14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

54. mál, fjárlög 1979

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Hvernig var ástatt í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar þegar núv. ríkisstj. settist á valdastóla 1. sept. s.l.?

Í atvinnumálum var ástandið m.a. þannig, að þýðingarmiklir þættir fiskvinnslugreina voru ýmist reknir með ábyrgð ríkissjóðs frá 1. ágúst án tilsvarandi tekjuöflunar eða mjög truflaðir vegna kjaradeilna, stöðvaðir í Vestmannaeyjum og á Suðurnesjum og yfir vofði hreinlega rekstrarstöðvun útflutningsatvinnuveganna þegar á heildina var litið.

Í ríkisfjármálunum var þannig ástatt, að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann nam 27 milljörðum króna og mundi að líkindum verða yfir 20 milljarða um áramót, þegar skuldir höfðu verið færðar upp á réttu gengi.

Verðbólgan í landinu var um 50% og hafði raunar verið frá 26% og upp í 50% s.l. 4–5 ár.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er lögð á það rík áhersla, að höfuðverkefni stjórnarinnar á næstu missirum sé að ráða fram úr þeim mikla vanda sem blasir við í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Í því skyni mun ríkisstj. leggja áherslu á að draga markvisst úr verðbólgunni með því að lækka verðlag og tilkostnað, draga úr víxlhækkun verðlags og launa og halda heildarumsvifum í þjóðarbúskapnum innan hæfilegra marka. Þá mun hún leitast við að koma í veg fyrir auðsöfnun í skjóli verðbólgu. Síðar í fjárlagaræðunni mun ég koma nánar að þessum atriðum.

Allir sérfræðingar og stjórnmálamenn um víða veröld skelfast af afleiðingum 10% verðbólgu. Við Íslendingar lifum og störfum við 50% verðbólgu. Í raun og veru ríkir neyðarástand í efnahagsmálum þjóðarinnar, þótt enn þá hafi tekist að halda framleiðslustarfseminni í góðum gangi. Þessu ástandi verður að breyta, ella sjáum við fram á versnandi lífskjör og atvinnuleysi. Það eru góð lífskjör á Íslandi um þessar mundir og það er næg atvinna. En þetta byggist allt á ótraustum grunni, sem getur hrunið við minnstu áhrif til hins verra, t.d. ef viðskiptakjör þjóðarinnar gagnvart útlöndum versna skyndilega.

Verðbólgan er óvinur góðra og jafnra lífskjara. Hún veldur hrikalegu misrétti milli manna og magnar upp það versta í atvinnumálum og fjármálum. Hún vinnur gegn jöfnun lífskjara, gerir þá fátæku fátækari, en þá ríku ríkari. Af þessum ástæðum og raunar mörgum fleirum verða ríkisstj. og Alþingi að snúast gegn verðbólgunni með öllum tiltækum ráðum.

Þess vegna er fjárlagafrv. og væntanlegum fjárlögum beitt sem hagstjórnartæki í baráttunni gegn verðbólgunni.

En að hverju leyti er fjárlagafrumvarpið þannig úr garði gert? ; Í fyrsta lagi, og það er höfuðeinkenni þeirrar stefnu sem fjárlagafrv. boðar, er gert ráð fyrir tekjuafgangi að upphæð 8,2 milljarðar kr. eða rúmlega 4% af útgjöldum fjárlaganna.

Í öðru lagi er reiknað með að úr ríkissjóði verði greiddir 4.3 milljarðar kr. upp í skuldir umfram það sem tekið kann að verða að láni. Skuldasöfnun ríkissjóðs verður að stöðva og hefja verður endurgreiðslu samningsbundinna lána.

Í þriðja lagi er það keppikefli ríkisstj. að ríkissjóður verði rekinn hallalaus fyrstu 16 mánuði starfsferils hennar. Það þýðir að sú skuld, sem stofnað var til vegna fyrstu efnahagsaðgerða á þessu hausti, verði greidd upp á næsta ári og ríkissjóður að auki í greiðslujafnvægi.

Í fjórða lagi er varið miklum fjárhæðum, eða rúmum 18 milljörðum króna, á næsta ári til að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum. Enn fremur er felldur niður söluskattur af matvörum, sem nemur tekjutapi ríkissjóðs að fjárhæð 5.3 milljarðar kr. Hvort tveggja er gert til að halda verðbólgunni niðri.

Í fimmta lagi er ætlunin að afla tekna í þessu skyni með beinum sköttum, að hluta til beinlínis vegna þess að beinu skattarnir ganga ekki inn í vísitölugrundvöllinn eins og hann nú er og skrúfa því ekki sjálfkrafa um verðlag og kaupgjald. Með aukinni skattheimtu er og dregið úr eftirspurn og þenslu í efnahagslífinu. Bein skattaálagning hefur vissulega sína ókosti, en spyrja mætti, með hverjum öðrum hætti hægt væri að afla tekna án þess að slík ráðstöfun leiði beint og tafarlaust til meiri verðbólgu. Það er misskilningur, að beinir skattar séu háir hér á Íslandi borið saman við nágrannalöndin, og vík ég nánar að því síðar.

Í sjötta lagi er dregið nokkuð úr opinberum framkvæmdum og framlögum til annarra framkvæmda til að draga úr spennunni í efnahagsmálunum og vinna gegn verðbólgunni.

Í sjöunda lagi er í fjárlagafrv. gætt aðhalds í hvívetna, bæði að því er varðar nýjar stöður hjá ríkinu og kostnað, svo og um rekstrarútgjöld ríkisstofnana.

Þannig er fjárlagafrv. ætlað að vinna gegn verðbólgunni, hægja á verðbólguhjólinu. Þeir, sem vilja gera fjárlögin þannig úr garði, eru raunverulegir baráttumenn gegn hinni háskalegu verðbólgu sem vegur vægðarlaust að undirstöðum efnahagslífsins.

Eins og fram kemur í athugasemdum með fjárlagafrv. er frv. lagt fram með nokkrum fyrirvörum frá stjórnarflokkunum. Hér er einkum um að ræða atriði sem lúta að skattlagningu, svo sem um beitingu skattvísitölu og vali leiða til tekjuöflunar, enn fremur framlög til verklegra framkvæmda, niðurgreiðslna á vöruverði og framleiðsluaukandi framkvæmda í landbúnaði.

Lögð er áhersla á að samræma þessi sjónarmið og er fjallað um þau í ríkisstjórninni í samráði við þingflokka stjórnárliðsins.

Til þess að fjármál ríkisins geti verið gagnlegt tæki til þess að ná þeim markmiðum í efnahagsmálum, sem ríkisstj. hefur sett sér — fyrst og fremst að draga úr verðþenslu og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd — er nauðsynlegt að fella fjárlagafrv. inn í ramma þjóðhagsspár fyrir næsta ár. Með markmiðinu um jöfnuð í viðskiptum við útlönd á árinu 1979, sem er forsenda þess að unnt verði að draga úr skuldasöfnun erlendis á næstu árum, er vexti þjóðarútgjaldanna þröngur stakkur skorinn. Þar sem ekki er við því að búast, að viðskiptakjör þjóðarinnar batni á næsta ári, felur þetta markmið í sér að halda verður vexti þjóðarútgjalda — og þar með aukningu innflutnings — innan þeirra marka sem möguleg útflutningsaukning setur. Þótt jafnan sé erfitt að spá um sjávarafla, er vart við því að búast, að útflutningsframleiðslan geti aukist um meira en 1–2% á næsta ári, sem er svipuð aukning og í ár, ekki síst með tilliti til þess að áframhaldandi aðhald fiskveiða kann að verða nauðsynlegt.

Sé litið til einstakra þátta þjóðarútgjalda, þ.e. fjárfestingar, samneyslu og einkaneyslu, þá er með fjárlagafrv. og við undirbúning lánsfjáráætlunar stefnt að því að draga úr fjárfestingu á árinu 1979, auk þess sem nauðsynlegt er að taka upp breytta fjárfestingarstefnu. Með samdrætti fjárfestingar og nær óbreyttri samneyslu gæti skapast svigrúm til nokkurrar aukningar einkaneyslu, eða um 1–2% á mann, án þess að það valdi aukningu innflutnings umfram það sem samrýmist markmiðinu um jöfnuð í viðskiptunum við útlönd. Hins vegar þarf að finna leiðir til þess að ná þessari neysluaukningu þannig að hún fái staðist til frambúðar og án þess að henni fylgi hætta á vaxandi verðþenslu. Þetta er sérstaklega mikilvægt við þær aðstæður í efnahagsmálum og þá sérstaklega verðlags- og kauplagsmálum sem við búum nú við. Ríkisstj. vinnur nú að þessu í samráði við fulltrúa launafólks í landinu.

Niðurstaða fyrstu hugmynda um þróun útflutningsframleiðslu og þjóðarútgjalda á næsta ári bendir til þess, að þjóðarframleiðslan gæti vaxið um 1–11/2% og þjóðartekjur svipað, þar sem gert er ráð fyrir óbreyttum viðskiptakjörum. Þetta er minni hagvöxtur en undanfarin ár, en það ræðst fyrst og fremst af þeirri nauðsyn að halda vexti þjóðarútgjalda — og þar með innflutningi — í skefjum til þess að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd á næsta ári og til þess að draga úr verðbólgu. Róðurinn verður heldur léttari fyrir það, að nú eru horfur á að utanríkisviðskiptin í ár verði mjög nálægt því að vera í jafnvægi. En jafnframt er það enn frekari ástæða þess að fylgja fast eftir þeim árangri, sem náðst hefur, ef okkur á að takast á næstu árum að grynna á erlendum skuldum þjóðarbúsins. En erlendar langtímaskuldir nema nú 195.5 milljörðum kr. og vextir og afborganir af þeim 13.7% af útflutningstekjum. En ein mikilvægasta forsenda árangurs í þessum efnum er að nokkur greiðsluafgangur verði hjá ríkissjóði á næsta ári. Traust fjárhagsstaða ríkissjóðs er einnig algjör forsenda þess að það takist að draga úr verðbólgunni.

En til þess að ná árangri í glímunni við verðbólguna þarf samstillt átak samtaka launamanna, atvinnurekenda og ríkisins. Til þessarar glímu mega menn ekki ganga með hálfum huga eða hiki. Auk aðgerða á sviði ríkisfjármála og fjárfestingarstjórnar þarf að koma til stefnubreyting í launa- og verðlagsmálum, þannig að dregið verði úr launahækkunum á næstunni stig af stigi og ríkisvaldið fái aukið svigrúm til þess að beita öllum stjórntækjum fjármálanna án þess að þær nauðsynlegu aðgerðir hrindi sjálfkrafa af stað vísitöluhækkun launa.

