21.05.1979
Efri deild: 112. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5107 í B-deild Alþingistíðinda. (4467)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég held að það sé eðlilegt í tilefni af þessari umræðu, að ég rifji nokkuð upp hvaða reglur hafa gilt um bifreiðamál ráðherraembætta á undanförnum árum og áratugum og einnig um bifreiðamál forstöðumanna ríkisstofnana og embættismanna.

Það varð veruleg umræða um þessi mál fyrir seinustu alþingiskosningar og það leiddi til þess, að ríkisstj. lýsti því yfir eða ég fyrir hennar hönd, skömmu eftir að hún var mynduð, að ég mundi beita mér fyrir því að fella niður heimildir sem eru í lögum um það, að ráðherrar fengju eftirgefin aðflutningsgjöld og söluskatt af bifreiðum sem þeir keyptu handa sjálfum sér og legðu síðan fram sem embættisbifreið ráðherraembættis síns á meðan þeir væru ráðherrar.

Það var fjallað um þessi mál nokkrum sinnum í ríkisstj. í vetur og ég tók það skýrt fram þá, að ég eða minn flokkur vildi ekki hafa neina sérstöðu í þessu máli. Við vildum setja um þetta reglur sem samkomulag væri um í ríkisstj. og enginn beitti sér fyrir öðrum fremur. Hinn 9. mars s. l. voru síðan settar, nýjar reglur um bifreiðamál ráðherra. Þær voru samþykktar í ríkisstj. samhljóða af öllum ráðherrum og þar hafði enginn neina sérstöðu.

Ég vil nú í fáum orðum rekja hvernig þessum málum hefur verið fyrir komið á undanförnum árum og áratugum.

Svo lengi sem elstu embættismenn ríkisins muna hafa fríðindi vérið tengd ráðherraembættum varðandi bílamál, einnig embættum forstjóra ríkisstofnana og fleiri embættismanna. Fram til ársins 1970 var sú skipan á, að ríkið lagði ráðherrum til bifreiðar. Þegar ráðh. lét af embætti átti hann kost á að kaupa nýja bifreið án greiðslu aðflutningsgjalda eða söluskatts. Ég veit ekki betur en ráðherrar hafi yfirleitt hagnýtt sér þennan rétt.

Árið 1970 var sett ný reglugerð um bifreiðamál ríkisins. Þessi reglugerð er birt í Stjórnartíðindum 8. jan. 1970. Þá var tekin upp sú skipan, að ráðherrar mættu velja um tvo kosti í sambandi við sín bifreiðamál, að ríkið legði þeim til bifreið eða þeir legðu bifreið með sér til embættis síns á meðan þeir gegndu ráðherrastörfum. Ráðherrar gátu skv. þessum reglum flutt inn bifreiðar án greiðslu aðflutningsgjalda eða söluskatts. Og heimildarákvæði voru sett í tollskrárlögin þar að lútandi.

Ég held að ég fari rétt með það, að síðan þetta var ákveðið hafi allir ráðherrar hagnýtt sér þennan rétt, skv. þeim reglum sem reglugerðin kveður á um.

Til þess að festa kaup á bifreið var skv. reglugerðinni veitt lán að upphæð allt að 350 þús. kr. til 10 ára með 5% ársvöxtum. Þessi lán voru veitt ráðherrum, forstjórum og forstöðumönnum ríkisstofnana. Þessi 350 þús. kr. lán svöruðu til innkaupsverðs á bifreið í svipuðum gæðaflokki og þeir ráðherrabílar eru sem nú er rætt um, svona á milli 6 og 7 millj. kr., og þegar þessi lánsupphæð var ákveðin svaraði hún til innkaupsverðsins. Þetta þýddi það, að í þann tíð fengu ráðherrar í fyrsta lagi eftirgefin aðflutningsgjöld og söluskatt af bifreiðum og þeir fengu lán í sambandi við bílakaupin sem svaraði nokkurn veginn til innkaupsverðsins. Þannig voru þessi mál þá.

Þeir, sem fengið hafa þessi svokölluðu bílalán skv. reglugerðinni, eru, eins og ég sagði áður, ráðherrar, forstöðumenn og forstjórar ríkisstofnana og ýmsir embættismenn.

Lánin, sem veitt hafa verið, eru um 150 talsins sem ekki er búið að greiða að fullu skv. þessum reglum, eins og málin standa nú í dag.

Það hefur verið föst venja í fjmrn. að veita ekki upplýsingar um málefni einstakra manna. Gildir það jafnt um ráðherra og aðra. Hins vegar hefur rn. alltaf veitt upplýsingar um þær reglur sem gilda í þessum efnum, og ríkisendurskoðunin hefur síðan athugað hvort þeim sé ekki framfylgt. Hér er í raun og veru um þá stefnu að ræða að veita upplýsingar um málefni en ekki um menn. Þessari venju mun ég fylgja nema Alþ. ákveði að skýrsla verði gefin út um þessi mál í heild.

Ríkisstj. hefur samþ. reglur þær sem lýst hefur verið, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Fimm af núv. ráðherrum í ríkisstj. hafa skv. þessum reglum fengið ríkisbifreiðar til afnota og fjórir ráðherrar leggja til eigin bifreiðar.

