22.11.1978
Efri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

49. mál, félagsmálaskóli alþýðu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls sérstaklega um félagsmálaskóla alþýðu. En það var ýmislegt sem kom fram, sérstaklega í máli hv. 3. landsk. þm., sem fékk mig til að standa hér upp og segja nokkur orð um frv., sem hér liggur fyrir, og um þann málflutning sem hafður er í frammi hér á hinu háa Alþ. af sumum mönnum þegar málefni verkalýðshreyfingarinnar ber á góma.

Nú er það svo um mig, að ég þarf ekki að taka það sérstaklega fram, að ég beri hag launafólks fyrir brjósti. Ég hef tekið virkan þátt í starfsemi launþegahreyfingarinnar og þarf ekki, eins og hv. 3. landsk. þm., að taka mér þau orð í munn í annarri hverri setningu, að hagsmunir þessa fólks standi mér nærri hjarta, enda held ég að mér sé óhætt að segja að ég hef aldrei reynt að lyfta sjálfum mér á því að nota mér baráttu þessa fólks fyrir betri hag og bættum lífskjörum hér í landinu.

Ég held að það sé nauðsynlegt að rifja það upp í þessu sambandi, að þessi hv, þm. skrifaði um það mikla grein í Þjóðviljann á síðasta ári, með hvaða hætti Alþb. gæti misnotað þessi samtök sér til pólitísks framdráttar. Hann talaði um það í því sambandi, að það væri rétt fyrir Alþb. að leggja hart að sínum verkalýðsleiðtogum að beita verkalýðshreyfingunni gegn ákvörðunum Alþingis, stofna til „alþingis götunnar“, eins og hann sjálfur sagði. Það er ástæða til að rifja það einnig upp, að hæstv. viðskrh. hafði það að fyrirsögn í einni af forustugreinum í Þjóðviljanum með hvaða hætti rétt þætti að óvirða þessa æðstu stofnun íslensku þjóðarinnar. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem orðalag og umræður af þessu tagi koma upp hér á landi og ævinlega að undirlagi þeirra manna sem mest og best hafa misnotað verkalýðshreyfinguna sjálfum sér til pólitísks framdráttar, fyrst Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn og nú síðast Alþb.

Ég verð að segja það eins og er, að það hljómar pínulítið undarlega að sú ríkisstj., sem nú situr, eigi að vera einhver sérstök ríkisstj. hinna vinnandi stétta í landinu. Það er ekki einn einasti maður, sem í henni situr, sem hefur, svo að kunnugt sé a.m.k., gegnt trúnaðarstöðum hjá verkalýðshreyfingunni né komist þar á blað, svo að ég sé ekki hvað hún kemur nærri þeim samtökum. (StJ: Talar þm. um leiklistarfrv. núna?) Ég tók svo eftir, hæstv. forseti, að því máli hefði verið frestað. (Forseti: Til umræðu er 1. mál á dagskrá, félagsmálaskóli.) Ég sé, að hv. 4. þm. Norðurl. e. fylgist ekki vel með því sem fram fer hér í þingsölum. Hins vegar kemur þetta illa við þennan hv. þm., og við skulum þá rifja upp hvernig á því stendur, að þessum hv. þm. er sérstaklega í nöp við það að orðaskipti verði milli mín og Alþb. og hv. þingmanna þess út af verkalýðsmálum, út af launamálum og út af því sem borið hefur á góma í því sambandi.