Í stefnuræðu hæstv. forsrh., sem flutt var hér á Alþingi 19. okt. s.l., gerði hann ítarlega grein fyrir hinni almennu stefnu ríkisstj., og sé ég ekki ástæðu til að ítreka hana nema að því leyti sem hún tengist fjárlagagerðinni og efnahagsmálum í sambandi við fjárlögin.

Það er ástæða til að vekja athygli á því, hversu ríkisbúskapurinn er stór þáttur efnahagsmálanna. Ætla má, að þjóðartekjur á næsta ári muni nema nálægt 680 milljörðum kr. Gjöld á fjárlagafrv. nema hins vegar rúmlega 198 milljörðum kr. og eru því tæplega 1/3 hluti þjóðarteknanna.

Það ríður því mjög á að ríkisbúskapurinn sé traustur, sérstaklega þó á miklum verðbólgutímum. Það er samdóma álit hagspekinga og stjórnmálamanna, að ekki verði hamlað gegn verðbólgunni með árangri nema ríkisbúskapurinn sé í lagi og ríkissjóður hafi nokkuð ríflegan rekstrar- og greiðsluafgang. Þess vegna er það sérstaklega tekið fram í stjórnarsamningnum, að áhersla verði lögð á jafnvægi í ríkisbúskapnum og allt aðhald stórlega aukið.

Þegar ríkisstj. tók við lágu drög að fjárlagafrv. í fjmrn. Þessi drög höfðu þó ekki verið afgreidd í ríkisstjórn og þess vegna stóð enginn pólitískur meiri hluti á Alþingi að baki þeim. Einnig var augljóst, að brýna nauðsyn bar til að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, sem óhjákvæmilega hlutu að hafa áhrif á gerð fjárlagafrv. Þess vegna er ógerningur að bera þessi drög saman við fjárlagafrv., þar sem ekki er vitað hvað við þau hefði verið prjónað á annan hátt en þann sem nú hefur verið gert.

Fyrsta daginn sem ríkisstj. starfaði gaf hún út brbl. um niðurfærslu vöruverðs og verðbótavísitölu í september 1978.

Hinn 5. sept. voru gefin út önnur brbl. og þá um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu.

Og hinn 9. sept. voru svo gefin út brbl. um kjaramál, sem fólu m.a. í sér veruleg útgjöld og tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Allar þessar ákvarðanir höfðu margvísleg áhrif á ríkisbúskapinn og breyttu færslum fjárlagafrv. svo þúsundum skipti. Þegar af þessum ástæðum var nauðsynlegt að breyta fjárlagafrv. í mörgum greinum til þess að það gæti verið aðgengilegt til meðferðar hér á Alþingi. Til viðbótar var svo stefna ríkisstj. felld inn í fjárlagafrv. að svo miklu leyti sem tími vannst til að ljúka því verki.

Af þessum ástæðum og raunar fleiri reyndist ekki unnt að leggja fjárlagafrv. fyrir Álþingi á allra fyrstu dögum þess. Þó var fjárlagafrv. lagt fram á svo til sama tíma og haustið 1974, en þá hafði Alþingi verið frestað til 29. okt. Fjárlagaræðan er einnig haldin í seinna lagi, en þó ekki nema 6 dögum síðar en á síðasta ári.

Í stjórnarsamningnum er lögð sérstök áhersla á samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir í efnahagsmálum. Í viðræðum um stjórnarmyndunina voru höfð allvíðtæk samráð við þessa aðila. Sama var að segja um undirbúning fyrstu efnahagsaðgerða ríkisstj. í september.

Þessi samráð hafa haldið áfram, m.a. við gerð fjárlagafrv., ýmist með fundahöldum, skoðanaskiptum eða með því að skiptast á gögnum. Ríkisstj. leggur mikla áherslu á þessi samráð, en þau eru tímafrek þar sem um mjög marga aðila er að ræða.

Á liðnum árum og áratugum hefur það verið venja, að fjmrh. gerði grein fyrir afkomu ríkissjóðs á liðnu ári í framsöguræðu sinni fyrir fjárlagafrv. komandi árs. Allra síðustu ár hefur hér orðið sú breyting á, að nokkur grein hefur verið gerð fyrir afkomunni að vori til um leið og A-hluti ríkisreiknings fyrir nýliðið ár hefur verið afhentur þingmönnum. Jafnframt hefur verið afhent greinargerð eða prentuð skýrsla um þetta efni. Svo var einnig gert s.l. vor, og tel ég því ekki ástæðu til að fjalla um afkomu ríkissjóðs á árinu 1977 nema að mjög litlu leyti.

Samkvæmt A-hluta ríkisreiknings fyrir árið 1977 nam rekstrarhalli ríkissjóðs á því ári 2 543 595 000 kr. Tekjur á rekstrarreikningi námu 100 277 532 000 kr. og gjöldin 102 821 127 000 kr.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs við bankakerfið, þ.e. breyting á peningum í sjóði og stöðu bankareikninga ásamt stöðu lána við Seðlabankann, var óhagstæð um 1764 millj. kr. og að auki hækkuðu lán við Seðlabankann í erlendri mynt um 1460 millj. kr. vegna gengismunar, þannig að skuldaaukningin við bankakerfið nam 3224 millj. kr.

Skuldir við Seðlabankann vegna A-hluta ríkisreiknings námu í árslokin 1977 15 milljörðum króna og eru þá skuldir í erlendri mynt gerðar upp miðað við gengisskráningu í árslok.

Þegar frumvörp að fjáraukalögum og samþykkt á ríkisreikningi fyrir árið 1977 verða lögð fram, væntanlega nokkru eftir næstu áramót, mun einnig verða gerð nánari grein fyrir afkomu ársins 1977.

Af framangreindum tölum svo og upplýsingum um horfur á þessu ári er ljóst, og hefur reyndar lengi verið ljóst, að á öllum sviðum ríkisfjármála þarf að sýna aðhald og ráðdeild. Vissulega eru stærstu útgjaldaliðir ríkisins tiltölulega fáir og vegna þýðingarmikilla verkefna eins og tryggingamála, heilbrigðismála, menntamála, vegamála og fleiri þátta. Árangursríkast er vitaskuld að leita eftir sparnaði og aukinni hagræðingu á þessum sviðum. En hinu má aldrei gleyma, að það er stutt inn í kvikuna í mörgum þessum málum. Samt sem áður þarf einnig að huga að hinum fjölmörgu minni útgjaldaþáttum. Hver þeirra um sig vegur ekki þungt á vogaskálunum, en í heild gera þeir það. Því er einnig nauðsyn á því, að sérhver forstöðumaður ríkisstofnunar sýni ítrustu ráðdeild á sínu sviði. Sama er að segja um framkvæmdir á vegum ríkisins. Þar má ekki eiga sér stað bruðl og eyðslusemi. En mörgum verður þröngur stakkur skorinn og hjá því verður ekki komist að sinni.

Framvinda efnahagsmála á árinu 1978 hefur öðru fremur einkennst af vaxandi verðbólgu og endurteknum rekstrarerfiðleikum atvinnuveganna, einkum í þeim greinum sem framleiða til útflutnings. Á þessu hausti hefur því enn einu sinni orðið að grípa til sérstakra ráðstafana í efnahagsmálum til þess að ekki kæmi til algerrar rekstrarstöðvunar í undirstöðuatvinnuvegunum. Þetta er vitaskuld fjarri því að vera einsdæmi í okkar efnahagssögu. Það er áhyggjuefni, að þessi vandi verður til þegar ytri skilyrði eru fremur hagstæð og árferði gott. Oft áður hafa óhagstæð ytri skilyrði valdið verulegum efnahagsörðugleikum innanlands. Að þessu sinni eru það því að miklu leyti innlendar aðstæður sem erfiðleikunum valda. Þegar af þessari ástæðu ættum við nú að vera betur í stakk búnir til þess að mæta þessum vanda en oft áður, þegar óhagstæð ytri skilyrði og slæmt árferði hafa mjög þrengt svigrúmið til athafna. Verðbólgan og tæp staða útflutningsframleiðslunnar hafa verið og eru helstu vandamálin á sviði efnahagsmála. En það þarf nokkurn pólitískan kjark til að takast á við þessi vandamál.

Að ýmsu öðru leyti hefur hagþróun á þessu ári um margt verið hagstæð. Þjóðarframleiðslan er talin munu aukast um rösklega 3% eða svipað og spáð var í lok s.l. árs, en þjóðartekjur vaxa minna vegna nokkurrar verslunar viðskiptakjara, einkum á síðustu mánuðum. Bandaríkjadollar hefur t.d. fallið um rúm 8% gagnvart þýsku marki síðan í ágústbyrjun. Þetta er mikið áfall fyrir okkur Íslendinga, þar sem við seljum svo mikið af okkar útflutningsvörum fyrir dollara, en kaupum inn með öðrum gjaldeyri, sem hefur stigið í verði. Horfur eru á nokkurri aukningu fiskaflans, sem má að mestu leyti rekja til aukins loðnu- og síldarafla, en botnfiskaflinn verður svipaður og í fyrra, þó kannske heldur meiri. Útflutningsframleiðsla mun aukast lítillega frá fyrra ári, en þar sem mjög hefur gengið á birgðir útflutningsafurða, einkum skreiðar- og saltfisksbirgðir, verður útflutningurinn mun meiri en sem svarar til framleiðsluaukningarinnar einnar. Þær spár, sem fram voru settar í lok s.l. árs um þessi atriði, hafa þannig að mestu gengið eftir.

Kauplag og verðlag hefur þotið upp úr öllu valdi og miklu örar en spáð var í ársbyrjun, enda var í þeim spám gert ráð fyrir nokkurri takmörkun á launahækkunum. Er nú talið, að meðalverðhækkun milli áranna 1977 og 1978 verði allt að 44% samanborið við 30% hækkun í fyrra. Kauptaxtar hafa hins vegar hækkað mun meira en þetta, og er áætlað að meðalhækkunin verði um 53% á þessu ári. Atvinnutekjur á mann eru taldar hækka heldur minna eða um 52%. Ráðstöfunartekjur hækka hins vegar rétt um 50% að meðaltali á mann.

Kaupmáttur kauptaxta hefur því aukist verulega á þessu ári, eða um 6–7%, og er kaupmáttaraukningin svipuð hjá flestum hópum launþega. Í þeim spám, sem fram voru settar um mitt þetta ár var reiknað með um 5% aukningu einkaneyslu eða ívið meira en aukningu kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna. Í ljósi þess, sem hér hefur verið sagt um kaupmátt ráðstöfunartekna, sýnist stefna í nokkru meiri aukningu einkaneyslu, eða um 6% frá fyrra ári. Þær vísbendingar, sem liggja fyrir um einkaneysluútgjöld á árinu — t.d. upplýsingar um veltu í verslunar- og þjónustugreinum — renna stoðum undir þessa spá. Í fyrra jókst einkaneysla hins vegar nokkru meira, eða um 8%.

