19.05.1979
Neðri deild: 93. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5072 í B-deild Alþingistíðinda. (4422)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Frsm. minni hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Staða mín í þessari hv. d. er með þeim hætti, að það er ekki auðvelt fyrir mig að fara að halda langar ræður í þeim málum sem nú eru til umr. á allra síðustu stundum þingsins. En satt að segja er þetta mál þannig að það væri full ástæða til þess að halda um það þó nokkuð langa ræðu og tala um málið frá ýmsum sjónarmiðum. Ég ætla þó ekki að gera það, vegna þess einmitt að ég vil vera trúr þeim skyldum sem mér ber sem forseta í þessari d. að reyna að hafa sem allra stystar ræður hér á síðustu dögum þingsins, ég vil segja: á allra síðustu dögum þingsins. En samt sem áður hlýt ég að segja það úr þessum ræðustól sem einn af þm. d., að það gegnir furðu að mál af þessu tagi, svona viðamikið og stórt mál, skuli vera lagt fyrir þd. á þessum allra síðustu dögum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að hæstv. iðnrh., sem er góðviljaður maður og skynsamur og ber gott skyn á flesta hluti, áttar sig á því, að þetta mál hefur fleiri hliðar en eina. Það eru á þessu máli miklu fleiri hliðar en sú, að hitaveitan á Akranesi og í Borgarfjarðarhéraði hafi þörf fyrir það að fá svo og svo mikið heitt vatn. Það er nokkuð sem við erum öll sammála um. En ég vil biðja hæstv. iðnrh. að athuga það líka, að það eru til ýmis réttindi sem eru varin af stjórnarskrá og við teljum og munum lengi telja sjálfsagt að verja. Og ríkisvaldinu er vissulega mikill vandi á höndum þegar á að taka slík einstaklingsréttindi. Þá er ríkisvaldinu og öðrum, sem slíkan rétt taka, mikill vandi á höndum og það er skylt að líta á slík mál frá ýmsum hliðum. Þetta vil ég segja almennt um þessi mál, og ég tel að þetta mál sé allt of seint fram komið og hafi enga möguleika á því að verða athugað hér í þd. eða hér í þinginu svo vel sem mér finnst að ástæður málsins krefjist.

Ég fellst fyllilega á það, að mikil þörf er á því að nýta jarðhitaorkuna í landinu og aðra orku sem nýtanleg er. Og vissulega hefur ekkert staðið á því, að við Íslendingar höfum gert það, við erum sífellt að gera þetta. En ég hef líka oft rekið mig á það hér í þingsölum, að það er verið að gera mikið úr þeim vanda sem ríkið og hið opinbera, sem þarf að nýta orkuna, hafa við að stríða til þess að koma höndum undir þessa orku. Ég held að úr þessu sé gert allt of mikið. Sannleikurinn er sá, að þeir landeigendur, sem ráðið hafa yfir orku á Íslandi, hafa ekki, ef við skoðum sögu þessa máls frá upphafi, verið tregir til þess að afhenda orkuna, sumir hverjir gegn gjaldi að sjálfsögðu. En í mörgum tilfellum er það sannleikur, að landeigendur, sem átt hafa orkulindir, hafa látið orkuna af hendi fyrir ekki neitt. Ég gæti nefnt dæmi um það, að vísu nokkuð gömul, skulum við segja. Mér dettur í hug t. d. eigandi Laugarvatns á sínum tíma, mér dettur í hug eigandi Litlu-Laugar í Reykjadal, Sigurjón á Litlu-Laugum. Og sjálfsagt mætti marga fleiri slíka menn nefna, sem létu orkulindir sínar af hendi ókeypis eða fyrir lítið. Og ég held að þegar samningar hafa orðið um sölu á orkulindunum, þá hafi það ekki verið neinir nauðungarsamningar sem erfitt var fyrir hið opinbera að standa undir.

Við skulum athuga það, að þegar verið er að reisa orkuver af því tagi sem þarna er um að ræða, eins og hitaveitu eða eitthvert annað orkuver, þá eru margir þættir í undirbúningi slíks máls. Það er m. a. mikill fjármagnskostnaður, því mest eða allt það fjármagn, sem í þetta gengur er tekið af láni. Það þarf að kosta til ákaflega kostnaðarsamrar hönnunar, sem kallað er, á mannvirkjum og öllu fyrirtækinu, og það vitum við flestir, að það er ákaflega kostnaðarsamt að leita til verkfræðinga og sérfræðinga á slíku sviði. Og þannig mætti lengi telja. Ég gæti best trúað því, að þegar til kastanna kemur verði orkulindin sjálf ekki það kostnaðarsamasta sem fyrirtækið verður að leggja út í. Og ég hygg að svo verði í sambandi við Deildartunguhver, að það verði ekki kostnaðarsamasti liðurinn við að koma upp hitaveitu í Borgarfjarðarhéraði eða á þeim slóðum, — ég kalla þetta svæði allt Borgarfjarðarhérað, — að það verði ekki kostnaðarsamasti liðurinn, það sem ríkið þarf að greiða fyrir lindirnar sem orkan kemur úr.

