11.05.1979
Sameinað þing: 92. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4692 í B-deild Alþingistíðinda. (3898)

252. mál, tekjuskipting og launakjör

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 514, miðar að því að framkvæmdar verði nákvæmar kannanir á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Óhætt er að segja að fátt veldur meiri deilum og er jafnvandmeðfarið og launaskiptingin í þjóðfélaginu, enda eru uppi stöðugar kjaradeilur og ágreiningur í þeim málum. Þegar um svo veigamikinn undirstöðuþátt í þjóðfélaginu er að ræða, sem ræður afkomu heimilanna, auk þess að vera snar þáttur í efnahagslífinu í heild, þá hlýtur að vera grundvallaratriði að þær ákvarðanir, sem teknar eru á því sviði, byggist á allri þeirri yfirsýn og þekkingu í þeim málum sem mögulegt er að við getum haft yfir að ráða. Án slíkrar þekkingar verða allar ákvarðanir í kjaramálum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu handahófskenndar og kannske ekki síður óréttlátar, þar sem raunsætt mat liggur oft ekki til grundvallar ákvarðanatöku í þeim málum, heldur miklu fremur að ýmsar óréttmætar kröfugerðir séu knúnar fram í skjóli aðstöðu, sérhagsmuna og eigin mats á verðleikum, án réttmæts og hlutlauss mats á gildi og eðli vinnunnar. Við slíkar aðstæður bera þeir iðulega skarðan hlut frá borði sem síst skyldu, þeir sem skila mestum arði í þjóðarbúið með vinnu sinni við undirstöðuframleiðslugreinar í þjóðfélaginu. Hvaða mat liggur t. d. til grundvallar því að þeir, sem bera minnst úr býtum miðað við jafnlangan og kannske stundum lengri vinnutíma, hafa tvöfalt upp í fimm- til sexfalt minna en þeir sem mest bera úr býtum? Hvaða mat og réttsýni liggur til grundvallar slíkum geysilegum mismun í launakjörum? Hvað réttlætir þennan launamismun? Þetta eru grundvallarspurningar sem við verðum að fá svör við.

Oft skortir líka í öllum umræðum um kjaramál alla sanngirni og þekkingu vegna þess að staðreyndir hafa ekki legið fyrir til að draga réttmætar og sanngjarnar ályktanir af þróun þessara mála undanfarna áratugi, enda er það ein meginforsenda þessa tillöguflutnings að ná fram með slíkum rannsóknum og könnunum sem till. gerir ráð fyrir þeirri þekkingu sem geti skilað okkur þeim árangri að hægt sé að byggja upp heilbrigða kjaramála- og efnahagsstefnu í framtíðinni. Slíkar kannanir og rannsóknir hafa að einhverju leyti verið framkvæmdar, en í of litlum og sundurlausum mæli til að á þeim megi byggja. Slíka yfirgripsmikla könnun og rannsókn er varla á færi aðila vinnumarkaðarins að framkvæma. Liggur því næst við að ætla að hún verði framkvæmd á vegum stjórnvalda, enda má einnig benda á að í frv. forsrh., í kaflanum um samráð stjórnvalda við samtök launafólks á sviði efnahagsmála, segir í 5. gr., að verkefni samráðs þessa skuli m. a. vera að fjalla um atriði sem horfa til framfara á sviði atvinnu-, verðlags-, kjara- og launamála og efnahagsmála almennt. Má því ætla að slíkar upplýsingar hljóti að verða mjög hagnýtar og nauðsynlegar við ýmsa sameiginlega ákvarðanatöku, bæði hjá stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins. Nákvæmar kannanir á launakjörum og tekjuskiptingu í þjóðfélaginu mættu einnig verða grunnur að sanngjarnari tekjuskiptingu og hagkvæmara launafyrirkomulagi, enda segir í þáltill., að kannanirnar skuli sérstaklega miðast við að gera grein fyrir, hvort vissir hópar hafi ekki öðlast þá hlutdeild bætts þjóðarhags sem almennt geti talist réttmæt, og skuli þannig unnar að á grundvelli þeirra megi ákveða hvaða aðferðum hægt sé að heita til að auka laun og tekjur þeirra einstaklinga eða hópa sem verst eru settir í þjóðfélaginu.