Samneysluútgjöld eru talin munu aukast í samræmi við fyrri spár, eða um 2% á þessu ári, sem er svipuð aukning og á árinu 1977.

Fjármunamyndun, eða það sem þjóðin setur í fast, er talin munu dragast verulega saman á þessu ári, eða um rösklega 5% í heild, og eru það mikil umskipti frá fyrra ári, en þá jókst fjármunamyndun um 7.5%. Hlutfall fjármunamyndunar af þjóðarframleiðslu verður þá um 26.5% samanborið við 28.4% 1977 og enn hærra hlutfall næstu ár á undan. Þetta er nokkru meiri samdráttur en reiknað var með í fyrri spám, og er skýringarinnar helst að leita í mun meiri verðhækkunum en reiknað var með fyrr á árinu. Samdrátturinn verður að langmestu leyti í opinberum framkvæmdum, eða um 15%, sem er líkt og í fyrra.

Fjármunamyndun í atvinnuvegunum verður hins vegar því sem næst óbreytt frá fyrra ári, eða ef til vill heldur minni. Þetta eru veruleg umskipti frá því sem varð á síðasta ári, þegar fjármunamyndun atvinnuveganna jókst um tæplega 37%. Ástæðan er fyrst og fremst minni innflutningur fiskiskipa á þessu ári, en einnig hefur innflutningur flutningaskipa dregist mikið saman. Á móti þessu vega mun meiri framkvæmdir við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga á þessu ári en í fyrra, en að henni slepptri er um 11% samdrátt að ræða í fjármunamyndun atvinnuveganna.

Smíði íbúðarhúsa er talin munu aukast um 2% á þessu ári, en stóð í stað í fyrra.

Niðurstaða þessara spáa um neyslu og fjármunamyndun verður sú, að þjóðarútgjöld muni aukast um 21/2% á þessu ári og eru birgða- og bústofnsbreytingar þá ekki taldar með. Þar sem ljóst er, að birgðir munu minnka talsvert á þessu ári eftir verulega uppsöfnun 1977, sýnist stefna í að þjóðarútgjöld — að birgðabreytingum meðtöldum — verði óbreytt frá fyrra ári, en þá jukust þau hins vegar um 10%.

Þótt innflutningur hafi orðið meiri en búist var við, m.a. vegna aukins kaupmáttar á árinu, og þar með hafi brugðist þær vonir um afgang á viðskiptum við útlönd, sem spár í upphafi ársins bentu til, eru horfur á að viðskiptahallinn verði mun minni en í fyrra, eða um 2 milljarðar — 0.4% af þjóðarframleiðslu — í stað tæplega 10 milljarða króna halla 1977, eða 2,7% af þjóðarframleiðslu. Hér skipta gengisbreytingarnar á árinu miklu máli, en þessi árangur verður ekki varanlegur, ef verðbólgan æðir áfram eins og líkur standa til nema þjóðin grípi í taumana.

Þegar litið er yfir þá mynd, sem nú er óðum að skýrast af hagþróun ársins 1978, verður stöðugt ljósara að nú þarf að gera mikið átak til þess að hamla gegn verðbólgu. Ríkisstj. leggur í þeim efnum höfuðáherslu á þrennt: Að dregið verði úr sjálfvirknin verðbólgugangi vísitölukerfisins og mörkuð skynsamleg launamálastefna, sem treysti hæstan mögulegan kaupmátt launa án þess að ofbjóða atvinnulífinu og efnahagskerfinu. Að dregið verði úr fjárfestingu í heild og henni beint að framleiðniaukandi verkefnum. Að ríkisfjármálin verki sem hemill á verðþensluna, en það gerist ekki nema ríflegur rekstrar- og greiðsluafgangur verði á fjárlögum næsta árs.

Frá því fjárlög fyrir árið 1978 voru samþykkt á Alþingi hafa verið gerðar margháttaðar ráðstafanir í efnahagsmálum, sem hafa haft veruleg áhrif á ríkisbúskapinn á yfirstandandi ári.

Samanlagt hefur gengi krónunnar lækkað um 46.8% frá áramótum til þessa dags. Verðbótarákvæðum launa hefur verið breytt á árinu. Ráðstafanir fyrrv. ríkisstj. í efnahagsmálum frá 13. febr. s.l. fólu m.a. í sér að verðbætur á laun hækkuðu hverju sinni sem svarar helmingi hækkunar verðbótavísitölunnar. Með lögum frá 24. maí var dregið úr launaskerðingu vísitölunnar með auknum greiðslum verðbóta á lægstu laun. Með brbl. frá 8. sept. um kjaramál ákvað núverandi ríkisstj. að greiða fullar hlutfallsverðbætur á laun að tilteknu launamarki, en ákveðna krónutölu þar fyrir ofan. Með hliðsjón af þeim launabreytingum, sem átt hafa sér stað, hafa breytingar á bótum almannatrygginganna verið gerðar. Auk ofangreindra ráðstafana má nefna lækkun á sérstöku vörugjaldi úr 18% í 16% frá því í febrúar s.l. og ákvörðum um 10% skyldusparnað félaga og stofnana. Ráðstafanir núv. ríkisstj. í efnahagsmálum frá því í byrjun september fólu í sér þær aðgerðir til viðbótar við það sem þegar hefur verið getið, að niðurgreiðslur á ýmsum nauðsynjavörum voru stórauknar frá septemberbyrjun og svarar sú hækkun til þess, að um 4.9% af verðbótavísitölu, eins og hún var þá, væru greidd niður. Aflað var heimildar til hækkunar vörugjalds úr 16% í 30% í allmörgum vöruflokkum. Þá er að nefna ákvæði um eignarskattsauka, sérstakan tekjuskatt og sérstakan skatt af atvinnurekstri til þess að standa undir kostnaði af niðurfærslu vöruverðs og hemla hækkunaráhrif gengisbreytingarinnar. Þá var tvívegis hækkað útsöluverð tóbaks og áfengis og lagður skattur á ferðalög til útlanda. Að áhrifum einstakra tekju- og gjaldaákvarðana vík ég síðar.

Horfur í fjármálum ríkisins, þegar tillit hefur verið tekið til fyrrnefndra ráðstafana, eru í aðalatriðum þær, að útgjöldin verða samtals 158.5 milljarðar kr. eða 20 milljörðum kr. hærri en í fjárlögum eins og þau voru samþykkt. Þetta er um 14.5% hækkun. Tekjur eru nú áætlaðar 154.2 milljarðar kr., sem er 14.7 milljarða kr. hækkun frá fjárlögum, eða sem svarar 10.5%. Samkvæmt þessu er líklegt að gjöld umfram tekjur muni nema um 4.3 milljörðum kr. Um lánamál ríkissjóðs er það að segja, að við afgreiðslu fjárlaga ársins 1978 var að því stefnt að lánveitingar og afborganir lána ríkissjóðs næmu 670 millj. kr. umfram ráðgerðar lántökur og innheimtu af veittum lánum. Í þessari áætlun var við það miðað, að Seðlabankanum yrðu greiddar 3245 millj. kr. á árinu. Fyrirsjáanlegt er að ekki reynist unnt að greiða Seðlabankanum það sem áætlað var.

Þegar tillit hefur verið tekið til breytinga á lánareikningi ríkissjóðs, sem gerðar hafa verið á árinu, og til 4325 millj. kr, gjalda umfram tekjur á rekstrarreikningi ríkissjóðs verður enginn afgangur í árslok til greiðslna til Seðlabankans. Mat á stöðu ríkissjóðs nú bendir því til rúmlega 400 millj. greiðsluhalla í árslok. Er þetta þó sagt með ákveðnum fyrirvara vegna mikilla sveiflna í greiðslum og tekjum ríkissjóðs fyrir áramót. Jafnframt berast nú til fjmrn. margar og háar beiðnir um umframfjárveitingar. Líklegt er að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hækki um 5.8 milljarða kr., þegar tillit er tekið til gengisuppfærslu eldri lána, vanáætlunar í fjárlögum 1978 og væntanlegs halla á ríkissjóði í ár. Hér er þó um lauslega áætlun að ræða.

Ég mun nú gera grein fyrir þróun gjalda og tekna frá því fjárlög ársins 1978 voru samþykkt af Alþingi. Vegna fjöldamargra efnahagsráðstafana, sem gerðar hafa verið á árinu, hafa gjöld ríkissjóðs aukist verulega frá því sem upphaflega var áætlað. Þetta skýrist enn frekar þegar haft er í huga að núv. ríkisstj. ákvað þegar í upphafi starfsferils síns að beita ríkisfjármálunum sem hagstjórnartæki við úrlausn hins alvarlega vanda, sem ríkti í efnahags- og atvinnumálum við stjórnarskiptin.

Nú eru útgjaldahorfurnar þær, að útgjöld ríkissjóðs aukist um 20.0 milljarða kr. frá fjárlögum, eins og ég vék að áður, og verði samtals 158.5 milljarðar kr. Í fjárlögum 1978 voru 11.4 milljarðar kr. færðir á sérstakan launalið og var fjárveiting þessi ætluð til að standa undir grunnlauna- og verðbótahækkunum 1978. Svo sem oft áður eru það laun og greiðslur vegna almannatrygginganna sem mest víkja frá fjárlögum, m.a. vegna náinna tengsla þessara útgjaldaliða við verðlagsþróunina í landinu. Talið er að launagjöld aukist um 2.6 milljarða kr. frá fjárlögum vegna meiri hækkana verðbótavísitölu en áætlað var. Útgjöld vegna almannatrygginganna munu fara um 8.3 milljarða kr. fram úr fjárlögum. Skýrist sú hækkun af meiri verðlagshækkun á ýmsum sjúkrakostnaði svo sem lyfjum og sérfræðiþjónustu en áætlað var fyrir, auk hækkunar daggjalda sjúkrahúsa og bóta lífeyristrygginganna umfram áætlun. Niðurgreiðslur á vöruverði innanlands voru auknar á árinu sem liður í lausn þess efnahagsvanda, sem við blasti í upphafi stjórnar tímabils núv. ríkisstj. Útgjöld vegna þessa þáttar eru talin fara um 4.3 milljarða kr. fram úr áætlun og verða samtals 11.2 milljarðar kr. Útflutningsbætur eru áætlaðar munn hækka um rúman 1.1 milljarð kr. og veldur þar mestu ákvörðun ríkisstj. um greiðslu 1300 millj. kr. verðjöfnunargjalds á landbúnaðarvörum, en áætlað er að 1000 millj. kr. þessarar fjárhæðar komi til greiðslu á yfirstandandi ári. Útflutningsuppbætur ársins verða samtals 4.1 milljarður kr. Vaxtagreiðslur á árinu munu hækka um 1.8 milljarða kr. og nema samtals 5.2 milljörðum. Hækkuninni veldur fyrst og fremst breyting á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum, en stór hluti lána ríkissjóðs er erlend lán eða gengistryggð. Í kjölfar mikilla verðbreytinga á innfluttum rekstrarvörum og innlendum rekstrarliðum er sýnt, að óhjákvæmilegt verður að fallast á verulegar umframfjárveitingar nú á síðustu mánuðum ársins til þess að halda gangandi t.d. nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, svo dæmi sé nefnt.

