16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4856 í B-deild Alþingistíðinda. (4180)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. fjmrh. er með flutningi þessa frv. til l. um sérstakt tímabundið aðlögunargjald verið að standa við það fyrirheit ríkisstj. til iðnaðarins í landinu sem fram kom við myndun ríkisstj. s. l. sumar, að bæta samkeppnisaðstöðu iðnaðarins og gera sérstakar ráðstafanir til að verja hann óhagstæðri samkeppni erlendis frá.

Ég tel að með framkomu þessa frv. og væntanlegri lögfestingu þess á Alþ. sé mjög þýðingarmiklu máli komið í höfn fyrir iðnaðinn í landinu. Eins og frv. ber með sér felur það í sér sérstaka gjaldtöku á innfluttar iðnaðarvörur án tillits til uppruna, og þetta gjald á að skila allverulegu fjármagni sem markað hefur verið með frv. að skuli renna til sérstakra iðnþróunaraðgerða. Álagning gjaldsins ein út af fyrir sig felur í sér nokkra verndun fyrir innlendan framleiðslu- eða samkeppnisiðnað, en auk þess eiga þeir tekjustofnar, sem fást við gjaldtöku þessa, að geta greitt fyrir mjög brýnum iðnþróunaraðgerðum á þessu ári og hinu næsta, en í lok ársins 1980 verður lokið aðlögunartíma íslensks iðnaðar að fríverslunarsamtökunum og samkeppnisiðnaður okkar hefur misst þá miklu tollvernd sem hann naut þegar við gerðumst aðilar að EFTA á sínum tíma.

Meðferð þessa máls á vettvangi ríkisstj., en þó alveg sérstaklega í þeirri kynningu og viðræðum sem farið hafa fram við aðila innan EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu, hefur verið afar lærdómsrík. Það var fallið frá þeirri stefnumörkun ríkisstj., ég hygg í nóv. s. l., að fresta tollalækkunum um síðustu áramót eins og fyrirhugað hafði verið. Þessi fyrirætlun hafði mætt verulegri andstöðu hjá EFTA og Efnahagsbandalaginu og ríkisstj. og meiri hl. á Alþ. óttaðist að einhliða frestun tollalækkana kynni að þýða mótaðgerðir af hálfu þessara bandalaga. Það varð hins vegar að ráði, þegar þessi niðurstaða lá fyrir í ríkisstj., að leitað yrði eftir framgangi þessa máls með öðrum hætti, og í byrjun ársins samþykkti ríkisstj. að athuga um að hækka jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur, sem lögfest var vorið 1978, úr 3% í 6%, og var sérstök nefnd starfandi á vegum rn. til þess að fara ofan í það mál og leita að rökstuðningi fyrir slíkri aðgerð. Þegar umsögn hennar lá fyrir snemma í febr. markaði ríkisstj. um það stefnu að hækkað skyldi jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur og jafnframt að þeim tekjum, sem þannig fengjust, skyldi varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða. Það var hins vegar jafnframt ákveðið að kynna þetta mál á vettvangi EFTA og Efnahagsbandalagsins til þess að vinna þessari aðgerð af okkar hálfu skilning á þeim vettvangi og draga úr líkum á að gripið yrði til mótaðgerða af þeirra hálfu.

Sérstök nefnd, sem viðskrn. og iðnrn. sendu til markaðsbandalaganna, kynnti þar málstað okkar og þreifaði fyrir sér um undirtektir við þær röksemdir sem ríkisstj. hafði viðað að sér til réttlætingar á þessari gjaldtöku. Þessi nefnd var undir forustu Inga R. Helgasonar, sérstaks fulltrúa viðskrh., og skipuð þrem öðrum mönnum. Hún ræddi við aðila í aðalbækistöðvum EFTA og Efnahagsbandalagsins, en kom auk þess við í Kaupmannahöfn og ræddi við fulltrúa dönsku ríkisstj. sem lögðu okkur verulegt lið í þessu máli, en sem kunnugt er eru Danir aðilar að Efnahagsbandalaginu og stuðningur þeirra við þetta mál og málstað okkar hefur reynst vera mikilsverður og ber að meta hann og þakka.

Eftir að nefnd þessi skilaði skýrslu til ríkisstj. síðla í febr. kom fram það mat hennar, að æskilegt kynni að vera að breyta um röksemdafærslu eða a. m. k. að afla málinu enn frekari skilnings hjá þeim þjóðum sem eru í Efnahagsbandalaginu og sérstaklega þó innan EFTA. Það varð því að ráði að viðskrn. og iðnrn., sem sérstaklega fóru með þessi mál, sendu enn eina nefnd utan, skipaða pólitískum fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna. Formaður þeirrar nefndar var sem hinnar fyrri Ingi R. Helgason lögmaður, en einnig voru þar með í ferð Einar Ágústsson fyrrv. utanrrh. og Eiður Guðnason alþm. svo og Jón Skaftason deildarstjóri í viðskrn. Þessi hópur heimsótti höfuðborgir allra EFTA-ríkja nema Portúgals og átti viðræður við ráðh. eða háttsetta aðila í þeim löndum og kynnti þar málefni Íslands og stöðu íslensks iðnaðar og þá nauðsyn, þá iðnaðarpólitísku nauðsyn sem lægi fyrir því að veita okkur lengri aðlögunarfrest og skapa hér svigrúm til bættrar stöðu innlends iðnaðar.

