08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Í tilefni af orðum hæstv. forseta skal ég taka það fram, að ég mun gera mér far um að vera ekki langorður. Af þeim tíma, sem varið hefur verið til 1. umr. þessa frv., held ég að ég hafi notað að vísu 40–45 mín. og aðeins haldið eina ræðu af þeim 20 sem fluttar hafa verið. Ég tók eftir því, að fyrr á þessum fundi sýndi forseti eðlilegt umburðarlyndi gagnvart hv. 1. þm. Austurl., sem ég gagnrýni ekki, en vænti þess þá líka, að samsvarandi umburðarlyndi sé sýnt öðrum þm. Mér skilst að hv. 1. þm. Austurl. hafi verið búinn að tala tvisvar og samtals í 3 klst. eða þar um bil og hafði því rétt til að gera aths. sem tók þó 30 mín. eða næstum það.

Þetta eru aukaatriði. Ég kvaddi mér hér hljóðs til að leggja áherslu á það, að stefnan í vaxtamálum ræður því, hvort sparnaður á sér stað í landinu eða ekki. Hv. 1. þm. Austurl. og ýmsir fleiri sýnast ekki hafa skilning á því og raunar draga í efa, að sparnaður eykst eftir því sem ávöxtunarkjör eru betri eða í nánara samræmi við verðlagsþróun í landinu. Ég hef hér tölur um að á árunum 1971–1975 rýrnaði raungildi þess fjármagns, sem bankakerfið hefur yfir að ráða frá innistæðueigendum, um 70 milljarða kr. miðað við grundvöll verðlags og þjóðartekna. Nú munu vera u.þ.b. 120 milljarðar króna í heildarinnistæðum. Ef þær næmu sama hlutfalli af þjóðarframleiðslu og í upphafi þessa áratugs ættu heildarinnistæður nú að nema um 190 milljörðum kr.

Þetta sýnir óheillavænlega þróun, a.m.k. frá sjónarmiði okkar sem teljum sparnað hafa þjóðnýtt gildi. Það var þess vegna gerð alvarleg tilraun til þess vorið 1976 að hamla gegn þessari þróun með upptöku vaxtaaukareikninga, og sumarið 1977 var tekin upp nokkurs konar verðtrygging með skiptingu vaxta í grunnvexti og verðbótaþátt sem endurskoðaður skyldi með tilliti til verðlagsþróunar. Þessi stefnubreyting í vaxtamálum hafði þegar í stað veruleg áhrif þannig, að heildarinnistæður hafa nokkurn veginn haldist í hendur við breytingar á verðmæti þjóðarframleiðslunnar, en bundnu innistæðurnar á vaxtaaukainnlánum jukust mun hraðar og nema nú u.þ.b. 1/3 af sparifjármyndun í landinu. Þessi þróun sýnir að ávöxtunarkjör ráða miklu um það, hvort sparnaður á sér stað í landinu eða ekki.

Spurningin er um það, hvort við teljum rétt að örva sparnað í landinu eða ekki. Ég hefði haldið að hv. 1. þm. Austurl. væri þeirrar skoðunar, að sparnaður væri af hinu góða og nauðsynleg forsenda fyrir því, að atvinnurekstur og einstaklingar hafi fjármagn til ráðstöfunar í rekstur og aðrar athafnir sínar.

Ég vil líka benda á það, að möguleiki Seðlabankans til þess að endurkaupa afurðalán er auðvitað nátengdur þessari þróun. Seðlabankinn hefur varið þeim fjármunum til endurkaupa sem hann hefur fengið með bindiskyldu sem viðskiptabankarnir hafa gengist undir, þ.e.a.s. að binda ákveðið hlutfall af sparifjáraukningunni á hverjum tíma. Lagaheimild er fyrir þessari bindiskyldu, að hámarki 25%. Því hámarki er nú náð, en þrátt fyrir það hefur Seðlabankinn í lok septembermánaðar þurft að lána 5.5 milljörðum meira út í afurðalán en bundinni innistæðu viðskiptabankanna hjá honum nemur. Þessir 5.5 milljarðar kr. eru til þess fallnir að auka verðþensluna og eftirspurnina í landinu, hella olíu á verðbólgubálið. Auðvitað stafar þessi neikvæða staða á reikningum Seðlabankans hvað snertir innlánsbindinguna miðað við endurkeypt afurðalán af því, að sparifjármyndun í landinu hefur ekki haldist í hendur við vöxt þjóðarframleiðslu.

Þá er ég kominn að því, að hv. 1. þm. Austurl. taldi peningasparnað á Íslandi ótrúlega mikinn, og ég get út af fyrir sig verið sammála honum um það. Miðað við léleg ávöxtunarkjör er peningasparnaður á Íslandi ótrúlega mikill. Hann er hins vegar ekki nægilega mikill til þess að standa undir þörfum viðskiptalífsins og atvinnuvega og einstaklinga í landinu.

Hv. þm. taldi að skýringin á því, að verðgildi sparifjár hefði ekki haldist í hendur við verðgildi þjóðarframleiðslu, væri fólgin í gengislækkunum. Það, sem hér er um að ræða, er að láta ávöxtunarkjörin vega upp á móti gengislækkunum, að ávöxtunarkjörin séu þannig, að þrátt fyrir gengislækkanir haldi sparifé verðgildi sínu. Hvaða réttlæti er í því, að sparifjáreigendur séu rændir hluta af verðmætum sínum, sem lántakendur aftur á móti græða? Þarna er eðlilegt og sjálfsagt, að koma á jöfnuði, og ég hélt sannast að segja að hv. 1. þm. Austurl. væri jafnaðarmaður.