Eins og áður er greint frá eru heildartekjur ríkissjóðs nú taldar verða rúmlega 154 milljarðar. Gjöld af innflutningi valda mestu um hækkunina frá fjárlögum, enda hefur innflutningur verið meiri — og þá ekki síst bílainnflutningur — en þar var miðað við. Til landsins hafa verið fluttir um 9000 bílar það sem af er árinu. Flestir aðrir teknaliðir verða einnig hærri en í fjárlagaáætlun, eins og nánar er gerð grein fyrir í aths. við frv., en ég mun hér aðeins geta stærstu liða. Að venju er hér ávallt um að ræða innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu, en ekki álagningu.

Eignarskattar verða sennilega 2350 millj. í ár samanborið við 2000 millj. í fjárlögum. Munurinn liggur í eignarskattsaukanum samkvæmt brbl. í september, sem þó innheimtist aðeins að hluta á þessu ári, þar sem innheimtunni er dreift á tvo síðustu mánuði þessa árs og tvo fyrstu mánuði næsta árs.

Tekjuskattur einstaklinga er nú áætlaður 13.1 milljarður í ár eða um 900 millj. hærri en í fjárlögum, en tekjur hafa hækkað mjög mikið frá í fyrra og þar með meiri álagning í ár en reiknað var með í fjárlagaáætlun. Til viðbótar kemur svo innheimta sérstaks skatts á hátekjur og á tekjur og fyrningar í atvinnurekstri einstaklinga samkvæmt brbl. í september. Þetta á einnig við um tekjuskatt félaga, sem verður nokkru meiri en í fjárlagaáætlun.

Gjöld af innflutningi verða alls 35.5 milljarðar í ár samkvæmt síðustu áætlun og eru það rúmlega 6 milljarðar umfram fjárlagaáætlun. Eins og ég sagði áður, hefur bílainnflutningur verið mun meiri í ár en miðað var við í fjárlögum, og má sennilega rekja nær 2 milljarða af tekjuauka á þessum lið til þessarar ástæðu. Að öðru leyti er hækkun frá fjárlögum vegna meiri innflutningsaukningar í krónum en þar var miðað við.

Söluskattur í ríkissjóð gæti orðið nær 51 milljarður kr. eða nær 21/2 milljarði umfram fjárlög, þrátt fyrir niðurfellingu söluskatts af matvælum í sept. s.l., sem talin var kosta ríkissjóð 1.4 milljarða á þessu ári. Almenn veltubreyting, sem mestu ræður um söluskattsinnheimtu, hefur hins vegar verið meiri en miðað var við í fjárlagaáætlun, fyrst og fremst vegna meiri verðlagshækkana.

Við endurskoðun tekjuáætlunar í okt. s.l. var rekstrarhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins talinn geta orðið allt að 13.5 milljarðar kr. í ár eða 2.2 milljarðar umfram fjárlagaáætlun. Fyrstu átta mánuði ársins jókst sala áfengis og tóbaks í krónutölu miðað við sömu mánuði í fyrra talsvert umfram það sem nam verðhækkun, þannig að búast mátti við að rekstrarhagnaður ÁTVR yrði meiri en reiknað var með í fjárlögum, e.t.v. um rúmlega 11/2 milljarð kr. Tekjuauki vegna hækkunarinnar í september var metinn 500–600 millj. kr. í ár og tekjurnar því alls um 2.2 milljörðum kr. meiri en í fjárlögum. Þessi áætlun er þó afar óviss og ekki örugg þar sem desembersalan ræður svo miklu, en tölur um sölu í september og október benda til þess, að þessi tekjuliður geti verið eitthvað ofmetinn.

Af öðrum mikilvægum tekjuliðum má nefna, að sérstakt vörugjald er áætlað 8.5 milljarðar í ár eða um 700 milljónir umfram fjárlagaáætlun, bæði vegna meiri innflutnings, eins og áður var lýst, og vegna hækkunar gjaldsins að hluta úr 16 í 30% í september. Á móti kemur hins vegar lækkun gjaldsins úr 18% í 16% í febr. s.l., sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum. Launaskattur er talinn verða 8 milljarðar kr. samanborið við 7.6 milljarða í fjárlögum, og aðrir óbeinir skattar og ýmsar tekjur munu eftir innheimtunni á árinu að dæma verða talsvert umfram fjárlög eða rúmlega 9 milljarðar samanborið við 7.6 milljarða í fjárlagaáætlun.

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1979, sem nú er til umræðu, er lagt fram með nokkuð öðrum hætti en tíðkast hefur á undanförnum árum. Auk nokkurra fyrirvara um atriði, sem enn hefur ekki verið tekin endanlega afstaða til, er höfuðeinkenni þessa frv., að það er lagt fram með 3.9 milljarða kr. greiðsluafgangi. Þetta er gagngert til þess annars vegar að veita Alþingi nokkurt svigrúm til ráðstöfunar og hins vegar til að ná hallalausum ríkisbúskap á fyrstu 16 mánuðum starfsferils ríkisstj.

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði um 206.7 milljarðar kr. og gjöld 198.5 milljarðar kr. Tekjur umfram gjöld nema því um 8.2 milljörðum kr. samanborið við áætlaðan rekstrarhalla 1978 að upphæð 4.3 milljarðar. Reiknað er með að úr ríkissjóði verði greiddir 4.3 milljarðar kr. árið 1979 vegna lánahreyfinga umfram það sem greitt verður inn í ríkissjóð. Þegar tillit hefur verið tekið til lánahreyfinganna kemur fram greiðsluafgangur að fjárhæð 3.9 mill jarðar kr., eins og áður segir. Afborganir af lánum ríkissjóðs verða samtals 7009 millj. kr. samkvæmt 1. gr. fjárlagafrv., og ganga þá 5476 millj. kr. til lækkunar erlendra skulda og 1533 millj. kr. til lækkunar innlendra skulda. Lánsfjármagnaðar ríkisframkvæmdir í A- og B-hluta fjárlagafrv. nema samtals 9.8 milljörðum kr. og er þar um nokkurn samdrátt að ræða frá árinu 1978.

Gjöld frv. eru miðuð við verðlag í lok árs 1978 og er það í samræmi við forsendur frumvarpsins um tekjur. Í heild nemur launakostnaður 54186 millj. kr. sem er 10962 millj. hækkun frá fjárlögum 1978. Er hér um að ræða 27.3% af heildarútgjöldum A-hluta frv. Laun ársins eru miðuð við launataxta eins og þeir eru taldir verða í desember 1978. Launakostnaður einstakra stofnana í A-hluta fjárlagafrv. hefur samkvæmt áætlun hækkað um 67.5% frá launatölum fjárlaga 1978.

Í frv. er beitt aðhaldi eftir því sem frekast er kostur. Fjölgun starfsmanna er haldið í lágmarki og svo til eingöngu bætt við stöðum sem þegar hafa verið samþykktar eða eru óumflýjanlegar, t.d. vegna fjölgunar bekkjadeilda í skólum. Með sérstökum aðgerðum verður leitast við að lækka yfirvinnu- og álagsgreiðslu á ríkisspítölum um 270 millj. kr. og hjá löggæslunni um 125 millj. kr. Þá er stefnt að lækkun launakostnaðar í grunnskólum um 150 millj. kr. með því að skerða reglugerðarheimildir um hámarksfjölda kennslustunda á nemanda á viku hverri. Samtals nemur lækkun launakostnaðar vegna þessara aðgerða um 545 millj. kr.

Önnur rekstrargjöld eru áætluð 14147 millj. kr. og er það 53% hærri tala en á fjárlögum 1978. Stafar þetta einfaldlega af verðhækkunum viðhaldsliða milli ára, sem nema um 54%.

Útgjöld vegna viðhalds eru áætluð 5298 millj. kr. og er það 31.6% hækkun frá fjárlögum 1978. Vísitala byggingarkostnaðar hækkar um 42.2% milli ára. Auk þessa samsvara áhrif gengisfellingarinnar í september 8.8% verðhækkun á þessum lið. Verðlagshækkun samtals er því um 51.0%. Þetta þýðir um 12–13% magnminnkun á heildarviðhaldi.

Vaxtagreiðslur af almennum lánum ríkissjóðs eru áætlaðar samtals 6946 millj. kr. Er það 104.6% hærri fjárhæð en í fjárlögum yfirstandandi árs. Hækkun vaxtagreiðslna nemur því rúmlega 3.5 milljörðum kr.

Framlög til almannatrygginga hækka um 14118 millj. kr. eða 41.7%. Verða framlög þessi í heild 48003 millj. kr. eða 24.2% ríkisútgjaldanna. Áætlaðar útgjaldabreytingar vegna lífeyristrygginga auk fjölgunar bótaþega eru í stórum dráttum þær, að bótahækkanir eru beint og óbeint tengdar kauptöxtum og er útgjaldahækkun þar af leiðandi meira og minna sjálfvirk. Framlög ríkissjóðs til sjúkratrygginganna hækka um 8168 millj. kr.

Lyfjakostnaður sjúkratrygginganna hefur aukist mjög mikið á síðari árum. Í frv. kemur fram að lyfjakostnaður eykst yfir 100%. Stafar þetta að nokkru leyti af vanáætlun í fjárlögum 1978. Áætlun frv, miðast einnig við það, að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði og kostnaði vegna sérfræðiþjónustu aukist. Í fjárlögum 1978 var einnig gert ráð fyrir hliðstæðri hækkun, en hún hefur enn ekki komið til framkvæmda.

Niðurgreiðslur á vöruverði innanlands eru áætlaðar 18037 millj. kr. Svo sem alkunnugt er, ákvað núv. ríkisstj. að auka niðurgreiðslur til þess að draga úr verðbólgunni. Niðurgreiðslur eru nú áætlaðar 16.3 milljarðar miðað við það niðurgreiðslustig sem nú gildir. Í frv. er gert ráð fyrir auknum niðurgreiðslum er nema 3.9 milljörðum kr. eða sem svarar 2.5% af verðbótavísitölunni 1. des. n.k.

