15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

26. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram á hinu háa Alþ. frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands frá 17. júní 1944. Breyting sú, sem þetta frv. felur í sér, er, að aftan við 48. gr. stjórnarskrárinnar komi ný mgr., sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingismaður, sem ekki er jafnframt ráðherra, má ekki hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana, einkaatvinnufyrirtækja eða fyrir einstaklinga á meðan Alþingi stendur yfir utan laun fyrir alþingisstörf úr ríkissjóði.“

Hér á Alþ. hafa þegar farið fram á þessu þingi umr. um þrjú frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum. Nokkrir hv. þm. hafa látið þá skoðun eindregið í ljós við þær umr., að frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum séu gagnslítil vegna þess að ákveðið er að kjósa stjórnarskrárnefnd fljótlega, þó enn hafi ekki orðið af skipun nefndar sem eigi að endurskoða stjórnarskrána og koma fram með breytingar innan tveggja ára frá þeim tíma sem n. tekur til starfa. Ég styð það heils hugar, að komið verði á fót nýrri stjskrn. þrátt fyrir misjafna reynslu af starfi slíkra n. fyrr, en með þá von í huga, að tilvonandi n. verði virkari en sú síðasta. Eigi að síður tel ég að þingið megi ekki skjóta sér í skjól bak við tilvonandi stjskrn. meðan hún situr að störfum. Breytingar, sem fela í sér nýmæli af einhverju tagi í stjskr., fær þingið þá góðan tíma til að íhuga og ræða, og þess vegna ákvað ég að bera þetta mál upp sem frv. til breytinga á stjórnarskipunarlögum strax á fyrsta þingi eftir kosningar, gagnstætt því sem gjarnan hefur tíðkast áður, að stjórnarskrárfrv. séu fátíð í umr. á Alþ. nema rétt síðustu vikurnar á kosningaþingi.

Launamál alþm. hafa verið í brennidepli á undanförnum árum. Sýnist þar sitt hverjum, sumum finnast launin og hlunnindagreiðslurnar háar samanborið við ýmsar aðrar stéttir í landinu, en öðrum og þá kannske helst hv. þm. sjálfum, að launin séu lág, ef borið er saman við þann tilkostnað sem af starfinu hlýst. Ég held að um það geti verið samkomulag, að laun þm. eigi jafnan að vera góð til þess að efnahagslegt sjálfstæði þm. sé tryggt. Einnig tel ég að núverandi laun hv. þm. séu rúmlega mannsæmandi og ættu að tryggja efnalegt sjálfstæði hv. þm. Þótt kunnugt sé um hitt, að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu taki hærri laun og sumir miklu hærri en hv. þm., væri fremur ástæða fyrir Alþ. að hækka ekki laun hv. þm. til móts við launahæstu viðmiðunaraðila, heldur beita sér fyrir því, að dregið verði úr því hrikalega launabili, sem viðgengst í þessu landi.

Starfshættir Alþingis hafa þegar verið mikið til umr. á þessu þingi. Það frv., sem hér er til umr., má gjarnan flokka með þeim málum er fjalla um starfshætti þingsins. Frv. er flutt m.a. í þeim tilgangi að auka virkni þingsins í störfum sínum. Í grg. með frv. segir svo m.a. um þetta efni, með leyfi forseta:

„Það hefur tíðkast að margir þm. hafa haft með höndum önnur störf, sem þeir hafa þegið laun fyrir samhliða þingstörfum, bæði hjá opinberum stofnunum, einkaatvinnufyrirtækjum eða einstaklingum. E.t.v. var þetta ekki óeðlilegt áður fyrr, þegar laun fyrir þingstörf voru tiltölulega lág og beinlínis gert ráð fyrir að þm. hefðu önnur launuð störf á hendi. Þá voru þingstörf að einhverju leyti viðaminni en nú er, þannig að ekki kom að sök þótt þm. ynnu önnur störf. En með tilliti til þess, að stjórnkerfið verður æ flóknara, hafa þingstörf án efa aukist. Nú eru greidd a.m.k. rúmlega mannsæmandi laun til þm. fyrir þingstörf, þannig að ekki ætti að vera fyrir hendi fjárhagsleg þörf fyrir þá að sinna öðrum störfum, miðað við það sem áður var.