Mikill meiri hluti efnahagslegra ákvarðana, sem teknar eru á Alþ. og í ríkisstj., miða að því að bæta kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Slík vinnubrögð eru og í fullu samræmi við álit mikils hluta þjóðarinnar um framkvæmd á grundvallarhugmyndum um þjóðfélagslegt réttlæti. Næg atvinna síðustu áratuga hefur útrýmt almennri fátækt. Stefnan í menntamálum hefur og valdið því, að alþýðufólk hefur með aukinni menntun náð fram aukinni verðmætasköpun og þannig aukið tekjur sínar og þjóðarinnar. Þá má og nefna breytingar sem gerðar hafa verið í skatta-, almannatrygginga- og félagsmálum og hafa haft áhrif í þá veru að bæta stöðu vissra hópa í þjóðfélaginu, svo sem barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja. Margt bendir þó til þess að ekki sé nóg að gert, og enn má finna hópa í þjóðfélaginu, sem bæði hafa lág laun og litlar tekjur. Hið opinbera getur bætt hér úr með aðgerðum á sviði skatta-, félags- og atvinnumála. En til þess að slíkt verði gert á sem árangursríkastan hátt þarf að liggja fyrir hver vandinn er og hvers eðlis. Þá er ekki síður mikilvægt í þessu sambandi að um það hefur ekki verið eining á vinnumarkaðinum hverjir skuli teljast til láglaunahópa og hverjir til lágtekjuhópa. Auðvitað verður ekki úr því skorið í rannsókn sem þessari. Hins vegar ætti með slíkri rannsókn að skapast grundvöllur til raunhæfari umræðu og ákvarðana en nú á sér stað. Kannanirnar eiga sérstaklega að miða að því að upplýsa, meta og undirbyggja vissa þætti og mætti við framkvæmd og úrvinnslu þeirra bæta við frekari þáttum sem að gagni mættu koma, því að þeir þættir, sem till. gerir ráð fyrir, þurfa ekki að vera tæmandi.

Í fyrsta lagi gerir till. ráð fyrir að fyrir liggi á einum stað, þar sem tölfræðileg tölvuúrvinnsla er möguleg, allar upplýsingar um lífskjör og kjaramál er máli skipta og nauðsynlegar eru til tölfræðilegrar greiningar hverju sinni. Slíkar upplýsingar eru að einhverju leyti fyrir hendi, en á við og dreif um þjóðfélagið, t. d. hjá Þjóðhagsstofnun, Kjararannsóknarnefnd, verkalýðsfélögunum, Jafnréttisráði, Hagstofu, verðlagsstjóra, skattstofum og tryggingakerfinu. En aðrar upplýsingar, sem nauðsynlegar eru, liggja ekki á lausu og þeirra þyrfti að afla með könnunum sem þessari.

Eðlilegt má telja að slíkar upplýsingar séu varðveittar á einum stað, þar sem hægt sé að endurbæta þær eins og tilefni gefast til á hverjum tíma og vinna úr þeim. Ekki er óeðlilegt að álíta Kjararannsóknarnefnd í tengslum við Þjóðhagsstofnun rétta aðilann til að vinna að slíkum könnunum, þó að einstaka verkefni mætti fela öðrum aðilum, eins og t. d. Háskóla Íslands.

Í lið 2 segir að framkvæma eigi tölfræðilegan samanburð á hvers konar kjaraatriðum — í hvaða formi sem þau eru látin í té — innan og milli starfsgreina, fyrirtækja, stofnana, verkalýðsfélaga, atvinnuvega eða byggðarlaga. Slíkur samanburður sem þessi hlýtur að teljast nauðsynlegur því að þá opnast möguleiki til að framkvæma hlutlausan og raunhæfan samanburð á hvers konar kjaraatriðum sem að gagni gætu komið fyrir ríkisvaldið og aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga eða við mótun launa- og tekjustefnu í landinu. Ef um marktækan mismun væri að ræða milli launakjara einstakra byggðarlaga, atvinnuvega, verkalýðsfélaga, starfsgreina eða ólíkra rekstrarforma í atvinnurekstri, þá gefur auga leið að leita þarf skýringa með könnunum eða á annan hátt ef æskilegt þykir þar um að bæta. Þegar velt er fyrir sér kjaramálum og tekjuskiptingu er algengt að spurt sé: Hvers vegna er greitt meira fyrir þessa vinnu en aðra.

