19.05.1979
Efri deild: 111. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5081 í B-deild Alþingistíðinda. (4427)

251. mál, Iðnlánasjóður

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um Iðnlánasjóð, en frv. þetta hefur hlotið afgreiðslu í Nd. nú í dag.

Efnislega felur frv. þetta það í sér, að stofnuð verði sérstök lánadeild iðngarða, hjá Iðnlánasjóði. Hlutverk hennar er fyrst og fremst ætlað að vera það að lána sveitarfélögum og félagasamtökum og jafnvel einstaklingum fjármagn til að reisa iðngarða, enda er gert ráð fyrir að framlög komi á móti frá þessum aðilum í þessu skyni.

1. gr. frv. kveður á um þetta svo og um fyrirhugaða tekjustofna í þessu sambandi. Þar kemur fram að tekjur til þessarar lánadeildar yrðu framlög sem veitt kynnu að vera í þessu skyni úr ríkissjóði, framlög af tekjum Iðnlánasjóðs á tímabilinu 1980–1983, samtals að upphæð 1 milljarður króna, eða 250 milljónir króna ár hvert, og í þriðja lagi andvirði sérstakra lána sem stjórnin gæti fengið að fengnu samþykki iðnrh. og svo vextir og vísitöluálag og aðrar tekjur sem sjóðnum eða lánadeild þessari kynnu að áskotnast.

Í aths. með frv. er fjallað um tilganginn með þessari lagasetningu. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. í þessari deild hafi fylgst með þeim umr. sem fram hafa farið um iðngarða og hvaða meginhugmyndir liggja þar að baki. Raunar var nýlega samþ. á hv. Alþ. þáltill. þar sem ríkisstj. er falið að beita sér fyrir sérstakri löggjöf um iðngarða og hafa um það samráð við tiltekna aðila. Ég hyggst beita mér fyrir því í samræmi við þessa þáltill. að slík löggjöf verði undirbúin á þessu ári og lögð fyrir næsta Alþ., þar sem kveðið verði nánar á um hlutverk iðngarða og hugsanleg skilyrði og skipulag sem fylgt væri í sambandi við byggingu þeirra. En þó að slík löggjöf liggi ekki fyrir tel ég mjög mikilsvert að fá lagasetningu á grundvelli þess frv. sem hér liggur fyrir, þannig að þegar á næsta ári verði tiltækt fjármagn í þessu skyni. Samþykkt þessa frv. gerði það kleift og tryggði að þarna væri um fjármagn að ræða, og auk þess væri við undirbúning fjárlaga og lánsfjáráætlunar næsta árs unnt að taka afstöðu til þess, hvort ekki væri rétt að ráðstafa fé til viðbótar í þessa lánadeild iðngarða sérstaklega.

Kostir þess að reisa iðnaðarhúsnæði með skipulegum hætti á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka eiga að vera ótvíræðir, enda nokkur reynsla fengin af slíku í nágrannalöndum okkar, þar sem opinberir aðilar hafa staðið fyrir því að byggja slíkt húsnæði fyrir iðnað og boðið það iðnfyrirtækjum með hagstæðum kjörum. Þannig höfum við lesið um það í fréttum á þessum vetri, að íslenskum iðnfyrirtækjum meira að segja hafa boðist kostaboð, að því er þau telja, frá grannlöndum okkar, eins og Bretlandi, og þar boðið húsnæði með mjög hagstæðum kjörum.

Ég held að þörfin fyrir iðngarða í því formi, sem hér er gert ráð fyrir, sé ekki síst úti um byggðir landsins, þar sem ýmsar aðstæður eru örðugri til þess að koma á fót iðnaði heldur en á stærstu þéttbýlisstöðum landsins, og þannig sé hér um þýðingarmikið byggðamál að ræða. Og ekki væri óeðlilegt að Byggðasjóður kæmi til í sambandi við fjármögnun og hefði þannig áhrif á staðsetningu fyrirtækja af þessu tagi.

Í aths. með frv. er vikið að margháttuðu hagræði sem unnt væri að fá með samvinnu fyrirtækja og samstarfi innan slíks skipulags sem fælist í iðngörðum og ég er ekki að rekja það sérstaklega.

Í hv. Nd. var gerð lítils háttar breyting á upphaflegri gerð frv. Var þar tekið inn í 1. gr. þess atriði, sem vikið var að í aths. og stefna að því að tryggja frekar en beinlínis kom fram í upphaflegri grein frv., að umsækjendur um lán úr þessari fyrirhuguðu lánadeild gerðu glögga grein fyrir fyrirhuguðum notum af þessu húsnæði, og einnig að ekki verði efnt til óeðlilegrar samkeppni milli fyrirtækja innan sama byggðarlags, landshluta eða á landsvísu með tilkomu slíks húsnæðis. Þar var einnig markaður rammi fyrir þetta 250 millj. kr. framlag, að það kæmi ekki til á þessu ári, heldur fyrst á hinu næsta, enda tel ég það eðlilegt. En þá lægju fyrir betur mótaðar till. og e. t. v. sérstök lög um iðngarða, þannig að menn vissu þá glögglega hvernig best væri að standa að uppbyggingu þeirra og skipulagi í einstökum atriðum.

Ég treysti því, að mál þetta fái góðan byr hér í hv. þingdeild og það eigi eftir að verða íslenskum iðnaði lyftistöng á komandi árum og unnt verði að afla fjár í þessu skyni umfram það, sem hér er beinlínis nefnt og bæði ríkisvald, sveitarfélög og félagasamtök treysti sér til að stuðla þannig að nauðsynlegri iðnþróun í landinu.