15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4803 í B-deild Alþingistíðinda. (4087)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég átti ekki kost á að hlýða á framsöguræðu hæstv. iðnrh. í dag fyrir þessu máli. En ég heyri að þm. Vesturl. eru ákaflega hrifnir af þessu framtaki. Ég get ekki lýst mig sammála því. Ég tel að eignarnám sé algert þrautarúrræði, og ég er ekki viss um að samningar hafi verið reyndir til fullnustu enn þá, þrátt fyrir öll þau lofsyrði sem fyrrv. og núv. iðnrh. hafa fengið hér frá þm. þessa byggðarlags.

Það er svo sem ekkert nýtt að heyra það frá ýmsum þm., að þeir vilja helst taka allt eignarnámi sem einstaklingar eiga. Fyrir Alþ. liggja fjölmörg frv. og till. í þá átt. Það er náttúrlega stefna út af fyrir sig að ríkið eigi allt, en þeirri stefnu er ég andvígur og ég hélt að það væru ýmsir þm. hér, kannske ekki endilega í mínum flokki, heldur þá öðrum, nokkuð svipaðrar skoðunar. Svo virðist ekki vera, því að nú stendur hver þm. upp á fætur öðrum til þess að hrósa hæstv. ráðh. fyrir það lofsverða framtak að taka eign fólks af því. Þessu get ég ómögulega verið hrifinn af og ekki heldur sammála.

Ég hefði frekar kosið, af því að mér er ljóst að hér eru nokkrir hagsmunir í veði fyrir þau byggðarlög sem hér hafa verið nefnd, Akranes og neðri hluta Borgarfjarðarsýslu, að þess hefði þó verið freistað að taka hverinn leigunámi og reyna að nota þann tíma, sem þannig ynnist, til þess að komast að viðunandi samkomulagi við eigendur hans. En þessi leið hefur greinilega ekki hlotið náð í rn., og nú er sem sagt borið hér fram frv. um að taka eignarnámi þessi réttindi fólksins sem þarna býr og þetta á. Ég hygg að það sé mjög vel að orði komist hjá hv. síðasta ræðumanni, frú Bjarnfríði Leósdóttur, að meðan við virðum eignarréttinn sé hann einhvers virði. En ég legg þau orð þannig út í mínum huga, að það sé bara tímaspursmál hversu lengi við virðum þennan eignarrétt og hversu lengi hann eigi að virða og það sé kannske rangt að virða hann og þá eigi að koma til það, sem oft hefur áður verið flutt hér, að ríkið eigi landið og enginn eigi neitt nema það sem honum er úthlutað af yfirvöldum.

Ég er mótfallinn þessu frv.