16.11.1978
Sameinað þing: 21. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (540)

25. mál, samstarf Norðurlanda á sviði sjónvarpsmála

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. upplýsti að í þessu máli hefði ekki verið mótuð nein sérstök stefna. Síðan fylgdi á eftir greinargóð skýrsla um það, hvernig þessi mál stæðu og hvernig þessi mál hefðu þróast allt frá árinu 1974. Samkv. þeirri skýrslu sýnist mér að unnið hafi verið samkv. sterkt mótaðri íslenskri þáttökustefnu um það að fylgjast með þessum rannsóknum og vera aðilar að því þangað til tími væri kominn til að taka málin til frekari ákvörðunar.

Síðan upplýsir hv. þm. Ingvar Gíslason það hér í umr., að þessi mál hafi ekki fyrr komið til kasta Alþingis. Ég get ekki orða bundist til að lýsa furðu minni á því, að það skuli hafa verið unnið að þessum málum innan Norðurlandaráðs og í hliðarstofnunum Norðurlandaráðs allt frá árinu 1974 án þess að hafi komið til kasta Alþ., þeirrar stofnunar á Íslandi sem á að taka endanlega afstöðu til þess, hvort af þessu samstarfi á að verða eða ekki af Íslands hálfu.

Hv. þm. Eiður Guðnason benti á að það þyrfti að kynna þetta mál frekar hér á landi og reyna að vekja upp umr. um það, til þess að íslensk þjóð verði betur undir það búin að taka afstöðu til málsins þegar þar að kemur. Ég held að það sé kominn tími til þess að kynna hv. þm. það öllu betur en skýrsla hæstv. menntmrh. fjallaði um, því að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, pólitíska menningarsamvinnu á sviði norrænnar samvinnu og stóraukna samvinnu á því sviði frá því sem nú er.

Ég vil benda á þessi atriði og einnig því samtengt, að eins og okkur er kunnugt er norræn samvinna viðkvæm, sérstaklega sú samvinna sem fer fram innan Norðurlandaráðs. Það eru ýmis mál sem ekki hafa enn komið til kasta Norðurlandaráðs, eins og varnar- og öryggismál. Þegar gengið verður út á þá braut að stofna til samnorræns sjónvarps, þá liggur ljóst fyrir að taka verður til endurskoðunar ýmsa þá starfshætti sem snerta Norðurlandaráð.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa orð mín fleiri, en ég taldi ástæðu til að benda á þessi atriði við þessa umr., en legg að lokum áherslu á að það hlýtur að vera Alþ. sem tekur lokaákvörðun í þessu máli. Og ég vil koma þeim vinsamlegu tilmælum til hæstv. menntmrh., að hann gefi þingheimi kost á því að fylgjast náið með þróun þessa máls á vettvangi Norðurlanda.