Ég vil að það komi hér fram, að ég tel að þessi sendinefnd hafi unnið alveg sérstaklega gott starf og það sé henni öðru fremur að þakka og ferð hennar og málflutningi að þetta mál hefur nú fengið þær lyktir á vettvangi EFTA-ráðsins í morgun að þessi aðgerð íslenskra stjórnvalda verður þar ekki einungis þoluð, heldur beinlínis samþykkt og það án nokkurra mótmæla eða athugasemda af hálfu EFTA-ráðsins. Með þessu er unninn verulegur sigur í þessu máli. Ég tel að það sé afar mikilsvert fyrir samskipti okkar við þessi bandalög, EFTA, sem við erum aðilar að, og Efnahagsbandalagið, með sérstökum samningi„ að mál okkar hafi verið túlkuð af slíkri festu og með þeim ágætum sem gert var af sendinefnd ríkisstj. Við getum átt eftir að hafa hag af þessari stöðu í framtíðinni í sambandi við samskipti okkar við þessi markaðsbandalög, bæði að því er varðar iðnaðinn í landinu, en einnig varðandi viðskipti við þau að öðru leyti. Mál þetta hefur ekki enn verið endanlega útkljáð gagnvart Efnahagsbandalaginu, en við teljum engar líkur á öðru en það fái þar viðunandi viðtökur og verði a. m. k. þolað. Embættismenn Efnahagsbandalagsins lögðu beinlínis til fyrir nokkru að jákvætt væri tekið á þessari aðgerð Ístands, svo að ljóst er að þar ríkir góður skilningur á þörf íslensks iðnaðar fyrir aukinn aðlögunartíma.

Það er hins vegar mjög lærdómsríkt í þessu máli einnig, að hér hafa ekki hrifið fyrst og fremst reikningsleg rök um ákveðið óhagræði sem íslenskur iðnaður á við að búa vegna gjalda sem á hann eru lögð innanlands, en hliðstæð gjöld eru óvíða fyrir hendi í löndum EFTA, heldur voru það öðru fremur hin iðnaðarpólitísku rök og skírskotun til aðstæðna íslensks iðnaðar sem hrifu á þessum vettvangi. Þess ber einnig að geta hér, sem fram kemur raunar í grg., að Haraldur Kröyer aðalfulltrúi Íslands hjá EFTA kom á vissu stigi þessara áþreifinga auga á þá leið sem reyndist hvað haldbest í þessu máli, og vann raunar afar ötullega að því að greiða fyrir því á allan hátt, en sú leið, sem hann benti á, var fyrirvari sem Gylfi Þ. Gíslason viðskrh. gerði á sínum tíma við inngöngu okkar í EFTA, þar sem hann tryggði með sérstökum hætti að Íslendingar fengju notið ákveðinnar tryggingar, sem hin gamalgrónu aðildarríki EFTA höfðu fengið á sínum tíma, til þess að gera sérstakar ráðstafanir seint á aðlögunartíma aðildar okkar að EFTA með því að grípa til sérstakra verndaraðgerða fyrir iðnað okkar. Sá fyrirvari, sem þá var gerður, hafði tvímælalaust mjög mikla þýðingu í þessu máli, því að það sem aðildarríki þessara bandalaga horfa kannske ekki hvað síst til er fordæmisgildið, að aðrir geti ekki farið í kjölfarið með svipuðum hætti. Vegna þess sérstaka fyrirvara sem gerður var 1970, er að þeirra mati talið tryggt að aðrir geti ekki farið í kjölfarið með sömu rökum og við Íslendingar nú höfum gert.

Ég vænti þess, að sú vernd sem íslenskur iðnaður fær notið af þessari gjaldsetningu, sem ætlað er að gildi út næsta ár, verði honum til framdráttar. Það má öllum vera ljóst að þörfin á fjárhagslegum stuðningi til iðnþróunaraðgerða hérlendis er afar brýn. Við þurfum að sjá vaxandi fjölda fólks fyrir störfum á nýjum vettvangi, í nýjum atvinnugreinum, og þar horfum við eðlilega helst til iðnaðarins. Þar verðum við að skapa þau tækifæri sem þurfa að koma í veg fyrir landflótta, burtflutning fólks úr landi, til þess að tryggja menntuðu og vel skóluðu ungu fólki störf við hæfi. Þannig blasa við fjölmörg knýjandi verkefni á sviði iðnaðar. Raunar var í gær dreift á borð þm. sérstöku þskj., sem ber heitið: „Till. til þál. um iðnaðarstefnu“ — og ef menn glugga í það hygg ég að þeir sjái að af mörgu er að taka þegar styðja þarf iðnþróunaraðgerðir. Þannig er ljóst að þörfin fyrir það fjármagn, sem hér á að fást, er í senn brýn og knýjandi að fá aukið fjármagn til iðnaðarins og ýmissa þátta á því sviði.