14.11.1978
Sameinað þing: 19. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

54. mál, fjárlög 1979

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að gera hér nokkrar almennar aths. af hálfu okkar Alþb.manna í sambandi við fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram. En áður en ég kem að þeim aths. þykir mér rétt að víkja hér nokkrum orðum að þeirri ræðu, sem hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, hélt nú næst á undan mér.

Hv. þm. hélt því fram, að stefna núv. ríkisstj. í efnahagsmálum væri mín stefna. Það er mjög ónákvæmt að segja á þennan hátt frá. Hann hefði reyndar átt að vera búinn að læra það áður, af öllum þeim mörgu ræðum, sem ég hef flutt hér, m.a. þar sem ég hef rætt um efnahagsmál, að það liggur nokkuð ljóst fyrir, að afstaða mín til ýmissa þeirra ráðstafana, sem ég tel að gera þurfi í efnahagsmálum, er allmikið frábrugðin því, sem enn er a.m.k. komið fram hjá núv. hæstv. ríkisstj., svo það er nokkuð ónákvæmt að segja að stefna hennar í efnahagsmálum sé stefna mín.

Hv. þm. eignaði mér líka alla efnahagsstefnu tveggja annarra ríkisstj., sem hér höfðu áður verið við völd, þ.e.a.s. vinstri stjórnanna frá 1956–1958 og svo aftur vinstri stjórnarinnar frá 1971–1974. Ekki dettur mér í hug að neita því, að ég hafi átt alldrjúgan þátt í því sem þær stjórnir gerðu, m.a. á efnahagssviði, þó að eins og flestir þekkja væri nokkur skilnaður á milli mín og þeirra sem þar voru með mér, a.m.k. undir lokin, þar sem við vorum ekki alveg sammála m.a. um afstöðuna í efnahagsmálum.

Öll var þessi tilvitnun hjá hv. 1. þm. Reykn. vægast sagt ónákvæm. Hann sagði í sínu máli, að það hefði verið erfið aðkoma hjá honum þegar hann settist í stól fjmrh. á árinu 1974, því viðskilnaður þeirrar ríkisstj., sem þá var að fara frá, hefði verið með þeim hætti. Hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, sagði, að þá hefði t.d. ástandið verið þannig, að verðbólgan hefði verið komin í 54%. Þetta er álíka ónákvæmt eins og það sem ég var að vitna til áður. (Gripið fram í. ) Og ætlaðir mér þá að bera syndir þín sjálfs, en þú varst við völd seinni hluta ársins og bættir heldur betur við skrúfuganginn. (MÁM: Hún var 90% 1. júní.) En tölur sýna hins vegar að á þeim mælikvarða, sem verðbólgan er metin, segja allar skýrslur að verðbólgan á árinu 1974 hafi verið 43% frá meðaltali til meðaltals á milli ára. En í 54% eða tæplega það reyndar komst hún fyrst á fyrri hluta ársins 1975, þegar hv. 1, þm. Reykn. og sú stjórn, sem hann var í, var búin að fella gengið allrösklega tvisvar sinnum á rétt rúmlega 5 mánuðum. Þá komst verðbólguhraðinn í þetta. — Hann hefði hins vegar átt að vita það, að ég réð litlu um gang mála eftir að kosningum var lokið á árinu 1974. Ég hef minnt á það áður og vil minna á það enn, að svo vel vildi til, að eftir kosningarnar sumarið 1974 var gerð röskleg úttekt á efnahagsástandi þjóðarinnar. Formaður Sjálfstfl., Geir Hallgrímsson, stóð m.a. fyrir þessu og bað Þjóðhagsstofnun um að gera þetta. Um þessi atriði liggur fyrir hvernig ástandið var í öllum höfuðgreinum á miðju ári 1974 eða um það leyti sem var verið að mynda nýja stjórn.