Í frv. er því gert ráð fyrir að verja til niðurgreiðslna á næsta ári 2.8 milljörðum kr. minna en nemur niðurgreiðslustiginu í des. n.k.

Þess ber að geta annars vegar, að takmörk eru fyrir því, hve mikið er hægt að greiða niður verð á vörum, og hins vegar, að auknar niðurgreiðslur eru mikið fjáröflunarvandamál.

Útflutningsuppbætur landbúnaðarins eru áætlaðar 4500 millj. kr. vegna ársins 1979. Til viðbótar er fjárveiting að upphæð 537 millj. til greiðslu útflutningsbóta vegna ársins 1978. Þá gerir frv. einnig ráð fyrir 300 millj. kr. greiðslu vegna verðjöfnunargjalds bænda. En eins og ég nefndi áður ákvað ríkisstj. 1300 millj. kr. fjárveitingu vegna verðjöfnunargjalds á búvörur tímabilið 1977–1978, en þar af koma 1000 millj. kr. til greiðslu á þessu ári. Samtals nemur þessi liður 5337 millj. kr.

Aðrar neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 4276 millj. kr. eða 45.1%. Hækkunin er nálægt eðlilegri launa- og verðlagshækkun. Í þessum útgjaldaþætti ríkissjóðs eru nokkrar B-hluta stofnanir sem háðar eru fjárveitingum.

Framkvæmdaframlög samkvæmt frv. nema alls 36.8 milljörðum kr. og er það hækkun um 8.6 milljarða eða 30.4% frá fjárlögum yfirstandandi árs.

Þeirri meginstefnu er fylgt, að framkvæmdaframlög verði hin sömu að krónutölu 1979 og 1978 nema lög eða samningar kveði á um annað. Undantekning frá þessari stefnu eru framlög til vegagerðar. Til viðbótar er ákveðið að lækka framlög til ýmissa fjárfestingarsjóða um 10% og nemur sá niðurskurður 993 millj. kr. Þá er horfið frá því, sem nú tíðkast, að fjármagna fjármagnsútgjöld vegna Kröfluvirkjunar með aukinni lántöku. Ég tel eðlilegra að ríkissjóður sjálfur axli fjármagnsbyrði þessa, a.m.k. þar til þetta fyrirtæki hefur fengið rekstrargrundvöll. Í frv. er gert ráð fyrir að Orkusjóður sjái um greiðslur vegna fjármagnsútgjalda Kröfluvirkjunar og er fjárveiting til sjóðsins í því skyni 2080 millj. kr. Þá er Byggðasjóði ætlað að lána 1130 millj. kr. vegna fjármagnskostnaðar byggðalína. Hins vegar eru framlög til Byggðasjóðs ekki skorin niður um 10% eins og framlög til annarra fjárfestingarsjóða. Byggðasjóði er ætlað að afla lánsfjár í þessu skyni og endurlána sem síðan verði endurgreitt þegar endanlega verður ákveðið hvaða aðili taki að sér rekstur byggðalínanna. Á þessu stigi málsins er að því stefnt að Orkusjóður taki þetta lán Byggðasjóðs og endurgreiði það síðar.

Tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 1979 er að venju reist í fyrsta lagi á endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á líðandi ári, í öðru lagi á ákveðnum þjóðhags- og verðlagsforsendum og í þriðja lagi á ákveðnum forsendum um einstaka tekjuliði. Ég hef hér á undan gert grein fyrir þeirri tekjuáætlun ársins í ár, sem lögð er til grundvallar tekjuáætlun næsta árs, og einnig fjallað um almennar forsendur frv. og fyrirvara um leiðir til tekjuöflunar. Í aðalatriðum eru magnbreytingar helstu stofna óbeinna skatta miðaðar við 1% aukningu þjóðarútgjalda á næsta ári, og verðbreytingar eru miðaðar við áætlað verðlag undir lok ársins í ár.

Innheimtar tekjur árið 1979 eru áætlaðar samtals 206.708 milljarðar króna samanborið við 154.2 milljarða í endurskoðaðri áætlun fyrir árið í ár og 139.5 milljarða á fjárlögum. Samkvæmt þessu aukast tekjur um 52.5 milljarða eða 34% frá áætlaðri niðurstöðu í ár, en frá fjárlögum nemur aukningin 67.2 milljörðum eða rösklega 48%. Sambærileg hækkun gjalda frá gildandi fjárlögum er rúmlega 43%, en í þessum tölum endurspeglast það markmið frv., að tekjur umfram gjöld verði rúmir 8 milljarðar á næsta ári samanborið við 1 milljarð í fjárlögum ársins í ár. Þetta veldur því einnig, að tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af þjóðarframleiðslu verða hærri á næsta ári en í ár eða 31–32% samanborið við 28.5% í ár, sem er svipað hlutfall og gert var ráð fyrir í fjárlagaáætlun ársins í ár.

Ég mun hér á eftir aðeins geta helstu forsendna tekjuáætlunarinnar um mikilvægustu tekjustofna, en um einstaka þætti í tekjuhlið frumvarpsins leyfi ég mér að vísa til grg. með frv.

Eins og ég hef áður getið eru beinir skattar árið 1979 m.a. miðaðir við sambærilega skattlagningu og felst í ákvæðum brbl. nr. 96/1978, þ.e. síðan í september, en form þessarar skattlagningar verður endanlega ákveðið með frumvörpum þar um, sem verða lögð fyrir Alþingi á næstunni. Þar sem verulegur hluti af álögðum sköttum samkvæmt brbl. innheimtist ekki fyrr en árinu 1979, verður meiri hækkun á innheimtu en álagningu milli áranna 1978 og 1979.

Í fjárlagafrv. er miðað við hækkun skattvísitölu um 43%, þ.e. hún hækkar með verðlagi, en ekki tekjum, á sama hátt og í fjárlögum líðandi árs. Ákvörðun um skattvísitölu verður hins vegar tekin við lokaafgreiðslu frv., eins og getið er í aths. þess.

Það er ljóst, að hlutdeild beinna skatta í tekjuöflun ríkissjóðs verður meiri á næsta ári en í ár. Í gildandi fjárlögum var reiknað með að beinir skattar yrðu 18.2% af heildartekjum ríkissjóðs. Samkvæmt frv. verður hlutdeild beinna skatta 22.1%, en hlutdeild óbeinna skatta minnkar að sama skapi eða úr 80.9% samkvæmt áætlun fyrir 1978 í 76.4%. Aðrar tekjur en skattar eru yfirleitt um 11/2% af heildartekjum ríkissjóðs. Ég mun síðar koma nánar að skattamálum, þ. á m. um skattþunga beinna skatta hér á landi og í nágrannalöndum okkar.

Af helstu stofnum óbeinna skatta má nefna að tolltekjur ríkissjóðs eru miðaðar við 1% magnaukningu almenns vöruinnflutnings, 7% verðhækkun í erlendri mynt og óbreytt gengi frá því sem nú er. Hins vegar verður að gera ráð fyrir því, að tiltölulega minna verði flutt inn af hátollavöru á næsta ári en í ár. Þannig má telja, að bílainnflutningur í ár verði meiri en búast mætti við vegna endurnýjunar bílaflotans og nokkurrar aukningar hans og því líklegt að dragi úr bílainnflutningi á næsta ári. Af þessum sökum hækka tolltekjur minna en ella og sama gildir í enn frekara mæli um innflutningsgjald af bifreiðum. Innflutningur bifreiða árið 1977 nam 7558, og líklegur innflutningur á þessu ári er um 9000. Íslendingar hafa því keypt 16500 bifreiðar til landsins á þessu og seinasta ári. Í frv. eru tolltekjurnar á næsta ári miðaðar við að tollalækkun samkvæmt gildandi tollskrá taki gildi um næstu áramót, en endanleg ákvörðun um það hefur enn ekki verið tekin. Tekjutap ríkissjóðs vegna tollalækkunarinnar er metið um 1350 millj. kr. og hefðu 1100 millj. kr. innheimst á næsta ári.

Hlutur söluskatts í heildartekjum ríkissjóðs verður nokkru minni á næsta ári en verið hefur vegna niðurfellingar söluskatts af matvælum, sem talin er kosta ríkissjóð um 5.3 milljarða kr. á næsta ári. Að öðru leyti er söluskattsáætlunin miðuð við 1% aukningu þjóðarútgjalda að magni og verðlag við lok ársins í ár.

Rekstrarhagnaður ÁTVR á næsta ári er áætlaður 19 milljarðar kr. og er þá miðað við óbreytt verð á áfengi og tóbaki. Eins og áður sagði er nokkur óvissa um útkomuna í ár og gæti það einnig snert áætlunina fyrir næsta ár og þarf því að endurskoða hana fyrir lokaafgreiðslu fjárlaga en það gildir raunar um flesta aðra liði tekjuáætlunarinnar, þar sem betri vitneskja liggur þá fyrir um innheimtuna á þessu ári.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er lögð rík áhersla á nauðsyn þess að bæta stjórnina á fjárfestingunni í landinu. Þar er því lýst yfir að mörkuð verði gjörbreytt fjárfestingarstefna. Fjárfestingunni verði með samræmdum aðgerðum beint til framleiðniaukningar í atvinnuvegunum. Áformað er að marka heildarstefnuna í fjárfestingarmálum skýrar og setja samræmdar lánareglur fyrir öll fjárfestingarlán. Þá er bent á nauðsyn þess að draga úr fjárfestingarútgjöldum á árinu 1979, enda er of mikil fjárfesting ein af ástæðum verðbólguþróunar síðustu ára. Stefnan í fjárfestingarmálum fyrir næsta ár kemur nánar fram í lánsfjáráætluninni, sem lögð verður fram á Alþingi á næstu vikum, en eins og venja hefur verið fylgir þessu frv. yfirlit yfir ríkisframkvæmdir, sem ráðgert er að kosta með lánsfé, og yfir ráðgerða fjáröflun til þessara þarfa. Í þessu yfirliti kemur fram, að lánsfjáröflun til ríkisframkvæmda er áformuð 9.8 milljarðar kr. á árinu 1979. Með fjárlögum 1978 fylgdu áform um 10.5 milljarða kr. lántöku í þessu sama skyni og í framkvæmd mun þessi tala hafa hækkað verulega, þannig að tillögur frv. fela í sér verulegan samdrátt í lántökum til opinberra framkvæmda og enn frekar þegar litið er til verðbreytinga.

