07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil í höfuðatriðum taka undir þau efnisatriði þessarar till, sem skipta mestu máli og eru aðalatriði hennar. Þessi till. fer í höfuðatriðum mjög í sömu átt og þáltill. sem flutt hefur verið á þrem þingum áður, sú till. er að sumu leyti víðtækari, en um aðra hluti gengur þessi till. lengra.

Till. um hámarkslaun hefur hlotið mikla og góða umræðu hér á þinginu undanfarið og verið mjög um það deilt, hverjar væru ástæður til þess mikla launamunar sem gildir á landi hér. Við, sem höfum staðið að þessari till., höfum endurflutt hana nú. Þar er ekki aðeins talað um hámarkslaun, heldur er einnig vikið að því, að menn gegni ekki nema einu fastlaunuðu starfi, og síðan að hinar duldu launagreiðslur í formi fríðinda umfram hámarkslaun eigi ekki heldur rétt á sér og einnig að vissar skattalagabreytingar verði gerðar þannig, að því, sem þar er tekið umfram, verði varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta. Að þessu leyti til er till. okkar nokkurra þm. Alþb., sem hefur verið flutt nú á undanförnum þrem þingum, víðtækari og hún gengur út frá nokkuð öðrum forsendum en sú till. sem hér er til umr., en ég get tekið undir meginatriðin, sem þessi till. lýtur að.

Ég sagði áðan að orðið hefðu miklar umr. um þessa till. og ástæður þess launamunar sem í þjóðfélaginu ríkir. Ég man sérstaklega eftir því, að í fyrra voru uppi harðvítugar ásakanir úr þessum ræðustól í garð verkalýðs- og launþegaforustunnar. Það hefur orðið meira og minna tískufyrirbæri að kenna verkalýðs- og launþegaforustunni um þann vanda sem við óneitanlega eigum við að stríða í þessum efnum. Eflaust hafa menn ekki staðið þar nægilega vel í ístaðinu, eins og tekið var fram af þeim talsmönnum launþegahreyfingarinnar sem þá tóku þátt í þessum umr. Eflaust hafa þeir ekki gætt nógu vel að sér, og eflaust er einnig mikið til í því, sem sumir þeir láglaunahópar, sem innan Alþýðusambandsins eru, halda fram, að þeir eigi jafnvel ekki samleið með öðrum félögum sínum í Alþýðusambandinu. En það tjóar lítt að ætla að varpa allri ábyrgð á verkalýðs- og launþegaforustuna eins og gert hefur verið í þessum efnum. Hér er um þjóðarmeinsemd að ræða sem við öll meira og minna höfum tekið þátt í og dregist inn í.

Ég skal ekki fara út í það, hverjum þetta sé að kenna, en ítreka það, eins og áður hefur komið fram við umr. um till. okkar, að hér er um þá höfuðmeinsemd að ræða, að hver ríkisstjórn ætti í raun og veru að setja sér það sem höfuðmarkmið, vitanlega í samráði við launþegasamtökin, að úr þessu yrði bætt. Ég efast ekki um að til þess verði nokkrar tilraunir gerðar af þeirri ríkisstj. sem nú hefur verið mynduð og launþegahreyfingin hefur tekið upp sérstaklega náið og gott samstarf við og raunar komið á laggirnar ef grannt er skoðað.

Varðandi eftir- og næturvinnuna má segja að hér sé um erfitt vandamál að ræða í þjóðfélagi okkar. Löggjöf, sem hér hefur gilt, hefur ekki megnað að draga úr henni svo sem skyldi. Ég man kannske gleggsta dæmi þessara fáránlegu vinnuhátta frá síldarárunum, þegar þeir atvinnurekendur, sem ég þekkti til, lögðu á það ofurkapp að halda fólkinu sem allra lengst á vinnustaðnum, hvað sem það kostaði í raun og veru, og fengu þannig út svo léleg vinnubrögð að engu tali tók, fyrir utan það hvernig fólki var í raun og veru ofboðið með þessu.

Mörg eru dæmi þess að vinnuhagræðing er afar lítil. Þar er komið inn á atriði sem var lítillega minnst á áður hér á Alþ. af hv. þm. Friðrik Sophussyni, um það, hvernig fyrirtæki eru rekin almennt. Ég hygg að það mætti draga allverulega úr eftir- og næturvinnu hér á landi og það í mjög ríkum mæli, ef fyrirtæki væru rekin sem skyldi. Ég hef það eftir framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, þegar yfirvinnubannið stóð sem hæst, að vinnuafköst hefðu orðið miklu betri, að margt hefði staðið þar mjög til bóta, og er þó um að ræða bónusfyrirkomulag á þeim stað. Auk þess kom svo hvað þetta eftirvinnubann á sínum tíma sýndi verkafólki hvað það var mikils virði að geta átt tómstundir. Ég varð ekki var við annað en það kynni allvel með þær tómstundir að fara.

Ég vildi láta þetta koma fram hér. Það gefast næg tilefni til þess að ræða þetta í sambandi við þá till. sem við höfum endurflutt nú í fjórða sinn og aldrei hefur verið útrædd, var reyndar fyrst mjög umdeild, en hefur síðan fengið meiri og meiri stuðning. Nú hefur þetta komið fram í annarri till. mjög svipaðs eðlis. Um höfundarrétt ber ekki að deila hér eða fara út í þau atriði, heldur fagna því, að æ fleiri gerast liðsmenn þeirrar meginhugsunar sem upphaflega vakti fyrir okkur með flutningi till. um hámarkslaun.