Ég ætla ekki að fara að rekja það — hef gert það áður — að þessi skýrsla sýnir að þá var ástandið þannig, að næsta heila árið á undan, 1973, var eitt besta afkomuár þjóðarinnar í öllum greinum. Staða atvinnuveganna var þá betri en nokkru sinni fyrr og þessi ágæta afkoma stóð fram á mitt árið 1974. M.a. var þá tekið fram, að eins og þá stæðu mál væri ekki annað hægt að sjá en að það yrði fullkominn jöfnuður í fjármálum ríkissjóðs, þar mætti búast við fullkomnum jöfnuði. En hv. 1. þm. Reykn. og þeirri ríkisstj., sem flokkur hans stóð að, tókst hins vegar að stýra þannig málum á árinu 1974, þrátt fyrir þessa aðkomu, að þarna varð á árinu um stórkostlegan halla að ræða.

Það er svo hliðstætt annarri ónákvæmni í frásögn þessa hv. þm. um þessi sögulegu atriði, að hann munar auðvitað aldrei neitt um að skrifa hjá mér allt það sem gerðist á árinu 1974. Það var mín efnahagsstefna. Það var ég sem réð öllum gangi á árinu 1974, þrátt fyrir það að hann væri kominn í ríkisstj, og framkvæmdi þar bæði sínar verðhækkanir og gengislækkanir seinni hluta ársins. Öðru máli var að gegna á árinu 1971. Vildi svo til, að þá kom ég inn í ríkisstj. um svipað leyti og ég hafði farið úr stjórninni á hinu tímabilinu, en þá snýr hv. þm. þessu öllu við, því árið 1971 tilheyrir þessum þm., Lúðvík Jósepssyni, ekki á neinn hátt. Það voru allt aðrir menn sem áttu það ár.

Svona var samanburðurinn allur hjá hv. þm. Það var auðvitað hvergi um samræmi í neinu að ræða.

Hv. þm. kvartaði undan því, við hverju hann hefði tekið í þessum efnum. Það er ekkert um það að villast, að á árinu 1974, þó staða atvinnuveganna hafi verið tiltölulega góð og heildarframleiðsla þjóðarinnar mikil, þá stóðum við á miðju ári 1974, um það leyti sem var verið að mynda nýja ríkisstj., frammi fyrir miklum vanda í verðlagsmálum. Og um það höfðu deilurnar staðið þá. Árin 1973 og 1974 höfðu um margt verið sérkennileg, eins og greinilega kemur fram í skýrslum Þjóðhagsstofnunar um þetta tímabil. Á árinu 1974 hækkaði innflutningsverð á vörum til landsins að meðaltali eftir útreikningum Þjóðhagsstofnunar um hvorki meira né minna en 34%. 34% var hækkunin á erlendu verðlagi á vörum, sem fluttar voru inn til landsins þá. En það er rétt, verðbólgan fór í 43% eftir að búið var að skrúfa hana upp seinni hluta ársins með gengislækkun og tilheyrandi ráðstöfunum. Þarna var um allmikinn vanda að ræða, sem við áttum ekki gott með að eiga við. Það var innflutt verðbólga í ríkum mæli.

Þetta gerðist einnig á árinu 1973. Í upphafi þeirrar verðbólgu, sem þá kom upp úr þeim óróleika sem þá var bæði í olíumálum og gengismálum í veröldinni, hækkaði meðaltalsverð á innfluttum vörum til landsins á árinu 1973 um rúmlega 14%, en verðbólgan á því ári um 22%. Þarna var um vandamál að ræða, sem menn stóðu frammi fyrir og þurftu að glíma við. En þann tíma, sem hv. 1. þm. Reykjn. var fjmrh. og flokkur hans bar höfuðábyrgð á ríkisstj. og stefnu hennar, bjuggum við hins vegar við þær aðstæður, að þá hækkaði verð erlendis um 5–6% á ári, samkv. því sem skýrslur sýna. Á þessum tíma áttum við því ekki við neina innflutta verðbólgu að glíma, ekki sem heitið gat, var hverfandi í samanburði við þá gífurlegu verðbólgu, sem hér geisaði allan þennan tíma hér innanlands.

Ég sé nokkra ástæðu til þess, í framhaldi af því sem hv. 1. þm. Reykn. sagði um þessi mál, að minna hann örlítið betur á það, hvernig hann svo skildi við eftir fjögurra ára stýrimennsku á skipinu. Hvernig var ástandið? Við skulum fara yfir nokkur kennileiti í þessum efnum.

