17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4935 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

Almennar stjórnmálaumræður

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég man fyrst fara nokkrum orðum um fjármál ríkisins og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1979.

Fyrst er að taka fram að ríkissjóður hefur verið að safna skuldum á s. l. árum. Við síðustu áramót námu skuldir ríkissjóðs samtals rúmum 26 milljörðum kr. Greiðsluhalli á árinu 1978 nam 6.7 milljörðum þegar greiddir höfðu verið 3.4 milljarðar upp í skuldir við Seðlabankann. Skuldaaukning s. l. árs nam því rúmum 3 milljörðum kr. Auk þess voru erlendar skuldir ríkisins færðar upp í krónum og höfðu aukist um 7.5 milljarða. Hér er ekki um viðbótarskuld að ræða, heldur hækkun í innlendum krónum vegna lækkandi gengis. Ríkisskuldirnar hækkuðu því á s. l. ári um 11 milljarða kr. Ef skuldastaða í árslok 1977 er miðuð við tekjur ríkissjóðs það ár reyndust skuldirnar 15.6% af tekjunum. Sambærileg tala fyrir árið 1978 er 17%.

Það má öllum vera ljóst, að óskynsamlegt er að auka ríkisskuldirnar frá því sem nú er. Mér sýnist að vextir af skuldum ríkissjóðs nálgist 5% af tekjunum. Auk þess verður ríkissjóður að greiða vexti og afborganir af framkvæmdum við Kröflu sem nema á þessu ári 2.4 milljörðum kr. Þetta er nýr útgjaldaliður á fjárlögum. Þessari þróun mála verður að snúa við. Alþ. og ríkisstj. verða að breyta um stefnu ef ekki á illa að fara.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð 1. sept. s. l. blasti við fjölþættur vandi í efnahags- og atvinnumálum sem dregist hafði um langan tíma að leysa. Þessi vandi var fyrst og fremst afleiðing vægðarlausrar kröfugerðar og langvinnrar verðbólgu. Ríkissjóður tók þá á sig mikla fjárhagsbyrði og hluta af verðbólguvandanum var breytt í ríkisfjármálavanda. Það var m. a. þessi vandi, ásamt nokkrum óvenjulegum málum sem kosta ríkissjóð stórfé, sem gerði afgreiðslu fjárlaganna erfiða. Að mínu mati er það ein af forsendum árangurs í viðnámi gegn verðbólgunni að jöfnuður náist á þessu ári í ríkisfjármálum og auk þess verði sú skuld, sem stofnað var til s. l. haust vegna efnahagsráðstafana, greidd að fullu.

Frv. til fjárlaga var byggt á þessari stefnu og samið með það fyrir augum að það mundi að öðru leyti vinna gegn verðbólgunni, vera hagstjórnartæki í þeirri baráttu. Höfuðeinkenni þeirrar stefnu, sem fjármálaafgreiðslan boðaði, fólst í verulegum tekjuafgangi fjárlaganna, auk þess sem ríkisstj. hefur heimild til að skera ríkisútgjöldin niður um 1 milljarð króna. Ég geng mjög ríkt eftir að þessi samþ. verði framkvæmd og mun gefa Alþ. skýrslu um með hverjum hætti það verður gert. Ljóst er þó að verulegar launahækkanir skella á ríkissjóð umfram það sem gert var ráð fyrir. Þar má nefna almennt hækkandi launakostnað, afnám verðbótaþaks samkv. niðurstöðum Kjaradóms og greiðslu 3% grunnkaupshækkunar opinberra starfsmanna.

Á þessu stigi skal ég ekki spá neinu um það, hve aukin umsvif í þjóðfélaginu og innflutningur skila miklum viðbótartekjum í ríkissjóð, en vel má halda á spilum ef afkoman á að verða viðunandi á árinu.

Þá er varið 19 milljörðum kr. til að greiða niður verðlag á landbúnaðarvörum. Sú ákvörðun að fella niður söluskatt af matvörum rýrir tekjur ríkissjóðs um 5 milljarða. Það verður því varið samtals um 24 milljörðum kr. á þessu ári til þess beinlínis að greiða niður verð á brýnustu nauðsynjavörum. Það eru takmörk fyrir því, hve langt skal ganga í niðurgreiðslum þar sem þær skapa gífurlegt tekjuöflunarvandamál. Nýsett lög um stjórn efnahagsmála mæla fyrir um takmarkaðar niðurgreiðslur.

