10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4640 í B-deild Alþingistíðinda. (3792)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil vegna lánsfjáráætlunar og þeirra brtt., sem hér liggja fyrir og snerta orkumál, segja fáein orð.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við till. þá, sem varðar hitaveitu eða fjarvarmaveitu Vestmannaeyja, frá hv. þm. Eggert Haukdal, þá er það rétt, sem fram kom í máli hans áðan, að fyrir þá framkvæmd er þörf á meira fjármagni ef vel ætti að vera, eins og raunar ýmsar fleiri hitaveitur í landinu.

Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. áðan, að ríkisstj. hefur nú til athugunar hvort rétt kunni að vera að veita fjármagni til tiltekinna orkuframkvæmda á þessu ári til viðbótar því, sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun, og þá sérstaklega með tilliti til olíusparnaðar. Um þetta mál hefur nokkuð verið rætt í þinginu og fyrir liggur þáltill. frá mörgum þm. stjórnarandstöðunnar um þetta efni þar sem eindregið er hvatt til þess að í meira verði ráðist. Ég sagði hug minn til þessa máls í tengslum við umr. um þá þáltill., en þá hafði ég kynnt fyrir ríkisstj. till. iðnrh. um allverulegar fjárveitingar til viðbótar í þessu skyni. Þörfin að mati iðnrn. að þessu leyti er um 2.5 milljarðar kr. ef vel ætti að vera — fjárveitingar til framkvæmda þar sem hægt er að spara mjög verulegar upphæðir með því að hraða framkvæmdum í orkumálum, bæði varðandi lagningu tiltekinna raflína og ekki síður varðandi hitaveituframkvæmdir, alls 9 hitaveitur sem þar eru tilteknar að meira fjármagn þyrfti að koma til, og fleiri atriði, eins og m. a. frekari borun eða jarðhitaleit vegna Kröfluvirkjunar, sem talið er að geti komið í veg fyrir olíunotkun í raforkukerfinu veturinn 1980–1981, en þá má gera ráð fyrir að vöntun verði á orku í landskerfinu samkv. fyrirliggjandi spám, svo að fjárveiting í frekari jarðhitaleit þarna gæti sparað umtalsverðar upphæðir á þeim vetri — veturinn áður en fyrirhugað er að Hrauneyjafossvirkjun, fyrsti áfangi, komi í gagnið. Einnig er þarna um að ræða þörf á fjármagni til jarðhitaleitar og undirbúnings að orkuframkvæmdum.

Ég vildi að þetta kæmi hér fram til þess að mönnum væri það kunnugt. Hefur raunar hæstv. fjmrh. þegar getið um það og málið hefur hlotið velviljaðar undirtektir í ríkisstj. En við teljum nauðsynlegt að fara betur ofan í þetta og taka á þessu máli innan tíðar, og ég vænti að undirtektir við það verði jákvæðar. Með tilliti til þessa tel ég að ekki sé réttmætt nú við afgreiðslu lánsfjáráætlunar að taka hitaveitu eða fjarvarmaveitu Vestmannaeyja sérstaklega út úr, en samkv. hugmyndum iðnrn. er talið að þar væri þörf á a. m. k. 220 millj. kr. til viðbótar sem hægt væri að nota á skynsamlegan hátt á þessu ári til þess að spara mjög verulega olíu.

Varðandi till. frá hv. þm. Ingvari Gíslasyni og Lárusi Jónssyni um frekari borun við Kröflu vísa ég til þess sem ég hef hér sagt. Ég hafði vænst þess, að menn gætu sameinast um það hér í sambandi við afgreiðslu lánsfjáráætlunar að þarna yrði eitthvað aðhafst, þó ekki væri nema ákvörðun um að bora þarna eina holu á nýju jarðhitasvæði til frekari leitar, þar sem jákvæður árangur hefur náðst með borun einnar holu sem mest munar um í þeirri raforkuframleiðslu sem nú fer fram í Kröfluvirkjun. En um þetta virðist ekki vera samstaða að svo komnu. Ég treysti því hins vegar, að sú heimild, sem hæstv. fjmrh. vék að að til greina komi að veita til borunar þarna síðar á árinu, verði veitt. Borinn Jötunn er nú kominn norður í Mývatnssveit þar sem boruð verður vegna Kísiliðjunnar í Bjarnarflagi ein hola til öryggis. Engin verkefni frekar eru fyrir þetta stóra tæki fyrirhuguð innanlands á þessu ári, svo það virðist mjög skynsamlegt að leita frekar jarðvarma á svæði, sem þegar hefur gefið góða raun, í suðurhlíðum Kröflufjalls. Ég vænti að við nánari athugun geti ríkisstj. sameinast um að veita heimild til þeirrar jarðhitaleitar.

Ég vil svo að endingu víkja sérstaklega að till. frá hv. þm. Pálma Jónssyni varðandi að ríkissjóður taki á sig kostnað vegna þess lánsfjár til Rafmagnsveitna ríkisins sem lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir, að upphæð 600 millj. kr. Varðandi þetta vil ég rifja upp, að eitt af stefnumálum ríkisstj. er að tryggja landsmönnum næga og örugga raforku á sambærilegu verði. Rafmagnsveitur ríkisins glíma við erfiðasta verkefnið á sviði raforkumála hérlendis. Má raunar segja að Orkubú Vestfjarða fáist við álíka erfitt verkefni, þótt ekki sé jafnstórt í sniðum. S. l. haust greiddu viðskiptavinir Rafmagnsveitnanna nær 90% hærra verð fyrir raforku en þorri landsmanna. Iðnrn. hefur leitast við að bæta hag fyrirtækisins með tvennum hætti, þ. e. með hækkun verðjöfnunargjalds og beinu framlagi eða ígildi þess af hálfu eigenda, ríkisins. Við umr. um hækkun verðjöfnunargjaldsins í hv. þingdeild í desember s. l. greindi ég frá væntanlegu framlagi í formi láns að upphæð 600 millj. kr. er ríkissjóður mundi sjá um greiðslur af. Sú yfirlýsing, gefin í góðri trú, tel ég að hafi tryggt hækkun verðjöfnunargjaldsins meiri hl. hér í hv. þd. og sá meiri hl. fékkst raunar með stuðningi tveggja þm. stjórnarandstöðunnar. Með tilliti til þessa og að hér er ekki um hækkun lánsfjáráætlunar að ræða svo og þeirrar staðreyndar, að enn greiða viðskiptavinir RARIKs rösklega 55% hærra verð fyrir raforku en aðrir landsmenn, mun ég styðja fram komna till. um þetta efni frá hv. þm. Pálma Jónssyni og vænti að hún hljóti meirihlutafylgi í þinginu.