Ástandið var þannig, að Þjóðhagsstofnun segir að frá ágústmánuði 1977 til ágústmánaðar 1978 hafi verðbólgan verið rúmlega 50%. Svona stóðu leikar þegar hann fór frá.

En það var ekki aðeins á þessu sviði. Málið stóð þannig, að ríkisstj. var í langvarandi deilum við öll stærstu launþegasamtök í landinu og auðvitað stefndi í hreinar ógöngur með rekstur á öllum fyrirtækjum í landinu, m.a. vegna þeirrar deilna, sem sjálft ríkisvaldið var í við hin stóru launþegasamtök. Þar var allt í flækju.

Auk þess var svo ástandið þannig, að þýðingarmestu og stærstu atvinnugreinar landsmanna höfðu lýst yfir formlegri stöðvun frá 1. sept. að telja. Þá var sem sagt allt komið í þrot. Þó þetta skrimti fram til 1. sept., þá var ástandið einnig þannig, sem ekki er um deilt, að frá því í júníbyrjun á þessu ári eða í upphafi kosningamánaðar vantaði aðalútflutningsframleiðsluna um 11% til viðbótar við sitt útflutningsverð til þess að framleiðslan stöðvaðist ekki þá þegar. Hafði verið til þess að borga þessa fjárhæð gefin ávísun á sjóð, sem vitað var að var að verða tómur. Þannig var viðskilnaður í þessum efnum.

Hvernig var viðskilnaðurinn á öðrum sviðum? Hæstv. fjmrh. var kominn með skuldabagga hjá Seðlabankanum milli 25 og 26 milljarða, en tók við, þegar hann byrjaði, skuld við Seðlabankann, sem var einhvers staðar á milli 1 og 2 milljarða kr. Það er dálaglega að verki verið.

Það er í rauninni alveg sama hvar gripið er niður til að átta sig á ástandinu. Auðvitað er það viðskilnaður þessa hæstv. fyrrv. fjmrh. sem við erum að heyra af núna þessa dagana, að næstum öll sjúkrahús í landinu séu að stöðvast af því þau hafa engan grundvöll til rekstrar. Forstöðumenn þeirra segja nú í dag: Takk fyrir, 1 milljarð, ef við eigum að geta haldið rekstrinum áfram.

Þetta er eitt dæmið um viðskilnaðinn. Hvernig stóð hjá landbúnaðinum? Landbúnaðurinn stóð þannig, að það þurfti að leysa hann út úr vanda með sérstakri aukagreiðslu upp á 1.3 milljarða kr., til þess að bændur landsins yrðu ekki fyrir stórkostlegum áföllum.

Iðnaðurinn lýsti því yfir, að þannig væri ástatt, að ef hann fengi ekki lengri aðlögunartíma samkv. EFTA-samningnum eða hliðstæða aðstoð, sem því næmi, þá blasti þar við allsherjarstöðvun.

Til viðbótar við þetta vissu menn, að þegar ríkisstj. fór frá, voru fram undan blátt áfram verðhækkunarholskeflur. Það vissu allir, að það var um verðhækkunarholskeflu að ræða 1. sept., og varð að grípa til þeirra ráða, sem núv. hæstv. ríkisstj. gerði, til þess að bægja frá þeirri hættu, að vísu með bráðabirgðaráðstöfunum. Og hvernig skyldi standa á þeim vanda, sem er talað um í dag að skelli hér yfir 1. des.? Halda menn að þessar verðhækkanir hafi orðið til frá því að núv. ríkisstj. var mynduð? Nei, það liggja fyrir pappírar um það, hvenær þessar verðhækkanir komu inn í alla keðjuna.

Það liggur t.d. fyrir, að það var orðin verðhækkun á grundvelli landbúnaðarafurða. Það átti aðeins eftir að skrá hið nýja landbúnaðarvöruverð og hækkunin, sem þar lá á bak við, nam hvorki meira né minna en rétt u.þ.b. helmingnum af allri þeirri niðurgreiðslu sem ríkisstj. nýja greip til 1. sept. Niðurgreiðslurnar þá námu rétt í kringum 80 stig í vísitölu, en hinar nýju hækkanir á landbúnaðarafurðum námu 38 stigum. Svona voru vandamálin hvar sem lítið var.

