16.11.1978
Sameinað þing: 23. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

30. mál, kortabók Íslands

Flm. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Á þskj. 33 flytja fjórir þm. úr öllum þingflokkum till. til þál. um útgáfu kortabókar Íslands, og er skorað á ríkisstj. að hafa um það forgöngu.

Þessi þáltill. var flutt á síðasta þingi, en hlaut ekki afgreiðslu og er því endurflutt. Í grg. með till. segir svo: „Kortabók Íslands verður safn korta af Íslandi, þar sem margs konar fróðleikur um land og þjóð er settur fram á myndrænan hátt.

Þjóðlandaatlasar hafa verið gefnir út í velflestum Evrópulöndum, þ. á m. Norðurlöndum, en auk þess í mörgum löndum í öðrum heimsálfum. Fyrsta kortabók, sem út var gefin af þessu tagi, var Finnlandsatlas, sem gefinn var út árið 1899, en hefur verið gefinn út þrisvar sinnum síðan. Hefur slík útgáfa hvarvetna verið talin hin mesta nauðsyn, til að auka þekkingu á landsháttum.

Árið 1976 kom út kortabók yfir öll Norðurlönd („Norden í text och kartor“). Að undanskildum nokkrum þáttum náttúrufars eru nær engar upplýsingar um Ísland í kortabókinni. Oftast er einungis ein stærð eða tala yfir allt landið, þar sem upplýsingar eru birtar eftir umdæmum í hinum löndunum.

Kortabókinni er ætlað að vera upplýsinga- og heimildarrit í þágu stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, sem fást við margs konar áætlanagerð varðandi byggð, atvinnulíf og landnýtingu. Er þar átt við nýtingu lands til búskapar, ýmiss konar verklegra framkvæmda, samangangna, almenningsnota og náttúruverndar.

Kortabókin verður gagnlegt heimildarrit fyrir innlenda og erlenda fræðimenn sem stunda rannsóknir á ýmsum fræðisviðum. Enn fremur yrði bókin mikilvæg fyrir fjölmarga aðra, sem vilja kanna útbreiðslu ýmiss konar fyrirbæra til lands og sjávar og athuga samhengi þeirra á milli. Síðast en ekki síst er ótalið menningargildi og menntunargildi bókar af þessu tagi. Hún yrði notuð af kennurum og nemendum í framhaldsskólum og á háskólastigi og yrði handbók eða uppsláttarrit fyrir kennara og nemendur í efstu bekkjum á grunnskólastigi.

Til þess að ná þeim árangri, sem að framan er getið, er fyrirhugað að setja fram á kortum og á annan myndrænan hátt ýmis einkenni lands og þjóðar. Þ. á m. má nefna náttúrufar, sögu, atvinnulíf, félagsmál og menningarmál.“

Það hefur alllengi verið mikið áhugamál ýmissa aðila, að út verði gefin kortabók eða atlas fyrir Ísland. Má það furðu gegna, hversu mjög hefur dregist úr hömlu framkvæmd svo mikilvægs og hnýsilegs verks.

Á árinu 1977 áttu áhugaðilar fund með sér um málið. Voru þar mættir fulltrúar ýmissa stofnana, svo sem menntmrn. og samgrn., Seðlabanka, Framkvæmdastofnunar ríkisins, Hagstofu, Rannsóknastofnana atvinnuveganna, Háskóla Íslands, og ennfremur fulltrúar frá bændasamtökum og iðnrekendum. Á fundinum kom fram mikill áhugi allra fundarmanna á útgáfu kortabókar Íslands. Á fundi þessum voru rædd almenn atriði málsins, svo sem eintakafjöldi við útgáfu bókarinnar. Komst fundurinn að þeirri niðurstöðu, þótt hún sé eftir lauslega athugun og til bráðabirgða, að ef bókin yrði þannig úr garði gerð, að hún nýttist við átthaga- og landafræðikennslu á flestum skólastigum, væri ekki ástæða til annars en að ætla að þannig greiddist teiknunar- og prentunarkostnaður. Upplýsingasöfnun og úrvinnsla gagna verði hins vegar framkvæmd af einstökum ríkisstofnunum án endurgjalds. En auðvitað þarf að fjármagna verkið á framkvæmdatíma og taka áhættu af halla af útgáfunni. Þá er ekki fjarri lagi að ætla að Norræni menningarmálasjóðurinn hlaupi eitthvað undir bagga og styrki slíka útgáfu. Er þá haft í huga að hluti ritsins yrði unnin til þess að bæta hinn mjög svo slaka hluta Íslands í kortabók Norðurlanda.

Á fyrrnefndum fundi var kosin til bráðabirgða undirbúnings- og framkvæmdanefnd, sem hafa skyldi með höndum að athuga hvers konar efni væri æskilegt að birta í slíkri bók, afla nánari upplýsinga um útgáfukostnað, verktilhögun og annað sem að verkinu lýtur. Nefndin hefur starfað nær óslitið síðan og hefur verki hennar skilað mjög vel fram, bæði um áætlun verksins og gagna- og efnissöfnun. Í þessa nefnd völdust á sínum tíma fulltrúar frá Háskóla Íslands, Landmælingum, Seðlabanka og Framkvæmdastofnun ríkisins. Má af þessu marka að málið er komið á verulegan rekspöl.

Gera má ráð fyrir að ekki verði tök á að ráðast í útgáfu fyrr en að tveimur, þremur árum liðnum vegna undirbúningsvinnu, þótt fljótlega verði hafist handa af fullum krafti.

Ég vil svo að lokum geta um helstu efnisflokka í kortabók Íslands, en það eru aðeins frumdrög. Í fyrsta flokki yrði til að mynda náttúra landsins: landslag, jarðfræði Íslands, jarðeðlisfræðileg kort, jarðvegur og gróður, vatnafræðikort, veðurfar, hafið við Ísland. Í öðrum sagnfræðileg kort: stjórnmálasaga, hagsaga og menningarsaga. Í þriðja landsbúar: mannfjöldi og mannfjölgun, dreifing íbúanna, fólksflutningar, menntun. Í fjórða lagi hagfræðikort: atvinnulífið, fiskveiðar, landbúnaður, orka, námavinnsla, iðnaður, samgöngur, viðskipti. Í fimmta lagi stjórnarfar: umdæmaskipting af ýmsu tagi, alþingis- og sveitarstjórnarkosningar.

Ég vek athygli á þessu máli sérstaklega og ekki síst vegna þess, að nú höfum við tekið í þjónustu okkar hið mikla menningartæki sem sjónvarpið er. Þess vegna er slík kortagerð sem þessi ákaflega áhugaverð og upplýsandi og gæti orðið ungu fólki til sérstaks fróðleiks með þeim hætti.

Ég hef orðið þess var, að menn hafa skellt nokkuð skollaeyrum við tillöguflutningi sem þessum og sýnt honum lítinn áhuga. Það hefur viljað við brenna, að hv. alþm. hefur þótt nokkurt ábyrgðarleysi að víkja að einhverju öðru en vísitölu- og verðbólgumálum, grúfa sig yfir efnahagsgrautinn og hafa asklokið fyrir himin.

Ég vil nú biðja hv. alþm. sérstaklega um að veita þessu máli athygli og vera nú ekki með hangs yfir þessu mikla menningarmáli, að við fáum hrundið því í framkvæmd hið allra fyrsta, því ef menn athuga þetta og veita því athygli og umhugsun, þá sjá þeir að hér er brýnt hagsmunamál menningarlega séð á ferðinni.

Herra forseti. Ég legg til að umr. þessari verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.