22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5205 í B-deild Alþingistíðinda. (4585)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég vil fyrst taka það fram, að þessi bréf, sem munu vera um 40 talsins, hafa ekki verið send út með vitund og vilja stjórnarnefndar ríkisspítalanna. Annars hef ég um þetta það að segja, að á undanförnum árum hefur stjórnarnefndin lagt fram till. um verulegar breytingar á rekstri og skipulagi Kópavogshælis. Bent hefur verið á við gerð fjárhagsáætlunar ár eftir ár, að þjónustuna við vistmennina þurfi að auka og hana þurfi að bæta, og þetta kostar verulega fjölgun starfsmanna. Í áætlun fyrir árið 1979 var gert ráð fyrir því, að starfsmönnum mundi fjölga um 41, það hefur verið gerð ár eftir ár till. um þessa fjölgun, en henni hefur ekki verið sinnt, nema hvað núna var ákveðið að bæta við nokkrum nýjum starfsmönnum.

Á árinu 1978 voru vistmenn að meðaltali 180–190. Með þessum fjölda er hælið alveg fullt og þar eru óviðunandi þrengsli, sérstaklega í elstu húsum hælisins. Þar hafa verið um það bil 90 vistmenn í húsnæði sem ekki rúmar með góðu móti nema 50–60, þannig að það er ýmislegt sem þarna þarf að laga og breyta. Vonandi verða þarna til hjálpar lögin sem nýbúið er að setja um aðstoð við þroskahefta. Eins og ég sagði, var við gerð fjárhagsáætlunar ársins 1979 farið fram á 41 manns fjölgun, en það urðu bara 9. Og það sem verra var, það varð að nota þessar 9 stöðuheimildir til þess að koma á fót dagvistarstofnun fyrir starfsmenn hælisins, því að hjúkrunarfólk, þroskaþjálfar og annað starfsfólk fékkst ekki nema sú þjónusta væri í boði.

Hvað því viðvíkur, að það standi til að fækka sjúklingum stórlega, útskrifa þá nú um sumartímann, þá eru þær ráðagerðir ekki uppi af hálfu stjórnenda og framkvæmdastjóra hælisins. Þarna eru í dag 179 sjúklingar, hælið er m. ö. o. fullt. Starfsmennirnir eru um 202, eða 15–18 fleiri en fjárlög gera ráð fyrir, og það er rétt, að það er verið að reyna að fækka þessum starfsmönnum til samræmis við fjárlög. Þetta þýðir auðvitað minnkandi þjónustu. Það er ekki meiningin, að neinn þurfi að fara heim út af þessu, en þjónustan hlýtur óhjákvæmilega að versna, sem er afskaplega slæmt í sjálfu sér. (Gripið fram í: Er þetta bréf þá ómerkt?) Það er skrifað af starfsmönnum hælisins. Ég vil taka það fram sérstaklega, að maður verður að líta á þetta að hluta sem lið í þrýstiaðgerð, vegna þess að fjárveitingavaldið hefur ekki að mati þessa fólk staðið sig sem skyldi.

Á undanförnum árum hefur svo þar að auki verið reynt að taka á sumrin við fólki, taka við vistmönnum frá heimilum svo að foreldrar og aðrir. aðstandendur geti komist í sumarfrí. Þannig hafa verið teknir inn nýir vistmenn á sumrin í stuttan tíma, 1–3 vikur, og það bætir auðvitað ekki úr skák. Samt er verið að reyna að gera þetta. Það, sem veldur kannske mestum erfiðleikum núna og hefur gert á undanförnum árum, eru sumarfrísafleysingarnar. Fólkið þarf sitt sumarfrí. Þar að auki er Þjálfunarskóli ríkisins, sem þarna vinnur og þjónar, líka í sumarfríi, og eins af því að verið er að reyna að taka inn þetta fólk til þess að létta á heimilum á sumrin eru þarna veruleg vandræði.

Ég vil geta þess, að ég hef nú fyrir 2–3 dögum rætt við fjmrh., einmitt eftir að þetta mál kom upp, og höfum við ákveðið að halda með okkur fund ásamt fjárveitingavaldinu, sem við köllum svo, um þessi mál, um starfsmannahald Kópavogshælis almennt og þó sérstaklega um sumarleyfisafleysingarnar. Ég vona að ekki komi til þess, að senda þurfi heim aðra en þá sem geta með sæmilega góðu móti farið og ekki nema þá í fullu samkomulagi við aðstandendur og ekki nema þá vistmenn sem sjálfir hafa gott af því að komast til aðstandenda sinna.