem þetta mál hefur hlotið hér á hv. Alþ., eins og kom fram í máli þriggja hæstv. ráðh.: hæstv. menntmrh., sem jafnframt er formaður Rannsóknaráðs, hæstv. iðnrh., sem er ráðh. þeirrar atvinnugreinar sem er kannske helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs, og loks hæstv. landbrh., sem um árabil var framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs og málinu því gjörkunnugur. Fyrir undirtektir þeirra vil ég þakka og veit að stuðningur þeirra tryggir að þetta mál komist í höfn fyrir þinglausnir.