Þá voru það rök hjá hv. 1. þm. Austurl., að raunhæf ávöxtunarkjör leiddu til gengislækkunar. Ég vil í þessu sambandi benda á það, eins og hv. 1. þm. Vestf. gerði úr sæti sínu, að gengislækkunarleiðin er fetuð af núv. ríkisstj., ekki eingöngu með gengisbreytingunni 6. sept. s.l., heldur og með gengissigi síðan. Seðlabankinn hefur ekki einn vald til að ákveða skráningu íslensku krónunnar miðað við erlendan gjaldeyri, heldur verður hann að fá heimild viðskrh., til þess að láta gengið síga. Þessa heimild hefur Seðlabankinn fengið hjá hæstv. viðskrh., flokksbróður hv. 1. þm. Austurl., og þar sem 1. þm. Austurl. sagði að hann væri á móti gengislækkunarleiðinni og gengissigi, þá ættu að vera hæg heimatökin, vegna þess að eins og kunnugt er nýtur hv. 1. þm. Austurl. þeirrar nafnbótar, sem ég veit ekki, herra forseti, hvort ég á eða má nota hér úr ræðustóll og ávarpa hann hæstv. yfirráðherra. Hann ætti þess vegna að hafa í hendi sinni að stöðva gengislækkanir eða gengissig. En ég held að þótt hann sé máttugur, þá sé hann ekki svo máttugur að hann geti unnið það afrek, vegna þess að gengislækkun verður meðan við höfum meiri verðbólgu en er í viðskiptalöndum okkar og getum ekki vegið upp þann mun með aukinni framleiðni eða auknu aflamagni, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni um þetta mál.

Ég held að spurningunni um það, hvort raunhæf ávöxtunarkjör, m.a. hækkun vaxta eða verðtryggingarfyrirkomulag valdi gengislækkun, sé best svarað með fordæmi ýmissa viðskiptaþjóða okkar, eins og Bandaríkjamanna og Breta. Sannleikurinn er sá, að báðar þessar þjóðir hafa notað hækkun vaxta til að treysta gengi gjaldmiðils síns. Í báðum tilvikum hefur það verið liður í baráttu þeirra, bæði til þess að berjast gegn verðbólgu og treysta gjaldmiðil sinn, að hækka vexti, og í báðum tilvikum hefur þeim tekist hvort tveggja að ákveðnu marki.

Ég efast ekki um það, að hv. 1. þm. Austurl. meinar það út af fyrir sig vel, þegar hann heldur fram lágvaxtastefnu. En því miður reynist hann með þeim málflutningi sínum vera málsvari verðbólgubraskara, vegna þess að það eru fyrst og fremst þeir sem græða á því, að raunhæf ávöxtunarkjör eru ekki í gildi hér í þjóðfélaginu.

Ég er þeirrar skoðunar, og segi það í tilefni af ræðu hv. 9. þm. Reykv., Einars Ágústssonar, að ég er í raun og veru þeirrar skoðunar, að Seðlabankinn eigi fyrst og fremst að ákveða eigin vaxtakjör, þ.e.a.s. í viðskiptum sínum við þá er við hann skipta, einkum og sér í lagi viðskiptabankana og ríkissjóð, en síðan eigi ávöxtunarkjör að vera frjáls og ráðast af lögmálum framboðs og eftirspurnar. En meðan Seðlabankinn hefur þetta vald er ekki óeðlilegt að honum séu sett einhver skilyrði eða viðmiðun sem hann fari eftir við notkun þess valds.

Ég er þeirrar skoðunar sömuleiðis, að þótt ákvörðun vaxta sé í höndum Seðlabanka Íslands, þá sé, að því er ég best man, fram tekið í lögum um Seðlabanka Íslands, að bankastjórn hans skuli hafa samráð við ríkisstj. um mikilvæg málefni. Ég veit ekki dæmi þess á undanförnum fjórum árum, að slíkt samráð hafi ekki verið haft við ríkisstj., og þarf ekki að ítreka það sem ég hef áður nefnt, að ákveðinn skoðanamunur var innan fráfarandi ríkisstj. varðandi vaxtamál sem bar að leysa og unnt var að ná samstöðu og samkomulagi um með ráðstöfunum, eins og t.d. stofnun vaxtaaukareikninganna 1976 og tilkomu þess fyrirkomulags að skipta vöxtum í grunnvexti og verðbótaþátt vaxta í ágúst 1977, en hvorar tveggja þessar ákvarðanir höfðu mjög heillarík áhrif. Þess vegna vil ég vænta þess, að framsóknarmenn séu sama sinnis og þeir voru þá, þegar þeir samþykktu grunnvexti og verðbótaþátt vaxta er breytast skyldi eftir ákveðnum reglum. Ef við fylgdum þeim ákvörðunum, þá hygg ég að mjög skammt sé á milli þeirra áhrifa, sem það frv. hefur, sem nú er til umr., ef samþ. yrði, og ef áfram hefði verið haldið framkvæmd ákvörðunar Seðlabanka Íslands og raunar fráfarandi ríkisstj. með vaxtaaukareikningum, grunnvöxtum og verðbótaþætti vaxta frá 1977.