15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4760 í B-deild Alþingistíðinda. (4002)

355. mál, byggingamál Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fsp. hef ég fengið frá Ríkisútvarpinu áætlun um nýbyggingu Ríkisútvarpsins færða til verðlags 1. apríl 1979, þ. e. a. s. miðað við vísitölu byggingarkostnaðar frá þeim degi, sem var þá 280 stig. Gerð hefur verið framkvæmda- og kostnaðaráætlun, sem er miðuð við að fyrsti byggingaráfangi verði innréttaður fyrir núverandi starfsemi útvarps og sjónvarps, en að síðari áfangar miðist við talsvert aukna starfsemi frá því sem nú er. Þessi kostnaðaráætlun er allítarleg og sé ég ekki ástæðu til að rekja hana í smáatriðum, nema þess sé sérstaklega óskað, en niðurstöðutalan er 4100 millj. kr.

Samkv. upplýsingum hönnuða gæti úfboð næsta áfanga farið fram með 3–4 vikna fyrirvara. Áfangi þessi felur í sér uppsteypingu á sökklum, leiðslugögnum og grunnplötu, sem er vesturhluti hússins, að línu sem merkt er 72 á teikningu, eins og segir í bréfi frá Ríkisútvarpinu. Í beinu framhaldi af því, eða í septembermánuði þessa árs, er hægt að bjóða bygginguna út til uppsteypu og frágangs að utan.

Byggingaráform Ríkisútvarpsins hafa verið til athugunar í samstarfsnefnd um ríkisframkvæmdir. Mér er ekki kunnugt um að samstarfsnefndin hafi afgreitt málið, en eins og hér kemur fram er hægt að auglýsa úfboð með 3–4 vikna fyrirvara eftir að málið hefur verið afgreitt af samstarfsnefndinni.

Fsp. hv. þm. laut að því, hvenær nýjar framkvæmdir við útvarpshúsið hæfust. Ekki er hægt að gefa frekari svör við þeirri spurningu meðan samstarfsnefndin hefur ekki lokið störfum sínum, sem ég vissulega vona að verði hið allra fyrsta.

Í fsp. hv. þm. er einnig innt eftir því, hvenær áformað sé að ljúka fyrsta áfanga. Fyrsti áfangi mun kosta, eins og ég nefndi áðan, um 4 milljarða kr. Áformað er að því verki verði lokið á árinu 1985. Í áætluninni er árlegur kostnaður áætlaður sem hér segir: Á árinu 1979 400 millj., á árinu 1980 600, á árinu 1981 600, á árinu 1982 750, á árinu 1983 700, á árinu 1984 700 og á árinu 1985 200 millj, kr.

Í fsp. er spurt um hvernig verkið verði fjármagnað. Áætlun, sem gerð hefur verið um fyrsta áfanga, sýnir að eigin framlög Ríkisútvarpsins í framkvæmdasjóð mundu nægja til ársloka 1981. Við lok byggingartímans, árið 1985, er hins vegar áætlað að kostnaður sé 1 milljarður umfram eigið fé byggingarsjóðs. Mér þykir því einsýnt að löngu áður en að því kemur verði að taka ákvörðun um aukin framlög Ríkisútvarpsins af eigin fé í framkvæmdasjóð.