Ég vil þá rifja það upp, að við áttum í kosningaslag á s.l. vori, þar sem hv. 4. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, lýsti yfir að hann gerði það að algeru skilyrði fyrir því, að hann styddi ríkisstj., að hún kæmi samningunum í gildi. Þetta hefur þessi hv. þm. ekki staðið við, heldur þverbrotið öll fyrirheit sín til kjósenda í því efni, og það sem meira er, mér er ekki kunnugt um að starfsfólk Akureyrarbæjar, sem bann lofaði sérstaklega nokkrum dögum fyrir kosningar að Alþb. mundi sjá um að fengi launahækkanir í samræmi við gildandi samninga, hafi fengið þær. Ég held því að allt það, sem þessi hv. þm. hefur að segja um verkalýðshreyfinguna og afskipti sín af henni sé fyrst og fremst saga um blekkingavef og ósannindi. (StJ: Þm. stendur í stólnum og segir ósatt.) Ég legg það undir dóm hv. þdm., hvort þeir trúa mér eða þér þegar um er að ræða að annar hvor segir satt.

Ég vil vekja athygli á því, að hv. 3. landsk. þm. talaði hvað eftir annað um það í ræðu sinni, að félagsmálaskóli alþýðu ætti að hafa stéttarlegt, fræðslulegt og faglegt uppeldi meðlima sinna. Síðar talaði hann um hið beina, stéttarlega og baráttulega uppeldi. Það er stundum pínulítið erfitt að átta sig á því, hvað menn eiga við. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að við séum að setja á fót fræðslustofnanir til þess að móta skoðanir þeirra sem í þessa skóla fara. Við viljum að menn afli sér sjálfir þekkingar með frjálsum hætti, þeir fái að kynnast málunum frá báðum hliðum, en þeir séu ekki mataðir á upplýsingum. Einmitt sú tortryggni, sem fram hefur komið frá mörgum mönnum í sambandi við þetta mál, stafar af því, að það er beinlínis fullyrt að ýmsum mönnum, eins og nú síðast af hv. 3. landsk. þm., að þessum skóla hafi verið misbeitt af Alþýðusambandinu og hann hafi ekki gegnt því hlutverki sem honum er ætlað, að vera almenn fræðslustofnun fyrir alþýðu, þegar hann talar um að hlutverk skólans sé að vera baráttutæki fyrir breyttu þjóðfélagi. Öll vitum við hvað breytt þjóðfélag þýðir í munni þessa hv. þm. Við höfum séð ótal yfirlýsingar hans um það, hvernig kamelljónið hefði breyst og orðið rautt, sem það var ekki einu sinni, og vitum hvað hann á sérstaklega við í þessu sambandi.

Annars get ég ekki séð hvernig Alþ. getur sett á stofn skóla sem hafi það að sínu öðru meginmarkmiði að veita fræðslu um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið, án þess að atvinnurekendur, þeir sem í þessum hagsmunasamtökum eru, hafi eitthvað um það að segja, hvernig þessi fræðsla sé, í hvaða formi hún sé, hvernig hún sé matreidd. Ég get ekki skilið að það sé neitt hættulegt við það, að atvinnurekendur hafi eitthvað um það að segja, ef ríkisskóli er stofnaður, með hvaða hætti þeirra eigin hagsmunasamtök, stefna þeirra og starfsemi sé túlkuð í þeim skóla. Ég hélt að við í þessu litla þjóðfélagi — við erum ekki svo margir hér — ættum að hafa það mikinn skilning og það mikinn trúnað hver gagnvart öðrum, að okkur ætti að vera vorkunnarlaust að vinna saman að svo almennum markmiðum sem hér eru, og ætti að búa svo um hnútana að ekki komi upp ástæðulaus tortryggni um að hér sé verið að fara eitthvað rangt að.

