15.11.1978
Neðri deild: 16. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

67. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs þegar mælt var fyrir frv. því sem hér er til umr., sem er til l. um breyt. á lögum um byggingu og rekstur dagvistarheimila fyrir börn. Frv., sem hér er til umr., gerir ráð fyrir að ríkissjóður taki á ný þátt í rekstrarkostnaði dagvistarheimilanna, og er sú breyting veigamesta ákvörðun þess.

Eins og fram kemur í grg. með frv. voru fyrst sett lög um dagvistarstofnanir fyrir börn árið 1973. Þau lög voru að meginstefnu til í samræmi við það frv. sem hér er til umr. Hins vegar var í árslok 1976 gerð breyting á þeim lögum. Var hún gerð af fenginni nokkurri reynslu af lögunum, svo og var sú breyting einn þáttur í viðleitni Alþ. til þess að koma til móts við óskir sveitarstjórnarmanna um aukin verkefni sveitarfélaganna og gleggri skiptingu á fjármunalegri ábyrgð ríkis og sveitarfélaga, þó að sú breyting, sem þá var gerð, væri að vísu ekki nema hluti af því sem menn töldu þurfa að gera.

Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. 1. flm. þessa frv., ekki síst fyrir þá sök að þm. er einnig bæjarfulltrúi, en höfuðsjónarmið hv. þm. virðast vera allt önnur og ég má segja andstæð yfirlýstri stefnu sveitarstjórnarmanna um þetta málefni.

Hinn 26. febr. 1976 skipaði félmrh. 10 manna n. til þess að fjalla um-skiptingu verkefna og tekjustofna milli ríkisins og sveitarfélaganna. Í þeirri n. áttu sæti Hallgrímur Dalberg ráðuneytisstjóri, sem var formaður n., Bjarni Einarsson fyrrv. bæjarstjóri á Akureyri, Friðjón Þórðarson alþm., Gunnlaugur Finnsson alþm. og oddviti, Kristinn V. Jóhannsson, forseti bæjarstjórnar í Neskaupstað, Kristján J. Gunnarsson fræðslustjóri í Reykjavík, Ólafur G. Einarsson alþm. og varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Páll Líndal formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Steinþór Gestsson alþm. og fyrrv. oddviti og Ölver Karlsson oddviti. N. hefur sent frá sér fyrsta hluta álitsgerðar sinnar, þann þátt sem tekur til verkefnaskiptingar milli ríkisins og sveitarfélaganna. Og til þess nú að skýra afstöðu mína til þessa frv. í sem allra stystu máli vil ég leyfa mér að vitna til álits n. nokkrum orðum.

N. rifjar upp í álitsgerð sinni gang þessara mála frá setningu laganna 1973 sem kváðu á um að sveitarfélögin gætu notið styrks úr ríkissjóði sem næmi helmingi stofnkostnaðar slíkra stofnana og vegna rekstrarkostnaðar 20–30%. Hún rifjar enn fremur upp að með lögum frá 1975 er þátttaka ríkissjóðs í rekstri dagvistarheimila felld niður, en hlutfallsþátttaka ríkissjóðs í stofnkostnaði helst óbreytt frá fyrri lögum. N. telur að tilgangurinn með setningu laganna frá 1973 um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarstofnana hafi verið sá að örva sveitarfélög og aðra aðila til að auka starfsemi sína á þessu sviði. Þetta kemur heim við grg. frv. Og það er álit allra þeirra sem um þetta mál fjalla, að e.t.v. hafi lögin náð tilgangi sínum að þessu leyti, að þau hafi örvað sveitarfélögin til framkvæmda á þessum tíma. N. vekur einnig athygli á því, að fjárveitingar til dagvistarmála hafi verið mjög takmarkaðar. Því til skýringar vil ég geta þess, að árið 1977 voru veittar til stofnkostnaðar 107 millj. 739 þús. kr., eins og sést á ríkisreikningi fyrir það ár. Á fjárl. fyrir árið 1978 voru ætlaðar til þessara mála 180 millj. kr. og var það 75% hækkun frá árinu áður. Mér er það vel minnisstætt þegar var verið að ganga frá úthlutun þessa fjár á Alþ. og í fjvn. fyrir einu ári, að þessi upphæð var langt fyrir neðan það að geta svarað til þess áhuga sem var hjá sveitarfélögunum á að koma þessum heimilum upp. Til þessara hluta voru ekki veittar hærri fjárhæðir en þetta og við það varð að sitja, og vegna þess tel ég að hafi verið setið á áhuga sveitarfélaganna á að koma upp slíkum stofnunum.

