17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4932 í B-deild Alþingistíðinda. (4261)

Almennar stjórnmálaumræður

Bjarnfríður Leósdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í síðustu alþingiskosningum hafnaði þjóðin ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, tæki auðvaldsstéttarinnar í landinu til að deila og drottna yfir kjörum almennings.

Við myndun núv. ríkisstj. var ástandið í efnahagsmálum orðið mjög alvarlegt, atvinnutækin að stöðvast og kaupmáttur launa verkafólks á hraðri leið niður á við. Ef þau lög, sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar setti á laun verkafólks, væru enn í gildi mundi eftir- og næturvinna vera orðin á svipuðum taxta og dagvinna.

Fyrsta verk þeirrar nýju ríkisstj., sem tók við völdum s. l. haust í kjölfar alþingiskosninganna, var að gefa út brbl. sem fólu í sér að samningarnir komu að fullu í gildi fyrir allan þorra félagsmanna innan ASÍ. Með þessari lagasetningu lauk 7 mánaða varnarbaráttu verkalýðssamtakanna gegn kjaraskerðingarlögunum frá því í febr. og maí. Þess vegna er það aumkunarvert og næstum hlálegt þegar kaupránspostular Sjálfstfl. gerast nú sérstakir talsmenn verkafólks. Grátsöngur þeirra um að núv. ríkisstj. hafi ekki sett samningana í gildi er svolítið hjáróma.

Þegar ég tala um samningana í gildi fyrir allan þorra félagsmanna innan ASÍ, þá minni ég á þá yfirlýstu stefnu Alþýðusambands Íslands, sem mörkuð var á síðasta Alþýðusambandsþingi, að vísitala skuli mæla upp að vissu marki og síðan vera krónutala þar fyrir ofan. Ég fullyrði að í huga hvers einasta verkamanns er þetta að setja samningana í gildi. Að rétta fólki sem vísitöluuppbætur jafnvel hundruð þúsunda á mánuði, hærri upphæð en sem nemur mánaðarlaunum verkafólks, eins og sannaðist í flugmannadeilunni, er að ofbjóða réttlætiskennd alls almennings, — að vegna hækkana á þjónustu, svo sem rafmagni eða síma eða þá matvöru, t. d. eins og mjólk, eigi hátekjumenn að fá kannske hundruð þúsunda á mánuði til að mæta þessum hækkunum meðan heimili alþýðufólks fær nokkur þúsund.

Í efnahagsfrv. því, sem hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson lagði fram á Alþ. og hv. þm. Vilmundur Gylfason vildi leggja óbreytt undir þjóðaratkvgr., var í kaflanum um vísitölu lagt til að hún skyldi mæla upp úr. Ég held að fæstir séu búnir að gleyma þeim átökum sem urðu hér í þinginu milli stjórnarflokkanna út af þessu frv. og ekki síst ákvæðinu um vísitöluna, þar sem Alþb. stóð við hlið verkalýðshreyfingarinnar gegn þeim breytingum sem á eru orðnar.

Þess vegna er flugmannadeilan ekki orsök eða upphaf að þeim vanda sem við stöndum andspænis nú, heldur afleiðing af rangri stefnu. Kauphækkun þeirra var eingöngu í því fólgin að þakinu var lyft af vísitölunni.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var haft samráð við verkalýðshreyfinguna. Á sameiginlegum fundi miðstjórnar Alþýðusambandsins og stjórnar landssambanda innan þess í ágústlok 1978 var samþ. að leggja til við verkalýðsfélögin að þau framlengdu kjarasamninga sína í eitt ár eða til 1. des. 1979, án grunnkaupshækkana. Var þetta gert í samhengi við þá yfirlýsingu stjórnarflokkanna að sólstöðusamningarnir tækju gildi 1. sept., en sett yrði þak á greiðslu vísitölu. Í samþykktinni var gengið út frá því, að aðgerðir í efnahagsmálum yrðu ekki látnar skerða kaupmátt launa frá samningum 1977, að allar aðgerðir stjórnvalda miðuðu að því að tryggja fulla atvinnu í landinu, að ríkisstj. hefði fullt samráð við verkalýðshreyfinguna um félagslegar aðgerðir og um aðgerðir í efnahagsmálum, einkum skattlagningu, niðurgreiðslu vöruverðs og annað sem haft gæti veruleg áhrif á kaupmátt launa.

Að undanförnu hefur verðbólgan magnast og miklar verðhækkanir gengið yfir sem ekki er hægt að rekja til hækkana á kaupi almenns launafólks. Nú er ljóst að allir opinberir starfsmenn munu fá 3% grunnkaupshækkun frá 1. apríl að telja. Vísitöluþakið hefur verið afnumið, fyrst með kjaradómi, en síðan með lögum um efnahagsmál, með þeim afleiðingum að þeir launahæstu hafa fengið mestar launahækkanir og launamismunur þannig aukist í þjóðfélaginu.

Við þessar aðstæður getur verkafólk ekki beðið aðgerðalaust. Forsenda samkomulagsins frá því í sept. er brostin. Miðstjórn Alþýðusambandsins hefur sent frá sér ályktun þar sem hún krefst þess að launakjör verði jöfnuð með kauphækkun til almenns launafólks.

Alþb. hefur lagt fram tillögur innan ríkisstj. um 3% grunnkaupshækkun. Þak verði sett á vísitöluna eins og samkomulagið við verkalýðshreyfinguna var og verðhækkanir stöðvaðar nema vegna erlendra verðhækkana og annarra þeirra hækkana sem ekki verður undan vikist.