Ég skal ljúka þessari upptalningu með því aðeins að minna hv. þm. á að telja saman breytingar, sem urðu á hans tímabili í erlendri skuldasöfnun þjóðarinnar eða skuldasöfnun við útlönd. Það er ekkert smáræði sem þar gerðist. Það er því í rauninni alveg sama hvert lítið var. Það blasti við eitt allsherjar gjaldþrot hjá fyrrv. ríkisstj., enda fékk hún auðvitað dóm hjá þjóðinni í samræmi við það.

Það hefði átt að standa miklu nær hv. 1. þm. Reykn. að rifja upp þennan viðskilnað heldur en fara að rifja það upp, hvað gerðist hér árið 1958, í nóvembermánuði. Ég hygg að þá hefði hann getað skýrt með allmiklu meiri nákvæmni frá því sem gerðist raunverulega í þessum efnum heldur en hann gerði.

Það er enginn vafi á því, að þau efnahagsráð, sem fyrrv. hæstv. ríkisstj. fór eftir, voru óheillaráð. Þau leiddu okkur inn í meiri vanda en við höfðum verið í áður.

Á þessari stundu treysti ég mér ekki til að segja neitt um það, hvernig núv. ríkisstj. muni takast í baráttunni við þennan vanda. Hún er rétt að hefja göngu sína. Ég játa að ég hefði þar viljað gera margt á annan veg en þegar hefur verið gert. En því miður sýnist mér að samstöðu um aðgerðir í þá átt, sem ég tel heillavænlegri en þá stefnu sem farin hefur verið, virðist verða erfitt að ná.

Ég skal ekki við þessa umr. fara lengra út í að þræta um þessi mál við hv. 1. þm. Reykn., en koma að því sem var meginástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hér hljóðs.

Það er kunnugt, að verið hafa óvenjulega miklar umr. um það fjárlagafrv., sem hér er nú til 1. umr., áður en það kom formlega inn í þingið. Ég man varla eftir því, að það hafi verið jafnmiklar umr. í blöðum og ætlast til að menn tækju upp umr. um frv. í útvarpi og sjónvarpi áður en það kom fram, heldur en að þessu sinni. Miklar sögur gengu einnig um það, hvernig unnið væri að gerð þessa fjárlagafrv.

Ég vil segja það hér strax, eins og ég hef reyndar sagt áður, að nokkrar ástæður voru fyrir þessum miklu umr. Það kom strax upp, að það var nokkur ágreiningur meðal stjórnarflokkanna um það, hvernig réttast og eðlilegast væri við þær aðstæður, sem búið var við, að standa að framlagningu fjárlagafrv. að þessu sinni. Við Alþb.menn vorum á þeirri skoðun og Alþfl.-menn einnig, að miðað við allar aðstæður væri réttast að leggja fram það fjárlagafrv. sem hafði verið undirbúið af fyrrv. ríkisstj. og unnið á þann tæknilega hátt sem varð að vinna að gerð fjárlagafrv. og venjulega tekur langan og mikinn tíma, en slíku frv., sem lagt yrði fram, eins og þingsköp gera ráð fyrir, strax í byrjun þings, fylgdi hins vegar sú almenna grg., að stjórnarflokkarnir mundu vinna að því að breyta þessu frv. í meðförum Alþingis til samræmis við stefnu sína. Þetta var afstaða okkar, einfaldlega af því að við töldum að það væri mjög hæpið að stjórnarflokkarnir hefðu tíma til þess að undirbúa frv. með samningagerð sín á milli á þann hátt sem yrði að teljast fullnægjandi.

Hæstv. fjmrh. var á annarri skoðun. Hann taldi eðlilegt að vinna upp nýtt fjárlagafrv. sem tæki eins mikið mið af stefnu stjórnarinnar í þýðingarmiklum málum og mögulegt væri, og stefna hans varð ofan á í þessum efnum. Hann hélt sér fast við þetta og þannig var síðan unnið að gerð frv.