Ég persónulega efast ekki um að hv. 5. þm. Reykn. hafi heilbrigð og eðlileg viðhorf þegar hann flytur þetta frv. Ég sat ekki á þingi þegar hann flutti sína ræðu, en ég efast ekki um að það gekk honum ekki til að vera að fara í einhvern feluleik, að vera að komast hjá því að eðlilega verði staðið að þessari félagsstofnun. Það hvarflar ekki að mér, að nokkuð slíkt hafi vakað fyrir 1. flm. þessa frv. né heldur öðrum þeim, sem að þessari frv.-gerð stóðu. (Gripið fram í: Hvað á hv. þm. við með því að standa eðlilega að?) Ég á við það, þegar staðið er eðlilega að þessum skóla, að ef ríkið ætlar að setja á stofn sérstaka fræðslustofnun skiptir ekki máli hvert nafn hennar er. Markmiðið með þessum skóla á að vera í fyrsta lagi fræðsla um sögu, starf og stjórn stéttarfélaga, barátta fyrir bættum lífskjörum alþýðustétta. Þetta hefur verið talið ástæða til þess, að tveir stjórnarmenn af þrem skuli skipaðir einn af Alþýðusambandinu og annar af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu. Síðan er sagt með sama hætti að fræða eigi um hagsmunasamtök atvinnurekenda, starfshætti þeirra og markmið. Það hlýtur að verða eðlilegt. Fyrst talað er um þennan tvíþætta tilgang skólans á hið háa Alþ. ekki að gera þarna upp á milli, heldur veita þessum aðilum báðum sama rétt. Ég vil að þetta komi fram hér alveg umbúðalaust, um leið og ég segi það, að ég er ekki þeirrar skoðunar, að það markmið að bæta lífskjörin í landinu til frambúðar náist eins vel og eins fljótt ef við reynum að halda þannig á málum að fulltrúar ríkisvalds, atvinnurekenda og stéttarfélaga séu í eilífum hnippingum eða stríði hver gegn öðrum. Ég hef ekki þessa trú, enda er ég ekki í hópi þeirra manna, sem beita sér fyrir breyttu þjóðfélagi. Ég er ekki einn þeirra manna, sem trúa á „alþingi götunnar“, heldur þvert á móti er ég einn þeirra manna sem vilja styrkja það lýðræði, sem hér er í landinu, og reyna að vinna að því að okkur takist að sigrast á vandamálum okkar í sameiningu með góðum huga og í einlægni.

Það er eftirtektarvert í þessu sambandi einnig, að hv. 3. landsk. þm. gerði langt mál úr því að það gæti ónýtt félagsmálaskóla alþýðu, ef hann yrði gerður að ríkisskóla, þrátt fyrir það að tveir menn af þrem í stjórn skólans yrðu frá launþegasamtökunum. Í þessu felst geysileg vantrú á hæfni fulltrúa Alþýðusambandsins til að gegna skyldum sínum og trú á því, að þeir víki frá sínum málstað, sem ég álít að sé algerlega óverðugt og óverðskuldað og ég get ekki fallist á og get ekki skilið hvernig þessi hv. þm. alveg að ástæðulausu og röklaust getur borið fram fyrir hið háa Alþingi. Kennir þar e.t.v. ókunnugleika hans innan þessara samtaka og að hann gerir sér ekki grein fyrir hvernig þau vinna.

Ég vil vekja athygli á því, að þegar þetta mál kom upp á sínum tíma og var flutt af Birni Jónssyni, sem þá var félmrh., 1973, vakti ég athygli á því, að ekki væri gert ráð fyrir að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ætti aðild að þessum skóla. Ég hef ekki átt viðræður við stjórnarmenn þar nú, en á þeim tíma var áhugi á því að koma inn í þessa stofnun ef henni yrði breytt í ríkisskóla. Ég vænti þess, að sú þd., sem þetta mál tekur til meðferðar, gefi því sérstakan gaum.

Ég vil einnig gera þá aths., að ég tel ekki rétt að Alþýðusamband Íslands og Menningar- og fræðslusamband alþýðu hafi þarna sameiginlega tilnefningu, heldur tel ég rétt að Alþýðusamband Íslands eitt skipi tvo skólanefndarmenn og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu sé þar sleppt. Ástæðan fyrir þessu er sú, að hætt er við því, að ef þessi háttur verður á hafður, að hvor þessara aðila um sig ráði tilnefningu eins nm. Ég tel heppilegra að stjórn Alþýðusambandsins skipi báða mennina. Ef upp kæmi ágreiningur um menn mun minni hl. þar hafa meiri rétt en ella. Þetta er í samræmi við þær skoðanir mínar, að ég tel að réttur minni hl. í stéttarfélögum sé ekki tryggður sem skyldi. Minni hl. hefur ekki aðstöðu til að fylgjast með því sem gerist, hvernig fjármununum er ráðstafað og þar fram eftir götunum. Það hefur margt vafasamt komið fyrir í sögu verkalýðshreyfingarinnar að þessu leyti, og ég tel eðlilegt að gefa því gaum, að minni hl. sé veittur meiri réttur í slíkum samtökum en verið hefur um hríð.

