21.05.1979
Neðri deild: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5164 í B-deild Alþingistíðinda. (4537)

19. mál, dómvextir og meðferð einkamála í héraði

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þá skjótu ákvörðun og þann viðbragðsflýti sem sýndur var við að breyta dagskrá og setja ríkisreikninginn á dagskrá. Ég ætlaði að segja örfá orð við hv. þm. Kjartan Ólafsson, en mun auðvitað fresta því þangað til síðar í nótt þegar við sitjum hér væntanlega tveir og ræðum þetta mál.

Ég vil einnig sérstaklega þakka forseta fyrir það, að nú eru auðvitað fjölmargir þm. farnir heim og má búast við að hver verði fámennur fundur og áhugi minni að tala um málið. Ég veit að forseti kann að hafa af þessu áhyggjur, að fáir eru viðstaddir. Ég vil einasta gleðja forseta með því, að ég mun sitja hér þó að ég þurfi að sitja lengi og hlýða á umr. um þetta og taka þátt í þeim. Það er ýmislegt annað, sem við ríkisreikninginn er að athuga, og hafi forseti áhyggjur af að þurfa að taka þessa ákvörðun seint að kvöldi þegar fáir þm. eru viðstaddir, þá held ég að það séu ástæðulausar áhyggjur, því að hér munu einhverjir a. m. k, sitja og ræða þetta mál. Það er auðvitað mjög eðlilegt að hv. þm. Kjartan Ólafsson vilji gefa skýringar á þessu — kannske í ítarlegu máli. Hann gat um það, að hann hefði ætlað að gefa þessar skýringar í haust, en nú hefur hann og aðrir fengið til þess tækifæri að gefa þessar skýringar hér og nú. Hæstv. iðnrh., en fyrir hann voru lagðar spurningar, situr hér í salnum, sé ég, svo að hann mun taka þátt í þessum umr. með okkur, og ég hygg að þessi málsmeðferð hæstv. forseta verði landi og lýð til heilla.