En það fór eins og okkur grunaði, að auðvitað kom í ljós, að enginn tími var til þess fyrir þrjá stjórnmálaflokka, sem stóðu að ríkisstj., með talsvert mismunandi skoðanir til margvíslegra mála sem snerta fjárlagafrv., — það var enginn tími til þess að flokkarnir gætu samið til fullnustu um afstöðu til mikilvægra mála í frv. (Gripið fram í: En þetta er stjórnarfrv., er það ekki?) Jú, það er stjórnarfrv. Um það er ekkert að efast. Af þessum ástæðum var það, að það hlaut í rauninni að fara svo, að frv. yrði lagt fram með allmiklum fyrirvörum um þýðingarmikil atriði og að það lægi þá fyrir þegar við 1. umr. um málið, að enn væru eftir allmörg atriði í frv. sem ekki hefði tekist endanlega samstaða um.

Þó að unnið væri að samræmingu á skoðunum flokkanna til þessara mála við gerð frv. og þó að þar næðist talsverður árangur að dómi okkar Alþb.-manna, kom frv. fram í þeim búningi að við vildum gera við það ýmsar almennar aths. af okkar hálfu. Og þær koma að sjálfsögðu á óbeinan hátt fram í þeim almennu fyrirvörum, sem fram koma í grg. með frv. og hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir að talsverðu leyti.

Ég geri mér fyllilega vonir um það, að þær deilur, sem enn þá eru, eða sá ágreiningur, sem enn þá er á milli stjórnarflokkanna um afstöðu til ýmissa atriða frv., verði leystur eins og allajafna í samstarfi flokka þegar þeir hafa tíma til að ræða málin og átta sig á öllum aðstæðum, sem menn verða að átta sig á þegar um samstarf aðila er að ræða.

Ég sé ástæðu til að víkja að nokkrum atriðum, sem við Alþb.-menn viljum strax við 1. umr. láta koma fram að við höfum nokkra sérstöðu um, en þar drep ég aðeins á fá atriði og þau sem ég tel einna mikilvægust.

Það er þá í fyrsta lagi, að í frv. er gert ráð fyrir allverulegum niðurskurði á fjárframlögum til svonefndra verklegra framkvæmda. Eins og tölur frv. bera með sér er rætt um að þessi niðurskurður muni nema að magni til, þ.e.a.s. sé tekið tillit til verðlagsbreytinga á milli ára, í kringum 16%. Þó kemur fram í frv., að til þess sé ætlast að auka framlög nokkuð, eða um u.þ.b. 1 milljarð, til þessa málaflokks, til verklegra framkvæmda, og þá gæti magnminnkun þessara framkvæmda numið í kringum 11–12%.

Við Alþb.-menn höfum sagt: Við getum fyllilega við þær aðstæður, sem við búum við, sætt okkur við að þessi niðurskurður geti numið í kringum 10–12%, en viljum þá mjög tengja það hinni almennu fjárfestingarstefnu á öðrum sviðum. Á það þarf vitanlega að benda í þessum efnum, að fjárfestingin, sú sem fram kemur í A-hluta fjárlagafrv., er lítill hluti af heildarfjárfestingunni í landinu og niðurskurður á þessum tiltölulega litla lið, þegar borið er saman við heildarfjárfestinguna, segir auðvitað mjög lítið um áhrif fjárfestingarframkvæmda á verðbólgumátin, nema þá að gerð sé um leið grein fyrir því, hver stefnan eigi að vera í fjárveitingum til fjárfestingarmála á öðrum sviðum.

Ég vil benda á það, að gert er ráð fyrir því, að á yfirstandandi ári verði heildarfjárfestingin í landinu í kringum 140 milljarða kr. Hins vegar mun fjárfestingin, sú sem hér er fyrst og fremst verið að ræða um, í A-hluta fjárlaga, hafa verið rétt rúmlega 20 milljarðar á fjárl. fyrir þetta ár. Því geta allir séð að þessi hluti fjárfestingarinnar getur hér ekki ráðið öllum úrslitum. Hér er um að ræða fjárveitingu til jafnnauðsynlegra mála og t.d. hafnagerða í landinu, vegamálaframkvæmda og síðan fjárveitingar bæði til skólabygginga og heilbrigðisstofnana og margra annarra slíkra þátta.