Ætla má að ein afleiðing þess, að margir þm. hafa oft verið uppteknir af öðrum störfum samhliða þingstörfum, sé sú, að dregið hefur úr afköstum Alþingis hin seinni ár miðað við nútímakröfur um virkni Alþingis. Telja verður að starf þm. sé fullt starf, enda virðist það mat ráða a.m.k. þegar laun fyrir þingstörf hafa verið ákveðin hin seinni ár.“

Ég tel að allir séu sammála um að virkni Alþ. þurfi að efla. Sjálfsögð réttlætismál, sem til kasta Alþ. koma, eru oft langan tíma að velkjast í meðförum þingsins án þess oft og tíðum að þau fái afgreiðslu. Samhliða þessu virðist sem Alþ. hafi tapað hluta af virðingu sinni um leið og vald embættismanna á kostnað þingsins hefur aukist. Þetta tel ég slæma þróun, sem verði að snúa við inn á rétta braut með því að efla vald þingsins og virkni þess. Þess vegna er þetta frv. m.a. flutt. Stjórnkerfið verður æ flóknara og þar með aukast þingstörf. Því tel ég ekki óeðlilegt að bundið verði í stjórnarskrá, að alþm., aðrir en ráðh., sinni ekki öðrum launuðum störfum á meðan þing stendur yfir. Ef þetta frv. yrði að lögum yrði að miklu leyti komið í veg fyrir að hv. þm. eyði dýrmætum starfskröftum sínum í önnur launuð störf en þingstörf, eins og gjarnan viðgengst nú, og hafi þar með betri tækifæri til að einbeita starfskröftum sínum innan þingsins.

Í skýrslu, sem dreift var nýlega á Alþ. um nefndaskipan á vegum ríkisins fyrir árið 1977, kemur í ljós, að 34 hv. þm. sem þá sátu á Alþ., höfðu setið í launuðum nefndum á vegum ríkisins það árið, í einni eða fleiri nefndum. Samkv. skýrslunni virðist mér að nokkrir hv. þm. hafi setið í allt að 7 launuðum n. af ýmsum toga spunnum. Í reglum um launamál hv. þm., er gegna einnig öðrum föstum opinberum störfum, segir á þá leið, að ef þm. gegni starfi samhliða þingstörfum á meðan þing stendur fái hann 3/5 fastra launa fyrir starfið á mánuði auk óskertra þingmannslauna, en þeir þm., sem stundi starfið aðeins þann tíma sem þing stendur ekki yfir, fái 3/10 af föstum launum og óskert þinglaun. Frv. það, sem hér er til umr., hefði það m.a. í för með sér, ef að lögum yrði, að fyrrnefndar reglur yrðu afnumdar. En frv. nær ekki einungis yfir hv. þm. í störfum hjá opinberum stofnunum, heldur nær það einnig yfir þá er hafa á hendi launuð störf hjá einkaatvinnufyrirtækjum á meðan þing stendur yfir.

9. gr. stjórnarskrárinnar fjallar um forseta Íslands og hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins má ekki vera alþm. né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkaatvinnufyrirtækja.

Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“

Í grg. með frv. segir svo um þetta efni, með leyfi forseta:

„Samkv. stjórnarskránni eru tveir aðilar kjörnir beinum kosningum. Er þar átt við forseta og alþm. Í 9. gr. stjórnarskrárinnar eru ákvæði er meina forseta að hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja. Með þessu ákvæði í stjórnarskránni þykir ástæða til að styrkja stöðu forsetans þannig að hann verði fjárhagslega sjálfstæður og óháður ytri skilyrðum, en gera hann hæfari til starfa án utanaðkomandi þrýstings. Telja verður að þessi sjónarmið eigi einnig við um þm. Hliðstæð hætta er fyrir hendi á utanaðkomandi áhrifum, en nauðsyn ber til þess að þm. séu efnahagslega sjálfstæðir þannig að þeir þurfi ekki að vera öðrum háðir um fjárhagslega afkomu sína. Til móts við þetta sjónarmið hefur verið komið, þó það hafi ekki dugað til þess að allir þm. hætti öðrum launuðum störfum á meðan Alþ. stendur yfir, þrátt fyrir að þingstörf hafi seinni ár verið fremur vel launuð heldur en hitt.

Ekki er að finna ákvæði í stjórnarskránni um það að þm. beri laun fyrir þingstörf sín. Á sama hátt og stjórnarskráin tryggir forseta fjárhagslegt sjálfstæði með ákvæðum í 9. gr. um greiðslur til hans af ríkisfé, er eðlilegt að samsvarandi ákvæði séu um þm. í stjórnarskránni.

Þegar rætt er um laun fyrir önnur störf en þingstörf er m.a. átt við föst laun fyrir auka- eða aðalstörf á vegum opinberra stofnana, einkaatvinnufyrirtækja eða einstaklinga, greiðslur frá sömu aðilum vegna nefndarstarfa eða stjórnunarstarfa, ráðgjöf og aðstoð.“

Þegar þessi mál hafa verið til umr. hefur jafnan verið bent á að nauðsynlegt sé að hv. þm. séu jafnan í sem nánustum tengslum við atvinnulífið og þessum rökum gjarnan beitt gegn ákvæðum frv. Ég tek heils hugar undir það sjónarmið, að efla verður tengsl hv. þm. og atvinnulífsins. Tel ég jafnvel koma til greina að Alþ. taki þau mál til nánari umr. og komi á einhverju skipulagi er tryggi slík tengsl. Þegar þing stendur ekki yfir gefst gott tækifæri til tengsla við atvinnulífið, og mættu þau tækifæri, sem til falla, nýtast betur til slíks en tíðkast hefur hingað til. Um þetta efni segir svo í grg. með frv., með leyfi forseta:

„Ef frv. þetta verður að lögum ná ákvæði þess eingöngu yfir þann tíma sem Alþ. stendur, þ.e. frá hausti fram á vor. Ekki þykir rétt að hefta þm. frá þátttöku í atvinnulífinu þegar þingstörf hamla ekki, heldur ætti þvert á móti að setja hvetjandi ákvæði í lög eða reglugerðir um að þm. efldu tengsl sín við fólkið með því að gerast virkir á vinnumarkaðnum á sumrin heldur en nú er. Kæmi vel til álita að draga úr launum þm. eða hætta launagreiðslum alveg á meðan Alþ. starfar ekki, þ.e. yfir sumarmánuðina. Þetta frv. gefur svigrúm til slíkrar skipunar, þó ekki sé ástæða til að binda slík ákvæði í stjórnarskrá.“

Þetta frv. er flutt til að efla virkni Alþingis og tryggja sjálfstæði hv. þm.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vitna í niðurlag grg. frv., með leyfi forseta:

„Þetta frv., ef að lögum verður, miðar að því að þm. geti ekki þegið önnur laun eða greiðslur fyrir störf en fyrir alþingisstörf úr ríkissjóði. Hér er um mikilvægt atriði að ræða vegna nýrra viðhorfa, nýrra krafna til þm. og síðast en ekki síst með skírskotun til siðferðilegra raka. Það viðgengst almennt ekki á vinnumarkaðnum að launþegar fái greidd góð laun fyrir störf sem hægt er að hlaupa úr í tíma og ótíma vegna annarra starfa, sem gefa jafnvel jafnmiklar tekjur og launin fyrir aðalstarfið. Við slík siðferðileg sjónarmið verður Alþingi m.a. að samræma starfshætti sína og starfsskipan.“

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til allshn. og 2. umr.