15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4761 í B-deild Alþingistíðinda. (4004)

355. mál, byggingamál Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans. Það er ágætt að fá um þetta upplýsingar.

Ég hef aðeins heyrt hljóðið í samstarfsnefndarmönnum. Ég geri mér vonir um að það komi afgreiðsla frá þeim fljótlega. Ég hef skilið það svo, að þeim hafi sýnst ekki nægilega vel séð fyrir fjármögnun verksins til langs tíma, en þar sem ég geri mér a. m. k. vonir um að útvarpslögunum verði nú breytt á þann veg, að 10% verði lögð í framkvæmdasjóðinn, hygg ég að samstarfsnefnd setji fjármögnunina ekki fyrir sig, enda held ég þá, þvert á móti því sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að betur væri séð fyrir fjármagni til þessara framkvæmda en nokkurrar annarrar hliðstæðrar framkvæmdar á vegum hins opinbera. Ég geri mér þess vegna vonir um það, í framhaldi af upplýsingum sem fram komu hjá hæstv. ráðh., að nú styttist í að hafist verði handa.

Ég held að það sé atgerlega út í bláinn, enda var það ekki rökstutt og enginn tími til þess í tveggja mínútna ræðutíma, að þarna sé verið að byrja á húsi sem endist um aldur og ævi. Þvert á móti held ég að það sé alveg rétt, sem fram kom hjá hæstv. ráðh., að þarna sé formað hús fyrir starfsemi útvarps og sjónvarps eins og hún er nú.

Inn í fjármögnun þessa kemur, auk þess sem framkvæmdasjóðurinn leggur til, andvirði húsnæðis sjónvarpsins, en þegar það getur flutt sig getur það selt hina verðmætu húseign sína. Það styður enn að því að gera fjármögnunina álitlega.

Ég hef engar upplýsingar um það sem hv. síðasti ræðumaður var að segja um óeðlilegan kostnað á grunni hússins, og það er auðvitað hvorki unnt að afla nánari upplýsinga um það né ræða það ítarlega við þessa umr.

Ég held ég bæti ekki meiru við, það er víst ekki vert að tefja tímann þessa síðustu daga, en þakka ráðh. svörin.