Lánsfjáráætluninni verður ætlað að framfylgja þeirri stefnu, að fjárfestingin í heild verði innan við fjórðung þjóðarframleiðslunnar á næsta ári, og jafnframt að tryggt sé nægilegt fé til atvinnuframfara. Til þess að þetta markmið náist verður beitt öllu í senn: beinum fjárfestingarákvörðunum ríkisins, fjárfestingarframlögum ríkisins til atvinnuveganna og skattmeðferð fjárfestingar, lánskjörum fjárfestingarlánasjóða og heimildum til erlendrar lántöku. Einnig er mikilvægt að starfsemi bankakerfisins og almenn vaxta- og lánastefna peningastofnana stefni að sama marki. Um öll þessi atriði verður fjallað og ákvarðanir um þau teknar, þegar lánsfjáráætlunin verður afgreidd, en sú stefna sem mörkuð er með fjárlagafrv. í þessum efnum er á þá leið, að úr framkvæmdum verði að draga um sinn m.a. til að tryggja öruggan ríkisfjárhag.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að verja til verklegra framkvæmda, sem tilheyra A-hluta fjárlaga, samtals 18470 millj. kr. Enn fremur virðist svigrúm til að verja til viðbótar allt að 1000 millj. kr. til framkvæmda. Með því móti væri stefnt að um það bil 16% magnminnkun verklegra framkvæmda sem tilheyra A-hluta fjárlaga. Þar sem ekki hefur verið gengið frá lánsfjáráætlun næsta árs, er á þessu stigi ekki endanlega ákveðið hversu mikil magnminnkun verði í ríkisframkvæmdunum í heild. Hins vegar er ljóst, að verði dregið minna úr framkvæmdum en að framan greinir verður að koma til samsvarandi tekjuöflun.

Telja verður að 12% magnminnkun á A-hluta fjárlaga sé í samræmi við fyrirætlanir ríkisstj. í fjárfestingarmálum, en stefnan á að miðast við það, að landsmenn geti búið við atvinnuöryggi og jafnframt sé komið í veg fyrir ofþenslu efnahagslífsins. Ég tel eðlilegast að miða samdráttinn við 12% magnminnkun og stefna að því, að ráðstafanir, sem gerðar verða til þess að tryggja samkeppni innlenda iðnaðarins, leiði til tekjuöflunar ríkissjóðs sem nægi til að framkvæma þessa stefnu í fjárfestingarmálum.

Nokkrir útgjaldaliðir í fjárlagafrv. eru áberandi hæstir. Þar á meðal eru tryggingamál 51.1 milljarður kr., fræðslumál 28.5 milljarðar kr., heilbrigðismál 15.2 milljarðar kr., dómgæslu-og lögreglumál 10.5 milljarðar kr. Útgjöld skv. þessum fjórum liðum fjárlagafrv. nema 105 milljörðum kr. eða rúmlega helmingi útgjalda fjárlagafrv.

Við Íslendingar verjum stórum fjárhæðum til heilbrigðis- og tryggingarmála. Ég er þeirrar skoðunar, að í heilbrigðismálum megi spara talsverðar fjárhæðir með því að efla útivist og íþróttaiðkun landsmanna. Nútíma þjóðfélag eykur á kyrrsetur og hreyfingarleysi. Um fimm þúsundir manna starfa að sjálfboðaliðsvinnu og rekstri íþróttahreyfingarinnar. Þessa starfsemi þarf enn að efla og styrkja. Ég vildi því beina þeim tilmælum til hv. fjvn., að hún athugi sérstaklega hækkun framlaga til UMFÍ og ÍSÍ. Það er raunhæf leið til sparnaðar, þótt það skili e.t.v. ekki árangri í krónum þegar á næsta ári.

Svíar telja sig hafa reiknað það út, að þeir spari stórkostlega fjármuni fyrir þjóðfélagið með virkum stuðningi við æskulýðs- og íþróttahreyfinguna. Álíta þeir að heilsufar og starfshæfni aukist með skynsamlegum íþróttaiðkunum og útivist.

Á undanförnum árum hefur verið unnið mikið starf við úttekt ýmissa þátta ríkisbúskaparins. Sérstök nefnd hefur starfað að athugunum á möguleikum til minnkunar ríkisumsvifa. Nefndin hefur skilað sérstökum skýrslum um nokkur fyrirtæki, svo sem Landssmiðjuna, Siglósíld, Ferðaskrifstofu ríkisins, Slippstöðina hf. á Akureyri og Bifreiðaeftirlit ríkisins. Þessar skýrslur eru til athugunar í fjmrn. og verða ræddar við viðkomandi ráðuneyti og væntanlega í ríkisstj. áður en ákvarðanir verða teknar um framhaldið.

Í samstarfssamningi stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir að stórauka aðhald í ríkisbúskapnum. Í grg. fjárlagafrv. kemur fram, að stefnt sé að lækkun rekstrarkostnaðar hjá ríkinu um einn milljarð kr.

Eins og áður hefur verið greint frá hefur fjárlaga- og hagsýslustofnunin þegar haft samband við viðkomandi ráðuneyti um sparnað í heilbrigðismálum, fræðslumálum og löggæslumálum sem nemur 545 millj. kr. Er hér einkum átt við breytingar í rekstri og framkvæmd þessara mála. Ef eitthvað raunhæft á að gerast í sparnaði og aðhaldi, ber brýna nauðsyn til að halda áfram úttekt ýmissa þátta ríkisbúskaparins, og tel ég eðlilegast að hagsýslustofnunin framkvæmi slíka úttekt í samvinnu og samstarfi við viðkomandi fagráðuneyti og forstjóra ríkisstofnana. Mun ég beita mér fyrir að slíkt verði gert.

Ég álít, að möguleikar séu á frekari sparnaði og aðhaldi í ríkisbúskapnum, bæði að því er snertir einstakar ríkisstofnanir og stóra málaflokka. Það mætti e.t.v. orða það svo, að ekki sé síður nauðsyn á uppskurði sums staðar í ríkiskerfinu en niðurskurði. Menn verða þó að gera glöggan greinarmun á eyðslu og eðlilegum útgjöldum.

Þýðingarlaust er að standa að aðhaldi eða sparnaði nema nákvæmlega sé tiltekið í fjárlögum hvar þessi sparnaður eigi að koma niður og viðkomandi ráðherra, stjórnarnefnd og forstjóri ríkisstofnunar beri fulla ábyrgð á framkvæmdinni. Verði slíkt ákveðið í fjárlögum verður að hefja framkvæmd breytingarinnar þegar í stað, enda verði þá ekki heimilaðar greiðslur frá fjmrn. að því marki sem fjárlög ákveða um slík efni.

Í þessum efnum verður að koma til markvisst starf. Yfirborðskák kemur ekki að neinu haldi. Það verður e.t.v. að ákveða hvaða stöðum á að fækka hjá ríkinu, hvar á að draga úr yfirvinnukaupi, hverju á að breyta um framkvæmd mála. Þetta er ekkert vinsældastarf, en verður að vinnast. En það verður ekki unnið á nokkrum vikum, heldur með þrotlausu starfi og eftirliti.

Síðan fjárlög fyrir árið í ár voru samþykkt á Alþingi í desember í fyrra hefur kveðið mikið að lagasetningu um skattamál og fjármagnsöflun til ríkissjóðs.

Í febrúar voru samþykkt lög um ráðstafanir í efnahagsmálum. Með þeim var lagður skyldusparnaður á félög á árinu 1978 og nam hann 10% af skattgjaldstekjum þessara aðila að viðbættum varasjóðstillögum. Þessi ákvæði voru tímabundin og er ekki gert ráð fyrir hliðstæðum skyldusparnaði félaga á árinu 1979. Með febrúarlögunum voru barnabætur og hækkaðar nokkuð og breyting gerð á hinu sérstaka tímabundna vörugjaldi.

S.l. vor voru samþykkt á Alþingi ný heildarlög um tekjuskatt og eignarskatt eftir margra ára undirbúningsvinnu. Lög þessi fela í sér mjög róttækar breytingar á sviði tekjuskattlagningar, sem of langt mál yrði að rekja hér, en sérstaklega vil ég þó nefna reglurnar um sérsköttun hjóna, reglurnar um skattlagningu þeirra er stunda sjálfstæðan atvinnurekstur og síðast en ekki síst breyttar reglur um fyrningar og söluhagnað sem ættu m.a. að leiða til þess, að sá verðbólgugróði, sem hingað til hefur verið að mestu óskattlagður, verði framvegis talinn til tekna við skattlagningu að vissu marki.

Á vorþinginu voru gerðar tvær aðrar mikilvægar breytingar á skattalögum. Er þar annars vegar um að ræða ný heildarlög um stimpilgjald, sem leystu af hólmi úrelta löggjöf frá árinu 1921 á þessu sviði, og hins vegar breytingu á lögum um söluskatt, þar sem viðurlög við vanskilum hans voru stórlega hert.

Þegar núv. ríkisstj. var mynduð var ljóst, að sú niðurfærsla verðlags, sem að var stefnt, varð ekki framkvæmd án verulegra aðgerða í skattamálum. Fólust þær annars vegar í niðurfellingu söluskatts af svo til öllum matvörum, en hins vegar í álagningu tímabundinna viðbótarskatta til að standa undir tekjumissi ríkissjóðs af söluskattinum og kostnaði við auknar niðurgreiðslur. Þessi brbl. eru nú til umræðu hér í þinginu þannig að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um efni þeirra hér. Ég vil þó ekki láta hjá líða að benda á, að sökum þess hve seint á árinu ríkisstj. tók við var mjög skammur tími til stefnu til að semja þessi skattaákvæði brbl. Það kann því að vera að skattar leggist að einhverju leyti á þá sem hafa lítið gjaldþol til greiðslu þeirra. Tel ég því sjálfsagt, að í meðförum þingsins sé vandlega athugað hvort og þá hvernig bæta megi úr hnökrum þeim sem kunna að vera á brbl. d ég hér sérstaklega við eignarskattsauka þann sem lagður var á elli- og örorkulífeyrisþega. Ekki eiga allir ellilífeyrisþegar hér óskipt mál, því innan þessa aldurshóps finnast bæði stóreigna- og hátekjumenn ekki síður en í flokki þeirra sem yngri eru. Til þess að létta skattabyrðinni á þeim hluta elli- og örorkulífeyrisþega, sem minnst gjaldþol hafa, tel ég því eðlilegt að breyta eignarskattsaukanum hjá þessum hópum, þannig að breytingin samsvari því að þessir aðilar njóti 50% hærri skattfrelsismarka við útreikning eignarskattsauka en aðrir gjaldendur, þannig að hjón, sem njóta elli- eða örorkulífeyris, verði ekki skattlögð ef skattgjaldseign þeirra fer ekki fram úr 18 millj. kr. og einstaklingar sleppi við eignarskattsaukann ef skattgjaldseign þeirra er undir 12 millj. kr. Með þessum skattfrelsismörkum ættu allir þeir ellilífeyrisþegar að sleppa við eignarskattsaukann sem eiga skuldlaust eða skuldlítið húsnæði til eigin nota, svo fremi sem það sé ekki óhóflega stórt eða íburðarmikið.