Ég mun gera eina undantekningu varðandi upplýsingar um einstaklinga, en hún er aðeins ein og hún er varðandi mig sjálfan. Ég tel mig hafa fullan rétt á því, þó að það sé stefna rn. að veita ekki upplýsingar um einstaka menn heldur aðeins um þær reglur sem gilda. Og þessar upplýsingar eru svo hljóðandi:

Að sjálfsögðu hef ég farið eftir þeim reglum, sem ríkisstj. setti samhljóða á fundi 9. mars s. l. Varðandi kjörin á lánunum, allt að 3 millj. kr. lánum til 10 ára, óskaði ég eftir því, að rn. gerði till. til mín um hvaða kjör ættu að vera á þessum lánum. Ég tók ákvörðun um það og vextirnir eru 22%. Það kann vel að vera að hægt sé að deila um það, en ég er ekkert að skorast undan því, að ég tók ákvörðun um þetta, og þeir ráðherrar, sem nú eru í ríkisstj., hafa heimild til þess skv. reglum að taka þessi lán, og væntanlega ráðherrar sem verða í ríkisstjórnum á meðan þessar reglur, sem núv. ríkisstj. hefur samþ., eru í gildi.

Varðandi mig sjálfan, þá keypti ég nýja bifreið sem kostaði milli 6.6 og 6.7 millj. kr., og ég hef fengið lán úr ríkissjóði skv. reglunum að upphæð 3 millj. kr. með 22% ársvöxtum. Ég vil taka fram að ég var ekki fyrstur ráðh. til að taka svona lán. Í sambandi við frásögn fjölmiðla, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur hér greint frá, hef ég í raun og veru engu við það að bæta varðandi sjálfan mig, að ég hafi keypt þessa bifreið sjálfur og greitt hana algerlega, þó að ég hafi tekið til þess lán skv. reglum sem samþykktar hafa verið.

Ég hef áður látið í ljós þá skoðun, að hagkvæmara væri fyrir ríkið að ráðherrar eigi bíla sína sjálfir, vegna þess að það er að mínu mati ódýrara. Ef allir ráðherrar í ríkisstj. fengju bifreiðar frá ríkinu, sem ríkið keypti og legði þeim til, af þeirri gerð sem hér hefur verið talað um, milli 6 og 7 millj. kr., þá mundi það kosta ríkissjóð líklega rúmlega 20 millj. kr. í útlögðu fé. Ef ráðherrar hins vegar kaupa bifreiðarnar sjálfir og leggja ráðherraembættunum þær til á meðan þeir eru ráðherrar, þá greiða þeir af þeim gjöld skv. þessum nýju reglum sem mundu nema um 40 millj. kr. og renna beint í ríkissjóð. Um reksturinn að öðru leyti held ég að það hallist ekki á að öðru leyti en því, að mér sýnist að hann sé óhagkvæmur fyrir þá sem eiga sínar bifreiðar sjálfir, vegna þess að þeir þurfa að sjálfsögðu að greiða fjármagnskostnað af verði bifreiðanna eins og gefur að skilja.

Varðandi viðhaldsmál, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert hér að umræðuefni get ég ekki upplýst mikið um það hjá öðrum ráðherrum því að ég hef ekki fylgst með því. Ég get sagt frá mér sjálfum og það er best að ég haldi mig við mig sjálfan í þessum efnum. Ég átti bifreið þegar ég tók við ráðherraembætti, en fjmrn. átti hins vegar ekki bifreið. Ég lagði hana til og hún var notuð sem ráðherrabifreið þangað til nú fyrir skömmu að ég keypti nýja bifreið. Þessi bifreið mín var nýleg bifreið í mjög góðu ástandi og mér er ekki kunnugt um að það hafi átt sér stað neitt óeðlilegt viðhald á henni, heldur hafi henni verið haldið við með eðlilegum hætti eins og gengur og gerist og það sé ekkert óeðlilegt í sambandi við þau mál. Þessi bifreið er ekki seld, þannig að hún hefur ekki verið seld með neinum hagnaði eða neinu tapi, og ég veit því ekki hvert söluverð hennar kann að verða.

Ég get tekið undir það með hv. þm., að það þurfi að sjálfsögðu að gilda ákveðnar reglur um launakjör ráðherra og um þau fríðindi sem fylgja ráðherraembættum. Um það kunna að vera skiptar skoðanir. Ég er þeirrar skoðunar — og á það ekkert skylt við það þó að ég sé ráðh. nú í svipinn — að ráðherraembætti séu ein ábyrgðarmestu embætti sem um er að ræða í landinu og þess vegna sé eðlilegt að ráðherraembætti séu í hæstu launaflokkum, ég tel engan vafa um það. Nú er það ekki svo að ráðherraembætti séu í hæstu launaflokkum þegar lítið er yfir landið í heild, það er langur vegur frá því. En ég tel það sjálfsagt mál, að ráðherraembætti séu launuð í samræmi við þá ábyrgð, þá miklu ábyrgð — og ég vil segja í raun og veru útslit — sem fylgir ráðherraembætti á Íslandi. Þó að ég sé ekki búinn að vera lengur ráðh. en í átta mánuði, þá get ég vel sagt frá því, að það fylgir a. m. k. fjmrh.-embættinu geysilega mikil vinna og vinnuálag og mikil ábyrgð. Og svo er áreiðanlega um önnur ráðherraembætti.

Ég vil að lokum aðeins minna á það, að ráðherraembættin eru ekki einu embættin hér í landinu sem ýmiss konar fríðindi fylgja. Það eru fjölmörg embætti sem ýmiss konar fríðindi fylgja. Það er t. d. embættið sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson situr í. Því fylgja fríðindi. Og svo er um fjöldamörg embætti í landinu eins og kunnugt er.

Ég vonast til þess, að hv. þm. telji að þær upplýsingar, sem ég hef nú gefið, séu fullnægjandi, og ég endurtek það sem ég hef áður sagt, að ég mun halda þeirri reglu varðandi upplýsingar um einstaka menn, að ég mun ekki veita þær upplýsingar nema Alþ. samþykki það sérstaklega og óski eftir skýrslugjöf um þau mál. En ég tel mig ekki brjóta þá reglu þó að ég segi frá sjálfum mér.