07.11.1978
Sameinað þing: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

27. mál, lágmarks- og hámarkslaun

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið við umr. um þá þáltill., sem hér er verið að ræða, til að minna á að till. um svipað efni hefur verið flutt af þm. Alþb. á undanförnum tveim eða þrem þingum — þáltill. um hámarkslaun — og sú till. liggur einnig fyrir Alþ. nú, flutt af okkur fimm þm. Alþb.

Ég vil láta í ljós þá skoðun, að ég tel þakkarvert að menn leggi hér fram till. sem miða að því að takmarka og draga úr þeim launamismun, sem er fyrir hendi í þjóðfélagi okkar. Í þeirri till., sem hér er til umr., er ráð fyrir því gert, að munur lágmarks- og hámarkslauna verði einn á móti tveimur og hálfum til þremur. Í till. þeirri, sem flutt hefur verið af þm. Alþb. á undanförnum þingum og einnig á þessu þingi, er hins vegar gert ráð fyrir að hámarkslaun nemi aðeins tvöföldum vinnulaunum verkamanns. Þarna er nokkur munur á, en þó ekki meiri en svo, að ég vil vænta þess að út af fyrir sig væri hægt að ná samkomulagi um það atriði. Ég held hins vegar að það sé full ástæða til þess að löggjafinn setji í þessum efnum nokkurn ramma. Er þá að sjálfsögðu verið að miða við þá vinnu sem unnin er í tímavinnu og samkv. öðrum þeim launakerfum sem reiknuð eru út frá tímakaupi. Hins vegar er ekki ráð fyrir því gert, að þetta snerti hlut sjómanna eða önnur skyld störf.

Í till. þeirri frá hv. 3. þm. Norðurl. e., sem hér er til umr., er einnig ráð fyrir því gert, og það er hins vegar nýtt að ég hygg, að sett verði löggjöf um takmörkun á lengd yfirvinnu. Það er að sjálfsögðu svo, að óhyggilegt væri að setja lög í þessum efnum án þess að höfð væru eðlileg samráð við samtök launafólks í landinu. En ég hygg að ef þessi till. fær eðlilega meðferð í n., þá komi m.a. til þess, að samtökum launafólks á Íslandi verði gefinn kostur á að tjá sig um þessi efni, og er það vel.

Það þarf ekki að lýsa því í mörgum orðum, hvílíkt þjóðfélagsböl hin gífurlega yfirvinna hefur verið og er í landi okkar. Ég hygg að óhætt muni að fullyrða, að hvað varðar mikla yfirvinnu hjá fjölmörgum hópum í þjóðfélaginu séum við íslendingar algerlega einir á báti miðað við nálæg lönd. Staðreyndin mun vera sú, að í þeim þjóðfélögum í grannríkjum okkar, sem okkur eru skyldust, er hvergi finnanlegt neitt dæmi sem nálgast það að fólk vinni yfirvinnu í þeim mæli sem hér hefur tíðkast. Og það er auðvitað svo, að spurningin um hversu miklar tómstundir menn hafa er ákaflega stór hluti af raunverulegum lífskjörum og kannske miklu stærri hluti en menn hugsa út í að öllum jafnaði. Það er rétt, sem hv. 11. landsk. þm. sagði áðan, að auðvitað á hið lága kaup hjá hinum lægst launuðu í þessu landi stærstan þátt í þeirri gífurlegri yfirvinnu sem hér hefur tíðkast. Fólk hefur einfaldlega verið knúið til þess að leggja á sig vinnu í kannske 12–14 tíma á sólarhring í mörgum tilvikum til þess að geta séð fjölskyldum sínum sómasamlega farborða. Ef við berum okkur í þessum efnum saman við hin Norðurlöndin, þá hygg ég að það komi fljótt í ljós að þar eru tekjur launafólks að heita má eingöngu fyrir dagvinnu. Almennt launafólk á Íslandi nálgast það í mörgum tilvikum að ná sambærilegum heildartekjum, en það nær þeim því aðeins að það hafi jafnvel allt að helming tekna sinna fyrir yfirvinnu. Ég hygg að þannig sé ástatt á Norðurlöndum, að því yrði lítið sinnt ef stjórnvöld eða atvinnurekendur á Norðurlöndum utan Íslands hygðust skerða þau laun sem fólk hefur fyrir eðlilegan vinnudag í þessum ríkjum, en kæmu jafnframt og segðu. Gott og vel, við bjóðum ykkur annað á móti. Í staðinn fyrir 40 tíma á viku getið þið fengið að vinna 50, 55 eða 60 tíma. — Ég hygg að launafólk í þessum ríkjum, sem vant er að láta dagvinnuna nægja, mundi ekki hlusta mikið á slík tilboð og ekki heldur verkalýðssamtök í þessum ríkjum. Ég þykist hafa um það fullar upplýsingar, að a.m.k. í sumum Norðurlandanna utan Íslands sé í gildi löggjöf þar sem sé beinlínis bannað að verkafólk vinni yfirvinnu nema mjög fáar stundir í viku. Ég hygg að það sé rétt með farið, þegar ég segi að í Noregi sé þetta takmarkað við 4 stundir á viku sem hámark í yfirvinnu og það bundið í lögum.