Til að móta stefnu um fjáröflun ríkissjóðs á næsta ári svo og frambúðarstefnu í skattamálum skipaði ég í sept. s.l. nefnd þriggja þingmanna frá öllum stjórnarflokkunum. Vinnur nefnd þessi m.a. að tillögugerð um tekjuöflun á næsta ári er verði ígildi beinna skatta brbl. Nefndin hefur ekki enn fullmótað tillögur um þetta efni og er því of snemmt að fullyrða um form þessarar skattlagningar. Ég tel þó eðlilegt að í stað eignarskattsaukans komi hækkun á skatthlutfalli eignarskatts þannig að það verði 1.2% hjá einstaklingum og 1.6% hjá félögum. Þá yrði skattfrjáls eign hækkuð til samræmis við hækkun fasteignamats, en auk þess yrðu skattfrelsismörk elli- og örorkulífeyrisþega 50% hærri en skattfrelsismörk annarra gjaldenda við álagningu eignarskattsins í heild, þannig að þessir hópar ættu að koma mun betur út við reglulega álagningu eignarskatts 1979 en þeir gerðu við reglulega skattlagningu í ár.

Í stað hins sérstaka skatts á hreinar tekjur og fyrningar í atvinnurekstri kemur til greina að skerða fyrningarheimildir atvinnurekstrarins við álagningu tekjuskatts á næsta ári, t.d. með því að fella niður heimild til verðstuðulsfyrninga. Þá kemur til greina í stað hátekjuskatts brbl. að lögfesta hluta af núverandi skyldusparnaði einstaklinga sem skatt, og gæti álagning slíks skatts gefið eitthvert svigrúm til hækkunar skattvísitölu frá því sem ráðgert er í fjárlagafrv.

Þingmannanefndinni er einnig ætlað að móta frambúðarstefnuna í skattamálum. Hin nýju tekjuskattslög, er ég gat um áður, öðlast gildi hinn 1. jan. n.k. og koma til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980. Það er hlutverk nefndarmanna að kanna vandlega efnisákvæði laganna og taka afstöðu til þess, hvort einhver þeirra þurfi breytinga við. Þá er nauðsynlegt að nefndin athugi vandlega hvort rétt sé að flýta eða fresta framkvæmd einstakra ákvæða hinna nýju laga. Inn í starf nefndarinnar hlýtur og að koma mótun á afstöðu til óbeinna skatta, þ. á m. endurskoðun þess söluskattskerfis er við nú búum við og hvort rétt sé að taka upp virðisaukaskatt í hans stað.

Einn reyndasti skattstjóri þjóðarinnar hefur vakið athygli á hvernig hugvitssamir spekúlantar geta auðgast á lántökum og látið verðbólguna eyða skuldunum, en aukið krónuverðgildi þeirra eigna, sem keyptar eru fyrir skuldirnar. Hann vitnaði til þess, að verðbólgan væri bræðsluofn skuldanna. Þess vegna hafa vaknað upp hugmyndir um einhvers konar skuldabræðsluskatt eða verðbólguskatt. Hækkandi eignarskattur er að hluta til verðbólguskattur.

Ég sé ástæðu til þess að víkja sérstaklega að beinu sköttunum. Því hefur verið haldið fram af sumum, að beinir skattar séu háir hér á Íslandi. En hvað er það rétta í þessum málum, ef gerður er samanburður við önnur lönd?

Hlutfall beinna skatta af þjóðarframleiðslu er árið 1976 svo hljóðandi í nokkrum löndum: Danmörk 26.5%, Svíþjóð 23.7%, Finnland 20.6%, Noregur 16.6%, Ísland 7.3%, Bretland 16.1%, Bandaríkin 14%.

Hér er reiknað með raunverulegum skattgreiðslum miðað við greiðsluár skattanna.

Sumir segja, að ekki sé marktækt að miða við þjóðarframleiðslu. Þetta er þó algjör misskilningur. Ef beinu skattarnir eru miðaðir við brúttótekjur heimilanna má fullyrða að það sama verður uppi á teningnum, enda hefur það komið í ljós við könnun.

Hlutfall beinna skatta af brúttótekjum heimila hér á Íslandi voru 1977 10.6%, en í Noregi 33.9%. Hlutfall beinna skatta heimilanna samkv. fjárlagafrv. verða 14.3%. Seinustu tölur frá öðrum löndum um þetta efni eru frá 1976, ég hef ekki haft aðgang að nýrri tölum. Þá voru þær á þessa leið: Ísland 12.5%, Danmörk 29.3%, Svíþjóð 35.6%, Noregur 33.9%, Finnland 30.3%, Bretland 23.9% og Bandaríkin 20.2%. Hér er um að ræða hlutfall beinna skatta af brúttótekjum heimila.

Þessar staðreyndir valda því, að við Íslendingar höfum miklu meira svigrúm um ráðstöfun tekna heldur en þær þjóðir, sem hér hafa verið nefndar.

Eins og fram hefur komið vex hlutfall beinna skatta af þjóðartekjum við efnahagsráðstafanir ríkisstj. Sennilegast er, að hlutfallið hækki upp undir 10%, en þó fer það eftir verðbólgustiginu. Eigi að síður er þetta hlutfall miklu lægra en gerist í nágrannalöndunum og það jafnvel þótt víðar væri leitað, eins og ég hef sýnt fram á.

Hins vegar er mér vel ljóst, að aukin skattheimta verður aldrei vinsæl, en getur verið óhjákvæmileg til þess að tryggja nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum og traustan ríkisbúskap, ekki síst á hættulegum tímum óðáverðbólgu eins og við búum nú við.

Eitt af mikilvægustu verkefnum á sviði skattamála er að bæta skatteftirlit þannig að séð verði til þess að menn greiði skatta í samræmi við raunverulegar tekjur sínar. Helsti ókostur beinnar skattlagningar felst í því, að gjaldendur hafa misjafna aðstöðu til að hagræða tekjum sínum og gjöldum gagnvart skattlagningu. Ég mun beita mér fyrir því, að allt eftirlit í þessum efnum verði stórlega hert. Er í fjárlagafrv. gert ráð fyrir 75 millj. kr. fjárveitingu sérstaklega til þessa verkefnis. En aukin fjárframlög til skatteftirlits eru ekki nóg ein sér. Hér þurfa og til að koma breytt vinnubrögð. Tel ég eðlilegt, að þeir starfsmenn á skattstofunum, sem fara yfir framtöl atvinnurekstrarins, geri mun meira að því en nú er að fara út í fyrirtækin og kanna ástand bókhalds þeirra og yfirfara framtöl með hliðsjón af bókhaldi fyrirtækjanna á skrifstofum þeirra sjálfra. Tel ég þetta að mörgu leyti virkara eftirlit en það sem felst í núverandi vinnutilhögun, þar sem svo til allt starfið fer fram á skattstofunum sjálfum. Samhliða þessari breytingu tel ég eðlilegt að auka miðstjórnarvaldið þannig að ríkisskattstjóri og skattrannsóknarstjóri hafi aukin áhrif á val rannsóknarverkefna og vinnubrögð á skattstofunum. Þá ber nauðsyn til að gera meðferð skatta- og bókhaldsafbrota hraðari og virkari en nú er. Ég dreg þó í efa, að besta leiðin til þess sé að stofna sérstakan dómstól til að fjalla um þessi mál, og tel að finna megi leiðir til aukinnar skilvirkni í meðferð þessara brotamála innan núverandi dómstólakerfis.

Núgildandi lög um tollskrá o.fl., nr. 120/1976, öðluðust gildi 1. jan. 1977. s.l. vor samþykkti Alþingi lög, sem fólu í sér verulegar breytingar á tollskrárlögum. Lög þessi voru sett til að samræma íslensku tollskrána þeim breytingum sem gerðar höfðu verið á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins frá því að hún var gefin út að nýju í janúar 1976 með áorðnum breytingum. Ísland er eitt fjölmargra ríkja sem tekið hafa upp tollskrár sem byggðar eru á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins. Hefur jafnan verið leitast við að breyta íslensku tollskránni jafnóðum til samræmis við tollnafnaskrána þannig að notið yrði þess hagræðis sem er því samfara að hafa sama tollskrárform og allar helstu viðskiptaþjóðir okkar. Framangreind samræming leiddi til verulegrar fækkunar á vöruliðum tollskrárinnar og þar með breyttrar tollflokkunar fjölmargra vörutegunda, en hafði eigi í för með sér neinar verulegar breytingar á innheimtu tolla af einstökum vörum. Með lögum þessum voru hins vegar tollar lækkaðir í áföngum úr 25% og 7% í 2% af ýmsum mikilvægum vélum og tækjum til notkunar í landbúnaði til samræmis við þá stefnu, sem mótuð var 1976 við setningu núgildandi tollskrárlaga um tollun sérhæfðra landbúnaðarvéla. Í þessu sambandi er rétt að benda á að ofangreindar breytingar til samræmis höfðu engin áhrif á framhald þeirrar tollastefnu, sem mörkuð var með tollskrárlögum 1970 og 1974, er kveður á um samningsbundnar tollalækkanir vegna aðildar Íslands að EFTA og ákvæða fríverslunarsamningsins við EBE.

Á þessu ári var gefin út auglýsing með nýjum og nokkru rýmri reglum um nýtingu heimilda í 12. tölulið 3. gr. tollskrárlaga og XVI. lið 6. gr. fjárlaga þessa árs um niðurfellingu eða endurgreiðslu tolls og/eða sölugjalds af ýmsum aðföngum til samkeppnisiðnaðar. Auglýsing þessi tekur til helstu véla, tækja, vélahluta, varahluta svo og efnivara, sem iðnfyrirtæki í samkeppnisiðnaði nota. Við gerð reglna þessara var haft samráð við iðnrh. og samtök iðnaðarins. Að fenginni nokkurri reynslu, er fyrirhugað að taka reglur þessar til endurskoðunar í samráði við fyrrgreinda aðila.

Sérstök nefnd var skipuð vorið 1977 til að endurskoða lög um tollheimtu og tolleftirlit. Nefndin skilaði nefndaráliti og skýrslu í ágústmánuði sem nú er til athugunar í fjmrn.

