20.11.1978
Neðri deild: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

10. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Eins og síðasti ræðumaður gat um er að vísu orðið alllangt síðan þetta frv. kom fyrst til umr. í hv. d., en aðalatriði frv. er það og það eitt, hvort þingnefndir eða meiri hluti þingnefnda á að hafa til þess frumkvæðisrétt að taka tiltekin framkvæmdaatriði laga til meðferðar. Úr því að verið er að leggja til að lögunum sé breytt í þessa veru, þá er auðvitað eðlilegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir því, hver á að vera tilgangurinn með slíkum breytingum. Og tilgangurinn getur aðeins verið einn, þ.e. sá, að þingnefndir, sem hafa frá upphafi þings gróft markað verksvið, finni út eða kanni hvort breyta þurfi lögum, — hinn raunverulegi tilgangur slíkra starfa, hvort sem við köllum þau eftirlitsstörf, aðhaldsstörf eða rannsóknarstörf, lokaútkoma verði í þá veru, hvort ástæða sé til að breyta tilteknum lögum eða ekki. Þá er eðlilegt að spurt sé, hvort ekki sé alveg nóg að slíkt leyfi kæmi frá d., þá aðhafist n., en ef ekki, þá aðhafist n. ekki? Ég hygg þó að þingreynsla undanfarinna ára segi okkur að það kerfi eða sú aðferð, að d. ein geti heimilað slíkt, sé of þungt í vöfum. Mér þykir að í allri umræðu og allri umfjöllum um þetta mál hafi menn um of staldrað við það, að þau mál, sem þingnefndir kynnu að taka fyrir, hafi nær eingöngu auglýsinga- eða skrumgildi. Ég hygg þó, að ef þetta, sem við leggjum til, yrði snar og fastur þáttur í starfsháttum Alþingis, þá mundi fljótlega það orðspor fara af, að þingnefndir, eins og þær auðvitað gera nú þegar, færu að kanna og kanna reglulega t.d. hina ýmsu fjármálaþætti ríkisrekstrarins, hvort of miklu sé eytt hér og þar, þetta yrði fastur þáttur í þingstörfum. Eins er hitt, að þau mál, sem hefðu auglýsingagildi, yrðu varla miklu oftar tekin fyrir en t.d. í umr. utan dagskrár á hv. Alþingi. M.ö.o. held ég að óttinn við hávaðann, óttinn við pólitíska misnotkun sé ástæðulaus.

Ég vil ítreka það, sem var sagt í framsögu fyrir þessu frv., að við verðum að gera greinarmun annars vegar á rannsóknarstörfum slíkra nefnda og hins vegar eftirlitsog aðhaldsstörfum. Ég get fallist á það með mörgum, sem um þetta hafa fjallað, bæði innan þings og utan, að orðið „rannsókn“ í munni þingnefndar sé slæmt. Það er hlutdrægt. Það gefur í skyn að eitthvað sé að á því verksviði sem taka á fyrir hverju sinni. Æskilegra væri ef annað orð en „rannsókn“ festist við þau störf sem hér er verið að leggja til að þingnefndir taki fyrir.

Ég vil endurtaka að kjarni þessa máls er, og þetta mál snýst eingöngu um það, hvort þingnefndir eigi að hafa frumkvæðisrétt án þess að samþykkt eða synjun deildar komi til. Það er rétt, sem síðasti ræðumaður, hv. 9. þm. Reykv., gat um, að í allshn. Nd. hefur farið fram athugun á því, hvort þingnefndir hafi rétt til þess, án þess að frumkvæði d. komi til, að taka fyrir tiltekið mál, sem fjallar um samskipti einstaklings og kerfisins, þar sem einstaklingurinn telur að á sér hafi verið brotinn réttur. Þetta er mál sem snýst um miklar peningaupphæðir, án þess að um það sé rétt að fjalla frekar á þessu stigi málsins. Í allshn. höfum við kallað til allnokkra einstaklinga, sem gera má ráð fyrir að sérþekkingu hafi á þessu sviði. Það er óhætt að segja að um það eru nokkuð skiptar skoðanir, hvort þingnefndir hafi ekki þegar þennan rétt. Þetta frv., sem hér er til umr., gengur hins vegar út á það, að ótvírætt verði að slíkur frumkvæðisréttur sé hjá þingnefnd, svo fremi sem meiri hluti hennar telji ástæðu til að taka þetta tiltekna mál fyrir.

Einn annan þátt þessa frv. tel ég að sé rétt að fara hér enn um örfáum orðum. Það er gert ráð fyrir því í frv. að þau störf þingnefnda, sem hér er fjallað um, fari fram fyrir opnum tjöldum, nema meiri hluti n. beinlínis ákveði annað. M.ö.o.: reglan er sú, að öllum almenningi, eða þeim hluta almennings sem áhuga hefur á því að fylgjast með tilteknu máli, sé heimilt að gera svo. Þetta hygg ég að yrði mjög spor í þá átt að opna stjórnsýsluna, opna stjórnkerfið allt, ef að lögum yrði. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum, að bæði hér á landi og víða erlendis, í löndum sem við teljum okkur skyld, hefur það þótt horfa til framfara undanfarin ár að stjórnkerfið væri meira opnað en verið hefur. Þetta ákvæði þessa frv. til l. gengur einmitt út á það.

Ég geri ráð fyrir því, að þessu máli verði vísað til allshn. Þar hefur, eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, þegar farið fram allnokkur umræða um mál af þessu tagi. Ég hygg því að n. sé nokkuð vel í stakk búin að fjalla fljótlega og skjótlega um þetta lagafrv.