Þetta verður ríkisstj. að gera til þess að komast aftur á þá braut sem hún markaði í samstarfsyfirlýsingunni við verkalýðshreyfinguna s. l. haust, minnug þess að engin ríkisstj. getur starfað í trássi við verkalýðshreyfinguna í landinu og allra síst sú ríkisstj. sem hefur sett sér það markmið að gæta hagsmuna hennar.

Nú á þessum vordögum, þegar þinghaldi er senn að ljúka, verður mönnum eðlilega hugsað til þess, hvort einhver árangur hafi orðið af starfi þessarar ríkisstj., hvort þm. hafi almennt komist upp úr mógröfunum til þess að sinna vorverkum, eins og þingforseti komst að orði eftir að efnahagsfrv. hæstv. forsrh. var orðið að lögum.

Eitt af vorverkum þingsins var að ljúka afgreiðslu á þeim félagslegu réttindabótum sem ríkisstj. hét í des. s. l. Þessar réttindabætur verða aldrei mældar í prósentum. Þarna er um að ræða mörg þau réttindamál, sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir frá upphafi vega. Eitt mikilsverðasta réttindamálið er lengdur uppsagnarfrestur og aukin réttindi í veikinda- og slysatilfellum. Nú á fólk, sem búið er að vinna í 5 ár hjá sama atvinnurekanda, rétt á allt að þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þessi nýmæli bæta mjög úr því algjöra réttleysi sem verkafólk hefur búið við í þessum efnum. Þá hefur verið lögfestur réttur verkafólks til þriggja mánaða dagvinnulauna. Eftir 5 ára starf hjá sama atvinnurekanda getur fólk átt rétt á allt að 6 mánaða launum í veikinda- og slysatilfellum í stað 6 vikna hámarks áður. 40 stunda vinnuviku mun nú ljúka kl. 5 á föstudögum og eftir þann tíma tekur næturvinna við. Því miður tókst ekki að koma því í framkvæmd núna að eftirvinna legðist niður í áföngum, eins og til var ætlast, en það mun takast í næstu lotu.

Mörg fleiri atriði mætti nefna sem horfa til mikilla bóta, svo sem lög um orlof, um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot fyrirtækja, heimild til að taka með lögtaki án dóms vanskil á umsömdum greiðslum í sjúkra- og orlofssjóði, og nú liggur á borði þm. frv. til laga um aukin réttindi sjómanna í slysatilfellum og von er á frv. um forgang á greiðslu launa sjómanna áður en útgerð fær greitt úr Aflatryggingasjóði, auk þess frv. um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Eitt af vorverkum þingsins er að lagt hefur verið fram frv. til laga um eignarupptöku ríkisins á Deildartunguhver til að nýta orku hans til hitaveitu fyrir Akranes og byggðir Borgarfjarðar. Þetta mál er búið að veltast allt of lengi til tjóns fyrir alla aðila. Nú hefur hæstv. iðnrh. Hjörleifur Guttormsson tekið af skarið og lagt til þjóðnýtingu á þessum orkugjafa. Það ætti að vera forgangsverkefni þessarar ríkisstj. að nýta innlenda orku til að hita upp allt húsnæði á Íslandi.

Eftir síðustu olíuhækkun verður hitakostnaður þeirra, sem verða að hita íbúðir sínar með olíu, ofviða mörgum heimilum, þrátt fyrir það að olíustyrkurinn hefur nú verið hækkaður verulega.

Hjá ríkisstj. liggur fyrir till. frá ráðh. Alþb. um að þjóðnýta olíusöluna. Hæstv. viðskrh. Svavar Gestsson skýrði frá því í sjónvarpsumr. nú fyrir stuttu, að gróði og afskriftir olíufélaganna hefðu verið á árunum 1968–1977 27 milljarðar. Væri þessu fé ekki betur varið t. d. til að greiða niður olíuverð sem er að sliga niður skipaflota landsmanna, fyrir utan þá sem kynda hús sín með olíu.

Nú liggur fyrir vegáætlun þar sem engar stórframkvæmdir eru fyrirhugaðar í vegagerð. Þessi gróði olíufélaganna er stærri upphæð en framreiknaður kostnaður á núverandi verðgildi Borgarfjarðarbrúar, vegarins til Keflavíkur, að Selfossi, yfir Skeiðarársand og brúar á Ölfusá. En þetta er aðeins eitt dæmi um það, hvernig einkagróðinn er látinn ganga fyrir sameiginlegum hagsmunum þjóðarinnar.

Almennt launafólk í landinu væntir sér nokkurs af þessari ríkisstj. Þrátt fyrir þau mistök, sem orðið hafa í stjórnarsamstarfinu og vegna utanaðkomandi áfalla, eins og olíuhækkunarinnar, er það enn von verkafólks að þessi stjórn haldi áfram, því þrátt fyrir alla erfiðleika hefur henni enn þá tekist að halda kaupmætti launa verkafólks. Í fréttabréfi Kjararannsóknarnefndar frá því í apríl s. l. kemur fram að kaupmáttur þessa fólks er sá sami og samið var um í sólstöðusamningunum 1977. Ef ríkisstj. tekst að koma sér saman um stefnu sem felur í sér aðgerðir sem halda hlut verkafólks, stemmir stigu við launaskriði hálaunahópa með því fyrst og fremst að koma þeim undir vísitöluþak og heldur í við verðhækkanir mun hún eiga vísan stuðning verkalýðshreyfingarinnar.

Herra forseti. Ég mun ljúka máli mínu með þeirri frómu ósk, að fagleg og pólitísk verkalýðsbarátta megi standa af sér arðræningjans galdur. — Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.