11.05.1979
Efri deild: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4663 í B-deild Alþingistíðinda. (3836)

177. mál, húsaleigusamningar

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég held að hæstv. félmrh. þurfi ekkert að kvarta undan afgreiðslu og meðferð þessa máls í félmn. Ég verð að segja það í fullri hreinskilni, að ég kunni ekki við að ráðh. væri sérstaklega í ræðu sinni að kvarta yfir seinagangi n. á afgreiðslu á þessu máli. Hæstv. félmrh. hefur í vetur ekki þurft að kvarta undan vinnubrögðum félmn. þessarar hæstv. deildar. Hins vegar taldi n. rétt að leita umsagnar þeirra aðila sem eru á þessu sviði. Þeim var gefinn tími til þess. Þeir skiluðu ítarlegum umsögnum með brtt., og n. taldi rétt að gefa sér tíma til að skoða þær brtt., ræða þær og leita síðan álits sérfróðra manna, m. a. þeirra sem unnu að gerð þessa frv., á þeim brtt. Þar að auki var tekið að mínum dómi fyllilega sanngjarnt tillit til bæði sjónarmiða ríkisstjórnarstuðningsmanna og stjórnarandstöðuþm. í þessari n. Ég sé því ekki að sé á neinn hátt réttlætanlegt að kvarta undan seinagangi hv. n. við afgreiðslu á frv.

Hvað snertir frv. um þroskahefta gegndi öðru máli, vegna þess að n. bárust strax fyrsta daginn stuðningsyfirlýsingar frá helstu samtökum á því sviði sem sú löggjöf á að taka til, þar sem lýst var eindregnum stuðningi við frv. Það var aðeins einn aðili sem hafði samband við n. og óskaði eftir breytingum sem n. tók tillit til og fannst vera sanngjarnar.

Hvað snertir brtt. um húsaleigunefndir er ég þeirrar skoðunar, að óeðlilegt sé að úttektarmenn eigi að gegna einhverju sérstöku sáttahlutverki og eigi að vera eini aðilinn fyrir utan dómstóla sem ágreiningsefnum má skjóta til til þess að fá álit. Og ég er þeirrar skoðunar, að ef slíkar nefndir væru til, sérstaklega í fjölmennari byggðarlögunum, þá á ég einkum og sér í lagi við stærstu kaupstaði þessa lands, hefðu þær nefndir fyllilega eðlilegt verkefni eins og aðrar nefndir á sviði félagsmála í fjölmennustu kaupstöðum og bæjum þessa lands. Þar að auki er það álit mitt, að slík nefnd væri betur fær um að leggja sig sérstaklega fram um að reyna að lægja deilur og gefa aðilum upplýsingar um rétt sinn en úttektarmenn sem eiga þar að auki ýmsum öðrum skyldum að gegna við hugsanlega deiluaðila samkv. ákvæðum þessa frv. Það gæti verið erfitt ef það tvennt færi saman, eins og mér fannst vera meginatriðið í rökstuðningi hæstv. ráðh. og reyndar Þorv. Garðars Kristjánssonar.

Hins vegar má segja að þetta er engin höfuðágreiningur. Þetta er spurning um mat á því, hvað mundi auðvelda framgang og bæta skipan á þessu sviði. Ég vil samt sem áður halda brtt. minni til streitu, þrátt fyrir þann rökstuðning sem hefur komið fram.