Mikilla tekna er aflað með beinum sköttum, einkum á tekjuháa aðila í þjóðfélaginu. Þetta er öðrum þræði gert beinlínis vegna þess að beinu skattarnir ganga ekki inn í vísitölugrundvöllinn, eins og kerfið er, og skrúfa því ekki sjálfkrafa upp kaupgjald og verðlag. Með aukinni skattheimtu er dregið úr eftirspurn og þenslu í efnalagslífinu. Ég fullyrði að ekki er gengið lengra í skattheimtu en nauðsyn ber til. Við þessar hættulegu og óvenjulegu aðstæður í íslensku efnahagslífi verður ekki komist hjá því að tryggja afkomu ríkissjóðs. Það verður að vera þýðingarmikill þáttur nýrrar efnahagsstefnu.

Þá verður dregið lítillega úr opinberum framkvæmdum samkv. fjárlögum og úr framlögum ríkisins til fjárfestingar í atvinnulífinu. Þetta er gert til að draga úr spennunni í efnahagsmálum til að minnka verðbólguna. Að gefnu tilefni vil ég þó geta þess, að Byggðasjóður hefur til ráðstöfunar á þessu ári hlutfallslega svipað fé og á síðasta ári.

Að lokum verður um að ræða verulegan samdrátt í rekstrarútgjöldum ríkisins. Hert verður aðhald að því er varðar nýjar stöður í kerfinu og dregið úr kostnaði eins og framast er unnt. Þannig er fjárlögunum ætlað að vinna gegn verðbólgunni, hægja á verðbólguhjólinu.

Afgreiðsla fjárlaganna er því liður í þeirri stefnu að vinna gegn hinni háskalegu verðbólgu sem vegur vægðarlaust að undirstöðum efnahagslífs þjóðarinnar. Það er ekki vandalaust verk að vinna að fjárlagagerð við núverandi aðstæður í efnahagsmálum. Það er allt of mikil hreyfing og óvissa um framtíðina. Eigi að síður tókst samvinna um afgreiðslu fjárlaga sem ég var eftir atvikum ánægður með. Ég er hins vegar ekki eins ánægður með sumt af því sem síðar hefur gerst. En það er önnur saga.

Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. var samþ. á ríkisstjórnarfundi 1. febr. s. l. Í fyrradag var endanlega afgreitt sem lög frá Alþ. frv. um heimildir til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna áætlunarinnar. Í lögum um stjórn efnahagsmála o. fl. eru sérstök ákvæði um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. Þar er t. d. lögfest að ríkisstj. leggi fyrir Alþ. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir eitt ár í senn og hún skuli fylgja fjárlagafrv. Markmið slíkrar áætlunar á samkv. lögunum að vera að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum og að fjármagi sé beint til þeirra framkvæmda sem skila mestum arði í þjóðarbúið. Að sjálfsögðu ber ætíð að taka ríkt tillit til félagslegra sjónarmiða. Síðan eru mörg ákvæði í lögunum um áætlunina, bæði undirbúning hennar og meðferð svo og hvað í henni skuli felast. Ég álít að þessi nýsettu efnahagslög verði til mikilla bóta í hagstjórn, þótt þau leysi vissulega ekki allan okkar vanda.

Samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður heildarfjárfestingin í landinu innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu 1979 samanborið við 26–27% árið 1978. Áætluð fjárfesting á árinu nemur yfir 180 milljörðum kr. Hér er um það að ræða að draga heldur úr fjárfestingunni til þess að minnka spennuna í efnahagsmálum og reyna á þennan hátt að draga úr verðbólgunni án þess þó að samdrátturinn leiði til atvinnuleysis.