Þetta mál hefur komið til n. sem ég á sæti í, iðnn. Nd., og ég vil byrja á því strax að taka það fram, að formaður þeirrar n. hefur að mínu viti staðið mjög vel og skilmerkilega að afgreiðslu þess máls í n. Hann hefur stjórnað n. á þann hátt, að hin ýmsu sjónarmið fengu að njóta sín þar. Þangað komu, eins og hér hefur verið greint frá, ekki einasta þeir, sem staðið hafa að gerð þessa frv., heldur líka fulltrúar fyrir eiganda hversins í Deildartungu. Ég hygg nú, satt að segja, að það hafi verið fyrir marga algert nýmæli að fá að heyra sjónarmið fulltrúa eiganda hversins. Þau sjónarmið hafa aldrei verið kynnt, hvorki í fjölmiðlum né hér í þingsölum eða annars staðar þar sem um þetta er fjallað. Og ég hygg að margir nm. hafi áttað sig á því, að þetta mál hefur verið rekið nokkuð einhliða og með nokkuð miklum hraða og að það hefði verið eðlilegra að standa öðruvísi að málinu, undirbúa það betur dg leggja það þá í einhverju formi fyrir Alþingi.

Sannleikurinn er sá, að menn hafa haft þá trú, ég held að það hafi verið reynt að skapa þá trú víða um land, ég vil þó ekki segja of mikið, en ég hygg þó að það hafi verið reynt að skapa þá trú, að Deildartungufólk vildi okra á hvernum. Ég er ekki að segja að neinn hafi gert það viljandi, en þannig verður oft skoðun til, að blöðin flytja einhliða fréttir. Þau hafa flutt mjög einhliða fréttir af þessu máli á undangegnum árum. Ég er ekki að segja að það hafi verið gert fyrir tilstuðlan iðnrn., en þó hygg ég að þangað hafi oft verið að leita heimilda fyrir ýmsum þeim ímynduðu skoðunum sem fólk hefur haft um viðskipti eiganda Deildartunguhvers eða fulltrúa eigandans við iðnrn. og við hitaveitufyrirtækin á Akranesi og í Borganesi, að eigandi og fulltrúar eiganda Deildartunguhvers hafi fyrst og fremst viljað okra sem allra mest á eign sinni. Það er einmitt um þetta sem nál. mitt, sem er stutt, fjallar og endar með því að ég legg til að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Það er út á þetta sem nál. gengur, að afsanna það sem almenningur hefur verið fóðraður á, að eigandi Deildartunguhvers og umboðsmenn hans séu nánast óviðræðuhæfir um afhendingu vatnsins og að þeir vilji okra á eign sinni.

Ég verð að segja það — því miður — að ef einhver kjarnapunktur er í frv. hæstv. iðnrh. þá er hann þarna. Það er gengið út frá því, að hæstv. iðnrh. virðist gefa sér það, að ekki sé hægt að ná frjálsum samningum við eiganda Deildartunguhvers og þess vegna sé brýn nauðsyn að fara þessa leið, eignarnámsleiðina, koma hér með frv. á allra síðustu klst. þingsins um svona viðamikið mál og krefjast þess, að það verði gert að lögum, að ráðherrann fái leyfi til þess að taka eignarnámi þessa eign bændanna í Deildartungu. Þetta tel ég vera stórmál (Iðnrh.: Eign bændanna?) Ja, þetta er eign Sigurbjargar í Deildartungu, sem er að vísu roskin kona orðin, en bjó þar langan aldur við mjög góðan orðstír, og hún á þennan hver, Deildartunguhver, þannig að ég held að það fari ekki mjög mikið á milli mála hvað við er átt. En sem sagt, það sem er fyrst og fremst í nál. mínu, það eru andmæli við því sem er hvatinn að frv.-gerðintú, frv.-framlagningunni, sem sé sá, að það sé ekki hægt að semja við Deildartungufólk um afnot af vatninu í Deildartunguhver. Þetta vil ég að komi skýrt fram hér á hv. Alþ., og ég vil að það komi skýrt fram fyrir landslýð að þetta er kjarni málsins. En þetta er, eins og ég bendi á, ekki rétt. Og það held ég að sé einmitt hægt að sýna fram á, og ég geri það í nál. mínu og í hinni rökstuddu dagskrá á svo einfaldan hátt sem verða má. Ég held að hver maður hljóti þó að sjá, þegar hann lítur yfir sögu síðustu 4 ára eða svo, 4–5 ára, í þessu máli, að það er rétt sem ég segi í nál. mínu, að það hafa engar forsvaranlegar samningaviðræður átt sér stað við eigendur Deildartunguhvers.