Í fjárlagafrv. því, sem nú liggur fyrir þinginu, eru ætlaðar til þessara hluta 230 millj. kr. eða aðeins 28% hækkun frá því sem var á árinu 1978. Er sýnilegt hverjum manni, sem um þetta hugsar, hversu fjarri fer því, að þessi upphæð dugi til þeirra verkefna sem ætlast er til að sinna í þessum efnum og sveitarfélögin hafa vissulega áhuga á sjálf.

N. telur að þó svo þátttaka ríkisins í stofnkostnaði hafi e.t.v. örvað sveitarfélögin til framkvæmda, þá hafi hún jafnframt valdið sveitarfélögunum óvissu um framkvæmdahraða og væntanlega starfsrækslu. Í sem fæstum orðum sagt telur n. óeðlilegt að sveitarfélögin bindi fjármagn í framkvæmdum sem síðan dragast á tanginn vegna þess að framlög ríkisins eru ekki innt af hendi. Þetta viðhorf n. tel ég að sé veigamikið og menn ættu að festa sér vel í minni og hugleiða hvort aðrar leiðir séu ekki heppilegri í þessu efni heldur en þær, sem farnar eru. Þá telur n. staðla menntmrn. of einhliða og lítt til þess fallna að sveitarfélög eða áhugamannafélög leiti hagkvæmustu leiða í dagvistarmálum.

Í framhaldi af þessu vil ég — með leyfi hæstv. forseta — tilgreina það orðrétt sem n. hefur að segja:

„Lögin frá 1975 um niðurfellingu á þátttöku ríkisins í kostnaði við rekstur dagvistarstofnana eru vissulega spor í rétta átt og horfa til einföldunar á tengslum ríkis og sveitarfélaga. N. telur að ganga þurfi lengra á þessari braut og stefna skuli að því, að dagvistarmál verði alfarið mál sveitarfélaganna. Auk þess er rétt að benda á að fjármagnstilfærsla til þéttbýlissveitarfélaga vegna dagvistarmála jafnar ekki aðstöðu dreifbýlis og þéttbýlis. Sannanlega má benda á að góðir og greiðir möguleikar til gæslu á börnum skila sér í auknum tekjum einstaklinga og þar með skatttekjum ríkis og sveitarfélaga.

Tillögur nefndarinnar eru: 1) Að endurskoða þurfi gildandi lög og reglugerðir um dagvistarstofnanir og að því stefnt að lögin verði rammalöggjöf sem veiti sveitarfélögunum sem frjálsastar hendur til lausnar dagvistarmála. Sérstaka reglu þarf að setja um skóladagheimili vegna tengsla þeirra við grunnskólastarfið. 2) Að þátttaka ríkis í stofnkostnaði dagvistarstofnana verði felld niður, en kostnaðurinn greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi og þeim er þjónustuna vilja nota.“ Þetta er álit þeirrar n. sem ég gat um í upphafi máls míns.

Þetta álit og þessi till. er gerð af n. í heild, en Gunnlaugur Finnsson lét bóka þetta sérálit sitt:

„Ég tel ekki tímabært að hverfa frá hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði dagvistarstofnana miðað við brýn óunnin verkefni sem fyrir liggja.“

Eina sérálitið, sem kemur fram hjá nm. 10, er þetta frá Gunnlaugi Finnssyni, að hann telur ekki tímabært að hverfa frá hlutdeild ríkisins í stofnkostnaði. Hins vegar verður ekki annað séð og ég minnist ekki annars í umr. í n. en hann hafi verið sömu skoðunar og við hinir um það, að stefna bæri að því að þetta málefni yrði einvörðungu málefni sveitarfélaga, en ríkið ætti þar ekki hlut að.

Ég vil taka það fram að lokum, að ég tel þá skipan dagvistarmála, sem n. gerir till. um og ég hef hér kynnt, þjóna best þeim kröfum sem menn gera til úrlausnar í þeim málaflokki og vera líklegasta til að vera í bestu samræmi við þarfir fólks á hverjum stað, þar sem hér er um að ræða einstaklega staðbundin verkefni. Ég vil því strax við 1. umr. um frv. mæla gegn samþykkt þess, og ég túlka þar einnig skoðun flokksbræðra minna á Alþingi.