22.05.1979
Sameinað þing: 102. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5247 í B-deild Alþingistíðinda. (4636)

264. mál, fiskeldi að Laxalóni

Forseti (Gils Guðmundsson):

Áður en lengra er haldið fram umr. vil ég aðeins taka fram eftirfarandi. Ég mun að sjálfsögðu ekki úr forsetastóli taka þátt í efnislegri umr. þessa máls, en um málsmeðferðina vil ég segja þetta:

Í þingskapalögum segir í 15. gr.: „Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess:“ Þetta er það eina sem ég finn í þingskapalögum í sambandi við þá till. sem hér er komin fram um að vísa máli til n., að það megi gera á hverju stigi þess. Ég hefði að sjálfsögðu borið það undir hv. þingheim, þegar till. kom fram um það frá hv. 2. þm. Suðurl. í kvöld, hvort vísa skyldi þessu máli til n., en ég lét kanna það, að það var aðeins 21 þm. í húsinu skömmu eftir að till. kom fram, svo að,það var ekki um það að ræða. En með tilliti til þess, að hv. alþm. höfðu tækifæri við fyrri umr. málsins að bera fram till. um að málinu væri vísað til n., og með sérstöku tilliti til þess, að við erum að fjalla um þetta mál nú í lok þingsins og ég tel að þingvilji eigi í þessu máli eins og öllum öðrum að koma fram, þá vil ég nú leggja til þá málsmeðferð, og vona að hv. tillögumaður geti sætt sig við hana, að við ljúkum umr. hér í kvöld eða nótt þegar menn hafa talað vild sína, en till. hv. þm. um að vísa málinu til n. verði borin undir atkv. alþm. áður en gengið er til atkv. um till. sjálfa. Verði till. hv. þm. samþ., þá fjöllum við ekki frekar um málið á þessu þingi. Verði hún hins vegar felld, fer fram atkvgr. um málið. Mér sýnist þetta ekki ósanngjarnt með tilliti til þess, að þá hlýtur þingviljinn að koma fram í sambandi við þetta mál, og ég tel eðlilegt að hann komi fram.