Það er rétt, að atvinnuaðstæður okkar eru mjög á annan veg en í flestum iðnvæddum þjóðfélögum, og vissulega er nokkuð til í því, að þær sérstöku aðstæður geri erfiðara fyrir hér á landi að halda uppi ströngum yfirvinnutakmörkunum. Þetta er þó að breytast. Ég vil halda því fram, að í sambandi við hraðfrystiiðnaðinn, þar sem yfirvinna er hvað mest á ýmsum stöðum, hafi á síðustu árum verið að eiga sér stað þær breytingar að í rauninni sé miklu frekar hægt, ef rétt væri að málum staðið, að takmarka yfirvinnu í þessari grein heldur en áður var. Hraðfrystiiðnaðurinn er nú, eftir tilkomu hins mikla skuttogaraflota okkar Íslendinga, orðinn miklu nær því en áður var að vera eins og hver annar verksmiðjuiðnaður. Skiptingin í vertíðir, sem áður tíðkaðist, þar sem mikill afli barst á land á takmörkuðum tímabilum úr árinu, en svo kannske mjög lítið annan tíma ársins, er að hverfa. Það er að verða nokkuð jafn afli sem þarf að vinna úr, togaraafli árið um kring. Það, sem þarna þarf að koma til, er að mínu viti, að upp verði tekinn einhvers konar vaktavinna þannig að hægt sé að vinna aflann án þess að fólk þurfi að leggja á sig þá gífurlegu yfirvinnu sem nú tíðkast, býsna víða, þ.e. vaktavinna af svipuðu tagi og í hverri annarri verksmiðju, sem þykir henta að sé í gangi kannske ekki bara 8 stundir á virkum degi, heldur jafnvel allan sólarhringinn. En til þess að þetta sé hægt þarf auðvitað að beina meira vinnuafli í þessa undirstöðuatvinnugrein. Þar þurfa að koma til fleiri einstaklingar en nú eru við þessi framleiðslustörf, og að sjálfsögðu þurfa launakjörin og þá sérstaklega hjá þeim sem ekki vinna samkvæmt launaaukandi kerfum nú þegar, að verða mun betri. Ég held að það sé eðlilegt að stefna að því í sambandi við frystiiðnaðinn, þar sem menn höfðu e.t.v. löngum talið að væri hvað erfiðast að takmarka yfirvinnu, að taka upp einhvers konar vaktavinnufyrirkomulag.

Ég efast ekki um að ef sett væri almenn rammalöggjöf um takmörkun yfirvinnu hér á landi, þá þyrftu a.m.k. í byrjun að koma til margvíslegar undanþágur. Ég tel að það sé eðlilegt, sem gert er ráð fyrir í þessari till., að það sé þá á valdi viðkomandi verkalýðsfélags að veita slíkar undanþágur, þegar talið er af verkalýðsfélaginu að hjá því verði ekki komist. En einhvers staðar verður að byrja í þessum efnum, og ég vil leggja á það mikla áherslu, að haft sé í huga hvílíkt þjóðfélagslegt mein hin gífurlega yfirvinna er hér á Íslandi. Þess vegna er full ástæða til þess að hreyfa slíku máli sem þessu hér á Alþ., eins og hér er gert, og von mín er sú, að eftir að málið hefur fengið eðlilega meðferð í n. og verið um það fjallað af verkalýðshreyfingunni, þá geti það orðið til þess að þoka þessum málum til réttrar áttar þó að byrjunin verði kannske smærri en gert er ráð fyrir.

Ég vil endurtaka stuðning minn við meginefni þessarar tillögu.