Í lið 3 er um mjög mikilvægan lið að ræða, sem er rannsókn á forsendum flokkaskipunar og annarra kjaraatriða hinna margvíslegu kjarasamninga, þ. e. a. s. að meta vægi hinna ýmsu eðlisþátta vinnunnar eða annarra áhrifaþátta með vinnurannsóknum, t. d. ábyrgðar, áhættu, hæfni, lífaldurs, prófa, starfsaldurs, starfsreynslu og fleiri þátta. Aðalreglan hingað til er að flokkaröðun er ákveðin í aðalkjarasamningum eða öllu heldur sérkjarasamningum einstakra félaga af einhvers konar samstarfsnefndum um starfsmat, t. d. af Kjaranefnd hjá starfsmönnum hins opinbera. Það, sem einkum hefur verið lagt til grundvallar, er, að því er næst verður komist, ábyrgð, sjálfstæði í starfi, menntun, starfsaldur hjá sama aðila, en ekki endilega starfsreynslan sem slík, rökstuðningur stéttarfélags og oft á tíðum framboð og eftirspurn og ekki síst viðhorf til starfsins. Ein reglan sannast með undantekningum, að því færri sem vinna í starfsgreininni, því betur er hún launuð. En tæpast er hægt að tala um að neinar formlegar reglur gildi hér um og er reyndar nokkuð misjafnt eftir stéttarfélögum á hverju slíkt starfsmat byggist. Raunhæfir mælikvarðar byggðir á rannsóknum á eðli vinnunnar, þar sem gert er ráð fyrir að hinir fjölbreytilegu eðlisþættir hennar geti á einhvern hátt vegið upp hvor á móti öðrum, hljóta að vera nauðsynlegir til að hægt sé á einhvern sanngjarnan hátt að ákveða kaup og kjör samkv. flokkaröðun eða á annan hátt. Þegar deilt er um kaup og kjör, þá er oftast verið að deila um taxtakaupið, sem byggist á flokkaröðuninni, og samanburður gerður á þeim grundvelli, en hjá sumum hópum er taxtakaupið ekki afgerandi þáttur heildartekna og enn öðrum óverulegur þáttur. Sanngjarn samanburður verður því varla gerður nema öll launakerfin séu dregin inn í myndina. Því hlýtur að vera nauðsynlegt að upplýsa hlutfall hinna ýmsu launakerfa í launakjörum almennt, þannig að hægt sé að sjá hvaða þáttur launakjara sé mest ákvarðandi um launakjör hverrar starfsstéttar, svo sem dagvinnutaxtar, yfirvinnutaxtar, afkastahvetjandi launataxtar, yfirborganir og aðrar duldar greiðslur eða kjaraþættir. Liður í heildarmyndinni í kjara- og launamálum hlýtur einnig að vera að meta heilsufræðileg, félagsleg og hagfræðileg áhrif hinna mismunandi launakerfa og vinnuaðstæðna og einnig hvort að skaðlausu mætti koma við viðar afkastahvetjandi launakerfum, t. d. hjá hinu opinbera. Óþrifalegar, heilsuspillandi og óaðlaðandi vinnuaðstæður hafa án efa veruleg áhrif á starfsgetu sem og vinnuframlag starfsfólks. Það gæti því hvort tveggja í senn verið hagur vinnuveitanda sem launþega ef samanburðarkönnun á sambærilegum vinnustöðum leiddi í ljós marktækan mismun á vinnuframlagi betri vinnuaðstæðum í hag. Alkunna er að margvísleg launakerfi eru notuð á vinnumarkaðinum til þess að auka afköst eða árangur, önnur til þess að ná samfelldari vinnu, t. d. vaktaálag, enn önnur til þess að halda góðum starfskröftum, t. d. yfirborganir, yfirvinnutaxtar, og fleira mætti nefna. Það er augljóst að slík launakerfi hafa ekki sömu áhrif, hvorki á launþegann sjálfan né árangur vinnu hans. Öll hafa þau sína kosti og sína galla, en nauðsynlegt að slíkt sé metið á hlutlausan hátt.