Við Alþb.-menn leggjum á það höfuðáherslu, að sé um að ræða tiltekinn samdrátt í fjárveitingum til þessara framkvæmda, þá sé hann í ákveðnu hlutfalli við það sem á að gera varðandi fjármögnun annarrar fjárfestingar í landinu eða á öðrum sviðum. En okkur þykir allt of mikið bera á því hjá ýmsum aðilum, að það eitt nægi þeim að skera niður fjárframlög til þessara félagslegu framkvæmda, en hirða þá minna um það, hvernig staðið er að því að halda uppi fjárfestingu á öðrum svíðum, sem taka til sín miklum mun meira fjármagn og gæti verið í eðli sínu miklu umdeildari fjárfesting en þessi. Verði við það staðið við endanlega afgreiðslu fjárlaga fyrir komandi ár, að niðurskurður til þessara framkvæmda verði ekki meiri en sem nemur 10–12%, þá teljum við Alþb.menn það mjög eðlilegt. En við höfnuðum till. sem voru í þá átt, að þessi niðurskurður skyldi verða um 30%. Við viljum ekki standa að slíkum niðurskurði á fjárveitingum til þessara framkvæmda og það allra síst á meðan stefna hefur ekki verið mörkuð í öðrum fjárfestingarmálum.

Þá er einnig í frv. gert ráð fyrir að draga nokkuð úr niðurgreiðslum á vöruverði frá því stigi sem ráðgert er að þessar niðurgreiðslur verði í nú í desembermánuði. Gert hafði verið ráð fyrir því í samstarfssamningi stjórnarflokkanna að beita sér fyrir lækkun á vöruverði sem næmi í kringum 10% miðað við framfærsluvísitölu, og við það er miðað, að því marki verði náð nú í desembermánuði og síðan áfram fram eftir næsta ári. Hins vegar er í því fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir að draga úr þessum niðurgreiðslum sem nemur 2.8 milljörðum kr. á árinu sem heild. Við erum ekki samþykkir þessari ráðstöfun og hefðum kosið að hægt yrði, miðað við þær aðstæður sem við búum við í verðlagsmálum, að halda sig við þessa verðlækkun. Við bendum á að þarna er um tvenns konar vanda að ræða: Annars vegar þann mikla vanda, sem að okkur steðjar vegna hækkandi verðlags, og þarf því að leggja sig allan fram um að reyna að halda verðlaginu niðri, og hins vegar, að sé dregið úr niðurgreiðslum mun það aftur auka á vandann hinum megin frá einnig, þ.e.a.s. stöðu íslensks landbúnaðar. Við teljum því að mjög óhyggilegt sé að stefna að samdrætti eins og þarna er gert ráð fyrir, nema þá eitthvað annað sé hugsað að komi þarna á móti sem leyst gæti vandann. Um þetta atriði höfum við enn okkar fyrirvara.

Þá er í fjárlagafrv., eins og það er lagt fram, gert ráð fyrir, að tollar á svonefndum samkeppnisvörum eða EFTA-vörum verði enn lækkaðir um næstu áramót sem nemur í kringum 1.1 milljarði kr. Það kæmi að sjálfsögðu fram sem tekjutap hjá ríkissjóði að lækka tollana sem þessu næmi, en þar að auki mundi þetta leiða af sér vaxandi vanda fyrir samkeppnisiðnað okkar. Við bendum á að í samkomulagi stjórnarflokkanna var beinlínis lofað að fresta þessari tollalækkun, og við erum ekki ásáttir með að horfið sé frá þessu loforði. Iðnaðurinn gerir sterkar kröfur um að það verði staðið við þetta loforð og telur sér ekki veita af að fá þessa aðstoð. Og við álítum að öll rök mæli með því, að áfram verði staðið við það sem ætlunin var að gera af stjórnarflokkunum, þ.e. að fresta þessari tollalækkun.