Það var eitt sem kom upp í huga núna í sambandi við Félagsmálaskóla alþýðu undir ræðu hv. 3. landsk. þm., og það var hvaða námsefni og hvaða námstilhögun sé í Félagsmálaskóla alþýðu. Ég held að það hljóti að vera óhjákvæmilegt eftir þau ummæli, sem hv. 3. landsk. þm. hafði hér áðan, að þingdeildarnefnd — ætli það sé ekki félmn. — fái gögn um það, hvað sé kennt í Félagsmálaskóla alþýðu, fái þær námsbækur, sem þar eru kenndar, og það námsefni, sem þar er kennt, þannig að þm. gefist kostur á því að kynna sér þetta mál ofan í kjölinn, ekki síst eftir að fram er komin, að vísu í orði, ekki formlega tillaga, en tilmæli um að þessum skóla ásamt Menningar- og fræðslusambandi alþýðu verði afhentar 100 millj. kr. Það er ekki lítið fé og ekki lítið atriði að því verði vel varið. Þótt milljónirnar yrðu ekki nema 15, eins og mig minnir að annar hv. þm. hafi talað um, þá held ég að það yrði afskaplega fróðlegt fyrir þm. að fá þessi gögn í hendurnar, hvað sé kennt í Félagsmálaskóla alþýðu, fá þau erindi og fá þær námsbækur sem þar eru á dagskrá.

Það má tala langt mál almennt um starf verkalýðshreyfingarinnar og þá fræðslustarfsemi og þá málefnalegu umr. sem þar á sér stað. Ég held að þeir, sem þar eru kunnugir, geti verið mér sammála um að oft skortir mikið á að mál séu þannig lögð fyrir í hinum einstöku stéttarfélögum, að menn geti mótað sér s álfstæðar skoðanir um hvað raunverulega sé á ferðinni. Ég held að það sé afskaplega algengt, að umr. innan stéttarfélaganna séu mjög einhliða og þess ekki gætt sem skyldi að skýra frá mismunandi viðhorfum þó upp komi. Það er líka staðreynd, að úti um land hafa menn ekki haft sömu tök á því og þeir, sem hér búa, að taka þátt í félagsmálaskólanáminu. Menn eiga erfitt með að sækja skólann og komast illa um langan veg til þess að stunda þar nám. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að almennt fræðslustarf innan stéttarfélaganna er geysilega þýðingarmikið, mjög nauðsynlegt, ekki síst á hinum smærri stöðum, því að eins og þeir vita, sem kunnugir eru þeim málum, hefur oft komið fyrir að erfitt er að fá menn til þess að taka að sér trúnaðarstörf í stéttarfélögunum. Þrátt fyrir það að ýmis landsamtök Alþýðusambands Íslands og fleiri aðilar hafi lagt mikla vinnu í það að örva menn til almennrar þátttöku í stéttarfélögunum hefur það ekki tekist nógu vel. Fundir, jafnvel um hin þýðingarmestu mál, eru oft og raunar oftast fámennir og áhugi á kjarabaráttunni misjafn. Því er ekki að neita, að verulegan þátt í þessu áhugaleysi hins almenna launþega fyrir virku starfi í stéttarfélögunum á sú pólitíska misbeiting sem þar hefur vissulega átt sér stað og einkanlega nú á öndverðu þessu ári.