20.11.1978
Efri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

63. mál, tollskrá

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Um þetta frv. þarf í raun og veru ekki að hafa mörg orð. Það er nauðsynlegt hins vegar að lýsa yfir stuðningi bæði við það, sem hér kemur fram sem aðalatriði þessa frv., og eins þá almennu hugvekju sem hv. 1. flm. flutti okkur um daginn varðandi vandamál fatlaðra í landinu í heild. Sjálfsögð umframaðstoð af því tagi, að þetta fólk nái nokkurn veginn jafnrétti eða jafnræði við aðra þjóðfélagsþegna, um annað er ekki beðið af því, er orðin sjálfsögð krafa í þjóðfélaginu almennt sem betur fer, og það er fyrst og fremst þetta fólk sjálft eða ákveðnir hópar þess sem hafa gert þessa kröfu að heildarkröfu í þjóðfélaginu svo mönnum er orðið ljóst, að ekki verður fram hjá gengið. Um það skal ég sem sagt ekki hafa frekari orð. Ég veit að á þessu máli er orðinn aukinn skilningur og skilningur einmitt í þá réttu átt, að hér sé aðeins um sjálfsagða jafnréttiskröfu þessa fólks að ræða til þess að njóta sams konar réttar og við hin njótum. En þar þarf auðvitað til að koma ýmislegt umfram af samfélagsins hálfu, ýmislegt til viðbótar, og einmitt að því atriði lýtur þetta frv.

Eins og frsm. rakti hér glögglega, 1. flm., er hér um að ræða fyrst og fremst að fjölga þeim bifreiðum sem árlega er lagt til að felld verði eða lækkuð gjöld af fyrir bæklað fólk eða lamað, fólk með lungnasjúkdóma og aðra hliðstæða sjúkdóma, sem allt er á svo háu stigi, að það á erfitt með að fara ferða sinna án farartækis. Til viðbótar því er hér lagt til, að raungildi verði fært til samræmis við það sem upphaflega var ætlast til með þessari tollskrárbreytingu á sinum tíma. Hér er raunar ekki um annað að ræða en færa það til raungildis miðað við daginn í dag og þó kannske tæplega. Hér er um lágmarksupphæð að ræða miðað við það sem t.d. Sjálfsbjörg og Öryrkjabandalagið hafa gefið upp. Hér er því ekki fram á mikið farið að því leyti til.

Eins og frsm. rakti, var fyrsta árið í raun og veru í hittiðfyrra þar sem skapaðist nokkurt vandræðaástand fyrir ýmsa þá sem þurftu nauðsynlega að endurnýja bifreiðar sínar, og var þó ekki fyrr en í fyrra sem kastaði tólfunum varðandi ýmsa þá, sem bæði höfðu náð ákveðnum aldri, og eins þá, sem þurftu nauðsynlega að fá endurnýjun bifreiða sinna. Þarna var sem sagt ekki um vafaatriði að ræða, hvort menn ættu þarna rétt eða ekki, hann hafði þegar verið viðurkenndur, þótti sjálfsagður. En hér var vinnuákvæðið látið ráða miklu. Það er út af fyrir sig alveg réttlætanlegt. Þar af leiddi, að ég hygg, að nær allir, sem um þessa eftirgjöf sóttu og voru komnir um sjötugt eða þar yfir eða jafnvel 67 ára, fengu synjun. Mér er nær að halda að þeir hafi allir fengið synjun. Sama gilti um alla þá sem áttu fullan rétt á endurnýjun og höfðu átt jafnvel síðustu tvö árin. Þeir munu, held ég, næstum allir alfarið hafa fengið neitun í fyrra.