En frv. er lagt fram með öðrum ákvörðunum í þessum efnum. Það hefur að vísu komið fram í umr. á milli stjórnarflokkanna, að ef sú leið yrði farin, sem gert er ráð fyrir í frv., þá yrði annað að koma í staðinn til verndar íslenskum samkeppnisiðnaði sem jafngilti þeirri fjárhæð, sem þarna er um að ræða. Auðvitað er hægt að hugsa sér þá leið að lækka tollana á þessum vörum í samræmi við EFTA-samninga, en grípa svo aftur til nýrrar tollahækkunar eða einhverra nýrra álaga í sambandi við innfluttar vörur, sem jafngilda tollalækkuninni. Það er það sem komið hefur fram frá okkar samstarfsflokkum að ætlunin sé að gera. En um þetta atriði er enn ekki fullsamið. Við Alþb.-menn erum með fyrirvara varðandi þetta atriði og viljum halda okkur í þessum efnum við samkomulag stjórnarflokkanna, það teldum við eðlilegast, en að öðrum kosti við það, að aðrar ráðstafanir yrðu gerðar í staðinn sem jafngiltu því sem þarna var ætlunin að gera.

Þá er enn eitt atriði sem við höfum fyrirvara um. Við höfum allan tímann lagt á það áherslu, að jafnhliða því, sem dregið yrði úr fjárfestingarframlögum ríkisins yrði að sama skapi unnið að því að draga úr rekstrarkostnaði á vegum ríkisins. Við teljum alveg fráleitt, að áfram sé haldið stefnu undanfarandi ára í þeim efnum, að rekstrarkostnaður ríkisins bólgni út í sífellu, hækki frá ári til árs, fyllilega til samræmis við verðlag, venjulega heldur meira. Við höfum því gert kröfu um að inn kæmi liður í fjárlagafrv., sem gerði ráð fyrir því, að dregið yrði úr almennum rekstrarkostnaði hjá ríkinu.

Að því er vikið í grg. með frv., að leitað muni verða samkomulags um að fá fram útgjaldalækkun í sambandi við rekstrarútgjöld sem gæti numið um 1 milljarði kr. Við teldum að það væri mjög í áttina, en það hins vegar er ekki ákveðin tala um það í fjárlagafrv.

Um tekjuöflun frv. er það að segja, að við teljum að óheppilegt sé að gera ráð fyrir í frv. að fella niður þann tekjustofn sem ríkið hefur búið við á þessu ári, skyldusparnaðinn. Þó að þar sé um sparnað að ræða, en ekki hreinar tekjur, jafngildir hann að verulegu leyti tekjum fyrir ríkið eða gildir sem fullkomið ráðstöfunarfé fyrir ríkið í ríkisbúskapnum. Ef þessum tekjustofni hefði verið haldið áfram hefði hann gefið samkv. útreikningum 3 milljarða í tekjur á næsta ári. Við teljum, að það sé eðlilegt að halda þessum tekjustofni, og sjáum enga ástæðu til að falla frá honum, það hefði verið nær að nota það svigrúm, sem þessar tekjur hefðu gefið, til frekara viðnáms gegn verðhækkunum, en fara ekki þá leið, að fella niður þennan tekjustofn. Um þetta höfum við einnig okkar fyrirvara.

Varðandi þann ágreining, sem uppi hefur verið um tekjuöflun að öðru leyti, er það okkar afstaða, að við segjum, að ef það reynist nauðsynlegt til samkomulags að fara inn á það að lækka að einhverju leyti hina beinu tekjuskatta, þá er það afstaða okkar að sá hinn fyrsti af þessum beinu tekjusköttum ríkisins, sem á að verða fyrir lækkun eða brottfalli, er sjúkratryggingagjaldið, því þar er um að ræða 2% gjald sem lagt er á brúttótekjur niður eftir öllum tekjustiganum og hvílir tiltölulega langþyngst á lágtekjufólki, á því fólki sem nú þarf ekki að borga neinn tekjuskatt.

Það er býsna athyglisvert, að síðustu skýrslur, sem lagðar voru fram um þessa skatta, sýndu að á árinu 1977 voru hvorki meira né minna en 37 þús. aðilar í landinu sem þurftu að greiða sjúkratryggingagjald sem ekki þurftu að borga neinn tekjuskatt. Það er vegna þess að þessi gjaldstofn nær miklu neðar og leggst með þunga á lágu tekjurnar. Því teljum við að það sé þetta gjald, sem eigi að víkja, áður en farið er í að breyta tekjuskattinum, þó að full ástæða sé til að breyta honum í ýmsum efnum.