Í júní s.l. gerðist Ísland einn af stofnaðilum alþjóðasamþykktar um gagnkvæma aðstoð aðildarríkja Tollasamvinnuráðsins, m.a. við að koma í veg fyrir brot á tollalögum. Alþjóðasamningi þessum er ætlað að taka við af ályktun ráðsins um sama efni frá 5. des. 1953 sem Ísland gerðist aðili að árið 1973.

Eins og fram hefur komið í umræðum hér á Alþingi um brbl. um kjaramál er hækkun vörugjalds á tilteknum vöruflokkum einn liður í ráðstöfunum ríkisstj. til þess að mæta útgjöldum og tekjumissi er leiðir af samtímaaðgerðum hennar á sviði verðlags- og launamála. Sérstakt tímabundið vörugjald hefur, eins og kunnugt er, verið innheimt af ýmsum vöruflokkum allt frá árinu 1975. Vörugjald þetta hefur verið mismunandi hátt frá einum tíma til annars, lægst 12% og hæst 18%, en fyrir gildistöku brbl. um kjaramál var gjaldið 16%. Sú breyting var hins vegar gerð með síðast nefndum lögum, að vörugjaldinu var skipt í tvo gjaldflokka, annars vegar 16%, eins og það hafði verið að undanförnu, en hins vegar 30% af nokkrum vörutegundum. Tók breyting þessi gildi 9. sept. s.l. og taka gjaldflokkar þessir nær undantekningarlaust til sömu vöruflokka og áður.

Gert er ráð fyrir að hækkun á vörugjaldinu frá 9. sept. s.l. muni færa ríkissjóði 400 millj. kr. á næsta ári. Jafnframt er gert ráð fyrir að vörugjaldið verði innheimt á árinu 1979 á sama hátt og nú er gert samkvæmt ákvæðum laga um kjaramál til að mæta þeim útgjöldum, sem leiðir af niðurgreiðslum, og tekjumissi, sem m. a, stafar af niðurfellingu söluskatts af matvörum á næsta ári. Miðað við sömu verð- og magnforsendur og notaðar eru um almennan vöruinnflutning er áætlað að heildarinnheimta vörugjalds á næsta ári nemi 11750 millj. kr.

Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir lækkun aðflutningsgjalda í samræmi við samning um aðild Íslands að EFTA og samning við EBE. Í samstarfssamningi stjórnarflokkanna er gert ráð fyrir „að samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar verði tekin til endurskoðunar og spornað með opinberum aðgerðum gegn óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m.a. með frestun tollalækkana“. Ekki er fullráðið með hvaða hætti þetta verður gert. Sérstök nefnd þriggja ráðuneyta hefur málið til athugunar og mun væntanlega skila tillögum innan skamms.

Þegar núv. ríkisstj. tók við störfum voru kjarasamningar alls þorra launafólks settir í gildi að nýju. Ríkisstj. stofnaði til víðtæks samráðs við samtök launafólks og aðra aðila vinnumarkaðarins um stefnumörkum í kjara- og efnahagsmálum, sem hefur það að markmiði að verja kjör launafólks, ráðast gegn verðbólgu og halda uppi fullri atvinnu.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnarflokkanna er lögð áhersla á samráð við samtök launafólks um úrlausn efnahagsvandans og í því sambandi sett fram sú ósk, að núgildandi kjarasamningar verði framlengdir án grunnkaupshækkana út árið 1979. Jafnframt segir, að í tengslum við þetta sé ríkisstj. reiðubúin að taka samningsréttarmál opinberra starfsmanna til endurskoðunar þannig að felld verði niður ákvæði um tímalengd samninga og Kjaranefnd.

Ríkisstj. hefur nú þegar óskað eftir því við opinbera starfsmenn sérstaklega, að samningar þeirra verði framlengdir til ársloka 1979 og að fallið verði frá þeim grunnkaupshækkunum sem um var samið að tækju gildi á næsta ári. Jafnframt þessu hefur ríkisstj. skipað nefnd til að endurskoða samningsrétt opinberra starfsmanna.

Það hefur valdið nokkrum vonbrigðum, að þrátt fyrir nýfenginn verkfallsrétt BSRB og í framhaldi af því stórbætt kjör ríkisstarfsmanna hafa nokkrir hópar ríkisstarfsmanna, þ. á m. fjölmenn félög, gripið til einhliða aðgerða til að reyna að knýja fram kröfur milli samninga. Þetta er vandamál sem aðilar þurfa að reyna að leysa í sameiningu nú við endurskoðun kjarasamningalaganna.

Ýmsir viðsemjendur ríkisins hafa sýnt þessu vandamáli mikinn skilning. Í því sambandi fagna ég nýgerðu samkomulagi við samtök grunnskólakennara um jöfnun kennaraprófa. Samtökin féllust á að samkomulagið taki gildi 1. júlí 1979, þ.e. eftir að núgildandi sérkjarasamningar þeirra renna formlega úr gildi.

Eins og kunnugt er eru atvinnufyrirtæki ríkisins ekki í samtökum vinnuveitenda. Vinnumálanefnd ríkisins annast samningsgerð fyrir þau við hlutaðeigandi verkalýðsfélög. Árið 1975 gerði vinnumálanefnd samning við 17 verkalýðsfélög sameiginlega um samræmd launakerfi í ríkisverksmiðjunum, þ.e. Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og Kísiliðjunni.

Reynslan af þessum samningi er góð og ég tel hana hvatningu til þess, að komið verði á samræmdu launakerfi fyrir allt launafólk í landinu. Eins og nú háttar eru hér ótal launakerfi og það ræðst t.d. fremur af formi launakerfanna en launaupphæðum hvort launþegar fá nú fullar vísitölubætur eða ekki.

Flestir eru sammála um að stuðla þurfi að launajöfnun í þjóðfélaginu. Slíkt er mjög erfitt þegar launakerfi einstakra stétta eru jafnólík og raun ber vitni. Hugsanlega gæti launakerfi það, sem opinberir starfsmenn búa við, eða launakerfi ríkisverksmiðjanna verði gagnlegt til viðmiðunar, enda rúma þau flestar starfsstéttir.

Vísitölubætur á laun hafa verið mjög til umræðu að undanförnu. Sérstakri nefnd, sem skipuð er fulltrúum aðila vinnumarkaðarins, opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins, hefur verið falið að gera tillögur um endurskoðun viðmiðunarlauna við vísitölu. Tillögurnar skulu miða að því að draga úr verðbólguáhrifum af víxlgangi í verðlags- og kaupgjaldsmálum og stuðla að tekjujöfnun.

Hér er um viðkvæmt og vandasamt mál að ræða. Hins vegar er mjög brýnt, að gerðar verði þær breytingar á núgildandi vísitölutilhögun sem slævt geti verðbólguhvatann í verðbótareglunni. Ein út af fyrir sig mundi slík breyting ekki skipta sköpum í baráttunni gegn verðbólgunni, en sem hluti af víðtækum efnahagsúrræðum er hún mjög mikilvæg.

Mjög æskilegt er að samskipti opinberra starfsmanna og ríkisins verði sem vinsamlegust. Í því efni hef ég áhuga á að efla fræðslu- og félagsstarfsemi á þessu sviði til þess að auka gagnkvæman skilning beggja aðila.

Um áraraðir var skrá um starfsmenn ríkisins birt með fjárlagafrv. Skrá þessi náði aðeins til þeirra, er taldir voru hafa „stöður“, og mjög ófullkomin. Var því horfið frá birtingu hennar með frv.

Undanfarin ár hefur verið birt Starfsmannaskrá ríkisins í sérstakri bók er fjmrn. hefur gefið út. Samkvæmt síðustu starfsmannaskrá voru stöðugildi A-hluta stofnana 8618, en B-hluta stofnana 4015. Stöðugildin voru því samtals 12633. Að sjálfsögðu verður Starfsmannaskrá samin nú eins og undanfarin ár. Hins vegar tel ég eðlilegt að gera á henni nokkrar breytingar.

Í fjárlagaræðunni hefur verið lögð megináhersla á þýðingu þess að beita fjárlögunum í baráttunni gegn verðbólgunni. Ástæðan fyrir því, að okkur Íslendingum hefur enn þá tekist að standa af okkur boðaföll verðbólgunnar án atvinnuleysis og versnandi lífskjara, er einfaldlega sú, að hægt hefur verið að halda uppi þróttmikilli framleiðslustarfsemi. Framleiðslufyrirtækin hafa ekki stöðvast. Þjóðartekjurnar á þessu ári verða 540 milljarðar kr. og útflutningur vöru og þjónustu samtals 240 milljarðar. En staða atvinnuveganna er mjög þröng, og lítið má út af bera til þess að rekstrartruflanir og jafnvel rekstrarstöðvanir eigi sér stað. Þá er stutt í atvinnuleysi og versnandi lífskjör.

Með hverjum degi skýrist myndin af stöðu efnahagsmála. Það brakar í vissum undirstöðum efnahagslífsins og hættusigling er fram undan. Ef ekki er höfð aðgát gæti verðbólgan vaxið verulega frá því sem hún er nú. Við eigum því enga valkosti og verðum einfaldlega að ná verðbólgunni niður, ella stöndum við frammi fyrir versnandi lífskjörum og ótryggri atvinnu. En það getur verið erfið leið frá 50% verðbólgu niður í 10%. Það verður að gera mikið og samræmt átak til þess að ná verðbólgunni niður. En slíkt átak verður að byggjast á réttlæti og þátttöku sem flestra.

Með fyrstu aðgerðum ríkisstj. hafa verið lagðir verulegir eignarskattar á einstaklinga og enn hærri á félög. Lagður hefur verið sérstakur skattur á háar tekjur. Þá hafa verið lagðir verulegir skattar á atvinnureksturinn í landinu. Ígildi þessara skatta verður framlengt í einu eða öðru formi. Þessum fjármunum hefur verið varið og verður varið til þess að halda verðbólgunni í skefjum.

Eðlilegt er að í framhaldi af þessum aðgerðum komi til allsherjarþátttaka þjóðarinnar í baráttunni gegn verðbólgunni. Málið er svo alvarlegt, svo hættulegt, að allir verða að leggjast á árina til þess að fullnægjandi árangur náist.

Draga verður úr sjálfvirkum verðbólgugangi vísitölukerfisins eða a.m.k. að gefa svigrúm um sinn til þess að fóta sig í stöðunni. Enn fremur verður að afgreiða fjárlögin með þeim hætti að þau hemli hraða verðbólgunnar, en slíkt gerist ekki nema þau verði afgreidd með ríflegum rekstrar- og greiðsluafgangi.