Ég veit að þegar um þetta mál er rætt — og það skulum við ekki vera að draga neina dul á — kemur upp spurningin um misnotkun í þessum efnum. Vitanlega er brýnt að úthlutun af þessu tagi geti farið fram með sem eðlilegustum hætti þannig að misnotkun eigi sér ekki stað. Hér er auðvitað læknunum mikill vandi á höndum, því að það eru vottorð þeirra og umsagnir þeirra sem ráða því í raun og veru, hvaða afstaða er endanlega tekin af þeirri n. sem á að ráðstafa þessu. Það eru þeirra vottorð og þeirra umsagnir sem ráða mestu um það, hvort þessar umsóknir eru teknar gildar eða ekki, hvort menn telja þarna þörf eða ekki. Og auðvitað er það rétt, að menn vinna þetta verk sjálfsagt misjafnlega samviskusamlega eins og aðrar stéttir, og eins er það, að mörgum í þessum hópi þykir sem misnotkunarhættan sé svo mikil að þeir verði í raun og veru að fara mjög varlega. Um það þekki ég dæmi. Ég skil þá hugsun mætavel. Eins er það hjá ýmsum þeim sem eru að byrja í starfi, að þeim hættir mjög til þess að fara jafnvel svo varlega að þeir þori ekki að gefa vottorð um menn sem eru úrskurðaðir, þegar er þeir koma á fund tryggingayfirlæknis hér í Reykjavík — sem örkumla menn, hafa meira að segja ekki þorað að gefa umsagnir um þá. Og allt stafar þetta af því, að þarna eru menn með vissa varfærni gagnvart þessari svokölluðu misnotkun.

Auðvitað býður allt okkar tryggingarkerfi og allar slíkar heimildir upp á vissa misnotkun, og þá er ekkert annað að gera í því efni en reyna að koma sem mest í veg fyrir að slíkt sé misnotað, að þeir, sem fremsta rétt eigi, nái rétti sínum og njóti þeirra hlunninda sem til er ætlast, en aðrir, sem ekki er eins verðugir, annaðhvort bíði eða jafnvel, ef réttur þeirra er ekki meiri en það, fái neitun. En ég veit það hins vegar núna, af því að ég hef kynnst þessu máli nokkuð og talað um það við þá aðila sem hafa verið í þessari úthlutunarnefnd, að þeir telja óhjákvæmilegt að fjölga bifreiðunum til þess að sinna því nauðsynlegasta og þá alveg sérstaklega að hækka þá upphæð sem hingað til hefur gilt varðandi þessi dýru tæki. Þeir segja að eftir síðasta ár, úthlutun þess og þær miklu neitanir sem þeir urðu þá að gefa út, stefni þetta í algert óefni, eins og hv. 1. flm. kom hér inn á.

Ég legg áherslu á það, að þessi breyting nái fram að ganga fyrir næstu úthlutun. Ég hef ekkert á móti því að hér verði þannig að staðið, — og ég veit að þetta fólk hefur síst á móti því, það fólk sem á þarf að halda, — að um þetta verði settar e.t.v. enn strangari reglur og enn betra eftirlit, því að þessu fólki er sannarlega ekki gerður greiði með því, að hægt sé að benda á viss himinhrópandi dæmi um misnotkun af þessu tagi. En ég legg áherslu á það vegna þess ástands, sem skapast hefur og er nú þegar fyrirsjáanlegt með þeim nýju umsóknum sem eru að streyma að til þessarar n., að þessi breyting nái fram að ganga sem allra fyrst og þannig, að í vetur, en 1. febr. á að vera búið að skila umsóknum, verði hægt að miða við þá eftirgjöf sem hér er farið fram á.

Um önnur atriði mun ég ekki fjalla hér. Við hv. þm. Stefán Jónsson höfum flutt frv. hér varðandi talstöðvar og inn á það mál er komið nokkuð hér. Ég hygg að hv.

þm. Stefán Jónsson muni gera nánari grein fyrir því á eftir, að hvaða leyti þetta frv.-ákvæði fer saman við okkar frv. En sem sagt, ég legg áherslu á að þetta nái fram að ganga sem fyrst. Ég veit um réttmæti þess. En ég tek líka fram, að ef menn óttast að hér sé um mikla misnotkun að ræða, þá verði um leið hert eftirlit með því, að óverðugir njóti ekki, heldur séu það þeir, sem hafa fulla þörf fyrir það, sem nái bæði nauðsynlegri endurnýjun og geti keypt sér þessar bifreiðar með eðlilegum hætti. Það er hárrétt sem hv. flm, sagði, að mikill fjöldi þessa fólks er ekki þannig statt í launum í okkar þjóðfélagi í dag, að það hafi á þessu möguleika með öðrum hætti. Ella verði komið á einhverri annarri skipan, sem er fyllilega hugsanlegt. Það þyrftu menn þá að athuga við endurskoðun almannatryggingakerfisins. Fullkomlega athugandi er að hafa aðra skipan hér á, sem kæmi þá þessu fólki eins vel til góða og sú skipan sem hér er lagt til að gildi.