Auk þess, sem ég hef minnst á, eru auðvitað mörg önnur atriði, sem við höfum ekki verið beinir þátttakendur í að ákveða, en er að finna í þessu fjárlagafrv.

Ég er t.d. jafnóánægður með þetta fjárlagafrv. og önnur að undanförnu varðandi hina svonefndu olíustyrki. Mér sýnist reyndar að farið sé enn harðari höndum um þá, sem áttu að njóta þessa styrks, í þessu frv. en nokkru sinni áður. Þessu vil ég breyta, því þarna er níðst á þeim sem síst skyldi.

Ég tel líka alveg fráleitt, að það sé ekki tekið tillit til þess við fjárlagaafgreiðslu, að það verður að veita Rafmagnsveitum ríkisins eitthvert beint fjárhagslegt framlag í því skyni að Rafmagnsveiturnar geti lækkað raforkuverðið til sinna viðskiptaaðila. Sjá væntanlega allir að það verður ekki búið við það lengur, að þeir, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, þurfi að borga rafmagn til heimilisnota á 88% hærra verði en nú er t.d. hér í Reykjavík og að á þeim svæðum, þar sem menn verða að skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, verður almennur iðnaður að borga fyrir raforkuna 82% hærra verð. Það hefur oft verið minnst á það áður á Alþ., að nauðsynlegt er að beint fjárframlag ríkisins verði á fjárl. til að draga úr þessum mikla vanda.

Síðast en ekki síst er svo það, að enn liggur auðvitað ekki fyrir neitt samkomulag stjórnarflokkanna varðandi lánsfjáráætlun. Þær tölur, sem eru í frv. og snerta lánsfjáráætlun, eru í rauninni tölur sem ekki er samið um á neinn hátt á milli stjórnarflokkanna.

Þessi atriði öll verður að taka til endurskoðunar að mínum dómi. Þetta er það sem bíður eðlilega ákvörðunar, vegna þess að ekki hefur unnist tími til þess að ná samkomulagi á milli stjórnarflokkanna um þessi mál. (Gripið fram í.) Fjárlagafrv. er nú býsna þykk bók, svo að það getur sitt af hverju verið í henni. Það ætti hv. fjvn.-maður að þekkja.

Ég hef hér gert grein fyrir nokkrum allstórum atriðum í fjárlagafrv. sem við Alþb.-menn höfum fyrirvara um. En ég legg áherslu á það, að ég tel enga ástæðu til þess, að ekki geti tekist eðlilegt samkomulag á milli stjórnarflokkanna um sæmilega farsæla lausn varðandi þessi atriði öll. Til þess þarf bara nokkurn tíma. Að því er unnið nú og verður auðvitað unnið við afgreiðslu málsins í fjvn.

Ég vil segja það við hv. stjórnarandstöðu, að hún ætti að fara sér hægt í að hlakka eitthvað yfir því, að þetta fari allt úr böndunum. Til þess er enginn tími á þessu stigi mátsins, en við óttumst það ekki á neinn hátt að segja skýrt og skorinort frá því, hver afstaða okkar sé til mikilvægra atriða í frv. Við eigum eftir að semja um þessi atriði. Ég trúi því fyrir mitt leyti, að við munum ná eðlilegu samkomulagi um þessi mál. En ég vil gjarnan að við 1. umr. málsins komi skýrt fram, að við höfum fyrirvara af okkar hálfu varðandi þessi atriði og ýmis önnur. En það breytir að sjálfsögðu ekki því, — þar dugir enginn útúrsnúningur á neinn hátt, — að hér er um að ræða stjórnarfrv., fjárlagafrv. sem á að taka breytingum eins og mörg önnur fjárlagafrv. hafa þurft að taka, jafnvel þó að þeir, sem að þeim frv. hafa staðið, hafi ekki haft kjark í upphafi til að segja það, að þeir hefðu ýmislegt við frv. að athuga, en þurftu hins vegar að gera það síðar, á síðara stigi málsins. En við segjum það bara strax í upphafi.