Sennilega geta allir fallist á það, að þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaganna frá 1976, þar sem segir að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf, sé enn um töluvert launamisrétti að ræða. Staðreynd er að kynbundin starfsskipting er almennt ríkjandi í mörgum atvinnugreinum, þó að óljóst sé í hve ríkum mæli karlmenn sitji að betur launuðum störfum en konur, einnig að konur veljast jafnan f láglaunastörf. Kannanir hafa leitt í ljós að launamunur karla og kvenna er einnig innan sömu starfsgreina. Slíkar staðreyndir krefjast þess að leitað sé skýringa á því, hvort uppbygging launataxta og annarra launakjara kalli fram mismun á kjörum karla og kvenna, og á því, hvers vegna þau störf, sem konur stunda, séu jafnan lægst launuð. Er t. d. einhverra skýringa að leita í launamismun karla og kvenna vegna aðildar að mismunandi verkalýðsfélögum? Nauðsynlegt er einnig að upplýsa hvernig aldurs- og kynskipting sé eftir launatöxtum, yfirborgunum og starfsgreinum, en þar er átt við að upplýsa einfaldlega hlutfallsskiptingu karla og kvenna í einstökum launaflokkum hinna ýmsu kjarasamninga og hversu yfirborganir eru ráðandi og mismunandi í kjörum karla og kvenna, en það ætti að sýna á marktækan hátt hvor hópurinn er meiri láglaunahópur. Það sama á við um aldur. En niðurstöður þessar gætu leitt í ljós hvort tekjur aukist reglulega fram að einhverju aldursmarki og minnki síðan úr því. Nauðsynlegt væri einnig, eftir því sem kostur er, að kanna slíkt gagnvart öðrum launakerfum og fá þannig sem sannasta mynd af slíkri skiptingu. Ef í ljós kæmi við slíka könnun að yfirborganir réðu miklu um launakjör almennt hlyti samhliða að verá nauðsynlegt að upplýsa hvaða áhrif það hefur í reynd á verðlagsþróun í landinu, því að varla getur talist eðlilegt að láglaunahópar, sem eingöngu taka laun samkv. kjarasamningum, beri kostnaðarhækkanir vöru og þjónustu sem leiðir af slíku.

Mikilvægt atriði könnunarinnar er einnig að rannsaka hvort og hvers vegna sumir hópar eru verr í stakk búnir en aðrir til að ná fram bættum lífskjörum við almenna kjarasamninga, t. d. vegna aðstöðuleysis eða af öðrum ástæðum, og á sama hátt að rannsaka hvort aðrir hópar hafa notfært sér aðstöðu sína á óeðlilegan hátt til þess að knýja fram lífs- og launakjör sem eru í engu samræmi við vinnuframlag þeirra. Skert starfsgeta eða starfsþrek hefur vitaskuld áhrif á lífsafkomu og kjör margra hópa, bæði vegna andlegrar og líkamlegrar fötlunar og vegna aldurs, sjúkdóma og slysa. Slíkar breytingar á högum fólks koma oft fyrirvaralaust og hafa mikil áhrif á lífsafkomu og hagi þess. En í slíkri könnun sem þessari, þar sem leitast á við að gera grein fyrir, hvers vegna vissir hópar hafa ekki öðlast þá hlutdeild bætts þjóðarhags sem almennt geti talist réttmæt, og leita á leiða til þess að bæta hag þeirra, hlýtur að vera nauðsynlegt að kanna hvaða áhrif skert starfsgeta eða starfsþrek hefur í reynd á eðlilega tekjuskiptingu í þjóðfélaginu, þótt slíkt mat og könnun geti verið erfið í framkvæmd. Með því ætti að nást fram einnig hvað skert starfsgeta er ákvarðandi þegar um er að ræða aðra sambærilega þætti, eins og t. d. menntun og starfsreynslu.