Ég vil vekja athygli á því, að þessi meginstefna og rökstuðningur fyrir henni hefur ekki sætt gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar. Ríkisstj. hefur lýst því yfir, að hún muni endurskoða fjárfestingaráætlanir í orkumálum með hliðsjón af olíuverðshækkunum til þess að hraða framkvæmdum sem spara olíunotkun. Hins vegar verður við það miðað að heildarfjárfestingin verði innan við 25% af þjóðarframleiðslu á árinu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er lögð á það áhersla að stefnt verði að jöfnuði í viðskiptum við útlönd og dregið verði úr erlendum lántökum. Á þessu ári munu áætlaðar nettólántökur minnka ef miðað er við útflutningstekjur og verga þjóðarframleiðslu. Greiðslubyrði erlendra lána mun hins vegar verða svipuð og verið hefur undanfarin ár.

Árið 1978 var að mörgu leyti hagstætt ár, framleiðslustarfsemi í meðallagi og eðlilegt jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Það, sem þó setti svip á þróun efnahagsmála ársins, var hin hrikalega verðbólga sem magnaðist fram eftir árinu m. a. fyrir áhrif óraunhæfra kjarasamninga sem mögnuðu víxlgang kaupgjalds og verðlags svo mjög að verðbólgan var komin yfir 52% í ágústlok

Ég vil minna sjálfstæðismenn á það, að svona var komið eftir 4 ára forustu þeirra í ríkisstj. Fyrir áhrif fyrstu aðgerða ríkisstj. í byrjun sept. og ráðstafana 1. des. tókst að lækka verðbólguna niður í 38% í árslok.

Í baráttunni við verðbólguna verður að beita samræmdum aðgerðum í efnahagsmálum nánast á öllum sviðum hagstjórnar. Löggjöfin um stjórn efnahagsmála o. fl. markar tímamót í þessum efnum. Þar er einmitt að finna lögfestingu á nauðsyn samræmdrar hagstjórnar. Ríkissjóð þarf að reka hallalaust, fjárfestingu verður að stilla í hóf, án þess að skapa atvinnuleysi. Útlánaaukningu bankakerfisins og fjárfestingarlánasjóðanna verður að halda innan við áætlaða aukningu þjóðarframleiðslu. Þá verður að flýta framkvæmd á lögum um stjórn efnahagsmála o. fl., m. a. ákvæðum um verðtryggingu inn- og útlána.

En allt er þetta unnið fyrir gýg ef stefnan í kjaramálum er ekki einnig samræmd öðrum þáttum efnahagsmála og heildarkjarasamningar gerðir innan þeirra kostnaðarmarka sem efnahags- og atvinnulífið þolir hverju sinni. Líkja má hinu margþætta efnahagskerfi við keðju, hún verður ekki sterkari en veikasti hlekkur hennar.

Það eru vissulega fleiri mál en launamál sem valda verðbólgunni, en launamálin hafa mjög mikla þýðingu í þessum efnum, sérstaklega vegna vísitölukerfisins.

Framsfl. hefur markað ákveðna og skýra stefnu í efnahagsmálum. Hann telur að miklar hækkanir launa við núverandi aðstæður leiði til nýrrar öldu óðaverðbólgu og öngþveitis í þjóðfélaginu. Við leggjum ríka áherslu á kaupmáttarstefnu í launamálum, en teljum krónutölukauphækkun gagnslausa ef hún kafnar í óstöðvandi verðbólguflóði. Kaupmáttarstefnan byggir á því að halda verðbólgunni niðri og tryggja á þann hátt kaupmátt launanna. Þessi stefna stuðlar að örari uppbyggingu atvinnulífsins og hefur alls staðar í heiminum hraðað framförum og hagstæðri framvindu efnahagsmála og efnahags almennings. Þegar til lengdar lætur tryggir hún betri kjör og traustari afkomu og meira réttlæti í efnahagsmálum.

Við leggjum áherslu á að gildandi vísitölukerfi hafi reynst mjög verðbólguhvetjandi og magnað víxlhækkun kaupgjalds og verðlags umfram það sem kerfið þolir. Verulegur árangur á sviði efnahagsmála er því að okkar mati nátengdur breyttu vísitölukerfi sem taki m. a. mið af því, að breytingar á óbeinum sköttum og niðurgreiðslum hafi ekki áhrif á verðbótavísitölu launa, vísitölubætur taki einnig mið af breytingu viðskiptakjara og tímabil milli verðbótadaga verði fyrst um sinn lengt frá því sem nú er.