Á árunum 1974–1976 stóðu málin þannig að það mun hafa verið 1974 sem Borgarneshreppur fékk áhuga á því að koma sér upp hitaveitu. Það var gerður samningur til tveggja ára við eiganda Deildartunguhvers. Sá samningur rann út án þess að nokkurn tíma reyndi á hann, enda mun það hafa komið fram hjá forráðamönnum Borgarneskauptúns, að þeim hentaði betur að fara aðrar leiðir í öflun heits vatns. Síðan er það 1976, að þá mun Akranes vera komið inn í þetta mál ásamt Borgarnesi og kannske fleiri sveitarfélögum. Þá bjóða þau eiganda Deildartunguhvers, — sem er stærsti hver í heimi og einhver vatnsmesta hitauppspretta veraldar, — þá bjóða þeir 20.5 millj. kr. fyrir hverinn og líklega eitthvað af landi með. Og þau buðust til þess, þessi tvö stóru sveitarfélög ásamt kannske enn fleiri sveitarfélögum, að borga eigandanum þetta á 6 árum, þó þannig að um helmingur yrði greiddur út í hönd, hitt á 6 ára skuldabréfi.

Ég veit nú ekki hvort það telst sérstaklega undarlegt þó að eigandi hversins hafi ekki viljað hlíta slíku boði. Að vísu mun síðar hafa komið annað boð heldur skárra, sem ég minnist líka á í rökstuddu dagskránni, en það boð var ekki heldur þess eðlis að það væri nein sérstök ástæða til að taka því.

Síðan, og það er sannleikurinn, gerist ekkert í þessu máli. Það er ekkert talað við eigandann, það er ekki verið að fylgja þessum boðum, sem ég hef verið að tala um hér, eftir með nýjum boðum og kalla Deildartungufólk til viðræðu um að það semji um vatnsafnotin. Það er ekkert gert. Það næsta sem gerist er ekki fyrr en í fyrra, fyrir rúmu ári, að þá kemur bréf til iðnrh. sem er strengileg beiðni um það að hann taki hverinn eignarnámi. Þetta hefur síðan verið að velkjast í rn. allt fram á þennan dag, í u. þ. b. 13–14 mánuði eða hvað það nú er. Þetta hefur verið að velkjast þar. Og þær einu viðræður sem raunverulega hafa farið fram, — þær upplýsingar hef ég frá fulltrúum eiganda Deildartunguhvers og ég efa ekki að þær upplýsingar eru réttar, — einu raunverulegu viðræðurnar sem telja má þó forsvaranlegar, þær fara fram dagana 4. maí til 9. maí s. l. Og þetta kallar hv. frsm. meiri hl. iðnn. að séu raunverulegar samningsviðræður, og þetta veit ég að hæstv. iðnrh. telur líka forsvaranlegt, því miður telur hann það. Þetta tel ég ekki forsvaranlegt, og meðan svona er að unnið get ég ekki stutt þetta frv: Ég tel að langhæfasta og langmest viðeigandi svarið við þessu frv. sé það sem ég bendi hér á, að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá, að það verði tekið fyrir annað mál á dagskrá en þetta.

Þetta er afstaða mín, hún kemur glögglega fram í nál., og ég ætla ekki að fara frekari orðum um þetta mál. Það er að vísu full ástæða til að ræða þær brtt. sem fram hafa komið. Þær hafa komið fram frá Gunnari Thoroddsen á sérstöku þskj. og Einari Ágústssyni og Albert Guðmundssyni á öðru þskj. Ég get sagt það, að vissulega væri það strax til bóta ef sú leið yrði valin sem þessir hv. þm. benda á sem er í meginatriðum sú sama þó að tillögur Einars Ágústssonar og Alberts Guðmundssonar séu verulega ítarlegri.

Ég ætla ekki að þessu sinni að tefja málið lengur, hafði aldrei ætlað mér að gera það, aðeins að koma sjónarmiðum mínum fram. Og ég vil að lokum hvetja hv. þdm. til þess að kynna sér allar hliðar þessa máls og þá ekki síst það sem eigandi Deildartunguhvers og umboðsmenn hans hafa fram að færa í þessu máli. Ég tel að það hafi til þessa of lítið heyrst um raunverulega afstöðu eigandans og þeirra sem fara með umboð hans.