17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4880 í B-deild Alþingistíðinda. (4204)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að flytja hér fsp. til hæstv. forsrh. varðandi þinghaldið annars vegar og stefnu ríkisstj. í kaupgjalds- og kjaramálum hins vegar.

Það er nú kominn sá tími að venju samkvæmt er ekki óeðlilegt að hugsað sé til þingslita. Hefur það verið kunnugt öllum alþm. og m. a. borist í tal milli okkar hæstv. forsrh. Við í stjórnarandstöðunni höfum fyrir okkar leyti ekki staðið í vegi fyrir að þau mál hlytu hér afgreiðslu með þinglegum hætti sem ríkisstj. hefur viljað beita sér fyrir, þótt við höfum með efnislegum umr. og í atkvgr. gert grein fyrir afstöðu okkar til slíkra mála. Við erum hins vegar ekki með öllu ánægð í stjórnarandstöðunni með gang mála, og um leið og ég áskil okkur allan rétt varðandi afgreiðslu þeirra mála, sem ríkisstj. samkv. síðustu upplýsingum leggur áherslu á að hljóti afgreiðslu fyrir þingslit, vil ég enn fremur undirstrika að af okkar hálfu er ætlast til að mál fái þinglega meðferð þó að þau séu ekki á óskalista ríkisstj. sjálfrar eða flutt af henni.

Ég nefni í þessu sambandi sem dæmi mál sem er á dagskrá á þessum fundi Sþ., 5. mál á dagskrá, beinar greiðslur til bænda, þáltill., 16. mál, Sþ. Það mun vera svo um þetta mál, að það er flutt í þriðja skipti á þessu þingi og er komið að afgreiðslu þess, en eftir ýmsum sólarmerkjum að dæma sýnist að stjórnarliðið ætli sér með málþófi að koma í veg fyrir þinglega meðferð málsins og afgreiðslu. Ég vara við slíkum vinnubrögðum og vara við því að það getur dregið dilk á eftir sér.

Ég hef þær upplýsingar í persónulegu samtali við hæstv. forsrh., að stefnt sé að því að þinghaldi ljúki hér á miðvikudaginn kemur, 23. maí mun það vera. Ég vil í tilefni af því og í framhaldi af umr. sem hér áttu sér stað fyrir rúmri viku, 9. maí, einnig að frumkvæði mínu, um stefnu ríkisstj. í kaupgjalds- og kjaramálum, ítreka fsp. til hæstv. forsrh. sem þá var borin fram, hver stefna ríkisstj. sé í kaupgjalds- og kjaramálum. Í þeim umr. gerði hæstv. forsrh. grein fyrir þeirri skoðun sinni, að hann teldi, eftir að samkomulag ríkisstj. og BSRB var fellt í almennri atkvgr., að ekki ættu eingöngu félagsmenn BSRB og BHM að fá umrædda 3% grunnkaupshækkun, heldur ættu allir launþegar í landinu að fá samsvarandi grunnkaupshækkun, en utan BSRB og BHM gæti þetta ekki átt sér stað nema í frjálsum samningum milli aðila vinnumarkaðarins. Ég vonast til þess að ég hafi skilið hæstv. forsrh. rétt eins og hann greindi frá skoðun sinni fyrir rúmri viku.

Síðan hafa a. m. k. tveir hæstv. ráðh. Framsfl., þeir Tómas Árnason fjmrh. og Steingrímur Hermannsson dóms- og. landbrh., greint frá þeirri skoðun sinni, og raunar hygg ég þá skoðun vera studda samþykkt framsóknarmanna, framkvæmdastjórnar og þingflokks Framsfl., að rétt væri að 3% grunnkaupshækkun yrði almenn og lögbundin, a. m. k. upp að ákveðnu launamarki, og um leið væri sett vísitöluþak svokallað með lögbindingu, en hvort tveggja þetta væri ekki fullnægjandi, heldur þyrfti og til að koma bann — lögbundið bann við frekari grunnkaupshækkunum svo og bann við verkföllum fram til áramóta. Ég vonast til að þessir hæstv. ráðh. leiðrétti mig ef ég hef eitthvað missagt um skoðanir þeirra eða samþykktir Framsfl. í þessum efnum.

Þá hefur það og komið fram að einn stjórnarflokkanna, Alþb., og einkum einn ráðh. Alþb., hæstv. viðskrh., hefur lýst þeirri skoðun sinni og þeirra Alþb. manna, að það væri eðlilegt og sjálfsagt að 3% grunnkaupshækkun yrði lögleidd almennt að ákveðnu launamarki, sem þeir hafa verið að tala um að yrði 230–250 þús. kr., og síðan yrði einnig lögbundið ákveðið vísitöluþak, þ. e. a. s. að fullar vísitöluuppbætur yrðu greiddar af ákveðinni launahæð, 380–400 þús. kr., en til þeirra, sem hærri laun hafa, sama krónutala og aðrir fá mest. Hins vegar hefur Alþb. og málsvarar þess lýst algerri andstöðu sinni við till. Framsfl. um lögbindingu grunnkaups eða afnám samningsréttar eða verkfallsréttar fram til áramóta. Ég bið sömuleiðis málsvara Alþb. hér á þingi að leiðrétta mig ef ég fer ekki rétt með þeirra mál.

Um Alþfl. veit ég minna, en hann mun hafa vísað til fyrri till. sinna innan og utan ríkisstj. í kaupgjalds- og kjaramálum og skal ég því ekki fjölyrða frekar um þær till. En ekki væri úr vegi að málsvarar hans upplýstu þær till. sem sá flokkur hefur í þessum efnum.

Þegar á þetta er litið, sem ég hér hef nú rakið, er ljóst að það er engu ljósara nú en var fyrir 8 dögum hver stefna ríkisstj. er í kaupgjalds- og kjaramálum. Og þá kröfu verður að gera að ríkisstj. upplýsi þingheim um stefnu sína í kaupgjalds- og kjaramálum. Við sjálfstæðismenn gerum þá kröfu að þingi verði ekki slitið fyrr en ríkisstj. hefur upplýst þingheim um stefnu sína í kaupgjalds- og kjaramálum, og einkum er þessi krafa ítrekuð og undirstrikuð ef ríkisstj. hyggst leita atbeina löggjafarvaldsins til þess að koma málum fram á þessu sviði. Hér skulu því sögð þau aðvörunarorð, að algerlega er óeðlilegt ef ríkisstj. hyggst eftir þingslit ráða málum þessum með útgáfu brbl. og tilskipana. Einkum eiga þessi aðvörunarorð við þar sem engin stefnumótun liggur enn fyrir og algerri óvissu er háð hvort það, sem ríkisstj. hyggst gera eða hluti ríkisstj. hyggst gera, muni hafa meirihlutafylgi hér á Alþ. Aðvörunarorðin lúta því að því að ríkisstj. taki ekki upp þau vinnubrögð að fara á svig við vilja meiri hl. Alþ. með því að slíta þingi og hyggjast síðan í krafti brbl.-útgáfu og tilskipana koma þeim vilja fram sem er í andstöðu við meirihlutavilja Alþ. Slíkt væri bæði óþingræðislegt og ólýðræðislegt.