Nokkur árangur náðist við setningu efnahagslaganna, en þó hvergi nærri nægur. En að þessum umbótum þarf að vinna áfram. Allir stjórnmálaforingjar á Íslandi hafa fordæmt þetta vísitölukerfi, meira að segja Lúðvík Jósepsson, sem sagði orðrétt í ræðu á Alþ. sumarið 1974, „að okkar vísitölukerfi, eins og það nú er, fái ekki staðist á slíkum verðsveiflutímum eins og nú ganga yfir.“ En verðsveiflur hafa magnast um allan helming frá þeim tíma sem þetta var sagt.

Ég er því þeirrar skoðunar, að við Íslendingar náum ekki tökum á efnahagsmálunum nema vísitölukerfið verði afnumið. Staða efnahagsmálanna á s. l. hausti var á hættulegu stigi: yfir 52% verðbólga í landinu, skuldasöfnun hjá ríkissjóði og yfir vofði stöðvun atvinnulífsins. Það þarf mikið átak til þess að snúa þessu við. Það tekur sinn tíma að ná viðunandi árangri. Við s. l. áramót var verðbólgan komin niður í 38%, en þar við má ekki stansa og nú eru hættulegar blikur á lofti.

Þau viðhorf, sem blasa við í efnahagsmálum þjóðarinnar, kalla á skjótar og hiklausar aðgerðir. Ríkisstj. og Alþ. eru valin til að stjórna landinu. Ríkisstj. á að stjórna, en ekki að láta stjórna sér. Ef hún getur ekki stjórnað á hún að fara frá og önnur taka við. Ríkisstj. á að hafa kjark til að takast á við vandann.

Ég er þeirrar skoðunar, að ríkisstj., Alþ. og aðilar vinnumarkaðarins eigi um tvo aðalkosti að velja. Annar kosturinn er leið Sjálfstfl., að láta vinnumarkaðinn algjörlega um samninga um kaup og kjör, láta sem sé skeika að sköpuðu.

Farmenn fara fram á miklar kauphækkanir. Sama er að segja um mjólkurfræðinga. Fleiri munu koma í kjölfarið og knýja fram kröfur sem kunna að enda í 100% verðbólgu á næsta ári, eins og Vinnuveitendasambandið spáir. Ef hálaunahópar brjótast áfram með miklar launahækkanir, er þá eðlilegt að láglaunamenn haldi að sér höndum? Ég held ekki. Það er hárrétt hjá dómsmrh., að þessi leið, sem sjálfstæðismenn prédika nú, er nákvæmlega sú sem leiddi til heimskreppunnar miklu. Í Bandaríkjunum var það umbóta- og skipulagsstefna Roosevelts forseta sem batt enda á kreppuna. Ég vek athygli á því, að Sjálfstæðisfl. talar nú þvert á það sem hann gerði fyrir ári þegar hann var í forustu í ríkisstj.

Hinn kosturinn er sá, að Alþ., ríkisstj. og aðilar vinnumarkaðarins hafi samstöðu um að stöðva þessa óheillavænlegu þróun. Æskilegast væri að það yrði gert með samkomulagi, en ég álit að ríkisstj. hljóti að verða að hafa forustu í þessum málum því ella er veruleg vá fyrir dyrum í efnahagslífi þjóðarinnar sem kann að hafa alvarleg og örlagarík áhrif á afkomu manna á næstu mánuðum og missirum. Fyrst verður að korna í veg fyrir almennar grunnlaunahækkanir umfram 3% a. m. k. fram að áramótum. Það þarf að skapa viðspyrnu og svigrúm til þess m. a. að undirbúa nýja heildarkjarasamninga frá áramótum til tveggja ára til þess að skapa staðfestu í íslenskum efnahagsmálum.

Þetta er aðalatriði þeirrar stefnu sem Framsfl. vill marka í þeirri hættulegu stöðu efnahags- og atvinnumála sem þjóðin stendur nú andspænis. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.