18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5036 í B-deild Alþingistíðinda. (4357)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Ég mun að sjálfsögðu, herra forseti, fara eftir þeim eindregnu tilmælum sem hefur verið beint til mín, að tala stutt og hefði raunar getað fallið frá orðinu. Það er ástæðulaust að vera að karpa um svona hluti. En ég ætlaði enn og aftur að leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. 3. landsk. þm., að ég hefði flutt nál. eða rökst. dagskrá til þess að verja og vernda viðskiptahagsmuni tiltekinna aðila. Ég hef ekki skrifað undir dagskrána af því tilefni, eins og ég hef oft tekið fram. Ég lét þó seint væri, fara fram í rn. nokkra athugun á hvort ekki væri hægt að skipa þessum málum með öðrum hætti, sem vafalaust þýddi þá að þeir viðskiptahagsmunir, sem hv. þm. ræddi um og telur að ég sé sérstakur talsmaður fyrir, mundu minnka að sama skapi. Og það er ekki neitt aðalatriði í mínum huga, að einhver tiltekinn aðili sitji að þessum viðskiptum eða verkefnum. Fyrir mitt leyti finnst mér ósköp eðlilegt að verktakar á Suðurnesjum, sem hafa myndað með sér félag, félagið Suðurnesjaverktaka, fái a. m. k. einhvern skerf af þeirri vinnu sem þarna fellur til, ekki síst með hliðsjón af því atvinnuástandi sem á Reykjanesi ríkir. Ég held að ég hafi síður en svo lagt stein í götu þeirra á því stutta skeiði sem þeir hafa starfað. Ég hef reynt að beita mér fyrir því, að þeir fengju verkefni sem Aðalverktökum hefðu þegar verið falin með allsherjarsamningum sem gerðir voru fyrir ári, eins og þm. allir vita, þannig að ég tek þetta ekki til mín. Ég vona að þetta sé á misskilningi byggt og það verði viðurkennt þegar fram liða stundir að svo sé.

Ég hlýt að þakka hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir þá kennslustund sem hann veitti mér í því, hvaða hlutverk umboðsmaður Alþingis ætti að hafa. Mér er vel kunnugt um það sem hann nefndi hér, að umboðsmaður eða „ombudsmand“ eins og hann heitir á öllum málum nema þá íslensku, á fyrst og fremst að vera málsvari lítilmagnans í þjóðfélaginu gagnvart yfirvöldum og röngum ráðstöfunum. En ég bendi á að hér hefur þetta embætti ekki enn þá verið stofnað og er þar af leiðandi eftir að skilgreina hlutverk þess embættismanns og þess starfsliðs sem hann hefur. Mér hefur komið til hugar að hann gæti fjallað um þessi mál einnig.

Ég held að það sé um fleiri tegundir misskilnings að ræða hér í þingsölum. Ég held að samkv. þeim þingsköpum, sem við störfum eftir, sé ekki ætlast til þess, að nefndir Sþ. hafi með höndum rannsóknastörf. Ég er ekki að segja að það megi ekki breyta þessu. Ég vísa til þess, að allir þingflokkar hafa tilnefnt menn til þess að endurskoða þingsköp. Vitanlega má í þeirri endurskoðun og hinni nýju útgáfu þingskapa taka upp ákvæði sem gera þetta rannsóknarstarf mögulegt og ótvírætt.

En ástæðan til þess, að ég stóð upp og ætla að segja þessi fáu orð hér, er það sem hv. 3. landsk. þm. sagði síðast í ræðu sinni, nefnilega að hann virtist, að mínu mati, meina að meiri hl. þn. ætti að taka að sér rannsóknarstörf. (ÓRG: Það er mesti misskilningur.) Er það misskilningur? (ÓRG: Já.) En mér heyrðist endilega hv. þm. segja að það ætti að gefa þeim, sem áhuga hefðu á því að taka að sér rannsóknarstörf, tækifæri til þess. Nú er það ljóst, að aðeins meiri hl. utanrmn. hefur þennan áhuga, minni hl. ekki. Ég skildi því ummælin þannig, að hér væri talað um að kljúfa n. og hluti hennar rannsakaði málið, en hinir sætu hjá og treystu á þær upplýsingar sem meiri hl. aflaði. Sé þetta misskilningur fagna ég því, því að slíkt væri vitanlega alveg fráleitt og gæti aldrei gengið.

Ég sé enga ástæðu til þess, herra forseti, að vera að níðast á þolinmæði þings og forseta með því að fjölyrða meira um þetta mál. Alþ. segir álit sitt í atkvgr. þegar þar að kemur. Ég hef lýst skoðun minni.