Þau hagstjórnartæki, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða til þess að bæta hag og afkomu hinna verst settu, eru m. a. í gegnum skatta- og almannatryggingakerfið. Þessum hagstjórnartækjum hefur því eðlilega verið beitt til þess að bæta kjör þeirra sem verst eru settir vegna skertrar starfsgetu, starfsþreks eða annarra félagslegra ástæðna. Hér er um stóran hóp fólks að ræða, þar sem t. d. öryrkjar eru milli 7–8 þús. og fjöldi aldraðra einnig með skerta starfsgetu. Erfitt reynist því oft á tíðum fyrir þetta fólk að fá starf við sitt hæfi á vinnumarkaðinum og á það því oft undir högg að sækja í starfsvali og launakjörum. Lífeyrir almannatrygginganna og ákvarðanir stjórnvalda í skattamálum eru því mjög ákvarðandi um lífsafkomu og hagsmuni þessa fólks. Slíkir hópar hafa ekki verkalýðsfélög til þess að gæta réttar síns og eru háðir ákvörðunum stjórnvalda hverju sinni um afkomu sína. Nauðsyn ber til að leita allra tiltækra leiða til að tryggja þessu fólki réttmæta og eðlilega hlutdeild í vaxandi þjóðartekjum.

Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir helstu atriðum þeirra kannana og rannsókna sem þáltill. gerir ráð fyrir, en á grundvelli þeirra mætti ná fram mikilvægum áfanga í kjaramálum. Um það fjallar 15. liður till., en sá liður fjallar um hvort ekki sé hægt í samráði við aðila vinnumarkaðarins að samræma og einfalda hinn mikla frumskóg kjaraákvæða og launataxta er nú gilda í landinu, sem hafa gert alla samningsgerð mjög erfið og tímafreka. Slíkan aragrúa launataxta hlýtur að teljast hagkvæmt að einfalda og samræma, því að slíkt flókið og margþætt kjarakerfi og kostnaðarsamt, torveldar, tefur og skapar ýmsa erfileika í allri samningsgerð, auk þess sem slíkt fyrirkomulag eykur líkur á misrétti og óréttlátri tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Hér er því um hagsmunamál allra aðila að ræða, bæði aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og þjóðarinnar í heild. Í þessari þáltill. er á engan hátt lögð nein höfuðáhersla á, að ríkisvaldið hafi afskipti af slíkri samræmingu og einföldun á launatöxtum og kjaraþáttum ef slíkt þætti ganga inn á frjálsan samningsrétt, þó að e. t. v. mætti ætla að stjórnvöld hefðu forgöngu í svo yfirgripsmiklu og vandasömu verki. Forsendan fyrir að slík einföldun og samræming geti verið framkvæmanleg er að framkvæmdar séu þær kannanir og rannsóknir sem þáltill. gerir ráð fyrir.

Herra forseti. Ljóst er af því, sem fram kemur í þáltill., og því, sem ég hef rakið, að hér er um ærið yfirgripsmikið og jafnvel kostnaðarsamt verkefni að ræða. Sumt er framkvæmanlegt á skömmum tíma án mikils tilkostnaðar, annað tæki lengri tíma og kostaði töluvert. En það er skoðun flm. þessarar þáltill. að slík fyrirhöfn og kostnaður gætu skilað sér margfalt aftur í hættum skilyrðum til uppbyggingar heilbrigðs efnahagslífs og betri og réttlátari kjörum fólksins í landinu, sem hlýtur að vera það markmið sem allir stefna að. Þó að skammur tími sé nú eftir af þingi er von mín að þm. sjái hve brýnt er að slíkar kannanir séu gerðar og fyrir liggi þær upplýsingar sem nauðsynlegar hljóti að vera til að draga réttmætar og sanngjarnar ályktanir í kjaramálum, sem á megi byggja við gerð kjarasamninga og almennt geti gefið rétta vísbendingu um hvert skuli stefna til þess að ná fram réttlæti í launamálum. Þróun launa- og kjaramála undanfarna mánuði og ár hlýtur að krefjast þess að slíkar kannanir fari fram.

Ég vil svo að lokum vona að þessi þáltill. njóti stuðnings þdm. og hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi. Að lokinni þessari umr. óska ég eftir að málinu verði vísað til allshn.