15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4802 í B-deild Alþingistíðinda. (4086)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Bjarnfríður Leósdóttir:

Herra forseti. Ég vil með öðrum þm. Vesturl. taka undir þakklæti til hæstv. iðnrh. fyrir hlutdeild hans að þessu máli og fyrir það að málið skuli vera komið á þann rekspöl sem það er á. Ég vil einnig þakka fyrrv. iðnrh. fyrir hlutdeild hans að málinu. Það er auðvitað leiðinlegt að ekki skyldu nást samningar við eigendur hversins, því að á meðan við virðum eignarréttinn er hann auðvitað mikils virði þeim sem á honum halda. En hann má aldrei standa í vegi fyrir hagsæld fjöldans. Ég held að það hafi engum verið til neins ávinnings að hafa þennan hver óbeislaðan meðan byggðin þar í grennd verður að brenna hinni mjög svo dýru olíu sem allir þekkja nú og hvernig olíukostnaður muni yfirleitt fara með afkomu þeirra heimila sem við olíukyndingu verða að búa. Ég vænti þess, að málið muni hafa forgang og að því muni verða unnið hratt og vel. Ég veit að á Akranesi og í Borganesi hefur verið unnið að því af miklum krafti að hægt væri að hefja framkvæmdir, og ég vona að lánamál og annað, sem þarf til þess að verkið geti hafist, muni fram ganga á komandi sumri. Ég endurtek þakklæti mitt til ráðh., sem að þessum málum hafa staðið, og allra annarra.